Síldarvinnslan ehf. átti eigið fé upp á 360,5 milljónir dala um síðustu áramót. Á meðalgengi síðasta árs gerir það 44 milljarða króna en á gengi dagsins í dag er eigið fé um 50 milljarðar króna. Veiking á gengi krónu gagnvart Bandaríkjadal það sem af er árinu 2020 hefur því aukið virði þess eiginfjár sem Síldarvinnslan átti um áramót um næstum sex milljarða króna þar sem félagið gerir upp í Bandaríkjadal.
Þetta má lesa úr ársreikningi Síldarvinnslunnar.
Fyrirtækið tilkynnti um síðustu helgi að dótturfélag þess, Bergur-Huginn ehf., hefði keypt allt hlutafé í útgerðarfélaginu Bergi ehf. í Vestmannaeyjum. Við kaupin 0,36 prósent af heildarkvóta yfirstandandi fiskveiðiárs yfir til Bergs-Hugins. Við kaupin fer aflahlutdeild Bergs-Huginn upp í 2,7 prósent af heildarkvóta til umráða.
Kaupverðið var ekki gefið upp en Bergur ehf. hefur verið í mjög góðum rekstri og kaupin á útgerðinni hafa því ekki verið ódýr. Rekstrartekjur hennar í fyrra voru 505 milljónir króna og jukust um 36 prósent milli ára. Hagnaður var 117 milljónir króna og á grunni hans var samþykkti stjórn Bergs að greiða hluthöfum 100 milljónir króna í arð vegna ársins 2019. Eignir félagsins voru metnar á 513 milljónir króna og eigið fé þess sagt 406 miljónir króna um síðustu áramót. Eiginfjárhlutfallið var 79,1 prósent. Bergur ehf. var að uppistöðu í eigu Sævalds Pálssonar og barna hans.
Veiðiheimildir Bergs voru bókfærðar á 252 milljónir króna í ársreikningi en líklegt verður að telja að þær hafi verið metnar á meira í viðskiptunum, ef miðað er við algengt virði á kvóta í viðskiptum. Ef horft er til að mynda til þess verðs sem Brim greiddi fyrir aflaheimildir Ögurvíkur síðla árs 2018 þá var það 15 sinnum yfir bókfærðu verði.
Miðað við algengt virði á kvóta í viðskiptum, og upplausn hans, þá hefur verið talið að heildarvirði alls úthlutaðs kvóta sé um 1.200 milljarðar króna. Vert er að taka fram að sumar tegundir eru verðmætari en aðrar og því er ekki að öllu leyti hægt að ákvarða vænt markaðsvirði þess kvóta sem hver útgerð heldur á út frá heildarúthlutun.
Sterk tengsl við Samherja
Veiðiheimildir Síldarvinnslunnar voru bókfærðar á 228,3 milljónir dala um síðustu áramót. Á gengi dagsins í dag gera það um 32 milljarðar króna. Félagið hefur á undanförnum árum keypt mikið magn af kvóta á markaði og samstæðan hefur einnig fjárfest mikið, meðal annars í nýjum skipum.
Síldarvinnslan heldur beint á 5,2 prósent af öllum úthlutuðum afla. Auk þess heldur Bergur-Huginn, sem er að öllu leyti í hennar eigu, nú á á um 2,7 prósent alls kvóta. Auk þess á Síldarvinnslan 75,20 prósent hlut í Runólfi Hallfreðssyni ehf., sem heldur á 0,62 prósent af úthlutuðum kvóta.
Stærsti einstaki eigandi Síldarvinnslunnar er Samherji hf. með 44,6 prósent eignarhlut. Auk þess á Kaldbakur, félag í eigu Samherja, á 15 prósent hlut í öðru félagi sem á 5,3 prósent hlut í Síldarvinnslunni. Samherji á því, beint og óbeint, 49,9 prósent í Síldarvinnslunni. Þorsteinn Már Baldvinsson, annar forstjóri Samherja, er stjórnarformaður félagsins. Auk þess á Síldarvinnslan 0,92 prósent í sjálfri sér, sem þýðir að samanlagður eiginhlutur hennar og eignarhluti stærsta eigandans fer nálægt 51 prósenti.
Samherji Ísland ehf., félag að öllu leyti í eigu Samherja hf, er með næst mesta aflahlutdeild í íslenskri efnahagslögsögu allra sjávarútvegsfyrirtækja á Íslandi, eða 7,02 prósent. Útgerðarfélag Akureyrar, sem er líka í 100 prósent eigu Samherja, heldur svo á 1,3 prósent kvótans og Sæból fjárfestingafélag, sem það sama gildir um, heldur á 0,64 prósent hans.
Samanlagt er þessi blokk Samherja og Síldarvinnslunnar með að minnsta kosti 17,5 prósent aflahlutdeild.
Ekki tengdir aðilar samkvæmt lögum
Næst stærsti eigandi Síldarvinnslunnar er félagið Kjálkanes ehf. Á meðal helstu hluthafa þess er Björgólfur Jóhannsson, hinn forstjóri Samherja, og fjölskylda hans. Sami hópur á einnig útgerðarfélagið Gjögur, sem heldur á 2,29 prósent af öllum úthlutuðum aflaheimildum. Ef sá kvóti er talin með ofangreindu er ljóst að rétt undir fimmtungur (19,79 prósent) af öllum úthlutuðum aflaheimildum landsins eru á höndum fyrirtækja sem eru að einhverju leyti í eigu þeirra tveggja manna sem sitja í forstjórastólum Samherja.
Gildandi lög skilgreina aðila í sjávarútvegi þó ekki tengda nema einn eigi meirihluta í öðrum. Því eru Samherji og Síldarvinnslan ekki skilgreind sem tengdir aðilar og Gjögur og Síldarvinnslan ekki heldur, enda undir 50 prósent mörkunum líkt lög heimila. Í tilfelli Samherja er hann eins lítið undir þeim og mögulegt er, eða 0,01 prósent. Það að skilgreina aðila tengda út frá meirihlutaeign eru mjög há mörk í samanburði við það sem tíðkast annars staðar hérlendis.
Í lögum um skráningu raunverulegra eigenda og í frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna skattlagningar tekna erlendra lögaðila í lágskattaríkjum, samsköttunar félaga, takmörkunar á frádrætti vaxtagjalda og skattlagningar útsendra starfsmanna er til dæmis miðað við 25 prósent beinan eða óbeinan eignarhlut til að aðilar teljist tengdir eða aðili teljist raunverulegur eigandi.
Rannsókn hætt vegna anna
Fiskistofa réðst í frumkvæðisrannsókn á árunum 2009 og 2010 á því hvort að telja ætti Samherja, Gjögur (hlutur Gjögurs í Síldarvinnslunni var færð yfir í Kjálkanes árið 2015) og Síldarvinnsluna sem tengda aðila. Niðurstaðan var sú að engin rök væru fyrir því að Samherji og Gjögur færu með raunveruleg yfirráð yfir Síldarvinnslunni.
Nærri fimm árum síðar spurðist blaðamaður Fréttablaðsins fyrir um gang rannsóknarinnar. Svörin sem hann fékk voru þau að rannsókninni hefði verið hætt. Ekki vegna þess að tilefnið skorti, heldur vegna þess að málið hafði dagað uppi hjá Samkeppniseftirlitinu vegna seinagangs og því þótti ekki forsvaranlegt annað en að ljúka því án niðurstöðu. Það hefði einfaldlega verið of mikið að gera hjá Samkeppniseftirlitinu.
Kjarninn greindi frá því fyrir ári síðan að þegar Samherji kynnti samstæðu sína erlendis, tveimur árum eftir að þessi niðurstaða Fiskistofu lá fyrir, hafi Síldarvinnslan verið kynnt sem uppsjávarhluti hennar og myndir birtar af starfsemi fyrirtækisins. Þetta sýndu glærukynningar sem voru hluti af þeim gögnum sem Wikileaks birti vegna Samherjamálsins.