Samkvæmt nýlegri könnun frá Maskínu er lítil hreyfing á afstöðu Íslendinga til inngöngu í Evrópusambandið á milli ára, en 41,8 prósent segjast andvíg því að ganga í sambandið á meðan að 29,6 prósent segjast hlynnt því. 28,6 prósent taka hvorki afstöðu með eða á móti í könnuninni, sem Maskína framkvæmdi að eigin frumkvæði dagana 21. janúar til 1. febrúar 2021.
Maskína hefur mælt afstöðu landsmanna til inngöngu í Evrópusambandið með sambærilegum hætti þrjú ár í röð og hafa sveiflurnar verið litlar. Í fyrra voru um 31 prósent hlynnt inngöngu en um 39 prósent andvíg og árið 2019 voru 32 prósent hlynnt inngöngu en 43 prósent andvíg.
Skarpari skil voru þarna á milli í könnun sem Maskína gerði árið 2013, en þá voru 28 prósent hlynnt inngöngu og rúmur helmingur, eða um 51 prósent, sögðust andvíg því að Ísland gengi í ESB. Þá tóku einungis 21 prósent ekki afstöðu með eða á móti, en sá hópur hefur stækkað á kostnað þeirra sem segjast andvígir inngöngu.
Kjarninn fékk nýjustu niðurstöðurnar afhentar í heild sinni frá Maskínu á dögunum. Hér verður dregið fram hvaða hópar Íslendinga það eru sem eru hlynntir því að ganga í Evrópusambandið.
Kjósendur „frjálslyndu miðjuflokkanna“
Þegar afstaða fólks er brotin niður eftir stjórnmálaskoðunum eða kosningaætlan þarf ekki að koma neinum á óvart að þeir flokkar sem tala fyrir inngöngu í Evrópusambandið skera sig úr og segjast að meirihluta hlynntir því að Ísland gangi í Evrópusambandið.
Segja má að kjósendur Viðreisnar séu þeir evrópusinnuðustu á Íslandi, en tæp 77 prósent þeirra sem segja að þeir myndu kjósa Viðreisn ef kosið væri í dag eru sömuleiðis hlynnt því að ganga í Evrópusambandið.
Hið sama á við um rúm 62 prósent þeirra sem sögðust ætla að kjósa Samfylkinguna og rúm 58 prósent þeirra sem ætla að kjósa Pírata, en hjá væntum kjósendum annarra flokka er ekki meirihlutastuðningur við aðild að Evrópusambandinu.
Íslenskir sósíalistar volgir … eða hvað?
Athygli vekur að á meðal væntra kjósenda þeirra tveggja flokka sem ætla mætti að teldust lengst til vinstri á hinu pólitíska litrófi á Íslandi, Sósíalistaflokksins og Vinstri grænna, eru fleiri sem segjast hlynnt inngöngu í Evrópusambandið en andvíg.
Þó skal tekið fram að tæpt 41 prósent væntra kjósenda Vinstri grænna tekur ekki afstöðu í aðra hvora áttina, en tæp 34 prósent segjast hlynnt inngöngu og rúm 25 prósent andvíg. Á meðal væntra kjósenda Sósíalistaflokksins eru slétt 41 prósent sem segjast hlynnt inngöngu en 26,3 prósent andvíg. Tæpur þriðjungur er hvorki með né á móti.
Áhugaverðar umræður um þessar niðurstöður Maskínu spunnust fram á dögunum á spjallsíðu Sósíalistaflokksins á Facebook.
Upphafsmaður umræðunnar var Klemens Ó. Þrastarson, sem er fjölmiðlafulltrúi sendiskrifstofu Evrópusambandsins á Íslandi. Spurði hann einfaldlega hvort þessar niðurstöður, sem birtust á vef Maskínu fyrr í mánuðinum, hefðu verið ræddar á vettvangi flokksins.
Undirtektirnar voru æði misjafnar. „Hvað er upplýsingafulltrúi sendinefndar ESB á Íslandi að boða hér? Að Sósíalistaflokkurinn sé að svíkja kjósendur sína með því að boða ekki inngöngu Íslands í Evrópusambandið? Hvað er hann að leggja til? Að fólk skuli frekar kjósa Viðreisn?“ skrifaði Gunnar Smári Egilsson, stofnandi og helsti talsmaður Sósíalistaflokksins út á við, í athugasemd við færsluna.
„Þegar meira að segja Samfylkingin gerir sér grein fyrir að ESB aðild Íslands er dauðadæmdur málstaður þá væri nú undarlegt að Sósialistaflokkurinn tæki þann málstað upp. Enn í grunninn er ESB bandalag um hagsmuni auðvalds og ber að draga helstu ályktanir af því meginatriði málsins,“ skrifaði Viðar Þorsteinsson framkvæmdastjóri Eflingar á þræðinum, þar sem margir aðrir lýstu því yfir að önnur mál en Evrópusambandsaðild væru mun mikilvægari í umræðunni, þessi misserin.
Þau sem telja að Ísland gæti „náð hagstæðum samningi við ESB“
Maskína spurði einnig að því í könnuninni hvort fólk teldi að Ísland gæti náð hagstæðum samningi um inngöngu í Evrópusambandið eða ekki. Í ljós kom að meirihluti, eða 56,7 prósent aðspurðra, telja að Íslendingar gætu náð hagstæðum samningi um inngöngu.
Þessi meirihluti samanstendur að langmestu leyti mestu af þeim sem eru hlynnt inngöngu eða taka hvorki afstöðu með eða á móti.
Rúm 99 prósent þeirra sem eru hlynnt inngöngu í ESB telja að Ísland gæti náð hagstæðum samningi á meðan að rök 72 prósent þeirra sem taka hvorki afstöðu með eða á móti aðild eru á þeirri trú. Á móti kemur að einungis 15,6 prósent þeirra sem eru andvíg aðild trúa því að Ísland gæti fengið góðan samning.
Svo er það spurningin hvort kemur á undan, afstaðan til Evrópusambandsaðildar eða trúin á að Ísland gæti náð góðum samningi um inngönguna.
---
Svarendur könnunarinnar voru 866 talsins, koma úr Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem er dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Svarendur eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega.