Óánægja NATO í garð Dana er ekki ný af nálinni. Yfirstjórn bandalagsins hefur árum saman gagnrýnt dönsk stjórnvöld fyrir að standa ekki við gefin loforð um aukin framlög til hermála. Danskir fréttaskýrendur segja gagnrýni NATO, í skýrslu sem birt var sl. þriðjudag, óvenjulega beinskeytta og harða. Það bendi til að þolinmæði yfirstjórnar bandalagsins sé á þrotum.
Í skýrslunni segir að Danmörk hafi árum saman dregist aftur úr öðrum ríkjum Atlantshafsbandalagsins varðandi hernaðaruppbyggingu og ekki fyrirséð að í þeim efnum verði snúið við blaðinu.
Þrennt sem er brýnast
Skýrsluhöfundar NATO benda á þrennt sem þeir segja brýnast fyrir Dani.
Í fyrsta lagi er gagnrýnt að Danir fari sér alltof hægt við að koma á fót svokölluðum þungvopnuðum hersveitum þrátt fyrir loforð um slíkt. Ekkert bóli á stórum skriðdrekum sem Danir hafi lýst yfir að „séu á leiðinni“.
Í öðru lagi séu Danir langt á eftir áætlun með uppbyggingu ratsjárstöðva, sem séu æ mikilvægari hlekkir í eftirliti NATO. Í áætlun bandalagsins, sem Danir hafi samþykkt, sé gert ráð fyrir tveimur nýjum eftirlitsflugvélum danska hersins, búnum fullkomnasta radarbúnaði. Ekkert bóli á þeim.
Þar er einnig nefnt að það verði í fyrsta lagi árið 2024 sem Seahawk þyrlur danska hersins verði búnar tundurskeytum gegn kafbátum. Árið 2012, þegar ákvörðun um kaup á þyrlunum var tekin ákvað danska þingið, Folketinget, í sparnaðarskyni, að þær skyldu ekki bera sérstakan búnað til að geta skotið áðurnefndum tundurskeytum. Að kaupa þennan búnað eftir á kostar mun meira en ef hann hefði fylgt þyrlunum frá upphafi.
Skortir framtíðarsýn
Sérfræðingar NATO segja danska herinn skorta framtíðarsýn, langtímaáætlun. Peter Viggo Jakobsen, danskur hernaðarsérfræðingur, tekur undir það. „Núgildandi samkomulag um fjárveitingar og stefnu í hernaðar- og varnarmálum gildir til ársins 2024. Það er ekki langur tími og við vitum ekkert hvað þá tekur við“ sagði hann í viðtali við dagblaðið Berlingske.
Skýrsluhöfundar NATO segja danska herinn alls ófæran um að taka þátt í nútíma hernaði, eins og það er orðað. Og miðað við stöðuna nú sé alls óljóst hvenær þar verði breyting á.
Ógnin úr austri
Í skýrslunni frá NATO er vakin athygli á að þegar danska þingið gekk frá samkomulagi (forlig) varðandi danska herinn, sem gildir til 2024 voru þingmenn sammála um að hernaðarógnin sem steðji að Danmörku sé nú meiri en nokkru sinni frá falli Berlínarmúrsins. Og að NATO væri hornsteinn í vörnum Danmerkur. Í samstarfssáttmála Sameinuðu þjóðanna segir að komi til þess að árás verði gerð á eitt aðildarríkjanna skuli viðkomandi ríki (Ísland er þarna undanskilið) vera fært um að verja sig þangað til liðsauki berist frá öðrum NATO ríkjum. Það geta Danir ekki að mati áðurnefnds Peter Viggo Jakobsen. „Það er ekki líklegt að Rússar ráðist á Danmörku, og ef til þess kæmi myndu herir NATO ríkja bregðast hratt við.“
Varnarmálaráðherrann segir NATO líta framhjá mikilvægu atriði
Í bréfi sem Trine Bramsen skrifaði varnarmálanefnd þingsins segir hún að í skýrslu sinni líti NATO framhjá einu mjög mikilvægu atriði. Danskir hermenn, herskip og flugvélar sem sinni eftirliti á mjög stóru hafsvæði umhverfis Grænland sé ekki talið með í skýrslunni frá Brussel. Það skekki myndina að mati ráðherrans.
Dönskum þingmönnum brugðið við gagnrýnina
Þótt gagnrýni NATO hafi ekki beinlínis komið dönskum þingmönnum á óvart urðu þeir undrandi á hve harðorðir skýrsluhöfundar voru. Þingmenn stjórnarandstöðunnar í varnarmálanefnd þingsins hafa boðað Trine Bramsen varnarmálaráðherra á fund nefndarinnar. Þeir vilja að ráðherrann leggi fram áætlun til úrbóta, hvernig danska stjórnin hyggist bregðast við gagnrýni NATO. Hvernig eigi að sjá til þess að Danmörk verði ekki „tossinn í bekknum“ eins og einn þingmaður komst að orði.
Snýst um peninga
Eins og getið var um í upphafi þessa pistils er gagnrýni NATO ekki ný af nálinni, hún er hinsvegar harðorðari en áður.
Danskir fjölmiðlar hafa fjallað talsvert um skýrsluna síðan hún var gerð opinber fyrir tæpri viku. Stjórnmálaskýrendur segja að þótt stjórnarandstaðan vilji draga núverandi varnarmálaráðherra til ábyrgðar sé málið ekki svo einfalt. NATO hafi árum saman hamrað á því að framlög margra aðildarríkja, þar á meðal Danmerkur, til varnarmála séu of lág.
Á fundi æðstu stjórnenda NATO sem haldinn var í Wales árið 2014 var samþykkt að framlög aðildarríkjanna til varnarmála skyldu hækka í áföngum þannig að þau myndu árið 2023 nema að lágmarki tveimur prósentum af vergri landsframleiðslu. Mörg aðildarríki NATO, þar á meðal Danmörk hafa ekki staðið við þetta loforð. Hafa einfaldlega sagt sem svo að aukin framlög til hermála séu ekki forgangsatriði. Árið 2019 ( í stjórnartíð Venstre) samþykkti danska þingið að hækka árleg framlög til varnarmála um einn og hálfan milljarð danskra króna (33 milljarða íslenska) fram til ársins 2023. Það dugir þó ekki til að ná tveggja prósenta markinu, það hangir í einu og hálfu.
Trine Bramsen varnarmálaráðherra sagði í viðtali við dagblaðið Politiken að líklega væru allir þingmenn sammála um að auka framlög til varnarmála á næstu árum. Á vegum ríkisstjórnar Mette Frederiksen væri þegar hafin vinna við að móta framtíðarstefnu Danmerkur í öryggis- og varnarmálum. „Sú vinna tekur tíma enda er þar horft til framtíðar, til næstu áratuga“ sagði Trine Bramsen.