SSB Orka, sem áformar að virkja Svartá í Bárðardal, hefur ekki haft samband við sveitarstjórn Þingeyjarsveitar og óskað eftir því að virkjunin verði færð inn á aðalskipulag eftir að álit Skipulagsstofnunar á framkvæmdinni lá fyrir um áramót. Stjórnarformaður félagsins, Heiðar Guðjónsson, hefur ekki svarað ítrekaðri fyrirspurn Kjarnans um næstu skref málsins. Skipulagsstofnun telur niðurstöður umhverfismatsins gefa tilefni til að endurskoða áform um að gera ráð fyrir virkjuninni á aðalskipulagi.
Stofnunin komst að því að umhverfisáhrifin í heild yrðu verulega neikvæð. Það er allt önnur niðurstaða en SSB Orka komst að í matsskýrslu sinni: Að Svartárvirkjun væri ekki líkleg til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér.
Í áliti Skipulagsstofnunar er fjallað um ýmsa vankanta í matsskýrslu SSB Orku og kemur fram að „á köflum virðist umfjöllun framkvæmdaaðila þar miða að því að draga úr mikilvægi áhrifasvæðis framkvæmdarinnar og mögulegum áhrifum framkvæmdarinnar“.
Höfundar álitsins, Ásdís Hlökk Theodórsdóttir forstjóri Skipulagsstofnunar og Egill Þórarinsson sviðsstjóri á umhverfismatssviði, tala m.a. um að vinnubrögðin séu „aðfinnsluverð“, að um „vanmat“ sé að ræða og að ákveðin efnistök kasti „rýrð á trúverðugleika matsskýrslunnar“. Dæmi séu um að niðurstöður athugana sérfræðinga um möguleg neikvæð áhrif séu ekki reifaðar og að óvissa um áhrif vegna takmarkaðra upplýsinga sé ekki túlkuð af varúð í samræmi við aðstæður.
Sjötíu athugasemdir bárust við frummatsskýrslu SSB Orku árið 2017 og ljóst að virkjanahugmyndin er umdeild. Þá hefur verið deilt um lagningu raflína frá henni og leigu ríkisins á vatnsréttindum jarðar í þess eigu.
Bara mjög vont mál
„Svartárvirkjun mun kljúfa samfélagið í Bárðardal, ef það hefur ekki þegar verið gert,“ er haft eftir Dagbjörtu Jónsdóttur sveitarstjóra og Arnóri Benónýssyni oddvita Þingeyjarsveitar, í nýlegri skýrslu Rannsóknarmiðstöðvar Háskólans á Akureyri um samfélagsleg áhrif virkjana sem unnin var í tengslum við fjórða áfanga rammaáætlunar sem enn er í vinnslu. „Landeigendur sem hafa bara efnahagslegan hag af því að hún eigi sér stað, þeir eru auðvitað fylgjandi henni. Meðan aðrir sem að sjá frekari uppbyggingu í ferðaþjónustu eða einhverju slíku eru á móti henni. Og það er alveg svona nágrannadæmi [...], Svartárvirkjun er bara mjög vont mál.“
Í landi fjögurra jarða
Uppsett afl Svartárvirkjunar yrði 9,8 MW og áætluð orkuvinnsla 78,6 GWh á ári. Helstu mannvirki eru stöðvarhús, aðrennslispípa, jöfnunarþró og sambyggð stífla og inntak, auk frárennslisskurðar og aðkomuvega. Virkjunarsvæðið er í landi fjögurra jarða; Stóru-Tungu, Víðikers, Bjarnastaða og Rauðafells.
SSB Orka er í eigu Svartárvirkjunnar ehf. Eigendur þess félags eru Ursus ehf. (í eigu Heiðars Guðjónssonar) sem á 42,9 prósent, Íslandsvirkjun ehf. (í jafnri endanlegri eigu Péturs Bjarnasonar og Auðuns Svafars Guðmundssonar) sem á 50 prósent og Íshóll (í eigu Stefáns Ákasonar) sem á 7,10 prósent.
Svartá er lindá sem á uppruna sinn í Svartárvatni og er vatnsmest þveráa Skjálfandafljóts. Lindár eru fyrir margar sakir sérstakar á Íslandi hvað varðar eðlis- og efnaeiginleika sem og vatnafræðilega eiginleika. Lindavötn finnast auk þess óvíða annars staðar í heiminum en á Íslandi. Ætla má að um 10 prósent af ám landsins falli í flokk lindáa og Svartá er með þeim vatnsmestu. Hún flæðir meðfram grónum bökkum um fossa, gil og flúðir um landslag þar sem gróskumiklir árbakkar kallast á við hrjóstrugt heiða- og hraunlandslag.
Við Svartá og Suðurá þrífst lífríkt fuglalíf og eru einkennistegundir vatnasviðsins húsönd og straumönd. Ísland er eina heimkynni tegundanna í Evrópu og eru þær ábyrgðartegundir Íslands og á lista Bernarsamningsins yfir tegundir sem ber að vernda.
Nokkuð er síðan félagið SSB Orka hóf að stefna á virkjun Svartár. Eftir nokkurra ára undirbúning kom verkefnið inn á borð Skipulagsstofnunar í lok árs 2015 og í byrjun þess næsta ákvað stofnunin að framkvæmdin skyldi háð mati á umhverfisáhrifum. Frummatsskýrsla var auglýst árið 2017 og í lok desember í fyrra var svo komið að Skipulagsstofnun að gefa út álit sitt. Og það var nokkuð svart.
Þegar matsskýrslan er borin saman við álitið má glöggt sjá þann mikla mun á mati á áhrifum hinnar fyrirhuguðu virkjunar á ákveðna þætti.
Áhrif á vatnalíf
SSB Orka: Áhrif framkvæmdar á vatnalíf verða nokkuð til talsvert neikvæð að teknu tilliti til mótvægisaðgerða.
Skipulagsstofnun: Þrátt fyrir boðaðar mótvægisaðgerðir, sem jafnframt ríkir óvissa um að muni skila tilætluðum árangri, mun Svartárvirkjun hafa verulega neikvæð áhrif á lífríki Svartár.
Áhrif á gróður
SSB Orka: Heildaráhrif á gróður eru metin nokkuð til talsvert neikvæð, staðbundin og óafturkræf á virkjunarsvæðinu, en óveruleg til nokkuð neikvæð þegar horft er til stærra svæðis.
Skipulagsstofnun: Áformin fela í sér skerðingu á votlendi þar sem aðrennslispípa liggur á kafla í gegnum hallamýri. Hallamýrin nýtur sérstakrar verndar skv. lögum um náttúruvernd. Ekki komi fram hvaða brýnu hagsmunir liggi að baki og þarf framkvæmdaaðili að leggja fram nýja leið fyrir aðrennslispípu og veg þar sem leitast er við að draga eins og kostur er úr raski á votlendissvæði. Engu að síður muni mannvirki virkjunarinnar hafa í för með sér talsverð neikvæð áhrif á gróður.
Áhrif á fugla
SSB Orka: Framkvæmdirnar geta haft staðbundin áhrif og breytt dreifingu húsanda. Í ljósi þess að um mikilvægt fuglasvæði er að ræða fyrir tegundina eru þau metin talsvert neikvæð á áhrifasvæðinu en nokkuð neikvæð á vatnasviðinu. Áhrif á straumendur verði varanleg og nokkuð neikvæð á áhrifasvæðinu en óveruleg utan þess.
Skipulagsstofnun: Þrátt fyrir boðaðar mótvægisaðgerðir er Svartárvirkjun líkleg til að hafa verulega neikvæð áhrif á fugla. Það er „aðfinnsluvert af hálfu framkvæmdaraðila að halda því fram“ að áhrifasvæði virkjunarinnar sé sá hluti árinnar sem sé síst mikilvægur fyrir húsönd. Í svörum við athugasemdum segir framkvæmdaraðili að fullyrðingin sé byggð á skýrslu Náttúrustofu Norðausturlands frá 2015 sem byggði á rannsóknum frá árinu 2012 auk þess sem vísað er til þess að við heildartalningu í júní 2016 hafi svæðið verið með einna minnst af húsönd. „Framkvæmdaraðili skautar hinsvegar framhjá niðurstöðum talningar að vori 2016 þegar mun fleiri húsendur voru innan áhrifasvæðis virkjunarinnar og þeirra ályktana sem Náttúrustofan dregur af þeim talningum.“
Áhrif á landslag og ásýnd
SSB Orka: Landslagið á svæðinu hefur miðlungs gildi fyrir fjölbreytileika, upplifun og verndargildi. Framkvæmdirnar koma ekki til með að skerða fjölbreytileika landslagsins en raska lítillega svæði sem heyra undir sérstaka vernd eins og votlendi og nútímahraun. Með tilliti til mótvægisaðgerða eru áhrif á landslag metin nokkuð neikvæð, staðbundin og afturkræf.
Skipulagsstofnun: Virkjun Svartár kæmi til með að hafa talsvert neikvæð staðbundin áhrif á landslag og ásýnd. Hún myndi hafa neikvæð áhrif á aðdráttarafl árinnar og umhverfi hennar á því svæði sem áhrifa gætir.
Umfjöllun í matsskýrslu um gildi svæðisins með tilliti til landslags er „ekki sannfærandi“. Aðferðarfræðin við matið er ekki útskýrð og umfjöllunin ekki til þess fallin að draga fram sérkenni landslagsins eða gildi þess. Stofnunin telur framkvæmdaraðila vanmeta gildi landslags og nærumhverfis Svartár.
Áhrif á ferðamennsku og útivist
SSB Orka: Áhrif Svartárvirkjunar á ólíka hópa ferðamanna geta verið frá því að vera óveruleg og allt að talsvert neikvæð.
Skipulagsstofnun: Gildi Bárðardals fyrir náttúruferðamennsku mun rýrna ef af virkjun verður. Öll ferðamennska og ferðaþjónusta sem nú er stunduð í Bárðardal verður fyrir neikvæðum áhrifum af fyrirhugaðri virkjun.
Áhrif á samfélag
SSB Orka: Áhrif á samfélagið eru talin verða nokkuð jákvæð á framkvæmdatíma vegna aukinna umsvifa en möguleg neikvæð áhrif verða vegna aukins álags á innviði. Á rekstrartíma verða áhrif óveruleg til nokkuð jákvæð.
Skipulagsstofnun: Í athugasemdum við frummatsskýrslu, sem skiptu tugum, komu fram þau sjónarmið að áform um virkjun Svartár hefðu skapað ósætti meðal íbúa Þingeyjarsveitar. Er það í samræmi við það sem kom fram í rannsókn Rannsóknamiðstöðvar Háskólans á Akureyri (RHA) á samfélagslegum áhrifum virkjana í 4. áfanga rammaáætlunar. Í rannsókninni var gagna aflað með einstaklings- og rýnihópaviðtölum.
Virkjun Svartár mun mögulega hafa áhrif á samheldni íbúa nærsamfélagsins. „Af frásögnum íbúa í Suður-Þingeyjarsýslu og Austur-Húnavatnssýslu settu harðvítugar deilur í aðdraganda Laxárvirkjunar III og Blönduvirkjunar mark sitt á samfélögin í mörg ár,“ segir í skýrslu RHA. „Í báðum tilvikum var um sveitarsamfélög að ræða þar sem nánd og samheldni er talin einkenna samskipti í meira mæli en í borgarsamfélögum og fólk þarf að vinna saman að ýmsum verkefnum. Klofningur og ósætti veikja samfélögin og getur tekið langan tíma að endurheimta traust og eðlileg samskipti á milli deiluaðila. Í einstaka tilvikum virðist aldrei gróa um heilt á milli manna af sömu kynslóð og deilurnar geta smitast yfir á samskipti barna þeirra sem deila.“
Samlegðaráhrif við Hrafnabjargavirkjun
Í þingsályktunartillögu að þriðja áfanga rammaáætlunar, sem enn liggur fyrir þinginu, er lagt til að vatnasvið Skjálfandafljóts verði verndað. Þar vildi Landsvirkjun reisa Hrafnabjargavirkjun og voru þrjár útfærslur hennar sendar til umsagnar verkefnisstjórnar rammaáætlunar á sínum tíma og eru þær í biðflokki 2. áfanga hennar.
Skipulagsstofnun bendir í áliti sínu á samlegðaráhrifin með þessum tveimur virkjanahugmyndum; Svartárvirkjun og Hrafnabjargavirkjun. En þar sem sú fyrrnefnda er undir 10 MW þarf hún ekki að fara í gegnum ferli rammaáætlunar sem sýnir að mati stofnunarinnar veikleika þessara stærðarforsenda. „Hér er um að ræða virkjun undir þeim stærðarmörkum sem mun að mati Skipulagsstofnunar hafa verulega neikvæð umhverfisáhrif og tilefni hefði verið til að meta með öðrum virkjunarkostum í rammaáætlun [...].“
Nánast vígvöllur í virkjanadeilu
Í Þingeyjarsveit eru fyrir Laxárvirkjanir sem reistar voru á árunum 1939-1973. Í skýrslu RHA segja sveitungar sem sátu í rýnihópum að ekki hafi komið til mikilla deilna vegna þeirra fyrstu en allt aðra sögu hafi verið að segja um Laxárvirkjun III. Deilurnar um hana voru einkar illvígar „og nánast vígvöllur hérna“ í 6-7 ár, er haft eftir einum íbúa, þar til gerð var sáttargjörð um lausn Laxárdeilunnar árið 1973.
Svo erfið var sú deila mörgum að sárin erfðust í raun á milli kynslóða. „Ég kannast alveg við að hafa alist upp og menn voru að takast á, bara fáránlegt, bara út af því hvar feður þeirra voru í þeirri deilu,“ sagði einn af yngri íbúum sem ræddi við skýrsluhöfunda.
Jákvæðni í garð Þeistareykjavirkjunar
Í Þingeyjarsveit er einnig ein yngsta virkjun landsins: Þeistareykjavirkjun. Deilur um hana voru ekki miklar í sveitarfélaginu, að minnsta kosti ekki opinberlega. Á því var hamrað, að sögn eins íbúans sem rætt er við í skýrslu RHA, að hún ætti að nýtast íbúum í Þingeyjarsýslu og á Húsavík og „það náttúrlega gerði fólk jákvæðara gagnvart henni“.
Virkjunin var að frumkvæði heimamanna og einnig er sveitarfélagið landeigandi sem hafði líka sitt að segja. Í viðtali við oddvita og sveitarstjóra Þingeyjarsveitar í RHA-skýrslunni kom fram að Þingeyingar hefðu tekið ákvörðun um að „fórna Þeistareykjum fyrir virkjun sem átti að verða til atvinnuuppbyggingar í héraði. Þetta er mjög heilagur staður fyrir marga …“
Gjaldþrota án Þeistareykjavirkjunar
Á þessum tíma, rétt fyrir aldamót, var staða sveitarfélagsins slæm og fólksfækkun mikil. „… það er engin launung á því og má alveg segja það upphátt, að ef ekki hefði verið farið í Þeistareyki og við hefðum ekki getað selt Þeistareyki til Landsvirkjunar þá hefði Þingeyjarsveit verið gjaldþrota í dag,“ er haft eftir oddvita og sveitarstjóra í skýrslu RHA.
Sveitarstjórnarfólkið segir einnig að áformin hafi verið vel kynnt fyrir íbúum, samráð haft við þá og tillit tekið til athugasemda staðkunnugra heimamanna um hvað mætti betur fara. Ekki sé hægt lengur að byggja virkjun án svo ítarlegs samtals. Það segist hins vegar hafa áhyggjur af áformum um virkjanir sem mæti andstöðu. Í þannig málum lendi sveitarstjórnir í klemmu á milli landeigenda sem vilja semja við virkjunaraðila og vilja annarra íbúa. Er annars vegar talað um að Svartárvirkjun sé „heit kartafla núna“ og að í ljósi aukins áhuga á smávirkjunum sé óskastaðan að sveitarfélög geti ákveðið hvar megi virkja og hvar ekki – sama hversu lítil virkjunin er að afli.
Vitið þið ekki að það á að sökkva þessum dal?
Reynslan af þessum tveimur virkjanahugmyndum; Laxárvirkjunar III annars vegar og Þeistareykjavirkjunar hins vegar, ætti að sýna fram á nauðsyn góðs samráðs við íbúa viðkomandi sveitarfélags. Einn eldri íbúi í Þingeyjarsveit tók dæmi af hinu litla samráði við heimamenn þegar Laxárvirkjun III var í pípunum: „1967 og 8 þá frétta þeir það bændur í Laxárdal tveir sem að sækja um lán hjá stofnlánadeild Landbúnaðarins til þess að stækka helvítis fjárhúsin eða hlöðuna eða eitthvað. Þá er þeim sagt það: Nei, það kemur ekki til greina. Vitið þið ekki að það á að sökkva þessum dal?”
Álitið grundvöllur ákvarðanatöku
Dagbjört sveitarstjóri Þingeyjarsveitar, segir við Kjarnann að ekki sé gert ráð fyrir Svartárvirkjun á gildandi aðalskipulagi og að SSB Orka hafi ekki óskað eftir því frá því að álit Skipulagsstofnunar lá fyrir. Álitið var tekið fyrir á fundi sveitarstjórnar fyrir helgi og vísað til kynningar í umhverfis- og skipulagsnefnd. „Eðlilegt er að sveitarfélagið bíði eftir viðbrögðum framkvæmdaaðila eða kalli eftir afstöðu framkvæmdaaðila og ef óskað verður eftir breytingu á aðalskipulagi mun sveitarstjórn taka ákvörðun og í framhaldinu afgreiða málið,“ segir Dagbjört. „Álit Skipulagsstofnunar ætti að fela í sér betri grundvöll til ákvarðanatöku þegar og ef til þess kemur.“