Sjóðsfélagar lífeyrissjóða hafa greitt upp lán hjá þeim fyrir tíu milljarða króna umfram það sem sjóðirnir lánuðu út á tveimur mánuðum. Í júlí námu uppgreiðslur lífeyrissjóðslána 5,1 milljarði króna umfram ný lán og í ágúst var sú upphæð tæplega 4,9 milljarðar króna.
Flóttinn er mestur úr verðtryggðum lánum sjóðanna. Alls voru greidd upp 3,8 milljarðar króna af slíkum umfram ný útlán í júlí og tæplega fimm milljarðar króna í ágúst. Heildarfjöldi útlána lífeyrissjóða til sjóðsfélaga hefur dregist saman um 2.225 talsins frá því í lok maí, þegar hann náði hámarki í 41.276 útlánum.
Þetta má lesa út úr nýjum hagtölum frá Seðlabanka Íslands um ný útlán lífeyrissjóða til heimila landsins, sem birtar voru í gærmorgun.
Síðustu tveir mánuðirnir sem tölurnar ná yfir, júlí og ágúst 2020, eru einu mánuðirnir síðan í byrjun árs 2009 þar sem uppgreiðslur lífeyrissjóðslána eru meiri en nýjar lántökur. Samantektir Seðlabanka Íslands ná ekki lengur aftur en til þess tíma, þ.e. janúar 2009.
Frá sjóðum til banka
Þessir viðskiptavinir eru í unnvörpum að færa sig í viðskipti til innlánsstofnana, að uppistöðu viðskiptabankanna þriggja: Landsbankans, Íslandsbanka og Arion banka. Þær hafa bætt við sig 144,1 milljarði króna í nýjum útlánum til heimila með veði í fasteign á breytilegum vöxtum að frádregnum uppgreiðslum og umframgreiðslum á fjögurra mánaða tímabili, frá byrjun maí og út ágúst.
Samhliða hefur verðbólga hækkað nokkuð skarpt, með tilheyrandi áhrifum á verðtryggð lán. Í lok apríl var hún 2,2 prósent og undir 2,5 prósent verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Nú er hún 3,5 prósent og einu prósentustigi yfir því.
Úr verðtryggðu í óverðtryggt
Í slíku árferði eru óverðtryggð lán mun vinsælli en verðtryggð, sérstaklega þegar vextir eru skaplegir. Og það hafa þeir verið undanfarið. Landsbankinn og Íslandsbanki bjóða nú báðir 3,5 prósent breytilega óverðtryggða vexti á húsnæðislánum upp að 70 prósent veðsetningu og á sambærilegum lánum hjá Arion banka eru vextirnir 3,54 prósent.
Lífeyrissjóðirnir hafa hins vegar tekið þann pól í hæðina að keppa ekki við bankana um kjör á óverðtryggðum lánum, heldur að einblína á að bjóða upp á bestu kjörin á verðtryggðum lánum. Þar sker lífeyrissjóðurinn Birta sig úr, en hann býður 1,07 prósent breytilega verðtryggða vexti upp að 65 prósent veðsetningu. Fimm aðrir lífeyrissjóðir bjóða upp á slíka verðtryggða vexti undir tveimur prósentum.
Varaseðlabankastjóri lýsti yfir áhyggjum
Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningamála í Seðlabanka Íslands, lýsti yfir áhyggjur af þessari þróun á blaðamannafundi sem haldinn var í lok ágúst. „Það sem maður hefur áhyggjur af, bæði út frá peningastefnunni og fjármálastöðugleika, er að heimilin séu að skuldsetja sig of mikið á breytilegum vöxtum. Vonandi verðum við ekki með svona lága vexti til framtíðar. Það er kannski það sem maður hefur mestar áhyggjur af í dag varðandi miðlunina til heimila,“ sagði Rannveig þar.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði á sama fundi að það hefði gengið mjög vel að miðla vaxtalækkunum bankans til heimila. Viðbrögð þeirra við hvata til frekari lántöku á skaplegri kjörum hefði verið meiri en bankinn átti von á. Það ýti undir einkaneyslu. „Það hefur verið framar vonum.“