Sjálfstæðisflokkurinn er sá stjórnmálaflokkur á Íslandi sem fær langhæstu framlögin frá fyrirtækjum og einstaklingum. Alls fékk flokkurinn 49,5 milljónir króna í slík framlög á síðasta ári.
Það er meira en fimm flokkar sem sæti eiga á þingi, og Ríkisendurskoðun hefur lokið yfirferð á ársreikningi hjá, fengu samanlagt á árinu 2019. Þá námu styrkir lögaðila og einstaklinga ásamt félagsgjöldum hjá Framsóknarflokki, Samfylkingu, Vinstri grænum, Viðreisn og Miðflokknum samanlagt um 44,7 milljónum króna.
Þetta má lesa út úr ársreikningum þeirra sex flokka sem eiga fulltrúa á Alþingi sem þegar hafa verið birtir á vef Ríkisendurskoðunar. Stofnunin hefur enn ekki birt ársreikningi Pírata og Flokks fólksins.
Framlög lögaðila og einstaklinga til allra flokka hafa dregist verulega saman eftir að stjórnmálaflokkarnir ákváðu að hækka framlög til sín úr ríkissjóði um 127 prósent í lok árs 2017. Sú ákvörðun fulltrúa allra flokka á þingi nema Pírata og Flokks fólksins hækkaði framlög úr ríkissjóði vegna ársins 2018 úr 286 í 648 milljónir króna. Í fyrra fengu flokkarnir átta svo 744 milljónir króna og árin 2020 og 2021 verður framlagið um 728 milljónir króna á hvoru ári fyrir sig. Samtals munu þeir átta flokkar sem eiga sæti á þingi því fá rúmlega 2,8 milljarða króna í framlög úr ríkissjóði á kjörtímabilinu. Við þá upphæð bætast framlög frá sveitarfélögum og bein framlög frá Alþingi.
Vert er að hafa í huga að kosningar voru þrjú ár í röð: 2016, 2017 og 2018. Tvívegis var kosið til þings og einu sinni til sveitarstjórna. Á kosningaárum má búast við að framlög frá lögaðilum og einstaklingum séu hærri en ella.
Framlögin lækka milli ára
Sjálfstæðisflokkurinn, stærsti flokkur landsins, hefur alla tíð verið duglegastur við að safna framlögum frá fólki og fyrirtækjum. Árið 2018 námu slík framlög til að mynda 71,4 milljón krónum og ári áður, 2017, voru þau tæplega 60 milljónir króna. Þau lækka því umtalsvert milli ára.
Vinstri græn fengu samtals um 9,5 milljónir króna í framlög frá einstaklingum og lögaðilum á árinu 2019. Þar af komu um 9,2 milljónir króna frá einstaklingum en einungis 300 þúsund krónur frá þremur fyrirtækjum. Internet á Íslandi gaf Vinstri grænum 150 þúsund krónur, verkfræðistofan Efla gaf flokknum 100 þúsund krónur og Samherji Ísland ehf. gaf honum 50 þúsund krónur.
Þetta er mikil breyting frá fyrri árum, en 2018 gáfu lögaðilar og einstaklingar flokknum 14,2 milljónir króna. Þar af komu 3,3 milljónir króna frá fyrirtækjum. Árið 2017 nam sú upphæð sem kom frá fólki og fyrirtækjum alls rúmlega 20 milljónum króna.
Samfylkingin fékk næst mest
Samfylkingin fékk næst hæst framlög frá fyrirtækjum og einstaklingum á árinu 2019, eða alls 16,5 milljónir króna. Það er mun minna en flokkurinn fékk frá slíkum árin 2018 (um 27 milljónir króna) og 2017 (43,7 milljónir króna).
Meginþorri framlaga til flokksins í fyrra var frá einstaklingum, annað hvort í formi beinna fjárframlaga eða flokksgjalda, eða um 15 milljónir króna. Framlög frá lögaðilum voru einungis fimm. Mest gaf útgerðarfyrirtækið Brim hf., eða 550 þúsund krónur, og útgerðarfyrirtækið Þorbjörn gaf 400 þúsund krónur. Alþýðuhús Reykjavíkur gaf 300 þúsund krónur, Sigfúsarsjóður 200 þúsund krónur og Deloitte ehf. 50 þúsund krónur.
Viðreisn fékk alls um 4,7 milljónir króna í framlög frá fólki og fyrirtækjum á síðasta ári. Ári áður fékk flokkurinn 9,8 milljónir króna. Þetta er ansi langt frá þeim framlögum sem flæddu inn til Viðreisnar á fyrstu tveimur árunum eftir að flokkurinn var stofnaður. Árið 2016 námu framlögin 26,8 milljónum króna og árið 2017 voru þau 21,4 milljónir króna.
Framsókn fékk tólf sinnum meira 2018
Miðflokkurinn fékk alls 7,5 milljónir króna í framlög frá einstaklingum og fyrirtækjum á árinu 2019. Það er meira en flokkurinn fékk á fyrsta heila starfsári sínu ári áður, þegar slík framlög voru 5,9 milljónir króna. Tvö útgerðarfyrirtæki, Síldarvinnslan og Brim, gáfu Miðflokknum hámarksframlag upp á 550 þúsund krónur í fyrra og þriðja útgerðarfyrirtækið, Þorbjörn, gaf honum 400 þúsund krónur.
Framsóknarflokkurinn fékk 810 þúsund krónur frá lögaðilum í fyrra og framlögin voru einungis fimm. Mest gaf félagið Best Hús, í eigu Jóns Rúnars Halldórssonar, eða 300 þúsund krónur. Kaupfélag Skagfirðinga og KS verktakar gáfu sitthvorar 200 þúsund krónurnar og aðrir minna. Það er mikill samdráttur frá árinu 2018 þegar framlög frá lögaðilum voru 9,5 milljónir króna, eða næstum tólf sinnum hærri en í fyrra. Árið 2017 voru þau 8,4 milljónir króna.