Mynd: Bára Huld Beck Hvar er nýja stjórnarskráin?

Framlag úr fortíðinni skipti sköpum í baráttunni fyrir nýrri stjórnarskrá

Samtök kvenna um nýja stjórnarskrá safnaði nýverið yfir 43 þúsund undirskriftum þar sem Alþingi var hvatt til að klára samþykkt á nýju stjórnarskránni. Átakið vakti víða athygli og var mjög sýnilegt. Kjarninn hefur fengið aðgang að bókhaldi þess. Hér verður gerð grein fyrir því hvað átakið kostaði og hvaðan uppistaðan af fjármununum kom. Það er saga sem teygir sig aftur til haustmánaða ársins 2009. Við sögu koma meðal annars einn sitjandi ráðherra og einn fyrrverandi forsetaframbjóðandi.

Samtök kvenna um nýja stjórnarskrá, samtök sem hafa unnið að því að kynna nýja stjórnarskrá sem félagið telur að hafi verið samþykkt í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu í október 2012, réðst nýverið í umfangsmikið verkefni. Síðastliðið sumar ákvað stjórn félagsins, í samstarfi við Stjórnarskrárfélagið, að ráðast í undirskriftasöfnun þar sem markmiðið var að safna að minnsta kosti 25 þúsund undirskriftum til að hvetja Alþingi til að klára samþykkt nýju stjórnarskrárinnar. 

Átakið tókst vonum framar. 

Þegar undirskriftirnar voru afhentar Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og öðrum fulltrúum stjórnmálaflokka í síðustu viku, þegar átta ár voru liðin upp á dag frá því að þjóðaratkvæðagreiðslan hafði farið fram, höfðu 43.423 skrifað undir. Verkefnið hafði skilað því að Samtökum kvenna um nýja stjórnarskrá tókst að ná í 74 prósent fleiri undirskriftir en upphaflega var stefnt að. 

Samhliða tókst að endurvekja umræðu um það ferli sem félagið, og þeir sem að því standa, hafa barist fyrir að verði viðurkennt sem hið rétta til að smíða nýjan samfélagssáttmála. Það er ferli sem hófst með tveimur Þjóðfundum, sem haldnir voru 2009 og 2010. Það leiddi síðan til kosninga til stjórnlagaþings og síðar til skipunar stjórnlagaráðs eftir að kosningin á stjórnlagaþingið var dæmd ólögmæt. Það ráð birti svo fram frumvarp um innihald nýrrar stjórnarskrár og það er skjalið sem flestir stuðningsmenn málstaðarins telja að sé hin nýja stjórnarskrá. Hin ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla fór svo fram 20. október 2012. 

Um var að ræða alls sex spurn­ingar en sú fyrsta var hvort við­kom­andi vildi að til­­­lögur stjórn­­­laga­ráðs yrðu lagðar til grund­vallar frum­varpi að nýrri stjórn­­­­­ar­­­skrá. Alls sögðu 64,2 pró­­­sent þeirra sem greiddu atkvæði já við þeirri spurn­ingu. Kjör­­­sókn var 49 pró­­­sent.

Auglýsing

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis tók frumvarpið svo til meðferðar, gerði á því breytingar og lagði fram á þinginu. Þar tókst ekki að koma því í gegn fyrir kosningarnar 2013 og þannig hafa mál staðið síðan þá. 

Tókst að endurvekja draug sem draugabanar töldu úr sögunni

Hinn mikla athygli sem undirskriftasöfnun Samtaka kvenna um nýja stjórnarskrá hefur náð hefur hins vegar leitt af sér að málið er kyrfilega komið á dagskrá að nýju. Samband ungra Sjálfstæðismanna (SUS) réðust til að mynda í eigin herferð gegn nýju stjórnarskránni sem það kallaði „stað­reynda­vakt um íslensku stjórn­ar­skrána, breyt­ingar á stjórn­ar­skránni, breyt­inga­til­lögur og annað sem að stjórn­ar­skránni snýr“ á vef­síð­unni www.stjornarskra.com.

Í til­kynn­ingu sagði SUS að með þessu vildi sam­bandið „leggja sitt af mörkum til að umræða um stjórn­ar­skrár­mál sé byggð á því sem rétt er og finna má stoð fyrir á vef Alþingis og í öðrum opin­berum gögnum en ekki á ein­staka skoð­unum eða rang­færsl­u­m.“

Fleiri andstæðingar breytinga á stjórnarskrá hafa síðan látið á sér kræla í opinberri umræðu. Því fleiri sem undirskriftirnar urðu, bættust fleiri raddir, sérstaklega úr Sjálfstæðisflokknum, við í hóp þeirra sem töldu málinu allt til foráttu og vörðu gildandi stjórnarskrá.

Tilraun til málamiðlunar hlýtur lítinn hljómgrunn

Það skipti líka máli að í stjórnarsáttmála þeirrar óvenjulegu ríkisstjórnar sem nú situr að völdum – skipuð flokkum frá vinstri, yfir miðju og til hægri – kom fram að ríkisstjórnin myndi „halda áfram heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar í þverpólitísku samstarfi með aðkomu þjóðarinnar og nýta meðal annars til þess aðferðir almenningssamráðs.“


„Hver borgar baráttuna?“

Borið hefur á tortryggni í garð fjármögnunar á átaki Samtaka kvenna um nýja stjórnarskrá, í samstarfi við Stjórnarskrárfélagið, undanfarnar vikur og farið fram á að það verði gert opinbert hvernig henni var háttað. Vert er að taka fram að samtök eins og Samtökum kvenna um nýja stjórnarskrá eða Stjórnarskrárfélaginu ber engin skylda til að opinbera bókhald sitt líkt og til að mynda stjórnmálaflokkum, enda sérstök lög um fjármál stjórnmálaflokka við lýði í landinu. Í ljósi þess að áherslurnar sem voru í hávegum hafðar við vinnslu þess sem félagið kallar nýja stjórnarskrá voru meðal annars mannréttindi, ábyrgð og gagnsæi hafa verið færð sannfærandi rök fyrir því að birting á tekjum og gjöldum væri eðlileg. Á meðal þeirra sem hafa kallað eftir þessu er Elliði Vignisson, sveitarstjóri í Ölfusi, sem birti stöðuuppfærslu á Facebook í lok síðustu viku með yfirskriftinni „Hver borgar baráttuna?“ Þar spurði Elliði hvort það væri til of mikils mælst að það yrði opinberað hver borgaði baráttuna fyrir nýrri stjórnarskrá? „Hver brennur svo fyrir málstaðinn (eða á svo mikilla hagsmuna að gæta) að hann verji stórfé í að bylta fyrirkomulagi réttarrikisins? Það myndi auka trúverðugleikann að bókhald þessarar baráttu yrði opnað.“

Þessi lína hefur líka verið tekin í nafnlausum dálkum í tveimur stærstu dagblöðum landsins. Í Skotsilfri Markaðarins, fylgiriti Fréttablaðsins um efnahagsmál og viðskipti, sem kom út í síðustu viku var eindálkur með fyrirsögninni „Vel fjármagnað“.

Þar sagði að enginn vafi léki lengur á því að Stjórnarskrárfélagið, undir formennsku Katrínar Oddsdóttur, væri vel fjármagnað, hvort sem það er með beinum eða óbeinum hætti. „Sjónvarpsauglýsingar, þar sem málstað félagsins er haldið á lofti, birtast á besta tíma, til dæmis fyrir Ráðherrann á sunnudagskvöldið. Einhver telur sig eða þjóð sína, ranglega, hafa ríka hagsmuni af því að stjórnarskránni verði umbylt. Forvitnilegt væri að vita hverjir helstu bakhjarlar félagsins eru. Það er hins vegar ljóst að bakhjarlarnir hafa notið góðrar ávöxtunar. Stjórnarskrárfélagið hefur á ótrúlegan hátt náð að koma máli, sem á ekkert erindi í umræðuna á þessum tímum, efst á dagskrá. Önnur brýnni mál líða fyrir það.“

Stjórnarskrárfélagið rataði líka í Staksteina Morgunblaðsins síðastliðinn fimmtudag. Sá dálkur, sem er ekki kenndur við neinn lifandi höfund, bar þann daginn yfirskriftina „Furðuleg sjónarmið undarlegs félags“. Í Staksteinum stóð meðal annars: „Stjórnarskrárfélagið hefur staðið fyrir samfelldri baráttu um langa hríð, augljóslega með talsverðum tilkostnaði en að auki með því að mála áróður á eignir annarra og valda öðrum þannig kostnaði einnig. Ekki er vitað hvernig þessi undarlegi félagsskapur fjármagnar baráttu sína enda verður ekki séð að hann fylgi lögum um fjármál stjórnmálaflokka þó að hann stundi stjórnmálabaráttu.“

Þeirri vinnu er nú lokið og hyggst Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra leggja fram frumvörp um nokkrar breytingar á stjórnarskrá á yfirstandandi þingi, en sem venjulegur þingmaður. Hún auglýsti eftir meðflutningsmönnum í viðtali við Kastljós í síðustu viku, en enn sem komið er hefur enginn gefið sig fram. 

Þess í stað lögðu alls 15 þingmenn Samfylkingar, Pírata, Flokks fólksins og tveir utan flokka fram eigið frumvarp til stjórnskipunarlaga á Alþingi sem byggir á tillögum stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá, en með þeim breytingum sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd gerði á því 2013. 

Viðmælendur Kjarnans telja litlar sem engar líkur á því að þorri þingmanna Sjálfstæðisflokks, eða nokkur þingmanna Miðflokks, muni styðja vegferð forsætisráðherra. Viðreisn vill meiri breytingar en ekki jafn miklar og settar eru fram í frumvarpi stjórnlagaráðs. Og Framsóknarflokkurinn er þarna einhvers staðar á milli. 

Ekkert bendir til þess eins og er, samkvæmt viðmælendum Kjarnans úr hópi þingmanna víða að úr hinu pólitíska litrófi, að frumvörp forsætisráðherra eigi möguleika á brautargengi, að minnsta kosti ekki öll. Að óbreyttu er líklegasta niðurstaðan sú að litlar eða engar breytingar verði gerðar á stjórnarskránni áður en að kjörtímabilinu lýkur í september á næsta ári. 

Settu markmið í samræmi við nýja stjórnarskrá

Sú niðurstaða hefur blasað við sem sú líklegasta nokkuð lengi, sérstaklega vegna andstöðu við breytingar hjá Sjálfstæðisflokknum, stærsta flokki landsins sem fékk 25,3 prósent greiddra atkvæða í síðustu þingkosningum. 

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra er að reyna að finna málamiðlunarflöt í stjórnarskrármálum. Það virðist ekki vera að ganga.
Mynd: Bára Huld Beck

Við þær aðstæður réðust Samtök kvenna um nýja stjórnarskrá, í samvinnu við Stjórnarskrárfélag Íslands, í sitt undirskriftarverkefni. Ástæða þess að markið var upphaflega sett við 25 þúsund undirskriftir var að þá myndu tíu prósent kjósenda hafa skrifað undir áskorunina. Samkvæmt nýju stjórnarskránni hefði sá fjöldi getað lagt fram frumvarp á Alþingi. Til að tryggja áreiðanleika undirskrifta var krafist rafrænnar undirritunar þeirra sem skrifuðu undir, sem er ekki vanalega krafa í undirskriftasöfnunum. 

Vinnan við verkefnið hófst af fullu í byrjun síðasta sumars. Allt starf Stjórnarskrárfélagsins er unnið í sjálfboðavinnu en félagsmenn töldu að til þess að ná nægjanlegri athygli þá þyrfti fjármuni til að kosta birtingu á efni frá félaginu í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum þar sem vakin væri athygli á söfnuninni. 

Þess vegna var farið að safna.

Fjáröflunin var með ýmsum hætti. Mest áhersla var lögð á framlög frá einstaklingum, framlög vegna sölu bóka og vegna sölu á töskum og bolum. Fyrstu framlögin komu inn á reikning Stjórnarskrárfélagsins í byrjun maí 2020 og í lok síðustu viku höfðu alls safnast 4.415.184 krónur. 

Flest framlögin komu frá einstaklingum. Kjarninn fékk aðgengi að yfirliti yfir þau og þar sést að uppistaðan eru örframlög. Flestir einstaklingar gefa nokkur þúsund krónur. Samtals nema ofangreind framlög rúmlega 1,4 milljón króna. 

Auglýsing

Þá standa eftir þrjár milljónir króna sem Stjórnarskrárfélaginu tókst að safna. Þær komu frá einum aðila.

Mauraþúfan sem safnaði milljónum

Í aðdraganda fyrri Þjóðfundarins, sem haldinn var 2009, var myndaður undirbúningshópur einstaklinga með afar ólíkan bakgrunn. Þessi hópur taldi sig eiga það sameiginlegt að hafa talað fyrir skipulagðri sameiginlegri umræðu og hugmyndavinnu meðal þjóðarinnar til þess að finna bestu leiðina til framfara við nýjar aðstæður. Hópurinn kallaði sig Mauraþúfuna með vísan til þess sem á ensku hefur verið kallað „Collective Intelligence“. Þegar samtökin voru formlega stofnuð, í september 2009, sagði í tilkynningu til fyrirtækjaskrár að tilgangur þeirra væri „að halda Þjóðfund og fylgja honum eftir.“

Um var að ræða hóp sem var nokkuð flæðandi að stærð. Um tíma kom starfaði tónlistarkonan Björk Guðmundsdóttir með honum. Um tíma Guðfinna Bjarnadóttir, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Og um tíma var Ólafur Stephensen, fyrrverandi ritstjóri bæði Fréttablaðsins og Morgunblaðsins og núverandi framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, á meðal þeirra sem sagðir voru tilheyra hópnum á heimasíðu Þjóðfundarins. 

Þjoðfundurinn sem fór fram árið 2009 vakti mikla athygli, og er almennt talinn vera fyrsta formlega skrefið sem stigið var í þeirri vinnu að smíða nýja stjórnarskrá.
Mynd: Brian Suda

Kjarninn í Mauraþúfunni voru þó þeir níu einstaklingar sem skipuðu stjórn samtakanna. Og skipa hana enn samkvæmt þeim gögnum sem aðgengileg eru í fyrirtækjaskrá.

Á meðal þeirra voru núverandi heilbrigðisráðherra Svandís Svavarsdóttir, Halla Tómasdóttir sem síðar fór í forsetaframboð og frumkvöðullinn Guðjón Már Guðjónsson, oftast kenndur við OZ. Aðrir meðlimir voru Bjarni Snæbjörn Jónsson, Gunnar Jónatansson, Haukur Ingi Jónasson, María Ellingsen, Þorgils Völundarson og Lárus Ýmir Óskarsson, sem var kjörinn formaður stjórnar. 

Fjölmargir aðilar, einstaklingar, fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök lögðu til fé svo að Þjóðfundurinn yrði að veruleika. Útlagður kostnaður við fundahaldið var áætlaður um 27 milljónum króna á endanum. Ríkisstjórn, Reykjavíkurborg og ríflega 70 fyrirtæki, sveitarfélög, félagasamtök, stofnanir og einstaklingar voru í hópi stuðningsaðila. Þar af lagði ríkisstjórn Íslands til sjö milljónir króna úr ríkissjóði og Reykjavíkurborg lánaði Laugardalshöllina undir fundinn. 

Fjöldi fólks hefur barist árum saman fyrir því að koma nýju stjórnarskránni aftur á dagskrá.
Mynd: Bára Huld Beck

Einn launaður starfsmaður var við verkið, verkefnisstjórinn, Kristín Erna Arnardóttir. Hún var ráðin tímabundið og laun hennar greidd af þeim frjálsu framlögum, sem verkefnið hafði fengið.

Þegar Þjóðfundarverkefninu lauk voru enn til fjármunir. Samkvæmt því sem kom fram á styrktarsíðu verkefnisins átti að setja það fé sem eftir sat í „kostnað við eftirfylgni við Þjóðfundinn“. 

Féð var sett inn á bankareikning hjá Sparisjóði Suður-Þingeyinga og þar lá það fram á sumarið 2020. Þegar stjórn Mauraþúfunnar, sem hafði þá ekki hist árum saman, barst beiðni um styrk.

Beint framhald af Þjóðfundinum 2009

Sú beiðni kom frá stjórn Stjórnarskrárfélagsins. Í henni sitja Katrín Oddsdóttir formaður, Sigurður Hr. Sigurðsson ritari og Kristín Erna Arnardóttir gjaldkeri, sem hafði starfað við Þjóðfundinn 2009 sem verkefnastjóri.

Katrín Oddsdóttir er formaður Stjórnarskrárfélagsins og helsti talsmaður þess.
Mynd: Bára Huld Beck

Í beiðninni sagði meðal annars: „Við teljum að starf okkar og barátta fyrir nýrri stjórnarskrá fyrir Íslensku þjóðina sé beint framhald af Þjóðfundi 2009 og 2010 í beinu samhengi við hugsjónina um gildi þjóðarinnar förum við þess á leit við Mauraþúfuna að styrkja verkefnið um kr. 3.000.000.- Ef Mauraþúfan bregst hratt við og samþykkir beiðni okkar verður hægt að mæta því takmarki Stjórnarskrárfélagsins að allir kjósendur á Íslandi fái upplýsingar um undirskriftasöfnunina (líka þeir sem hafa ekki íslensku sem fyrsta tungumál). Við viljum leiða gæfusamlega til lykta það mikilvæga og góða starf sem Mauraþúfan vann í þágu lýðræðisins á sínum tíma. Ljóst er að með slíkum endi mun ferlið allt verða að vonarglætu fyrir lýðræði á heimsvísu því það sýnir að hægt er að finna skapandi leiðir til að hlusta raunverulega á almenning þegar það kemur að samfélagslegum umbótum.“

Með beiðninni fylgdi áætlun um framkvæmd og kostnað verkefnisins. Í henni var meðal annars farið yfir hvernig tímalína þess yrði frá miðjum júlímánuði og fram að 20. október, þegar undirskriftir yrðu afhentar. Samkvæmt kostnaðaráætlun átti verkefnið að kosta um 3,3 milljónir króna. Þorri þess kostnaðar féll til vegna birtinga á auglýsingum.

Vel heppnað veggjakrot

Stjórn Mauraþúfunnar samþykkti beiðnina. Samkvæmt upplýsingum Kjarnans þá setti enginn í stjórn samtakanna sig á móti því að fjármununum sem legið höfðu á bankareikningi norður í landi í öll þessi ár yrði ráðstafað með þessum hætti. 

Þann 15. september síðastliðinn voru þrjár milljónir króna millifærðar inn á reikning Stjórnarskrárfélagsins.  

Veggurinn háþrýstiþveginn að beiðni stjórnarráðsins.
Mynd: Aðsend

Kjarninn óskaði eftir því að fá að sjá yfirlit yfir útgjöld vegna undirskriftasöfnunar félagsins, og fékk það. Í þeim gögnum sést að kostnaður alls var rúmlega 16 prósent undir áætlun. Heildarkostnaður var tæplega 2,8 milljónir króna Nær allur kostnaður var vegna birtingar á auglýsingum í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum, líkt og lagt hafði verið upp með í kostnaðaráætlun. Kostnaður við það átak sem vakti einna mesta athygli á verkefninu, þegar veggur sem þegar var þakinn veggjakroti var málaður með orðunum „Hvar er nýja stjórnarskráin?“, var sáralítill. Málningin kostaði 168 þúsund krónur og pizzur fyrir málaranna 22 þúsund krónur.

Sjálfboðaliðar á vegum verkefnisins höfðu vikum saman verið að koma skilaboðum þess fyrir á öðrum svæðum í höfuðborginni þar sem að veggjakrot var þegar til staðar. En í október var ákveðið að mála stórt vegglistaverk á vegg við bíla­stæði milli Sölv­hóls­vegar og Skúla­götu, við hlið atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Sú aðgerð var þó ekki á vegum Samtaka kvenna um nýja stjórnarskrá né Stjórnarskrárfélagsins, heldur stóð Narfi Þorsteinsson og skiltamálun hans fyrir henni.

Tveimur dögum eftir að verkið var fullklárað lét rekstrarfélag stjórnarráðsins háþrýstiþvo skilaboðin í burtu, eftir að ábending hafði borist frá ráðuneytinu. það var í fyrsta sinn sem að veggurinn, sem hefur verið útataður í veggjakroti árum saman, var þrifinn. Annar veggur við hlið hans sem er líka þakinn vegglist, en inniheldur ekki pólitísk skilaboð, fékk að standa óáreittur. 

Auglýsing

Ákvörðun stjórnarráðsins að þrífa skilaboðin í burtu var það besta sem gat gerst fyrir undirskriftasöfnunina. Athæfið varð frétt á öllum miðlum landsins og það rataði í umræður í þingsal þar sem Jón Þór Ólafs­son, þingmaður Pírata, sagði meðal annars: „Það er tákn­rænt að þegar stjórn­völd kom­ast ekki lengur upp með það að sópa nýju stjórn­ar­skránni undir teppið þá bein­línis háþrýsti ­þvo þau burt sann­leik­ann um van­virð­ingu þeirra við þjóð­ar­vilj­ann.“ 

Í kjölfarið réðst Stjórnarskrárfélagið í að mála vegglistaverkið á annan vegg, skammt frá þeim sem hafði verið þrifinn. Það verk stendur enn.

Eyddu einungis tveimur þriðju

Alls safnaði Stjórnarskrárfélagið 4.415.184 krónum frá byrjun maí og fram í lok síðustu viku. Af þeirri upphæð komu 68 prósent frá Mauraþúfunni en það sem upp á vantaði frá fjölmörgum einstaklingum í formi lágra fjárframlaga, bola- og töskusölu og framlaga vegna bóka.

Félagið eyddi einungis tæpum tveimur þriðju af því sem safnaðist. Eftir standa enn um 1,6 milljónir króna á reikningi þess sem geta nýst í næsta fasa verkefnisins, hver svo sem hann verður. 

Það þýðir að rúmlega helmingur þeirrar upphæðar sem Mauraþúfan lét renna í fjáröflunina liggur nú inn á bankareikningi. Alveg eins og hún hefur gert frá því síðla árs 2009. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar