Ný útlán banka til heimila landsins, að frádregnum uppgreiðslum og umframgreiðslum, þar sem tekin eru veð í íbúð námu 214,5 milljörðum króna. Það er er 127 prósent aukning á slíkum húsnæðislánum frá sama tímabili í fyrra. Um er að ræða lán sem veitt eru af uppistöðu af þremur bönkum: Landsbankanum, Íslandsbanka og Arion banka.
Ef fram fer sem horfir munu ný húsnæðisútlán bankanna verða meiri í ár en þau voru samanlagt árinu 2018 og 2019.
Aukningin á þessu ári nær öll átt sér stað á síðustu fimm mánuðum, eða frá byrjun maímánaðar. Í þeim mánuði lækkaði Seðlabanki Íslands stýrivexti sína niður í eitt prósent og vaxtakjör bankanna tóku stakkaskiptum í kjölfarið.
Þetta kemur fram í nýjum hagtölum Seðlabanka Íslands.
Heimilin flýja verðtrygginguna
Heimili landsins hafa nýtt þessa stöðu til að yfirgefa verðtrygginguna. Á fyrstu níu mánuðum ársins 2020 veittu bankarnir 225,8 milljarða króna í ný óverðtryggð útlán á meðan að umfang verðtryggðra lána dróst saman um 11,3 milljarða króna. Þetta er umtalsverður viðsnúningur frá síðasta ári þegar heimilin tóku alls ný verðtryggð lán hjá bönkum fyrir 41,6 milljarða króna og ný óverðtryggð útlán fyrir 86,6 milljarðar króna. Hlutfall óverðtryggðra nýrra útlána hjá bönkum landsins fór því úr að vera 67,5 prósent í að vera 105 prósent.
Hríðlækkandi óverðtryggðir vextir
Stýrivaxtalækkanir Seðlabankans hafa leitt til þess að óverðtryggðir húsnæðislánavextir þriggja stærstu bankanna hafa hríðlækkað. Breytilegir óverðtryggðir vextir á húsnæðislánum Landsbankans og Íslandsbanka eru nú til að mynda 3,5 prósent. Á sambærilegum lánum hjá Arion banka eru vextirnir 3,54 prósent. Í upphafi árs í fyrra voru breytilegir óverðtryggðir vextir bankanna á bilinu sex til 6,6 prósent.
Samhliða hefur verðbólga hækkað nokkuð skarpt, með tilheyrandi áhrifum á verðtryggð lán. Í lok apríl var hún 2,2 prósent og undir 2,5 prósent verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Nú er hún 3,5 prósent og einu prósentustigi yfir því.
Þessi þróun hefur leitt til þess að heimili landsins hafa kosið með fótunum og fært sig yfir í óverðtryggð lán af miklum krafti.
Lífeyrissjóðirnir missa leiðandi stöðu
Heimilin hafa ekki bara verið að flýja verðtrygginguna, heldur hafa þau líka fært sig í bílförmum úr viðskiptum hjá lífeyrissjóðum, sem árum saman buðu upp á bestu kjörin á húsnæðislánamarkaði, og yfir til bankanna. Þeir hafa ekki fylgt með í þeirri lækkunarhrinu sem orðið hefur á þessu ári og stærstu sjóðirnir hafa frekar markvisst verið að reyna að draga úr eftirspurn eftir húsnæðislánum hjá sér á undanförnum árum.
Sjóðsfélagar lífeyrissjóða hafa greitt upp lán hjá þeim fyrir tíu milljarða króna umfram það sem sjóðirnir lánuðu út á tveimur mánuðum. Í júlí námu uppgreiðslur lífeyrissjóðslána 5,1 milljarði króna umfram ný lán og í ágúst var sú upphæð tæplega 4,9 milljarðar króna.
Flóttinn er mestur úr verðtryggðum lánum sjóðanna. Alls voru greidd upp 3,8 milljarðar króna af slíkum umfram ný útlán í júlí og tæplega fimm milljarðar króna í ágúst. Heildarfjöldi útlána lífeyrissjóða til sjóðsfélaga hefur dregist saman um 2.225 talsins frá því í lok maí, þegar hann náði hámarki í 41.276 útlánum.
Síðustu tveir mánuðirnir sem tölurnar ná yfir, júlí og ágúst 2020, eru einu mánuðirnir síðan í byrjun árs 2009 þar sem uppgreiðslur lífeyrissjóðslána eru meiri en nýjar lántökur. Samantektir Seðlabanka Íslands ná ekki lengur aftur en til þess tíma, þ.e. janúar 2009.
Boðaði dauða verðtryggingarinnar
Það vakti mikla athygli í sumar þegar Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði í viðtali við Fréttablaðið að verðtryggingin væri að deyja út. Orðrétt sagði hann: „Verðtryggingin var upphaflega sett á vegna þess að við réðum ekki við verðbólguna. Núna eru tímarnir breyttir. Í fyrsta sinn er það raunverulegur valkostur fyrir heimilin að skipta yfir í nafnvexti og þannig afnema verðtrygginguna að eigin frumkvæði af sínum lánum. Þetta eru mikil tímamót og fela í sér að verðtryggingin mun deyja út.“
Það berast þó misvísandi skilaboð úr Seðlabankanum um hversu góð staða þetta sé.
Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningamála í Seðlabanka Íslands, lýsti til að mynda yfir áhyggjum af þessari þróun á blaðamannafundi sem haldinn var í lok ágúst. „Það sem maður hefur áhyggjur af, bæði út frá peningastefnunni og fjármálastöðugleika, er að heimilin séu að skuldsetja sig of mikið á breytilegum vöxtum. Vonandi verðum við ekki með svona lága vexti til framtíðar. Það er kannski það sem maður hefur mestar áhyggjur af í dag varðandi miðlunina til heimila.“
Í nýjasta Fjármálastöðugleikariti Seðlabankans segir að aukning óverðtryggðra lána með breytilegum vöxtum geri heimilin næmari fyrir vaxtahækkunum þar sem hækkun vaxta eykur greiðslubyrði þeirra meira en flestra annarra lánsforma sem í boði eru. „Betri dreifing skulda heimila milli ólíkra vaxtaviðmiða, verðtryggðra og óverðtryggðra, fastra og fljótandi, dregur úr áhættu vegna skuldsetningar heimilanna í heild sinni.“