Bein fjármunaeign Íslendinga erlendis jókst um tæplega 58 milljarða króna á árinu 2019 og var 666 milljarðar króna um síðustu áramót. Frá lokum árs 2017 hefur hún aukist um 116 milljarða króna. Þetta kemur fram í nýlegum hagtölum frá Seðlabanka Íslands.
Mestar eru uppgefnar fjármunaeignir Íslendinga í Hollandi, en þar eiga innlendir aðilar alls 357 milljarða króna. Uppgefnar eignir landsmanna á þekktum aflandseyjum hafa dregist mikið saman á undanförnum árum. Þannig er fjármunaeign innlendra aðila á Bresku Jómfrúareyjunum, sem inniheldur með annars Tortóla, sögð vera 21 milljónir króna í tölum Seðlabanka Íslands, sem er svipað og síðastliðin ár. Í árslok 2015 voru 32 milljarðar króna í eigu Íslendinga sagðir vera vistaðir í eyjaklasanum.
Sá hluti fjármuna Íslendinga erlendis sem eru óflokkaðir hefur nánast þrefaldast á nokkrum árum. Í lok árs 2017 var hann metinn á tæpa 25 milljarða króna en um síðustu áramót var sú upphæð komin upp í rúmlega 72 milljarða króna.
Gengi krónu spillar stóra rullu
Eignir Íslendingar í krónum talið lækkuðu skarpt á í útlöndum frá árunum 2016 og 2017. Þar spilaði mikil styrking íslensku krónunnar stóra rullu. Í lok árs 2017 hafði fjármunaeign innlendra aðila í krónum talið ekki verið lægri frá árinu 2004.
Síðustu ára hefur þetta breyst og á tveggja ára tímabili, frá lokum árs 2017 og fram að síðustu áramótum, jukust eignirnar í krónum talið um 116 milljarða króna, eða um 21 prósent. Það gerðist á sama tíma og íslenska krónan veiktist umtalsvert, og jók þannig krónuvirði helstu viðskiptagjaldmiðla. Krónan hefur haldið áfram að veikjast skarpt það sem af er árinu 2020, eða um 16,3 prósent gagnvart evru.
Líkt og áður sagði var „óflokkuð“ bein fjármunaeign Íslendinga rúmlega 72 milljarðar króna í lok árs 2019.
Íslendingar stórnotendur skattaskjóla
Erlend fjármunaeign Íslendinga var mjög í kastljósi heimsins vorið 2016 í kjölfar frétta úr gagnaleka frá panömsku lögfræðistofunni Mossack Fonseca sem gerður var opinber í apríl 2016. Í þeim kom fram að um 600 Íslendingar tengdust um 800 aflandsfélögum sem koma fram í skjölunum. Fyrir liggur að mestu er um að ræða viðskiptavini Landsbanka Íslands sem stunduðu aflandsviðskipti. Ekki liggur fyrir hvaða milligönguliði Kaupþing og Glitnir notuðu, en samkvæmt viðmælendum Kjarnans sem þekktu vel til í starfsemi íslensku bankanna fyrir hrun er ljóst að fjöldi aflandsfélaga sem stofnuð voru fyrir íslenska viðskiptavini eru mörg þúsund talsins. Því sýndi lekinn frá Mossack Fonseca ekki nema brot af þeim aflandsfélögum sem þeir áttu, og eiga mögulega enn.
Líklegt verður að teljast, að hluti þeirra eigna sem íslenskir ríkisborgarar hafa komið fyrir í þekktum skattaskjólum, séu ekki inni í þeim tölum yfir erlendar fjármunaeignir innlendra aðila sem Seðlabankinn birtir. Tilgangur þess að stofna félag í skattaskjóli er enda fyrst og síðast talinn annar af tveimur: að komast undan skattgreiðslum eða til að leyna tilvist eignar frá einhverjum.
Fyrir ári síðan hafði embætti skattrannsóknarstjóra lokið rannsókn í alls 96 málum sem eiga uppruna sinn í Panamaskjölunum. Af þeim höfðu alls 64 málum verið vísað til refsimeðferðar hjá héraðssaksóknara, farið hafði verið fram á sektarkröfu fyrir yfirskattanefnd í 17 málum, refsimeðferð í tveimur málum var lokið með sektargerð hjá skattrannsóknarstjóra og ekki var hlutast til um refsimeðferð í 13 málum.