Fárviðri suðvestanlands – við hverju má búast?
Illviðrið sem gekk yfir Suðvesturland í febrúar árið 1991 og olli gríðarlegu tjóni á höfuðborgarsvæðinu kom að óvörum því ekki hafði tekist að spá fyrir um hversu svakalegt það yrði. Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur fjallar um hamfaraveðrið og bendir á að mörg ný hverfi hafa ekki enn orðið fyrir þeirri vindáraun sem mest getur orðið.
Í fyrri umfjöllun um illviðri suðvestanlands, sem birt var í Kjarnanum 14. febrúar, var sjónum beint að svokölluðu Engihjallaveðri sem olli miklu foktjóni 16. febrúar 1981. Tíu árum seinna gerði áþekkt fárviðri 3. febrúar 1991. Eignatjón í því veðri var meira ef eitthvað var. Ekkert þeirra óveðra á síðari árum suðvestanlands komast í hálfkvisti við þessi tvö. Litlu mátti þó muna í illviðri 14. mars 2015. Sú lægð var áþekk, reyndar ekki eins djúp. Leið hennar lá einnig fyrir vestan land.
Munurinn var hins vegar sá að miðjan var lengra frá landi og þar með mesta vindröstin. Samt hlutust af talsverðir fokskaðar og hundruð tjóna tilkynnt. 10 mínútna meðalvindur mældist mestur á Reykjavíkurflugvelli í 31,7 m/s samanborið við 40,7 m/s árið 1991. Sá samanburður er kannski ekki sanngjarn því vindmælirinn var áður í heldur meiri hæð. Hann var líka af annarri gerð og átti það jafnframt til að ofmeta vindinn lítið eitt. Samanburður mælinga er því ekki eins einfaldur og ætla mætti, jafnvel þótt mælt sé á sama stað.
Hvellurinn sunnudaginn 3. febrúar 1991 er mörgum afar eftirminnilegur. Sjálfur var ég úti í Noregi að klára veðurfræðinámið þennan vetur, en fylgdist með beinni fréttaútsendingu útvarps með sérstöku stuttbylgjutæki. Myndskeiðið fræga af bílnum sem tókst á loft við bensíndæluna í Keflavík var síðan sýnt í norsku fréttunum daginn eftir. Kristján Már Unnarsson, sem kalla má með réttu hamfarafréttamann Íslands, var heima hjá sér í blokk í Háleitishverfinu. Hann hélt að gluggarnir áveðurs færu og sagðist aldrei hafa skynjað jafn áþreifanlega afl vindsins. Klárlega mesta ógn af veðri sem hann man eftir inni í borg eins og hann orðaði það.
Listinn yfir tjón er langur og í rannsókn á foksköðum á vegum Rannsóknarstofnunar byggingariðnaðarins var áætlað að fárviðrið hefði valdið tjóni á 4.550 húseignum, frá Eyjafjöllum, vestur og norður um allt austur á Bakkafjörð. Gríðarlegt tjón var á höfuðborgarsvæðinu og hvað mesta athygli vakti útvarpsmastrið á Vatnsendahæð sem féll í veðrinu. Þar með rofnuðu langbylgjuútsendingar á ögurstundu. Trausti Jónsson veðurfræðingur hefur tekið saman langan lista ásamt greinargóðri umfjöllun um óveðrið.
Lægðin var um 940 hPa þegar hún var hvað dýpst hér við landið. Endurgreining ERA5 segir 942,0 hPa kl. 12 og er það í góðu samræmi við mældan loftþrýsting á Keflavíkurflugvelli. Þar fór lægðarmiðjan yfir skömmu og á eftir suðaustan ofsaveðrinu um morguninn datt því allt í dúnalogn um stund. Sannkallað svikalogn því röstin með suðvestan átt sunnan lægðarmiðjunnar var ekki umflúin og með henni varð veðurhamurinn hvað verstur samfara lægðinni. Hvergi mældist meiri vindur en á Stórhöfða, 56,6 m/s (10 mín vindur), sem þá var mesta mælda veðurhæð á landinu. Á kortinu er sýndur vindhraði í 850 hPa þrýstifletinum, en hann gefur allgóða vísbendingu hvers megi vænta nær jörðu. Endurgreiningin gefur til kynna um og yfir 50 m/s og fyrr um morguninn mátti sjá 60-80 m/s undan Suðurlandi, en það er fáheyrður vindur í þessari hæð. Veðrinu var illa spáð og kom því að óvörum. Tölvuspár náðu ekki dýpkun lægðarinnar, en veðurfræðingar spáðu eins vel og kostur var eins og það var orðað í Morgunblaðinu.
Mat á tjóni
Forsíður blaðanna voru sláandi. Álitið var að tjónið hefði á þávirði numið meira en einum milljarði króna og þá var langbylgjumastrið ekki talið með. Margir voru ótryggðir en tryggingarfélögin urðu líka fyrir þungu höggi. Húseigendatrygging eða fasteignatrygging bættu tjónið að miklu leyti. Nokkru seinna gerði Tómas Jóhannesson á Veðurstofunni samanburð á sköðum vegna náttúruhamfara hér á landi. Í þeirri samantekt var álitið að foktjón af völdum veðursins 3. febrúar hefði samsvarað um 0,3% af vergri landsframleiðslu. Svipað og metið eignatjón af völdum fyrri Suðurlandsskjálftanna árið 2000. Sé þessi tala heimfærð til landsframleiðslu 2019 samsvarar hún um 9 milljörðum króna. Mætti því ætla að vænt eignatjón af slíkum veðurofsa nú gæti orðið af stærðargráðunni 10 milljarðar, einna mest í þéttbýlinu suðvestanlands. Slíkt mat er auðvitað háð mikilli óvissu.
Engu að síður hafa orðið gríðarlegar breytingar á höfuðborgarsvæðinu frá 1991. Íbúum suðvestanlands, frá Suðurnesjum til Akraness, hefur þannig fjölgað um 100 þúsund á þessum tæpu 30 árum. Fjölmörg ný hverfi hafa risið og sum þeirra liggja hærra í landinu þar sem við vitum vel að stormar herja af heldur meiri krafti. Í því sambandi má nefna að öll byggðin í Kópavogi austan Reykjanesbrautar og upp undir Elliðavatn hefur orðið til síðan þá. Sama má segja um norðurhluta Grafarvogs, Norðlingaholt og Grafarholt. Úlfarsárdal og mörg hverfi í Mosfellsbæ sem og Áslandið og Vellirnir í Hafnarfirði. Og þannig mætti áfram telja.
Færa má rök fyrir því að mannvirki þessara hverfa hafi ekki enn orðið fyrir þeirri vindáraun sem mest getur orðið. Í nýju byggðunum eru 4 til 10 hæða fjölbýlishús nokkuð algeng og reyndar sum talsvert hærri. Margar þessara blokka standa hátt og teygja sig upp í röstina sem blæs af meiri styrk eftir því sem ofar er farið. Eðlilega taka þau á sig meiri vind en lægri hús.
Ég geri ekki ráð fyrir öðru en að hús, klæðningar og þök séu hönnuð til að standast mestu storma, en ýmislegt í frágangi á seinni árum er vekur manni samt ákveðinn ugg. Til dæmis lausu svalalokanirnar og sólstofurnar sem sjá má víða og ekki síður þá tísku í arkitektúr sem hér hefur rutt sér til rúms að klæða þök með lausum efnum. Sjá má á þökum nýbygginga túnþökur eða hellur. Eflaust er frágangur þessara útlitsklæðninga misjafn.
Frægt var þegar Veðurstofuhúsið á Bústaðaveginum var tekið í notkun gekk um það leyti yfir fellibyljalægðin Ellen snemma haustsins 1973. Möl hafði verið komið fyrir undir lausa trépalla þar sem gengið er út til veðurathugana á 3. hæð. Eldri starfsmenn sögðu mér að pallarnir hefðu dansað til og frá og mölin sópaðist öll í burtu í veðurofsanum. Eðlilega var hún aldrei endurnýjuð.
Við hverju má búast?
Hönnunarviðmið mannvirkja suðvestanlands samkvæmt staðli í þjóðarskjali eins og það er kallað, er 36 m/s. Gildið samsvarar áætluðum 50 ára endurkomutíma 10 mínútna vinds í 10 metra hæð yfir tiltölulega flötu landi. Endurkomutími vinds hefur verið reiknaður en samanburður vindmælinga yfir lengra tímabil er langt frá því að vera einfaldur í Reykjavík af ýmsum ástæðum. M.a. hefur ekki gert fárviðri í Reykjavík eftir að vindmælavæðing hófst fyrir alvöru um og upp úr 1995.
Hólmsheiði austan Reykjavíkur gefur hins vegar ágæta mynd af ótrufluðum vindi. Þar hefur verið mælt í um 15 ár. Guðrún Nína Petersen ofl. gerðu útreikning 50 ára endurkomutíma vinds þar (Kortlagning aftakavinda á Suðvesturlandi – fyrstu skref, 2017). Fleiri hafa lagt hönd á plóginn, s.s. Jónas Þór Snæbjörnsson vindverkfræðingur. Niðurstaða þeirra er að 50 ára mesta vind megi áætla þar á bilinu 38,5 – 40,0 m/s. En verstu óveðrin sem hér er fjallað um urðu áður en farið var að mæla vind á Hólmsheiðinni. Reikningarnir hafa samt ákveðið forspárgildi.
Með réttu má samt segja að fjögur fárviðri hafi orðið í Reykjavík á um 80 árum og eru þau í talin upp í töflu hér að neðan ásamt hæsta mælda meðalvindi, oftast á Reykjavíkurflugvelli. Talan frá 1981 er úr mælireit Veðurstofu Íslands við Bústaðaveg. Taflan gæti hugsanlega verið lengri, sérstaklega ef við horfum til óveðra sem eru meira staðbundin eða afmörkuð á einhvern hátt. Höfðatorgsveðrið með norðan hvelli 2. nóvember 2012 er dæmi um slíkt. Það var staðbundið. Ekki er óhugsandi að fárviðri með miklu tjóni suðvestanlands verði á bilinu 3 til 6 á 100 árum. Fá má betra mat með því að leggjast skipulega yfir þessi mál.
En fyrr en seinna hittir okkur illa fyrir ein af þessum skæðustu illviðrislægðunum. Þá er vissara að þekkja vel einkennin og við hverju megi búast. Nákvæmar spár geta vitanlega auðveldað allt viðbragð. Í dag er áætlað að ríflega helmingur íbúðarhúsnæðis sé tryggt fyrir foktjóni en ekki nema um fjórðungur atvinnuhúsnæðis. Til þess eru líka bótasjóðir tryggingafélaganna, að mæta meiriháttar og víðtækum skaða sem verstu óveður geta valdið á tryggðum eigum manna.