Horfur eru á því að handbært fé Strætó bs. verði uppurið á fyrstu mánuðum ársins, en Strætó gerir ráð fyrir að taka 400 milljónir króna að láni í vor til þess að fleyta sér í gegnum árið. Lítið má út af bregða til þess að félagið geti ekki sinnt samningsbundinni þjónustu sinni við ríki og sveitarfélög.
Þetta er á meðal niðurstaðna í fjármálagreiningu sem Strætó bs. fékk ráðgjafarsvið KPMG til þess að vinna fyrir sig vegna þeirra stöðu sem byggðasamlagið er komið í sökum COVID-19 faraldursins, en farþegatekjur hafa hrunið í faraldrinum og voru um 800 milljónum lægri en áætlun fyrir árið 2020 gerði ráð fyrir. Rekstrartap Strætó nam yfir hálfum milljarði vegna þessa.
Jóhannes Svavar Rúnarsson framkvæmdastjóri Strætó fékk í lok síðasta árs heimild hjá stjórn til þess að taka allt að 300 milljón króna yfirdráttarheimild til þess að mæta lausafjárstöðu fyrirtækisins til skamms tíma. Hann segir við Kjarnann að umræður um hvernig skuli takast á við fjárhagsstöðuna fari þessa dagana fram á meðal eigenda Strætó, sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu.
Fjármálagreining KPMG er dagsett 25. janúar og var kynnt fyrir stjórn Strætó á síðasta fundi hennar, 29. janúar. Hún hefur ekki verið gerð opinber, en Kjarninn fékk skjalið afhent frá Strætó.
Fargjaldatekjur í ár verði um 80 prósent af tekjum ársins 2019
Samkvæmt áætlunum sem þar eru til umfjöllunar er ekki gert ráð fyrir því að farþegatekjur nái sömu hæðum og árið 2019 fyrr en á næsta ári. Í ár er gert ráð fyrir því að þær verði um 80 prósent af farþegatekjum ársins 2019. Veruleg óvissa þykir um þróunina næstu misseri og það hversu lengi áhrifa COVID-faraldursins kemur til með að gæta.
Samkvæmt greiningu KPMG er mikilvægt að Strætó hafi aðgengi að um 300 milljónum króna í handbæru fé á hverjum tíma til þess að mæta stærstu útgjaldaliðum innan mánaðar.
Ef ekki yrði tekið 400 milljón króna lán núna á næstu mánuðum yrði sjóðstaðan hins vegar komin við núllið í mars og orðin neikvæð í apríl. Með lántöku í apríl er hins vegar gert ráð fyrir að sjóðstaðan verði jákvæð allt árið og standi í um 250 milljónum króna undir lok árs.
Lítil fjárfestingageta og flotinn gamall
Í greiningu KPMG segir að aldurssamsetning strætisvagnaflota Strætó kalli ýmist á miklar fjárfestingar á næstu árum eða aukna útvistun aksturs til einkaaðila, en þegar í dag er um helmingur af öllum akstri Strætó í höndum verktaka.
Mikil uppsöfnuð endurnýjunarþörf er til staðar, en Strætó á tvo vagna sem voru keyptir inn á aldamótaárinu 2000. Þeir eru ekki notaðir mikið, að sögn framkvæmdastjórans. Alls 28 vagnar af alls 88 í flotanum voru keyptir inn fyrir árið 2010 og meðalaldur þeirra er um 16 ár.
Heilt yfir er meðalaldur vagnanna um 9 ár, en Strætó telur eðlilegt viðmið til lengri tíma að notast ekki við vagna í meira en 10 ár og að meðalaldur flotans á hverjum tímapunkti sé um 5 ár. Ekki hefur verið keyptur nýr vagn síðan árið 2019 og engin vagnakaup á áætlun í ár.
Það er vont að nota gamla strætisvagna, því þá þarf að vera aukinn fjöldi varavagna til staðar vegna tíðra bilana. Í dag eru 26 varavagnar í flota Strætó eða um það bil 30 prósent af heildarflotanum. Strætó telur eðlilegt að þetta hlutfall ætti að vera nær 12-15 prósentum. Til þess að svo geti verið þarf flotinn hins vegar að vera yngri.
Nýir vagnar eru dýrir og KPMG teiknar upp mynd sem sýnir að fjárfestingageta Strætó er afar takmörkuð. Samkvæmt greiningu þeirra hefur Strætó miðað við óbreyttar rekstrarhorfur ekki burði til að fara í þær fjárfestingar sem þarf til að yngja upp flotann nema að „til kæmu veruleg framlög frá sveitarfélögum eða hinu opinbera.“
Áætlað er að sveitarfélögin sem eiga Strætó muni leggja fyrirtækinu til um 4,33 milljarða króna á þessu ári og til viðbótar er gert ráð fyrir 900 milljóna króna framlagi úr ríkissjóði. Áætlað er að farþegatekjur nemi 1,67 milljörðum á þessu ári og auk þess er áætlað að Strætó fái rösklega 1,6 milljarða króna í tekjur fyrir að sinna akstursþjónustu fatlaðra.
KPMG gefur sér að hver nýr strætisvagn kosti 63 milljónir króna. Því myndi kosta 880 milljónir að endurnýja þá 28 vagna sem eru eldri en 10 ára og svo myndi kosta um 1,5 milljarða til viðbótar að endurnýja þá 33 vagna sem keyptir voru á árunum 2013 og 2014. Þá var ráðist í umfangsmikla endurnýjun flotans í kjölfar þess að einungis einn strætisvagn var keyptur frá 2008-2012 í kjölfar hruns.
Ekki er útlit fyrir að Strætó hafi efni á því að ráðast í annað slíkt átak að óbreyttu. KPMG telur á að ávinningur gæti falist í að útvista akstri í auknum mæli, meðal annars þar sem „komist yrði hjá verulegri fjárbindingu í nýjum vögnum.“ Ráðgjafar KPMG telja þörf á að móta skýra stefnu um þetta og setja á fót aðgerðaáætlun til þess að fylgja þeirri stefnu eftir.
Tímafrekt að bjóða út akstur
Jóhannes Svavar framkvæmdastjóri segir við Kjarnann að þær ábendingar sem KPMG kom með séu til skoðunar, en bendir á að það sé „tímafrekur prósess“ að bjóða aksturinn út til verktaka og það sé ekki eitthvað sem leysin málin til skemmri tíma.
Hann segir enn fremur að pólitísk stefnumörkun eigendanna ráði för hvað þetta varðar, en bendir um leið á að í flestum öðrum norrænum höfuðborgum sé allur aksturinn í strætisvagnakerfinu aðkeyptur.
Unnið út frá því að Borgarlína og Strætó verði eitt fyrirtæki
Á næstu árum mun Borgarlína tvinnast inn í almenningssamgöngurnar á höfuðborgarsvæðinu og taka yfir stofnleiðir Strætó, eina af annarri. Blaðamaður spurði Jóhannes hvort einhver ákvörðun hefði verið tekin um að fresta því að endurnýja vagnaflota Strætó þar til Borgarlínan komi inn í kerfið, en svo segir hann ekki vera.
Ráðgert er að vagnar Borgarlínu verði á bilinu 18-24 metra langir. Þá vagna mun þurfa að kaupa og svo reka, en ekki er búið að ákveða hvernig því eða rekstrinum á almenningssamgöngum höfuðborgarsvæðisins verður nákvæmlega háttað til framtíðar. Jóhannes segir þá umræðu í gangi núna, það sé svona næsta verkefni á eftir útgáfu frumdragaskýrslunnar að fyrstu lotu Borgarlínu, að fara að leggjast yfir það.
Hann segir að innan Strætó sé gengið út frá því að um eitt fyrirtæki verði að ræða. Hvort rekstrareiningin muni svo heita Borgarlína, Strætó eða eitthvað annað verði að ákveða á pólitískum vettvangi eigendanna.
Lesa meira
-
18. október 2022Næturstrætó er hættur akstri
-
27. september 2022Strætómiðinn upp í 550 krónur – Gjaldskráin hækkuð um 12,5 prósent
-
2. apríl 2022Ætti Strætó að losa sig við aksturshattinn?
-
17. nóvember 2021Upplýsingafulltrúi Strætó afruglar Morgunblaðið
-
3. september 2021Tæknivarpið – HBO Max til Íslands og nýtt greiðslukerfi Strætó