Kraftaverkaolía með ýmislegt á samviskunni

Við eldum úr henni, böðum okkur í henni og burstum jafnvel tennurnar með henni. Sérfræðingar telja pálmaolíu vera í um helmingi allra mat- og snyrtivara sem finna má í verslunum á Vesturlöndum.

Órangútanar eru greindir og hafa hafst við í frumskógunum sem  nú er verið að eyða í þúsundir ára.
Órangútanar eru greindir og hafa hafst við í frumskógunum sem nú er verið að eyða í þúsundir ára.
Auglýsing

Pálmaolía er undraefni. Hún er unnin úr ávexti sem vex í röku og hlýju loftslagi hitabeltisins, og hefur stórmerkilega eiginleika – allt að því lygilega. Hún fær sápu til að freyða betur og kex til að vera stökkara og skemmtilegra undir tönn. Hún gerir súkkulaðistykki áferðarfögur og er ástæðan fyrir því að eingöngu þarf að hella heitu vatni á pakkanúðlurnar. Svo getur hún látið varalitinn verða mýkri og forðað mjólkurísnum frá því að bráðna hratt. Pálmaolía gerir kraftaverk. Kraftaverk sem við teljum okkur þurfa til að fóðra þrá okkar eftir stöðugt meiri þægindum í lífinu.


 En vinsældir hennar hafa stigið henni til höfuðs ef svo má segja. Náttúrulegu skógarnir hafa auðvitað engan veginn dugað til. Og þar sem eftirspurnin er mikil hafa íbúar fátækra landa þar sem plantan sem getur af sér pálmaolíuna dafnar best, eygt von um betra líf með því að rækta hana. Til að anna eftirspurninni er mörgum hekturum skóga rutt úr vegi daglega. Það þarf meira. Og meira.

Auglýsing


Skógarnir sem hafa vikið fyrir olíupálmunum eru heimkynni fjölmargra dýrategunda. Sú stærsta er órangútan, hæglát skepna og greind sem notar verkfæri, m.a. til að byggja sér hreiður. Nafn hennar, órangútan, þýðir á tungu Malaja „persóna skógarins“. Órangútanar hafa búið í regnskógum Indónesíu og Malasíu í tugþúsundir ára.


Líkt og mörg önnur dýr hafa þeir átt undir högg að sækja nokkuð lengi vegna ágangs mannsins á búsvæði þeirra. En þeim var rekið bylmingshögg fyrir um tuttugu árum er pálmaolíuiðnaðurinn fór hratt vaxandi. Það högg hefur líklega fellt um 50 þúsund órangútana á tveimur áratugum. Um 6-12 þeirra hafa fallið í valinn á hverjum degi á þessu tímabili. Og enn eru þeir að deyja, þrátt fyrir fögur fyrirheit stórfyrirtækja og þrýsting frá umhverfissamtökum og meðvituðum neytendum.

Pálmaolíuakrar í Indónesíu. Mynd: Greenpeace


Meðvitund neytandans vaknaði ekki upp úr þurru. Þeir höfðu flestir misst af því er undraolíunni frá Asíu var bætt við mat- og snyrtivörurnar sem þeir tíndu niður úr hillum matvöruverslana og ofan í innkaupakerrurnar. Það var ekki auglýst sérstaklega.


En meira en áratugur er síðan að barátta umhverfissamtaka, m.a. Greenpeace, fór að vekja almenning til meðvitundar um áhrif pálmaolíuræktarinnar sem þá var orðin að umfangsmiklum iðnaði með aðkomu stórra alþjóðlegra fyrirtækja. Bændurnir í Indónesíu og Malasíu hafa fæstir orðið loðnir um lófana.  


Pálmaolía er svo mikið notuð í mat- og snyrtivörum að talið er að um helmingur allra slíkra sem finna megi í verslunum á Vesturlöndum innihaldi hana. Hún er í sjampói, Oreo-kexi og hnetusmjöri, svo dæmi séu tekin.

Tvær leiðir: Hætta að kaupa eða velja vörur vel


En hvað á hinn meðvitaði neytandi að gera? Á hann að sleppa því að kaupa vörur með pálmaolíu?


Ekki endilega, segja náttúruverndarsamtökin World Wildlife Fund. Þau vilja frekar fara þá leið að fá sem flesta til liðs við sig og halda áfram að þrýsta á fyrirtæki að kaupa aðeins olíu sem framleidd er með sjálfbærum hætti og frá framleiðendum sem skilja raunverulega eitthvað eftir hjá heimamönnum.


Það er sannarlega ekki auðvelt að átta sig á hvort að varan sem maður er í þann mund að setja ofan í innkaupakerruna innihaldi pálmaolíu. Hér eru nokkur dæmi um hvernig pálmaolía er framsett í innihaldsslýsingu: Vegetable Oil, Vegetable Fat, Palm Kernel, Palm Kernel Oil, Palm Fruit Oil, Palmate, Palmitate, Palmolein, Glyceryl, Stearate, Stearic Acid, Elaeis Guineensis, Palmitic Acid, Palm Stearine, Palmitoyl Oxostearamide, Palmitoyl Tetrapeptide-3, Sodium Laureth Sulfate, Sodium Lauryl Sulfate, Sodium Kernelate, Sodium Palm Kernelate, Sodium Lauryl Lactylate/Sulphate, Hyrated Palm Glycerides, Etyl Palmitate, Octyl Palmitate, Palmityl Alcohol.


Það stendur yfirleitt ekki: Þessi vara inniheldur pálmaolíu.

Órangútan berst við gröfu. Þetta er ójafn leikur. Úr mynd Davids Attenboroughs, Lífið á plánetunni okkar.


En þrýstingurinn sem WWF, Greenpeace og fleiri reyna að skapa felst í því að fólk kaupi aðeins vörur sem hafa fengið stimpil frá Hringborði sjálfbærrar pálmaolíu, The Roundtable on Sustainable Palm Oil (RSPO). Hringborðið var stofnað árið 2004 af umhverfissamtökum og fyrirtækjum og sífellt fleiri bætast í hópinn. Markmiðið var að beita þá sem framleiddu pálmaolíu þrýstingi til að hverfa til vistvænni vega.


Hringborðið vísaði fyrirtækinu Nestlé frá borði árið 2018 þar sem það taldi það ekki uppfylla skilyrði sáttmála samtakanna. Nestlé sagðist nota „sjálfbæra pálmaolíu“ í vörur sínar, t.d. súkkulaðistykkin, en annað kom á daginn.

RSPO-merkið mega aðeins þeir vöruframleiðendur nota sem fara að ströngum skilyrðum um sjálfbærni í framleiðslukeðjunni.


Tíu ár eru síðan að áhrifamikil auglýsing Greenpeace, þar sem sjá mátti mann bíta í fingur af órangútan í stað Kit-Kat stangar, varð til þess að Nestlé ákvað að stefna að því markmiði að ná skógareyðingar-hlutleysi (e. zero-net deforestation) árið 2020. Í yfirlýsingu frá fyrirtækinu árið 2014 sagðist það aðeins nota sjálfbæra pálmaolíu í verksmiðjum sínum. Með þessu þótti fyrirtækið breyta stefnu sinni í umhverfismálum eftir hentisemi og þegar fyrri markmið reyndust því þung.


Hringborðið hefur fengið sinn skerf af gagnrýni síðustu ár og það af mörgum sagt setja hagnað fyrirtækja framar hinum göfugu markmiðum sem sett voru í upphafi. Greenpeace hefur t.d. bent á að það að banna Nestlé að segja olíuna sem fyrirtækið notar sjálfbæra ekki rétta forgangsröðun. Fleiri fyrirtæki sem aðild eiga að hringborðinu eigi þátt í áframhaldandi skógareyðingu án þess að vera refsað fyrir það með nokkrum hætti.


Nestlé hefur nú fengið sæti við hringborðið á ný. Það fékkst með því að búa til áætlun um hvernig fyrirtækið ætlar sér að ná því markmiði að nota aðeins sjálfbæra olíu í vörur sínar fyrir árið 2023. Í áætluninni er lögð áhersla á að allir framleiðsluferlar séu gegnsæir og uppi á borðum.

Auglýsing


Önnur fyrirtæki og jafnvel heilu verslunarkeðjurnar, hafa farið þá leið að fjarlægja pálmaolíu úr vörum sínum. Breska matvörukeðjan Iceland hefur undanfarna mánuði hætt að nota pálmaolíu í um 450 vörutegundir sem framleiddar eru undir vörumerki verslunarinnar. Áfram verður haldið á þeirri braut.


Í frumskógi internetsins er ekki einfalt að koma auga á staði þar sem hægt er að finna góðar upplýsingar um hvaða vörur innihalda pálmaolíu og hvort hún sé þá vottuð sem sjálfbær. Hér er þó ein síða sem hægt er að styðjast við og önnur hér og sú þriðja hér. Og hér er hægt að nálgast app hringborðsins þar sem hægt er að fletta upp vörum og kanna hvort að þær noti pálmaolíu sem ræktuð hefur verið með þeirra skilyrðum.


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Það liggur ekki fyrir hvort Ísland geti gert tvíhliða samning til að tengja krónu við evru
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um það sé mögulegt fyrir Ísland að gera samkomulag við Seðlabanka Evrópu um að tengja krónuna við evru.
Kjarninn 23. september 2021
Sigríður Ólafsdóttir
Draumastarf og búseta – hvernig fer það saman?
Kjarninn 23. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd: Í aðdraganda kosninganna er blóðmeraiðnaðurinn svarti blettur búfjáreldis – Hluti II
Kjarninn 23. september 2021
Segist hafa reynt að komast að því hvað konan vildi í gegnum tengilið – „Við náðum aldrei að ræða við hana“
Fyrrverandi formaður KSÍ segir að sambandið hafi frétt af meintu kynferðisbroti landsliðsmanna í gegnum samfélagsmiðla. Formleg ábending hafi aldrei borist.
Kjarninn 23. september 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna.
Fleiri kjósendur Sjálfstæðisflokks vilja Katrínu sem forsætisráðherra en Bjarna
Alls segjast 45,2 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins að þeir vilji fá formann Vinstri grænna til að leiða þá ríkisstjórn sem mynduð verður eftir kosningar.
Kjarninn 23. september 2021
Hugarvilla að Ísland sé miðja heimsins
Þau Baldur, Kristrún og Gylfi spjölluðu um Evrópustefnu stjórnvalda í hlaðvarpsþættinum Völundarhús utanríkismála.
Kjarninn 23. september 2021
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands – Þáttur 4: Byggir Evrópustefna íslenskra stjórnvalda á áfallastjórnun?
Kjarninn 23. september 2021
Rósa Björk Brynjólfsdóttir
Kosningarnar núna snúast um loftslagsmál
Kjarninn 23. september 2021
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar