Föstudaginn 28. febrúar í fyrra voru Víðir Reynisson og Þórólfur Guðnason boðaðir á fund samráðshóp ráðuneytisstjóra sem settur hafði verið saman vegna heimsfaraldursins. Það átti að fara yfir stöðuna. Fundurinn fór fram í björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð og hófst klukkan 13. Þórólfur kom aðeins seinna á fundinn, settist við hlið Víðis og hvíslaði að honum: „Staðfest smit.“
Kórónuveiran hafði greinst á Íslandi.
„Góðan daginn, velkomin á þennan blaðamannafund,“ segir Víðir þremur klukkustundum síðar fyrir framan hóp fjölmiðlamanna. Það má heyra smellt af myndavélum í gríð og erg. Þetta er ekki fyrsti blaðamannafundurinn sem haldinn er vegna faraldursins og hann á sannarlega ekki eftir að verða sá síðasti. En þetta eru tímamót.
Þórólfur sóttvarnalæknir fer yfir þá stöðu sem upp er komin. Alma Möller landlæknir fer yfir undirbúning heilbrigðiskerfisins.
„Við vissum að þessi veira myndi koma,“ segir Þórólfur. „Við biðjum fólk um að halda ró sinni og fara eftir þeim leiðbeiningum og fyrirmælum sem hafa verið gefin út.“
Blaðamenn spyrja fjölda spurninga. Þeir vilja meðal annars vita hvort til standi að setja á fjöldatakmarkanir á samkomur. Víðir segir að það sé í stöðugri skoðun en á þessari stundu sé það ekki líklegt. En ef ástæða þyki til verði það gert.
Spurður hvort að gera megi ráð fyrir fleiri smitum svarar Þórólfur því játandi. „Hversu mörg þau verða er ógjörningur að segja. En ég býst við að þau verði fleiri, já.“
Það er Víðir sem hefur lokaorðin á fundinum. Hann brýnir fyrir landsmönnum að vanda samtal sitt. „Við höfum orðið vör við það að börn séu hrædd,“ segir hann. „Það er mjög mikilvægt að við öll sem þjóð stöndum nú saman í þessu og tölum skynsamlega.“
28. febrúar 2021. Staðfest smit: 6.050.
Þórólfur er löngu hættur að hvísla því að Víði þegar smit greinast. Enda lengst af í faraldrinum ekkert skynsamlegt að hvíslast á með allri þeirri nánd sem því fylgir. Eftir þennan blaðamannafund átti sannarlega margt eftir að breytast. Tveggja metra regla var sett á. Grímuskylda líka. Og þó að Víðir hafi ekki séð það fyrir: Samkomutakmarkanir. Um tíma máttu aðeins tíu manns koma saman.
„Hugsaðu þér,“ segir Víðir og hristir höfuðið yfir þeim nánast lygilega nýja veruleika sem við okkur hefur blasað vegna faraldursins, alla þá 366 daga sem liðnir eru frá tímamótafundinum. Fyrsta smitinu.
„En engu að síður, að sitja núna ári seinna og horfa til baka, þá er auðvitað enginn sáttur en það er heldur enginn æsingur yfir því að það séu fimmtíu manna samkomutakmarkanir. Við erum bara frekar glöð með það,“ segir hann og hlær. „Það er skrítið hvernig normið færist til. En það segir okkur hversu vel Íslendingar eru upplýstir. Því þessar aðgerðir voru nauðsynlegar. Og þær hafa sannað gildi sitt.“
Það eru fleiri tölur en þær sem snúa að fjöldatakmörkunum og staðfestum smitum sem eru Víði ofarlega í huga í augnablikinu. Það gengur jarðskjálftahrina yfir Reykjanes og stærstu skjálftarnir hafa verið mun stærri en smitstuðull innanlandssmita er nú um stundir. Víðir stýrir ekki eingöngu verkefnum tengdum faraldrinum fyrir ríkislögreglustjóra, sem hann var beðinn að taka að sér í fyrra, heldur er hann einnig yfirlögregluþjónninn sem stýrir nýju almannavarnarsviði embættisins. „Ég er með ansi marga hatta í augnablikinu,“ segir hann og brosir.
Víðir hefur starfað í lögreglunni um árabil og gegnt ýmsum störfum og fyrir fleiri en eitt embætti. Fyrir rúmu ári var hann ráðinn tímabundið til ríkislögreglustjóra til að greina starfsemina og skila skýrslu til dómsmálaráðuneytisins. Verkefnið átti að taka um tvo mánuði. „Þannig að þegar ég mætti til starfa 2. janúar var ég með hausinn ofan í greiningarpælingum,“ segir hann spurður um stóru verkefnin sem voru framundan í upphafi síðasta árs. „Svo fór ég að heyra af fundum sóttvarnalæknis með ýmsum aðilum vegna þessarar veiru úti í heimi.“
Í febrúar var Víðir farinn að sitja þá fundi enda búinn að taka að sér verkefnastjórn vegna faraldursins fyrir hönd embættis ríkislögreglustjóra.
Kláraðist þessi greiningarvinna þín sem hófst í byrjun síðasta árs?
„Heyrðu, ég er að klára hana núna,“ segir hann brosandi. Planið hafði verið að skila skýrslu um miðjan mars en af því varð ekki því „covid tók yfir,“ útskýrir hann.
Það tók sannarlega yfir. Og hann, Þórólfur og Alma hafa borið hitann og þungan af upplýsingagjöf til almennings allan tímann. Samhliða því að ný veira sem veldur nýjum og hættulegum sjúkdómi fór að herja á heiminn urðum við flest nefnilega eitt stórt spurningarmerki í framan.
Hvernig varð þríeykið til?
„Ég segi nú ekki að það hafi verið tilviljun en þetta var heldur ekki algjörlega teiknað svona upp í viðbragðsáætlunum sem lágu fyrir,“ svarar Víðir. Í áætlununum er gert ráð fyrir samstarfi embætta ríkislögreglustjóra og sóttvarnalæknis. Einnig er hlutverk embættis landlæknis skýrt og felst m.a. í því að hafa eftirlit með heilbrigðiskerfinu. „Á sama tíma og embættin þrjú voru að vinna að þúsundum verkefna sem tengdust heimsfaraldri kom upp mjög mikil þörf um miðlun upplýsinga til almennings,“ útskýrir hann. „Við hefðum getað sett aðra í það hlutverk að svara fjölmiðlum og miðla almennt upplýsingum en við töldum mikilvægt að gera það sjálf. Og síðustu vikurnar í febrúar og í byrjun mars þá reyndum við alltaf að svara þegar síminn hringdi. Á sama tíma höfðum við auðvitað mörg önnur verkefni á okkar könnu.“
En þorstinn í upplýsingar um þróun mála var svo gríðarlegur að símhringingarnar voru stöðugar á nánast öllum tímum sólarhringsins. Ákveðið var að reyna að ramma upplýsingagjöfina betur inn. „Að mínu mati þarf að vera góður aðgangur að fólki sem er í svona verkefnum,“ segir Víðir með áherslu. „Ég lít svo á að með því að veita viðtöl séum við að þjónusta almenning. Við funduðum því með fréttastjórum í byrjun mars, vildum heyra hvernig tímalínur fjölmiðlanna væru yfir daginn. Við komumst að því að það var óskað eftir aðgangi að upplýsingum frá klukkan 6.45 á morgnana og til miðnættis. Við lögðum því fram þá tillögu að við myndum tryggja aðgang að upplýsingum á ákveðnum tíma alla daga.“
Í kjölfarið voru daglegu upplýsingafundirnir settir á dagskrá. „Við héldum kannski að þetta þyrfti að vera svona í einhverjar vikur. Og um 170 fundum seinna erum við að fækka þeim niður í einn á viku,“ segir Víðir og hlær.
Daglegir fundir voru frá mars og fram í maí. Þá var reynt að fækka þeim – jafnvel gefa þeim frí í lengri tíma.
En við vitum öll hvað gerðist svo.
Smit fóru að koma upp og Víðir Reynisson var mættur aftur inn í stofu til okkar. Horfði beint í augun á okkur og sagði að nú yrði að fara varlega. Með sínu staðfasta en milda yfirbragði.
Þórólfur um Víði: Jákvæður og mjög lausnamiðaður
„Ég hef þekkt Víði lengi,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir, spurður um sín kynni af Víði. „Við unnum að undirbúningi viðbragðsáætlana fyrir mörgum árum og þá lágu leiðir okkar saman. Það hefur því ekkert komið mér á óvart með hans störf. Ég vissi vel hvaða mann hann hefði að geyma.
Hann hefur mjög marga góða eiginleika. Bæði er hann frábær manneskja og svo er hann mjög fær í sínu starfi. Hann er óþreytandi, jákvæður og mjög lausnamiðaður. Fljótur að sjá leiðir út úr vandamálum. Svo á hann mjög gott með að umgangast og hafa samskipti við fólk. Og það hefur nýst okkur ótrúlega vel og ómetanlegt í þessum viðbrögðum öllum. Við þrjú, ég, Alma og Víðir, höfum unnið mjög náið saman og ræðum málin mjög mikið. Ætli húmorinn sé ekki það sem hefur fleytt okkur í gegnum þetta, að geta gert grín að sjálfum okkur og hlutum sem koma upp á þó að þetta sé vitanlega ekkert grín í sjálfu sér. Samskipti okkar þriggja hafa verið með eindæmum góð. Við höfum stuðning af hverju öðru og öðrum okkar samstarfsmönnum. Það hafa aldrei komið upp nein persónuleg vandamál svo það má segja að þetta samstarf hafi gengið með ólíkindum vel.“Þú hefur meðal annars verið í því hlutverki að halda okkur við efnið og stappa í okkur stálinu. Er það þér eðlislægt?
„Tja, ég held að það liggi ágætlega fyrir mér,“ svarar Víðir hugsi. „Ég á gott með að vinna með fólki. Ég hef starfað töluvert í kringum íþróttir. Þegar ég var yngri tók ég þátt í þeim sjálfur og síðar sem foreldri. Þannig að ég hef séð muninn á því hvernig ólíkum þjálfurum gengur að ná til iðkenda. Svo hef ég í vinnu minni fyrir Knattspyrnusambandið fylgst með þjálfurum og öðru starfsfólki styðja og hvetja leikmenn. Bæði á góðum og erfiðum stundum. Það er alveg hellingur sem ég hef lært af þessum þætti í lífi mínu.
Ég byrjaði í björgunarsveit árið 1986 og hef síðan í mínu starfi komið mikið að hamfara- og neyðarstjórnun. Ég hef séð hvernig samskipti og samvinna þarf að vera á erfiðum stundum. Þannig að ég hef nálgast þetta verkefni með það í huga að við séum öll lið. Að þetta séu „við“ – og að ég sé að tala við fólkið mitt. Þetta hefur ef til vill verið meira ómeðvitað en hitt. Ég hef talað beint frá hjartanu.“
Af því höfum við oftsinnis orðið vitni að. Víðir hefur brýnt fyrir þjóðinni að veiran sé andstæðingurinn, að við séum öll í þessari baráttu saman. Verið hreinskilinn þegar gefið hefur á bátinn.
„Það er ákaflega fín lína á milli þess að fræða fólk –tala um staðreyndir – og svo að hræða það,“ segir Víðir. „Yfir þá línu vill maður ekki fara. Sumir hafa sagt að það þurfi að hræða fólk svo að það hlýði fyrirmælum. Að mínu mati er alls ekkert vit í því. Þetta snýst um að miðla réttum upplýsingum byggðum á vísindalegum grunni – rétt eins og við gerum í jarðskjálftum. Við vitum ekkert nákvæmlega hvar næsti skjálfti verður en það sem við vitum er að það eru meiri líkur á því að það verði stór skjálfti þegar hrina er í gangi.“
Meira að segja á þeim tímapunktum í faraldrinum þegar fólk var orðið þreytt á sóttvarnaaðgerðum og slakaði kannski aðeins of mikið á segist Víði aldrei hafa dottið í hug að hræða fólk til hlýðni. „Ég hef meðvitað vandað mig að gera það ekki. Auðvitað getur það sem maður segir, um stöðu mála, hrætt einhverja og það er vont.“
Með samkomutakmörkunum er verið að banna fólki að gera hitt og þetta sem áður var hversdagslegt. Hvernig horfir það við þér sem lögregluþjóni?
„Takmarkanir sem þessar eru ekki hlutir sem við Íslendingar höfum kynnst af neinu ráði í allri lýðveldissögunni. Þegar við vorum að ræða þetta fyrst, að beita þeim, þá fannst mér það rosalega skrítin tilhugsun. En af því að ég var búinn að kynna mér veiruna, hvernig hún smitaðist, þá vissi ég að eitthvað þyrfti að gera.
Allar þessar aðgerðir snúa að hegðun fólks. Þannig höfum við spurt: Hvernig hegðar fólk sér í mismunandi aðstæðum? Hvar er þá smithættan mest? Þannig hefur verið ákveðið að takmarka ákveðna hluti til að draga úr ákveðinni hegðun. Oftast hefur það gengið vel, stundum ekki. Við höfum lært alveg helling.“
Stöndum saman þegar á reynir
Samkomutakmarkanir voru fyrst settar á í mars og þegar Víðir hugsar til baka segir hann það ef til vill ekki hafa verið sjálfgefið að almenningur væri tilbúinn að fara eftir þeim. „En íslenskt samfélag er þannig að það stendur saman þegar á reynir. Það höfum við margoft séð í gegnum tíðina í náttúruhamförum. Við getum rifist um málin í heita pottinum og á samfélagsmiðlunum en þegar við teljum okkur raunverulega þurfa að standa saman þá gerum við það.
Þannig að ég held að fólk hafi strax treyst því að samkomutakmarkanir voru settar á af ríkri ástæðu. Þetta voru ekki bara einhverjar hugmyndir frá „tveimur læknum og einum löggukalli“ – eins og Alma orðaði það einhvern tímann – heldur nauðsynlegar aðgerðir.“
Í lok fyrstu bylgjunnar, sem reyndar var framan af kölluð faraldurinn, því ekki var almennt farið að tala um aðrar bylgjur, sveif bjartsýni yfir vötnum.
Varst þú í því liði sem hélt að þetta væri alveg að verða búið?
„Í apríl, þegar við sáum kúrfuna fara niður í takti við spálíkanið, þá var ég mjög bjartsýnn á að þetta myndi bara klárast – að þetta væri að verða búið. En svo sáum við að annars staðar í heiminum var faraldurinn í uppsveiflu. Og svona heimsfaraldri lýkur hvergi fyrr en honum lýkur alls staðar.“
Þess vegna fór Víðir ekki áhyggjulaus inn í sumarið. „Við sem höfðum verið að vinna í þessu vorum búin að átta okkur á því að þetta væri nú hálfgert svikalogn. Að við yrðum ótrúlega heppin ef ekkert gerðist. En auðvitað vorum við öll að vona að þetta myndi fara vel. Að sýnatakan á landamærum myndi gagnast vel. Hún gerði það en aðeins upp að vissu marki. Allt í einu fór að bera á einu smiti hér og öðru þar. Og í lok júlí var þetta bara komið á fulla ferð aftur.“
Umræðan um fótboltakonuna ósanngjörn
Meðal þeirra sem komu smitaðir að utan, án þess að greinast í landamæraskimun, sem þá fólst í einni sýnatöku, var ung knattspyrnukona. Hún var nafngreind í fjölmiðlum og myndir birtar af henni. Umræðan varð á köflum grimm. Víði finnst enn erfitt til þess að hugsa. „Þetta var hrikalegt. Með þessu var henni stillt upp sem skotmarki. Á hana var hengd þessi smitskömm, eitt af þessum nýju orðum sem varð til í fyrra. Ég vona að þeir sem að því komu að nafngreina hana hafi lært af því.
En í þessu máli sýndi sig enn og aftur hvað íslenskt samfélag er sterkt. Það risu strax margir upp og sögðu: Þetta ætlum við ekki að líða. Það er ekki líðandi, þegar við erum að fást við svona mál, að reynt sé að finna einhverja sökudólga. Það ætlar sér enginn að smitast og það ætlar sér sannarlega enginn að smita einhvern annan. Það var fáránlegt að skella einhverri skuld á hana og í raun var umræðan eins ósanngjörn og hún frekast gat orðið.“
Önnur bylgja faraldursins var lítil í samanburði við þá fyrstu og örsmá miðað við þá þriðju sem var handan við hornið.
„Um sumarið, þegar smitin fóru að koma aftur upp, vorum við að herða á takmörkunum en reyndum að stíga mjög varlega til jarðar,“ rifjar Víðir upp. „Við fundum að það var ekki einhugur í samfélaginu, að vaknað hafði krafa um að við ættum að fara að treysta fólki. Að það ætti að verða stefnan. En Þórólfur er alveg einstakur maður. Ég hef ekki unnið með nokkrum manni áður sem lætur bókstaflega ekkert trufla sig. Í óvenjulegum aðstæðum þar sem þurfti að taka ákvarðanir sem hafa svona mikil áhrif þá gat hann alltaf farið inn í vísindin. Skoðað hvað fræðin og rannsóknirnar væru að segja. Hann missti aldrei fókusinn á það.“
En svo „springur þetta náttúrlega út“ – á nánast einni helgi, segir Víðir um þriðju bylgjuna. Allt í einu eru smitin ekki eitt og eitt heldur rjúka upp. Tvö stór hópsmit áttu sér stað þar sem hundruð manna sýktust þegar upp var staðið.
Þau voru ekki rakin til einstaklinga, eins og hafði gerst um sumarið, heldur til staða. Nánar tiltekið kráa og líkamsræktarstöðvar. Fjölmiðlar þráspurðu um hvaða staði væri að ræða. Að lokum steig rekstraraðili einnar krárinnar fram og sagði: Þetta gerðist hjá okkur.
Smit höfðu komið upp á fleiri krám en eigendur þeirra voru ekki tilbúnir að stíga fram. „Ég skil það vel,“ segir Víðir. „Menn voru hræddir um að hópsmitin yrðu kennd við þá eins og varð svo raunin með þennan eina stað.“
Því þetta er heimsfaraldur. Það er mögulegt að við og önnur Evrópulönd verðum komin á góðan stað í júlí eða ágúst en við megum ekki gleyma því að staðan er allt önnur víðast annars staðar.
Það eru engar ýkjur að tala um að bylgjan hafi sprungið út. Á margra daga tímabili var daglegur fjöldi nýrra smita innanlands um eða yfir áttatíu.
„Við vildum gæta meðalhófs og ekki loka öllu því það er jú hegðunin, í þessu tilviki með áfengi, sem er áhættuþátturinn. En við vildum reyna að minnka áfengisdrykkjuna og það sem henni getur fylgt.“
Krám var lokað en staðir sem seldu mat máttu áfram hafa opið sem olli nokkrum deilum. Víðir segir að umræðan og gagnrýnin í þriðju bylgjunni hafi verið allt annars eðlis en í þeim fyrri. „Heiftin var miklu meiri. Reiðin. Það tengdist þreytunni, við vorum farin að tala um farsóttarþreytu. Hún var orðin raunverulegt vandamál hér og alls staðar.
En þrátt fyrir það setti samfélagið undir sig hausinn. Fólk hugsaði: Ok. Við erum að lenda hér í einhverjum stormi. Við tökum þetta. Og það tókst.“
Allt frá upphafi faraldursins hafa Víðir og aðrir í framlínunni sagst fagna málefnalegri gagnrýni því hún væri af hinu góða.
En eitthvað breyttist síðasta haust.
Þessi heift sem þú talar um, beindist hún að þér persónulega?
„Já.“
Kom hún illa við þig?
„Já. Ég er náttúrlega þannig persóna að ég er frekar opinn og gæti jafnvel alveg talist viðkvæmur, eða hvernig sem á að orða það. Ég tek málefnalega gagnrýni ekki nærri mér, finnst hún frábær og nauðsynleg. Hún hjálpar mér að hugsa. En mér finnst ótrúlega leiðinlegt að verða fyrir rætnu skítkasti og kjaftasögum. Einhverju sem er ósanngjarnt. Það fer illa í mig.“
Er eitthvað sem situr í þér ennþá?
„Já, það er eitt og annað sem hefur verið sagt við mig og um mig sem gerir það. Ég veit að stundum er orðum kastað fram í einhverjum pirringi. Og oft get ég bara andað með nefinu og tekið því. En stundum kemst það dýpra.“
Mesta skítkastið á sér stað á samfélagsmiðlum og Víðir segist oft velta því fyrir sér hvort að fólk sem það setja fram, fólk sem hann þekki oftast ekki neitt, myndi segja þessa hluti við hann í persónu. „Ég er sannfærður um að í langflestum tilfellum myndi enginn tala svona við nokkra aðra manneskju. Svo hefur sumt af þessu farið út í það að vera beinlínis hótanir. Það er auðvitað orðið mjög alvarlegt.“
Hvers konar hótanir?
„Líflátshótanir.“
Og hefur þú farið með þau mál lengra?
„Já, ég hef gert það.“
Víðir segir vini sína stundum hafa tekið upp á því að ganga á fólk sem er að tala um hann og segja sitthvað rætið og rangt. Spyrja hvort að það þekki hann. „Það telja sig kannski allir þekkja mig, lögguna úr sjónvarpinu, því ég hef verið opinn með allt mitt líf. Það hefur verið hluti af nálgun minni á verkefnið.“
Í vor var hann spurður hvernig honum þætti að vera orðinn almenningseign. Hann varð hugsi í framhaldinu. „Ég er ekki almenningseign,“ segir hann. „Ég er að vinna vinnuna mína og ég vinn fyrir almenning. En almenningur á mig ekki. Þannig að það hefur, vægast sagt, verið sérstök upplifun að finna að fólki finnist það geta sagt nánast hvað sem er um mig. Ég er auðvitað ekki sá eini sem hef lent í þessu. Langt í frá. Þeir sem hafa gagnrýnt okkur opinberlega en af yfirvegun og kurteisi, fólk sem hefur viljað fá skýrari svör og verið með aðra sýn en við á málin, hafa til dæmis sumir hverjir fengið yfir sig alveg hroðalegt skítkast. Mér finnst það óþægilegt og mér finnst það ósanngjarnt.
Ég hef lært alveg ótrúlega margt um mannleg samskipti á þessu ári. Það hefur opnast fyrir mér nýr veruleiki að svo mörgu leyti. En það má ekki gleyma því að þetta eru aðeins örfáir einstaklingar sem hegða sér með þessum hætti. Allir hafa rétt á sínum skoðunum en ég tel að sumir þurfi að draga djúpt andann áður en þeir ýta á enter á lyklaborðinu. Því þó að við séum ekki sammála þá getum við verið kurteis. Það myndi bæta samfélagið okkar ennfrekar.“
Þegar það var upplýst í lok nóvember að þú hefðir greinst með COVID-19. Fékkstu þá svona viðbrögð eins og þú varst að lýsa?
„Já. Og það kom mjög illa við mig,“ svarar Víðir og rifjar upp aðdragandann að þeirri miklu umræðu sem fór af stað. „Það er ýmislegt sem ég hef gert sem ég myndi gera öðruvísi í dag. Eitt af því var að ég skrifaði, alveg hundlasinn, Facebook-færslu, um hvernig þetta hafði borið að. Í henni fór ég ekki alveg með allt rétt. Þegar ég var að telja upp þá sem voru inni á mínu heimili þá taldi ég líka með fólkið sem býr með mér. Þannig að gestir voru örfáir og langt innan allra þeirra reglna sem voru í gildi.
En einhvern veginn tóku margir þessu þannig að heimilið hefði verið eins og lestarstöð í miðborg London. Hefði ég verið aðeins skýrari í kollinum hefði ég orðað þessa færslu öðruvísi.“
Hvað varð til þess að þú skrifaðir færsluna akkúrat á þessum tímapunkti?
„Þetta kom þannig til að ég fékk símtal um að það væri að fara að birtast frétt um hvernig tildrögin að mínum veikindum hefðu verið. Í henni átti að koma fram að ég hefði verið í Vestmannaeyjum í samkvæmi. Sá misskilningur tengdist mynd, ársgamalli minningu, sem einhver hafði endurdeilt á Facebook.
Ég dró þá ályktun, eins og ég hef alltaf gert, að best væri leggja spilin á borðið.
Þetta var þannig að vinafólk okkar utan af landi gisti heima hjá okkur. Þau þurftu á því að halda. Svo kom vinafólk okkar allra í heimsókn þennan dag, til að hitta okkur og þau. Úr varð að við smituðumst öll. Það voru sem sagt fimm sem smituðust.
Við sátum öll með að minnsta kosti tveggja metra bil á milli okkar. Við gættum okkar vel. Hver sótti sitt vatnsglas og þar fram eftir götunum. En eftir á sáum við tvo snertifleti sem höfðu verið sameiginlegir: Kaffibolli og vatnskanna.
Þegar ég fékk þær upplýsingar að birta ætti þessa röngu frétt þá hefði ég átt að draga andann – eins og ég sagði áðan að fólk ætti að gera áður en það fer að hamra á lyklaborðið. En mig langaði svo að koma hreint fram í öllu. En svona kom þetta út. Og margir misstu sig yfir þessu.“
En hefur þú þá aldrei viljað leiðrétta þetta? Því margar fréttir voru byggðar á þessari færslu og þá ekki á réttum og nákvæmum upplýsingum?
„Nei, ég hef ekki verið að velta mér upp úr því. Ég hef verið alveg heiðarlegur með þetta allt saman, alltaf þegar ég hef verið spurður um þetta og í framhaldinu mín veikindi.“
Þannig að hlýddi Víðir Víði? Var ekkert í þessum samskiptum sem þú sérð eftir á að...
„Nei,“ svarar Víðir strax. „Og ef einhver hefði átt í sömu samskiptum og ég gerði þessa helgi hefði ég ekki bent á hann og sagt að þetta væri nú ekki gott. En ég skil alveg að sumum hafi þótt þetta skrítið. Fólk sem var jafnvel ekki að hitta neina utan síns heimilis á þessum tíma þó að við höfum aldrei verið að banna fólki að hittast. Seinna tókum við upp jólakúlurnar, og það sem gerðist heima hjá mér umrædda helgi var einmitt þannig, fólk að hittast sem var ekki mikið að hitta aðra. Mitt nánasta fólk.“
Þú hefur sagt að slysin gerist, að þessi veira sé svo lúmsk. Engu að síður hafa margir upplifað smitskömm. Upplifðir þú það? Fannstu fyrir smitskömm?
„Já. Mér leið alveg ömurlega yfir að hafa smitast,“ viðurkennir Víðir. „Alveg ömurlega. Þú getur rétt ímyndað þér, að vera búinn að tala um þetta allan þennan tíma, að hvetja fólk til að passa sig og gæta að sóttvörnum, og svo smitast ég sjálfur.
Ég smitast af konunni minni. Það var nánast ekkert sem ég gat gert til að forðast það. Sama með hana. Hún var alltaf að hugsa um að verja mig og fór einstaklega varlega. Ég fór nánast aldrei neitt nema í vinnuna og svo heim á þessum tíma. Hún fór í matvörubúðir, í apótek og í sína vinnu. Annað gerði hún ekki.
Það finnst ekki ennþá, þrátt fyrir mjög mikla skoðun, hvaðan hennar smit kom. Það getur aðeins hafa komið af þessum þremur stöðum. Grunurinn hefur beinst að lyftu á vinnustaðnum hennar því að það voru fleiri í húsinu sem smituðust á svipuðum tíma þó að enginn samgangur væri þeirra á milli. Þannig að þó að maður sé að passa sig sérstaklega vel þá er enginn öruggur.“
Á sama tíma og þú ert að fá þessa gagnrýni og finna þessar erfiðu tilfinningar þá ertu orðinn mjög veikur. Jók það á áfallið?
„Já. Fyrstu dagana var ég ennþá að mæta á fjarfundi í vinnunni og var spurður hvernig mér liði. Og ég sagði að mér liði eins og ég hefði lent undir strætó. Á svo marga vegu. Líkamlega var ég að verða alveg hundlasinn og á sama tíma var þetta andlega áfall orðið mjög þungt. Maður var eiginlega algjörlega í drasli.
Það og langtíma álag og streita hefur mögulega haft sitt að segja í því hversu alvarlega ég veiktist.“
Varstu smeykur af því að þú veiktist svona alvarlega?
„Nei, ég varð það ekki. Mér fannst ég alltaf vera í góðum höndum. Ég fékk meiri hósta en ég hef samtals fengið á allri minni ævi. Á tímabili fannst mér ég nánast vera að kafna. Ég fékk lungnabólgu, covid-lungu eins og menn kalla það, og þurfti að leggjast inn á göngudeildina til að fá vökva í æð, lyf og ráðleggingar. Þannig að það var mjög vel haldið utan um mann.“
Núna eru liðnir þrír mánuðir frá því að Víðir veiktist og þó að hann finni enn fyrir ýmsum eftirköstum telur hann heilsu sína fara batnandi. Hann finnur enn enga lykt og bragðskynið er mjög skert. Að auki á mikil þreyta það til hellast yfir hann. Um tíma var heilaþokan, sem margir COVID-sjúklingar hafa talað um, vandamál. „Á tímabili var þetta þannig að mér fannst ég ekki geta hugsað. Hélt ekki fókus.“
Víðir var rúmlega þrjár vikur í einangrun og var „orðinn leiður á þessu en samt ennþá lasinn,“ eins og hann orðar það. Hann mældist þá þegar með mikið mótefni, hættur að smita, og var útskrifaður úr einangrun. „Stundum hlustar maður ekki nógu vel á líkamann og aðra,“ segir hann og kímir. „Ég fór í vinnuna nokkrum dögum síðar. Þá féllu skriðurnar á Seyðisfirði og við hjá almannavörnum þurftum að sinna því stóra verkefni. Þannig að ég fór strax austur en man reyndar lítið eftir þeim degi. Svo hringdi læknirinn í mig, eftir að hafa séð viðtal við mig í sjónvarpinu, og spurði hvað ég héldi eiginlega að ég væri að gera. Minnti mig á að ég væri enn fárveikur þó að ég væri ekki smitandi. Þannig að þá fór ég aftur heim og tók því rólega. Ég sinnti vinnunni áfram, mætti á fjarfundi og fylgdist með gangi mála. En ég hafði farið alltof snemma af stað og ég þurfti á þessum tveimur vikum til viðbótar að halda.“
Hvernig vannst þú þig út úr þessu áfalli sem fylgdi því að greinast?
„Einfaldlega með því að tala um það. Að grafa það ekki inni. Ég á frábæra fjölskyldu og allt mitt nánasta fólk, líka mitt samstarfsfólk, hefur staðið þétt við bakið á mér. Þó að þetta hafi verið mikið áfall þá er þetta samt ekki eitthvað sem mun marka mig fyrir lífstíð. Ég er kominn á þann stað að hafa áttað mig á að það var ekkert sem ég hefði getað gert í þessu. Ekki frekar en nokkur annar sem fengið hefur covid.“
Líkt og fyrir ári, þegar fyrsta smitið greindist, stöndum við á tímamótum. Ýmsum samkomutakmörkunum innanlands hefur verið aflétt á sama tíma og enn betur er reynt að koma í veg fyrir að smit berist yfir landamærin. Dagar líða án þess að nokkuð smit greinist. Bólusetningar eru hafnar. Það er vor í lofti – þó að almanakið segi að það sé enn hávetur.
Hvernig heldurðu að það muni ganga að vinda ofan af öllum þessum takmörkunum og koma samfélaginu í samt horf?
„Það hefur sýnt sig að það getur verið flókið að aflétta takmörkunum,“ svarar Víðir. „Við vorum farin að binda vonir við að með bólusetningum og hjarðónæmi gætum við klárað þetta covid. En á meðan að yfir hundrað lönd í heiminum hafa ekki fengið einn einasta skammt af bóluefni þá getum við ekki farið að telja niður í brjálað partí og hætt að hugsa um þetta.
Því þetta er heimsfaraldur. Það er mögulegt að við og önnur Evrópulönd verðum komin á góðan stað í júlí eða ágúst en við megum ekki gleyma því að staðan er allt önnur víðast annars staðar. Það felur í sér ýmsa óvissuþætti. Varðandi nýju afbrigðin til dæmis. En við verðum bara að leysa það þegar við komum þangað. Einbeita okkur að því sem að við vitum að við vitum, eins og stundum er sagt í krísustjórnun.“
Heldur þú að faraldurinn og aðgerðir sem honum hafa fylgt muni breyta íslensku samfélagi?
„Ekki til ills. Ég held einmitt að við höfum lært ýmislegt í faraldrinum sem eigi eftir að verða okkur til góðs. Mér finnst fólk til dæmis almennt meira farið að skoða hvernig hegðun þess getur haft áhrif á umhverfið. Við höfum séð hvernig heimurinn getur litið út þegar mengunin er minni.
Svo var tækninni sparkað þvílíkt langt framávið. Daginn sem jarðskjálftarnir byrjuðu héldum við 100 manna fjarfund með sérfræðingum og öðrum til að deila upplýsingum. Fyrir covid hefðum við lagt í fundaferðalag um Reykjanesið – dregið vísindamenn með okkur á átta fundi! En ég ætla auðvitað að vona að þetta komi ekki alfarið í staðinn fyrir að hittast. Það má ekki gerast.“
Er eitthvað sérstakt sem þú hlakkar til að gera þegar covid klárast?
„Þó að mínar uppáhaldsstundir hafi alltaf verið með fjölskyldunni hef ég lært að meta þær enn meira í þessu ástandi. Mínar bestu minningar frá síðasta ári eru þessir dagspartar sem maður gat tekið sér frí og gert eitthvað með sínum nánustu. Það gefur mér ótrúlega orku og hefur komið mér í gegnum erfiðustu skaflana í þessu öllu.“
Víðir segist alls ekkert finna fyrir þrá að komast til útlanda. „Mig langar að vera með fólkinu mínu og vinum mínum en mér er eiginlega alveg sama hvar.
Konan mín er náttúrlega alveg einstök. Við reynum að fara út að ganga á hverjum degi og spjöllum. Stundum tala ég allan tímann um vinnuna! Hún er minn besti ráðgjafi. Þetta eru gæðastundir sem gefa mér mjög mikið. Þannig að ég hlakka mest til þess að eiga þær fleiri.“