Þrátt fyrir samkomubann standa akstursgreiðslur til þingmanna nánast í stað
Ásmundur Friðriksson er áfram sem áður sá þingmaður sem kostar skattgreiðendur mest vegna aksturs. Alls hafa fimm þingmenn rukkað Alþingi um yfir eina milljón króna í endurgreiðslur vegna aksturs á fyrstu sjö mánuðum ársins.
Starfsáætlun Alþingis var tekin úr sambandi frá 19. mars og fram í byrjun maímánaðar. Afleiðingarnar urðu þær öllum málum sem voru ekki sérstaklega skilgreind sem COVID-19 mál var frestað, þingfundardagar voru að hámarki tveir í viku, viðvera þingmanna var aðlöguð í samræmi við samkomubann og tveggja metra nálægðarregluna. Auk þess fóru allir nefndarfundir á þessum tíma fram í gegnum fjarfundabúnað með þeim skilyrðum að ekki yrðu fleiri að jafnaði en tveir fundir í gangi á sama tíma.
Þrátt fyrir að þingstörfin hafi verið takmörkuð með þessum hætti, og að íslenskt samfélag hafi meira og minna verið án samneytis við aðra en nánustu fjölskyldu svo vikum skipti í vor þá var aksturskostnaður þingmanna á fyrstu sjö mánuðum ársins 2020 nánast sá sami og á sama tíma og í fyrra.
Þetta má lesa út úr nýbirtum tölum um greiðslur til þingmanna frá byrjun árs og út júlímánuð.
Á móti kemur að þingstörfin teygðust vegna aðstæðna um nokkrar vikur og lauk ekki fyrr en seint í júní.
Fjögur prósent minni kostnaður en í fyrra
Í fyrra fengu þingmenn samtals 2,4 milljónir króna greiddar á því tímabili vegna notkunar á eigin bílum, 11,1 milljón króna fyrir notkun á bílaleigubílum og 1,8 milljónir króna vegna eldsneytiskostnaðar, greiðslna vegna notkunar á jarðgöngum og töku leigubíla. Samtals var kostnaður við akstur þingmanna þá 15,3 milljónir króna. Hann jókst þegar leið á árið og varð á endanum 31,1 milljón króna allt árið 2019.
Á fyrstu sjö mánuðum yfirstandandi árs hafa þingmenn fengið 2,9 milljónir króna endurgreiddar vegna notkunar á eigin bílum, 10,3 milljónir króna vegna kostnaðar við leigu á bílaleigubílum og 1,5 milljónir króna vegna eldsneytiskostnaðar, greiðslna vegna notkunar á jarðgöngum og töku leigubíla.
Samtals var kostnaður vegna aksturs þingmanna frá byrjun árs og til loka júlímánaðar því 14,7 milljónir króna, eða um fjögur prósent minni en á sama tímabili í fyrra.
Ásmundur áfram dýrastur
Aksturgreiðslurnar koma til viðbótar við hefðbundnar launagreiðslur og ýmsar aðrar kostnaðargreiðslur, en venjulegur þingmaður fær 1,170 þúsund krónur í laun á mánuði. Auk þess getur þingmaður sem gegnir formennsku eða varaformennsku í fengið álag ofan á þingfarakaupið.
Í tilfelli formanns nemur það um 175 þúsund krónum á mánuði. Þá fá landsbyggðarþingmenn húsnæðis- og dvalarkostnaðargreiðslu, álag á húsnæðis- og dvalarkostnaðargreiðslu, fastan greiddan ferðakostnað í kjördæmi og fastan starfskostnað.
Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, er að venju sá þingmaður sem kostar mest vegna aksturs. Samtals hefur Ásmundur keyrt fyrir tæplega 1,3 milljón króna það sem af er ári. Sá kostnaður er annars vegar vegna bílaleigubíla og hins vegar vegna eldsneytis.
Ásmundur keyrði líka allra þingmanna mest í fyrra, eða fyrir alls 3,8 milljónir króna. Það þýðir að Ásmundur keyrði fyrir rúmlega 320 þúsund krónur að meðaltali á mánuði í fyrra. Þorri þess kostnaðar féll til á síðustu fimm mánuðum ársins en frá byrjun árs 2019 og út júlí keyrði hann fyrir 1,4 milljón króna, eða mjög sambærilega upphæð og á sama tímabili í ár.
Þegar kostnaður vegna akstursgreiðslna til þingmanna voru opinberaðar í byrjun árs 2018 kom í ljós að Ásmundur hafði keyrt alls 47.644 kílómetra á árinu 2017 og fengið rúmlega 4,6 milljónir króna endurgreitt vegna þessa. Frá 2013 og út árið 2017 námu endurgreiðslur til Ásmundar alls 23,5 milljónum króna vegna notkunar hans á eigin bifreið.
Síðustu ár hefur því kostnaður almennings vegna aksturs Ásmundar, sem býr á Suðurnesjum, dregist saman samhliða því að hann hefur notað bílaleigubíla í stað þess að fá endurgreitt fyrir notkun á eigin bifreið.
Fjórir aðrir yfir milljón
Fjórir aðrir þingmenn hafa keyrt fyrir meira en milljón krónur það sem af er ári. Næstur á eftir Ásmundi í kostnaði kemur Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi. Hann hefur keyrt fyrir 1.194 þúsund krónur á tímabilinu og er um að ræða kostnað við leigu á bílaleigubílum og eldsneytiskostnað.
Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, kemur næstur með kostnað upp á 1.071 þúsund krónur. Vilhjálmur sker sig úr í hópi þeirra sem keyra mest þar sem hann kýs, þrátt fyrir að skrifstofa Alþingis hafi árum saman beint þeim tilmælum til þingmanna að taka frekar bílaleigubíla en að nota eigin bifreiðar, að keyra eigin bíl og rukka svo fyrir þann kostnað sem af hlýst. Þetta er breyting á aksturshátterni Vilhjálms, en í fyrra var 35 prósent af endurgreiddum aksturskostnaði hans vegna notkunar á eigin bifreið. Nú er hins vegar öll upphæðin sem hann hefur fengið endurgreidda vegna þessa.
Guðjón S. Brjánsson, þingmaður Samfylkingarinnar, er með aksturskostnað upp á 1.039 þúsund krónur á fyrstu sjö mánuðum ársins og er hann allur til kominn vegna bílaleigubíla og eldsneytiskostnaðar. Sigurður Páll Jónsson, þingmaður Miðflokksins, er sá síðasti sem nær að fara yfir milljón krónur í aksturskostnað, en heildarkostnaður hans er 1.034 þúsund krónur á tímabilinu. Hann er allur vegna bílaleigubíla og eldsneytis.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
-
10. janúar 2023Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
-
10. janúar 2023Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sögulegur en dýrkeyptur kosningasigur þingforsetans
-
7. janúar 2023BDSM-félagið fagnar því að loksins eigi að afnema klámbann
-
7. janúar 2023Litlu fjölmiðlarnir með eldspýturnar
-
7. janúar 2023Með hverjum stendur þú?
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
6. janúar 2023Guðrún Hafsteinsdóttir segist taka við dómsmálaráðuneytinu í mars