Kristinn Ingvarsson

„Mér leið alveg ömurlega yfir að hafa smitast“

„Ég er náttúrlega þannig persóna að ég er frekar opinn og gæti jafnvel alveg talist viðkvæmur,“ segir Víðir Reynisson. Hann hefur lært „ótrúlega margt“ um mannleg samskipti á því ári sem liðið er frá upphafi faraldursins á Íslandi og segir skítkast og kjaftasögur hafa komið illa við sig. Ýmislegt hefði hann viljað gera öðruvísi, m.a. hvernig hann orðaði Facebook-færslu sem hann skrifaði „hundlasinn“ um aðdraganda þess að hann smitaðist sjálfur af COVID-19. Hann upplifði smitskömm en vann sig út úr vanlíðaninni með því að tala um hlutina. Kjarninn ræddi ítarlega við Víði, manninn sem hefur ítrekað boðið okkur „góðan og blessaðan daginn“ og talað beint frá hjartanu á því þyrnum stráða ferðalagi sem hann hefur fylgt okkur í gegnum.

Föstu­dag­inn 28. febr­úar í fyrra voru Víðir Reyn­is­son og Þórólfur Guðna­son boð­aðir á fund sam­ráðs­hóp ráðu­neyt­is­stjóra sem settur hafði verið saman vegna heims­far­ald­urs­ins. Það átti að fara yfir stöð­una. Fund­ur­inn fór fram í björg­un­ar­mið­stöð­inni í Skóg­ar­hlíð og hófst klukkan 13. Þórólfur kom aðeins seinna á fund­inn, sett­ist við hlið Víðis og hvísl­aði að hon­um: „Stað­fest smit.“ 

Kór­ónu­veiran hafði greinst á Íslandi.

„Góðan dag­inn, vel­komin á þennan blaða­manna­fund,“ segir Víðir þremur klukku­stundum síðar fyrir framan hóp fjöl­miðla­manna. Það má heyra smellt af mynda­vélum í gríð og erg. Þetta er ekki fyrsti blaða­manna­fund­ur­inn sem hald­inn er vegna far­ald­urs­ins og hann á sann­ar­lega ekki eftir að verða sá síð­asti. En þetta eru tíma­mót.

Þórólfur sótt­varna­læknir fer yfir þá stöðu sem upp er kom­in. Alma Möller land­læknir fer yfir und­ir­bún­ing heil­brigð­is­kerf­is­ins.

 „Við vissum að þessi veira myndi kom­a,“ segir Þórólf­ur. „Við biðjum fólk um að halda ró sinni og fara eftir þeim leið­bein­ingum og fyr­ir­mælum sem hafa verið gefin út.“

Blaða­menn spyrja fjölda spurn­inga. Þeir vilja meðal ann­ars vita hvort til standi að setja á fjölda­tak­mark­anir á sam­kom­ur. Víðir segir að það sé í stöðugri skoðun en á þess­ari stundu sé það ekki lík­legt. En ef ástæða þyki til verði það gert.

Spurður hvort að gera megi ráð fyrir fleiri smitum svarar Þórólfur því ját­andi. „Hversu mörg þau verða er ógjörn­ingur að segja. En ég býst við að þau verði fleiri, já.“

Það er Víðir sem hefur loka­orðin á fund­in­um. Hann brýnir fyrir lands­mönnum að vanda sam­tal sitt. „Við höfum orðið vör við það að börn séu hrædd,“ segir hann. „Það er mjög mik­il­vægt að við öll sem þjóð stöndum nú saman í þessu og tölum skyn­sam­lega.“



Auglýsing

28. febr­úar 2021. Stað­fest smit: 6.050.

Þórólfur er löngu hættur að hvísla því að Víði þegar smit grein­ast. Enda lengst af í far­aldr­inum ekk­ert skyn­sam­legt að hvísl­ast á með allri þeirri nánd sem því fylg­ir. Eftir þennan blaða­manna­fund átti sann­ar­lega margt eftir að breyt­ast. Tveggja metra regla var sett á. Grímu­skylda líka. Og þó að Víðir hafi ekki séð það fyr­ir: Sam­komu­tak­mark­an­ir. Um tíma máttu aðeins tíu manns koma sam­an­.   

„Hugs­aðu þér,“ segir Víðir og hristir höf­uðið yfir þeim nán­ast lygi­lega nýja veru­leika sem við okkur hefur blasað vegna far­ald­urs­ins, alla þá 366 daga sem liðnir eru frá tíma­móta­fund­in­um. Fyrsta smit­inu.

„En engu að síð­ur, að sitja núna ári seinna og horfa til baka, þá er auð­vitað eng­inn sáttur en það er heldur eng­inn æsingur yfir því að það séu fimm­tíu manna sam­komu­tak­mark­an­ir. Við erum bara frekar glöð með það,“ segir hann og hlær. „Það er skrítið hvernig normið fær­ist til. En það segir okkur hversu vel Íslend­ingar eru upp­lýst­ir. Því þessar aðgerðir voru nauð­syn­leg­ar. Og þær hafa sannað gildi sitt.“



Þríeykið á upplýsingafundi snemma í faraldrinum.
Lögreglan

Það eru fleiri tölur en þær sem snúa að fjölda­tak­mörk­unum og stað­festum smitum sem eru Víði ofar­lega í huga í augna­blik­inu. Það gengur jarð­skjálfta­hrina yfir Reykja­nes og stærstu skjálft­arnir hafa verið mun stærri en smit­stuð­ull inn­an­lands­smita er nú um stund­ir. Víðir stýrir ekki ein­göngu verk­efnum tengdum far­aldr­inum fyrir rík­is­lög­reglu­stjóra, sem hann var beð­inn að taka að sér í fyrra, heldur er hann einnig yfir­lög­reglu­þjónn­inn sem stýrir nýju almanna­varn­ar­sviði emb­ætt­is­ins. „Ég er með ansi marga hatta í augna­blik­in­u,“ segir hann og bros­ir.

Víðir hefur starfað í lög­regl­unni um ára­bil og gegnt ýmsum störfum og fyrir fleiri en eitt emb­ætti. Fyrir rúmu ári var hann ráð­inn tíma­bundið til rík­is­lög­reglu­stjóra til að greina starf­sem­ina og skila skýrslu til dóms­mála­ráðu­neyt­is­ins. Verk­efnið átti að taka um tvo mán­uði. „Þannig að þegar ég mætti til starfa 2. jan­úar var ég með haus­inn ofan í grein­ing­arpæl­ing­um,“ segir hann spurður um stóru verk­efnin sem voru framundan í upp­hafi síð­asta árs. „Svo fór ég að heyra af fundum sótt­varna­læknis með ýmsum aðilum vegna þess­arar veiru úti í heim­i.“

Í febr­úar var Víðir far­inn að sitja þá fundi enda búinn að taka að sér verk­efna­stjórn vegna far­ald­urs­ins fyrir hönd emb­ættis rík­is­lög­reglu­stjóra. 

Klárað­ist þessi grein­ing­ar­vinna þín sem hófst í byrjun síð­asta árs?

„Heyrðu, ég er að klára hana nún­a,“ segir hann bros­andi. Planið hafði verið að skila skýrslu um miðjan mars en af því varð ekki því „covid tók yfir,“ útskýrir hann. 



Dagurinn eftir að samkomubann var sett á. Götur miðborgarinnar tómar
Bára Huld Beck

Það tók sann­ar­lega yfir. Og hann, Þórólfur og Alma hafa borið hit­ann og þungan af upp­lýs­inga­gjöf til almenn­ings allan tím­ann. Sam­hliða því að ný veira sem veldur nýjum og hættu­legum sjúk­dómi  fór að herja á heim­inn urðum við flest nefni­lega eitt stórt spurn­ing­ar­merki í fram­an.

Hvernig varð þrí­eykið til?

„Ég segi nú ekki að það hafi verið til­viljun en þetta var heldur ekki algjör­lega teiknað svona upp í við­bragðs­á­ætl­unum sem lágu fyr­ir,“ svarar Víð­ir. Í áætl­un­unum er gert ráð fyrir sam­starfi emb­ætta rík­is­lög­reglu­stjóra og sótt­varna­lækn­is. Einnig er hlut­verk emb­ættis land­læknis skýrt og felst m.a. í því að hafa eft­ir­lit með heil­brigð­is­kerf­inu. „Á sama tíma og emb­ættin þrjú voru að vinna að þús­undum verk­efna sem tengd­ust heims­far­aldri kom upp mjög mikil þörf um miðlun upp­lýs­inga til almenn­ings,“ útskýrir hann. „Við hefðum getað sett aðra í það hlut­verk að svara fjöl­miðlum og miðla almennt upp­lýs­ingum en við töldum mik­il­vægt að gera það sjálf. Og síð­ustu vik­urnar í febr­úar og í byrjun mars þá reyndum við alltaf að svara þegar sím­inn hringdi. Á sama tíma höfðum við auð­vitað mörg önnur verk­efni á okkar könn­u.“

En þorst­inn í upp­lýs­ingar um þróun mála var svo gríð­ar­legur að sím­hring­ing­arnar voru stöðugar á nán­ast öllum tímum sól­ar­hrings­ins. Ákveðið var að reyna að ramma  upp­lýs­inga­gjöf­ina betur inn. „Að mínu mati þarf að vera góður aðgangur að fólki sem er í svona verk­efn­um,“ segir Víðir með áherslu. „Ég lít svo á að með því að veita við­töl séum við að þjón­usta almenn­ing. Við fund­uðum því með frétta­stjórum í byrjun mars, vildum heyra hvernig tíma­línur fjöl­miðl­anna væru yfir dag­inn. Við komumst að því að það var óskað eftir aðgangi að upp­lýs­ingum frá klukkan 6.45 á morgn­ana og til mið­nætt­is. Við lögðum því fram þá til­lögu að við myndum tryggja aðgang að upp­lýs­ingum á ákveðnum tíma alla daga.“ 



„Að mínu mati þarf að vera góður aðgangur að fólki sem er í svona verkefnum,“ segir Víðir.
Lögreglan

Í kjöl­farið voru dag­legu upp­lýs­inga­fund­irnir settir á dag­skrá. „Við héldum kannski að þetta þyrfti að vera svona í ein­hverjar vik­ur. Og um 170 fundum seinna erum við að fækka þeim niður í einn á viku,“ segir Víðir og hlær. 

Dag­legir fundir voru frá mars og fram í maí. Þá var reynt að fækka þeim – jafn­vel gefa þeim frí í lengri tíma. 

En við vitum öll hvað gerð­ist svo. 

Smit fóru að koma upp og Víðir Reyn­is­son var mættur aftur inn í stofu til okk­ar. Horfði beint í augun á okkur og sagði að nú yrði að fara var­lega. Með sínu stað­fasta en milda yfir­bragði.

Þórólfur um Víði: Jákvæður og mjög lausnamiðaður

„Ég hef þekkt Víði lengi,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir, spurður um sín kynni af Víði. „Við unnum að undirbúningi viðbragðsáætlana fyrir mörgum árum og þá lágu leiðir okkar saman. Það hefur því ekkert komið mér á óvart með hans störf. Ég vissi vel hvaða mann hann hefði að geyma.

Hann hefur mjög marga góða eiginleika. Bæði er hann frábær manneskja og svo er hann mjög fær í sínu starfi. Hann er óþreytandi, jákvæður og mjög lausnamiðaður. Fljótur að sjá leiðir út úr vandamálum. Svo á hann mjög gott með að umgangast og hafa samskipti við fólk. Og það hefur nýst okkur ótrúlega vel og ómetanlegt í þessum viðbrögðum öllum.

Við þrjú, ég, Alma og Víðir, höfum unnið mjög náið saman og ræðum málin mjög mikið. Ætli húmorinn sé ekki það sem hefur fleytt okkur í gegnum þetta, að geta gert grín að sjálfum okkur og hlutum sem koma upp á þó að þetta sé vitanlega ekkert grín í sjálfu sér.

Samskipti okkar þriggja hafa verið með eindæmum góð. Við höfum stuðning af hverju öðru og öðrum okkar samstarfsmönnum. Það hafa aldrei komið upp nein persónuleg vandamál svo það má segja að þetta samstarf hafi gengið með ólíkindum vel.“

Þú hefur meðal ann­ars verið í því hlut­verki að halda okkur við efnið og stappa í okkur stál­inu. Er það þér eðl­is­lægt?

„Tja, ég held að það liggi ágæt­lega fyrir mér,“ svarar Víðir hugsi. „Ég á gott með að vinna með fólki. Ég hef starfað tölu­vert í kringum íþrótt­ir. Þegar ég var yngri tók ég þátt í þeim sjálfur og síðar sem for­eldri. Þannig að ég hef séð mun­inn á því hvernig ólíkum þjálf­urum gengur að ná til iðk­enda. Svo hef ég í vinnu minni fyrir Knatt­spyrnu­sam­bandið fylgst með þjálf­urum og öðru starfs­fólki styðja og hvetja leik­menn. Bæði á góðum og erf­iðum stund­um. Það er alveg hell­ingur sem ég hef lært af þessum þætti í lífi mín­u. 

Ég byrj­aði í björg­un­ar­sveit árið 1986 og hef síðan í mínu starfi komið mikið að ham­fara- og neyð­ar­stjórn­un. Ég hef séð hvernig sam­skipti og sam­vinna þarf að vera á erf­iðum stund­um. Þannig að ég hef nálg­ast þetta verk­efni með það í huga að við séum öll lið. Að þetta séu „við“ – og að ég sé að tala við fólkið mitt. Þetta hefur ef til vill verið meira ómeð­vitað en hitt. Ég hef talað beint frá hjart­an­u.“

„Ég hef talað beint frá hjartanu,“ segir Víðir.
Lögreglan

Af því höfum við oft­sinnis orðið vitni að. Víðir hefur brýnt fyrir þjóð­inni að veiran sé and­stæð­ing­ur­inn, að við séum öll í þess­ari bar­áttu sam­an. Verið hrein­skil­inn þegar gefið hefur á bát­inn. 

„Það er ákaf­lega fín lína á milli þess að fræða fólk –tala um stað­reyndir – og svo að hræða það,“ segir Víð­ir. „Yfir þá línu vill maður ekki fara. Sumir hafa sagt að það þurfi að hræða fólk svo að það hlýði fyr­ir­mæl­um. Að mínu mati er alls ekk­ert vit í því. Þetta snýst um að miðla réttum upp­lýs­ingum byggðum á vís­inda­legum grunni – rétt eins og við gerum í jarð­skjálft­um. Við vitum ekk­ert nákvæm­lega hvar næsti skjálfti verður en það sem við vitum er að það eru meiri líkur á því að það verði stór skjálfti þegar hrina er í gang­i.“ 

Meira að segja á þeim tíma­punktum í far­aldr­inum þegar fólk var orðið þreytt á sótt­varna­að­gerðum og slak­aði kannski aðeins of mikið á seg­ist Víði aldrei hafa dottið í hug að hræða fólk til hlýðni. „Ég hef með­vitað vandað mig að gera það ekki. Auð­vitað getur það sem maður seg­ir, um stöðu mála, hrætt ein­hverja og það er vont.“



Auglýsing

Með sam­komu­tak­mörk­unum er verið að banna fólki að gera hitt og þetta sem áður var hvers­dags­legt. Hvernig horfir það við þér sem lög­reglu­þjóni?

 „Tak­mark­anir sem þessar eru ekki hlutir sem við Íslend­ingar höfum kynnst af neinu ráði í allri lýð­veld­is­sög­unni. Þegar við vorum að ræða þetta fyrst, að beita þeim, þá fannst mér það rosa­lega skrítin til­hugs­un. En af því að ég var búinn að kynna mér veiruna, hvernig hún smit­að­ist, þá vissi ég að eitt­hvað þyrfti að ger­a. 

Allar þessar aðgerðir snúa að hegðun fólks. Þannig höfum við spurt: Hvernig hegðar fólk sér í mis­mun­andi aðstæð­um? Hvar er þá smit­hættan mest? Þannig hefur verið ákveðið að tak­marka ákveðna hluti til að draga úr ákveð­inni hegð­un. Oft­ast hefur það gengið vel, stundum ekki. Við höfum lært alveg hell­ing.“ 

Stöndum saman þegar á reynir

Sam­komu­tak­mark­anir voru fyrst settar á í mars og þegar Víðir hugsar til baka segir hann það ef til vill ekki hafa verið sjálf­gefið að almenn­ingur væri til­bú­inn að fara eftir þeim. „En íslenskt sam­fé­lag er þannig að það stendur saman þegar á reyn­ir. Það höfum við margoft séð í gegnum tíð­ina í nátt­úru­ham­för­um. Við getum rif­ist um málin í heita pott­inum og á sam­fé­lags­miðl­unum en þegar við teljum okkur raun­veru­lega þurfa að standa saman þá gerum við það.

Þannig að ég held að fólk hafi strax treyst því að sam­komu­tak­mark­anir voru settar á af ríkri ástæðu. Þetta voru ekki bara ein­hverjar hug­myndir frá „tveimur læknum og einum löggu­kalli“ – eins og Alma orð­aði það ein­hvern tím­ann – heldur nauð­syn­legar aðgerð­ir.“

Víðir og Þórólfur fara yfir tveggja metra regluna.
Lögreglan

Í lok fyrstu bylgj­unn­ar, sem reyndar var framan af kölluð far­ald­ur­inn, því ekki var almennt farið að tala um aðrar bylgj­ur, sveif bjart­sýni yfir vötn­um. 

Varst þú í því liði sem hélt að þetta væri alveg að verða búið?

„Í apr­íl, þegar við sáum kúr­f­una fara niður í takti við spálíkan­ið, þá var ég mjög bjart­sýnn á að þetta myndi bara klár­ast – að þetta væri að verða búið. En svo sáum við að ann­ars staðar í heim­inum var far­ald­ur­inn í upp­sveiflu. Og svona heims­far­aldri lýkur hvergi fyrr en honum lýkur alls stað­ar.“

Þess vegna fór Víðir ekki áhyggju­laus inn í sum­ar­ið. „Við sem höfðum verið að vinna í þessu vorum búin að átta okkur á því að þetta væri nú hálf­gert svika­logn. Að við yrðum ótrú­lega heppin ef ekk­ert gerð­ist. En auð­vitað vorum við öll að vona að þetta myndi fara vel. Að sýna­takan á landa­mærum myndi gagn­ast vel. Hún gerði það en aðeins upp að vissu marki. Allt í einu fór að bera á einu smiti hér og öðru þar. Og í lok júlí var þetta bara komið á fulla ferð aft­ur.“

Umræðan um fót­bolta­kon­una ósann­gjörn

Meðal þeirra sem komu smit­aðir að utan, án þess að grein­ast í landamæra­skimun, sem þá fólst í einni sýna­töku, var ung knatt­spyrnu­kona. Hún var nafn­greind í fjöl­miðlum og myndir birtar af henni. Umræðan varð á köflum grimm. Víði finnst enn erfitt til þess að hugsa. „Þetta var hrika­legt. Með þessu var henni stillt upp sem skot­marki. Á hana var hengd þessi smit­skömm, eitt af þessum nýju orðum sem varð til í fyrra. Ég vona að þeir sem að því komu að nafn­greina hana hafi lært af því.

En í þessu máli sýndi sig enn og aftur hvað íslenskt sam­fé­lag er sterkt. Það risu strax margir upp og sögðu: Þetta ætlum við ekki að líða. Það er ekki líð­andi, þegar við erum að fást við svona mál, að reynt sé að finna ein­hverja söku­dólga. Það ætlar sér eng­inn að smit­ast og það ætlar sér sann­ar­lega eng­inn að smita ein­hvern ann­an. Það var fárán­legt að skella ein­hverri skuld á hana og í raun var umræðan eins ósann­gjörn og hún frekast gat orð­ið.“ 



Páskar. Víðir hvatti fólk til að ferðast innanhúss.
Lögreglan

Önnur bylgja far­ald­urs­ins var lítil í sam­an­burði við þá fyrstu og örsmá miðað við þá þriðju sem var handan við horn­ið.

 „Um sum­ar­ið, þegar smitin fóru að koma aftur upp, vorum við að herða á tak­mörk­unum en reyndum að stíga mjög var­lega til jarð­ar,“ rifjar Víðir upp. „Við fundum að það var ekki ein­hugur í sam­fé­lag­inu, að vaknað hafði krafa um að við ættum að fara að treysta fólki. Að það ætti að verða stefn­an. En Þórólfur er alveg ein­stakur mað­ur. Ég hef ekki unnið með nokkrum manni áður sem lætur bók­staf­lega ekk­ert trufla sig. Í óvenju­legum aðstæðum þar sem þurfti að taka ákvarð­anir sem hafa svona mikil áhrif þá gat hann alltaf farið inn í vís­ind­in. Skoðað hvað fræðin og rann­sókn­irnar væru að segja. Hann missti aldrei fók­us­inn á það.“

 En svo „springur þetta nátt­úr­lega út“ – á nán­ast einni helgi, segir Víðir um þriðju bylgj­una. Allt í einu eru smitin ekki eitt og eitt heldur rjúka upp. Tvö stór hópsmit áttu sér stað þar sem hund­ruð manna sýkt­ust þegar upp var stað­ið.

Þau voru ekki rakin til ein­stak­linga, eins og hafði gerst um sum­ar­ið, heldur til staða. Nánar til­tekið kráa og lík­ams­rækt­ar­stöðv­ar. Fjöl­miðlar þrá­spurðu um hvaða staði væri að ræða. Að lokum steig rekstr­ar­að­ili einnar krár­innar fram og sagði: Þetta gerð­ist hjá okk­ur.

 Smit höfðu komið upp á fleiri krám en eig­endur þeirra voru ekki til­búnir að stíga fram. „Ég skil það vel,“ segir Víð­ir. „Menn voru hræddir um að hópsmitin yrðu kennd við þá eins og varð svo raunin með þennan eina stað.“

Því þetta er heimsfaraldur. Það er mögulegt að við og önnur Evrópulönd verðum komin á góðan stað í júlí eða ágúst en við megum ekki gleyma því að staðan er allt önnur víðast annars staðar.
Víðir fór ekki áhyggjulaus inn í sumarið enda hættan á annarri bylgju orðin augljós.
Lögreglan

Það eru engar ýkjur að tala um að bylgjan hafi sprungið út. Á margra daga tíma­bili var dag­legur fjöldi nýrra smita inn­an­lands um eða yfir átta­tíu.  

„Við vildum gæta með­al­hófs og ekki loka öllu því það er jú hegð­un­in, í þessu til­viki með áfengi, sem er áhættu­þátt­ur­inn. En við vildum reyna að minnka áfeng­is­drykkj­una og það sem henni getur fylg­t.“

Krám var lokað en staðir sem seldu mat máttu áfram hafa opið sem olli nokkrum deil­um. Víðir segir að umræðan og gagn­rýnin í þriðju bylgj­unni hafi verið allt ann­ars eðlis en í þeim fyrri. „Heiftin var miklu meiri. Reið­in. Það tengd­ist þreyt­unni, við vorum farin að tala um far­sótt­ar­þreytu. Hún var orðin raun­veru­legt vanda­mál hér og alls stað­ar. 

En þrátt fyrir það setti sam­fé­lagið undir sig haus­inn. Fólk hugs­aði: Ok. Við erum að lenda hér í ein­hverjum stormi. Við tökum þetta. Og það tókst.“

Allt frá upp­hafi far­ald­urs­ins hafa Víðir og aðrir í fram­lín­unni sagst fagna mál­efna­legri gagn­rýni því hún væri af hinu góða. 

En eitt­hvað breytt­ist síð­asta haust. 

Umræðan um sóttvarnaaðgerðir breyttist síðasta haust. Það var komin þreyta í mannskapinn. Víðir segist hafa fundið það vel.
Lögreglan

Þessi heift sem þú talar um, beind­ist hún að þér per­sónu­lega?

„Já.“

Kom hún illa við þig?

„Já. Ég er nátt­úr­lega þannig per­sóna að ég er frekar opinn og gæti jafn­vel alveg talist við­kvæm­ur, eða hvernig sem á að orða það. Ég tek mál­efna­lega gagn­rýni ekki nærri mér, finnst hún frá­bær og nauð­syn­leg. Hún hjálpar mér að hugsa. En mér finnst ótrú­lega leið­in­legt að verða fyrir rætnu skít­kasti og kjafta­sög­um. Ein­hverju sem er ósann­gjarnt. Það fer illa í mig.“

Er eitt­hvað sem situr í þér enn­þá?

„Já, það er eitt og annað sem hefur verið sagt við mig og um mig sem gerir það. Ég veit að stundum er orðum kastað fram í ein­hverjum pirr­ingi. Og oft get ég bara andað með nef­inu og tekið því. En stundum kemst það dýpra.“

Mesta skít­kastið á sér stað á sam­fé­lags­miðlum og Víðir seg­ist oft velta því fyrir sér hvort að fólk sem það setja fram, fólk sem hann þekki oft­ast ekki neitt, myndi segja þessa hluti við hann í per­sónu. „Ég er sann­færður um að í lang­flestum til­fellum myndi eng­inn tala svona við nokkra aðra mann­eskju. Svo hefur sumt af þessu farið út í það að vera bein­línis hót­an­ir. Það er auð­vitað orðið mjög alvar­leg­t.“

Hvers konar hót­an­ir?

„Líf­láts­hót­an­ir.“

Og hefur þú farið með þau mál lengra?

„Já, ég hef gert það.“

Auglýsing

Víðir segir vini sína stundum hafa tekið upp á því að ganga á fólk sem er að tala um hann og segja sitt­hvað rætið og rangt. Spyrja hvort að það þekki hann. „Það telja sig kannski allir þekkja mig, lögg­una úr sjón­varp­inu, því ég hef verið opinn með allt mitt líf. Það hefur verið hluti af nálgun minni á verk­efn­ið.“ 

Í vor var hann spurður hvernig honum þætti að vera orð­inn almenn­ings­eign. Hann varð hugsi í fram­hald­inu. „Ég er ekki almenn­ings­eign,“ segir hann. „Ég er að vinna vinn­una mína og ég vinn fyrir almenn­ing. En almenn­ingur á mig ekki. Þannig að það hef­ur, væg­ast sagt, verið sér­stök upp­lifun að finna að fólki finn­ist það geta sagt nán­ast hvað sem er um mig. Ég er auð­vitað ekki sá eini sem hef lent í þessu. Langt í frá. Þeir sem hafa gagn­rýnt okkur opin­ber­lega en af yfir­vegun og kurt­eisi, fólk sem hefur viljað fá skýr­ari svör og verið með aðra sýn en við á mál­in, hafa til dæmis sumir hverjir fengið yfir sig alveg hroða­legt skít­kast. Mér finnst það óþægi­legt og mér finnst það ósann­gjarnt.

Ég hef lært alveg ótrú­lega margt um mann­leg sam­skipti á þessu ári. Það hefur opn­ast fyrir mér nýr veru­leiki að svo mörgu leyti. En það má ekki gleyma því að þetta eru aðeins örfáir ein­stak­lingar sem hegða sér með þessum hætti. Allir hafa rétt á sínum skoð­unum en ég tel að sumir þurfi að draga djúpt and­ann áður en þeir ýta á enter á lykla­borð­inu. Því þó að við séum ekki sam­mála þá getum við verið kurt­eis. Það myndi bæta sam­fé­lagið okkar enn­frek­ar.“



Víðir í viðtali í veikindunum.
Skjáskot: Vísir

Þegar það var upp­lýst í lok nóv­em­ber að þú hefðir greinst með COVID-19. Fékkstu þá svona við­brögð eins og þú varst að lýsa?

„Já. Og það kom mjög illa við mig,“ svarar Víðir og rifjar upp aðdrag­and­ann að þeirri miklu umræðu sem fór af stað. „Það er ýmis­legt sem ég hef gert sem ég myndi gera öðru­vísi í dag. Eitt af því var að ég skrif­aði, alveg hundlasinn, Face­book-­færslu, um hvernig þetta hafði borið að. Í henni fór ég ekki alveg með allt rétt. Þegar ég var að telja upp þá sem voru inni á mínu heim­ili þá taldi ég líka með fólkið sem býr með mér. Þannig að gestir voru örfáir og langt innan allra þeirra reglna sem voru í gild­i. 

En ein­hvern veg­inn tóku margir þessu þannig að heim­ilið hefði verið eins og lest­ar­stöð í mið­borg London. Hefði ég verið aðeins skýr­ari í koll­inum hefði ég orðað þessa færslu öðru­vísi.“ 

Hvað varð til þess að þú skrif­aðir færsl­una akkúrat á þessum tíma­punkti?

„Þetta kom þannig til að ég fékk sím­tal um að það væri að fara að birt­ast frétt um hvernig til­drögin að mínum veik­indum hefðu ver­ið. Í henni átti að koma fram að ég hefði verið í Vest­manna­eyjum í sam­kvæmi. Sá mis­skiln­ingur tengd­ist mynd, árs­gam­alli minn­ingu, sem ein­hver hafði end­ur­deilt á Face­book. 

Ég dró þá álykt­un, eins og ég hef alltaf gert, að best væri leggja spilin á borð­ið.

Þetta var þannig að vina­fólk okkar utan af landi gisti heima hjá okk­ur. Þau þurftu á því að halda. Svo kom vina­fólk okkar allra í heim­sókn þennan dag, til að hitta okkur og þau. Úr varð að við smit­uð­umst öll. Það voru sem sagt fimm sem smit­uð­ust. 

Við sátum öll með að minnsta kosti tveggja metra bil á milli okk­ar. Við gættum okkar vel. Hver sótti sitt vatns­glas og þar fram eftir göt­un­um. En eftir á sáum við tvo snertifleti sem höfðu verið sam­eig­in­leg­ir: Kaffi­bolli og vatns­kanna.

Þegar ég fékk þær upp­lýs­ingar að birta ætti þessa röngu frétt þá hefði ég átt að draga and­ann – eins og ég sagði áðan að fólk ætti að gera áður en það fer að hamra á lykla­borð­ið. En mig lang­aði svo að koma hreint fram í öllu. En svona kom þetta út. Og margir misstu sig yfir þessu.“ 



Víðir í viðtali síðasta haust. Hann segist ekki almannaeign. Hann sé að vinna vinnuna sína og vinni fyrir almenning.
Almannavarnir

En hefur þú þá aldrei viljað leið­rétta þetta? Því margar fréttir voru byggðar á þess­ari færslu og þá ekki á réttum og nákvæmum upp­lýs­ing­um?

„Nei, ég hef ekki verið að velta mér upp úr því. Ég hef verið alveg heið­ar­legur með þetta allt sam­an, alltaf þegar ég hef verið spurður um þetta og í fram­hald­inu mín veik­ind­i.“

Þannig að hlýddi Víðir Víði? Var ekk­ert í þessum sam­skiptum sem þú sérð eftir á að...

„Nei,“ svarar Víðir strax. „Og ef ein­hver hefði átt í sömu sam­skiptum og ég gerði þessa helgi hefði ég ekki bent á hann og sagt að þetta væri nú ekki gott. En ég skil alveg að sumum hafi þótt þetta skrít­ið. Fólk sem var jafn­vel ekki að hitta neina utan síns heim­ilis á þessum tíma þó að við höfum aldrei verið að banna fólki að hitt­ast. Seinna tókum við upp jólakúl­urn­ar, og það sem gerð­ist heima hjá mér umrædda helgi var einmitt þannig, fólk að hitt­ast sem var ekki mikið að hitta aðra. Mitt nán­asta fólk.“ 

Þú hefur sagt að slysin ger­ist, að þessi veira sé svo lúmsk. Engu að síður hafa margir upp­lifað smit­skömm. Upp­lifðir þú það? Fannstu fyrir smit­skömm?

„Já. Mér leið alveg ömur­lega yfir að hafa smitast,“ við­ur­kennir Víð­ir. „Al­veg ömur­lega. Þú getur rétt ímyndað þér, að vera búinn að tala um þetta allan þennan tíma, að hvetja fólk til að passa sig og gæta að sótt­vörn­um, og svo smit­ast ég sjálf­ur.

Ég smit­ast af kon­unni minni. Það var nán­ast ekk­ert sem ég gat gert til að forð­ast það. Sama með hana. Hún var alltaf að hugsa um að verja mig og fór ein­stak­lega var­lega. Ég fór nán­ast aldrei neitt nema í vinn­una og svo heim á þessum tíma. Hún fór í mat­vöru­búð­ir, í apó­tek og í sína vinnu. Annað gerði hún ekki.  

Það finnst ekki enn­þá, þrátt fyrir mjög mikla skoð­un, hvaðan hennar smit kom. Það getur aðeins hafa komið af þessum þremur stöð­um. Grun­ur­inn hefur beinst að lyftu á vinnu­staðnum hennar því að það voru fleiri í hús­inu sem smit­uð­ust á svip­uðum tíma þó að eng­inn sam­gangur væri þeirra á milli. Þannig að þó að maður sé að passa sig sér­stak­lega vel þá er eng­inn örugg­ur.“



Enginn er alveg öruggur fyrir veirunni, segir Víðir. Hann smitaðist af konunni sinni en ekki hefur tekist að rekja hennar smit þrátt fyrir ítarlegar tilraunir.
Lögreglan

Á sama tíma og þú ert að fá þessa gagn­rýni og finna þessar erf­iðu til­finn­ingar þá ertu orð­inn mjög veik­ur. Jók það á áfall­ið? 

„Já. Fyrstu dag­ana var ég ennþá að mæta á fjar­fundi í vinn­unni og var spurður hvernig mér liði. Og ég sagði að mér liði eins og ég hefði lent undir strætó. Á svo marga vegu. Lík­am­lega var ég að verða alveg hundlas­inn og á sama tíma var þetta and­lega áfall orðið mjög þungt. Maður var eig­in­lega algjör­lega í drasli. 

Það og lang­tíma álag og streita hefur mögu­lega haft sitt að segja í því hversu alvar­lega ég veikt­ist.“

Varstu smeykur af því að þú veikt­ist svona alvar­lega?

„Nei, ég varð það ekki. Mér fannst ég alltaf vera í góðum hönd­um. Ég fékk meiri hósta en ég hef sam­tals fengið á allri minni ævi. Á tíma­bili fannst mér ég nán­ast vera að kafna. Ég fékk lungna­bólgu, covid-l­ungu eins og menn kalla það, og þurfti að leggj­ast inn á göngu­deild­ina til að fá vökva í æð, lyf og ráð­legg­ing­ar. Þannig að það var mjög vel haldið utan um mann.“

Núna eru liðnir þrír mán­uðir frá því að Víðir veikt­ist og þó að hann finni enn fyrir ýmsum eft­ir­köstum telur hann heilsu sína fara batn­andi. Hann finnur enn enga lykt og bragð­skynið er mjög skert. Að auki á mikil þreyta það til hell­ast yfir hann. Um tíma var heila­þokan, sem margir COVID-­sjúk­lingar hafa talað um, vanda­mál. „Á tíma­bili var þetta þannig að mér fannst ég ekki geta hugs­að. Hélt ekki fók­u­s.“

Víðir mætti of snemma til vinnu eftir veikindin. Hann er nú aftur tekinn við því hlutverki að stýra upplýsingafundum almannavarna.
Almannavarnir

Víðir var rúm­lega þrjár vikur í ein­angrun og var „orð­inn leiður á þessu en samt ennþá lasinn,“ eins og hann orðar það. Hann mæld­ist þá þegar með mikið mótefni, hættur að smita, og var útskrif­aður úr ein­angr­un. „Stundum hlustar maður ekki nógu vel á lík­amann og aðra,“ segir hann og kím­ir. „Ég fór í vinn­una nokkrum dögum síð­ar. Þá féllu skrið­urnar á Seyð­is­firði og við hjá almanna­vörnum þurftum að sinna því stóra verk­efni. Þannig að ég fór strax austur en man reyndar lítið eftir þeim degi. Svo hringdi lækn­ir­inn í mig, eftir að hafa séð við­tal við mig í sjón­varp­inu, og spurði hvað ég héldi eig­in­lega að ég væri að gera. Minnti mig á að ég væri enn fár­veikur þó að ég væri ekki smit­andi. Þannig að þá fór ég aftur heim og tók því rólega. Ég sinnti vinn­unni áfram, mætti á fjar­fundi og fylgd­ist með gangi mála. En ég hafði farið alltof snemma af stað og ég þurfti á þessum tveimur vikum til við­bótar að halda.“



Víði var færð kaka í tilefni afmælis hans á einum upplýsingafundinum í fyrstu bylgjunni. Góðvildin snerti hann.
Skjáskot RÚV

 Hvernig vannst þú þig út úr þessu áfalli sem fylgdi því að greinast?

„Ein­fald­lega með því að tala um það. Að grafa það ekki inni. Ég á frá­bæra fjöl­skyldu og allt mitt nán­asta fólk, líka mitt sam­starfs­fólk, hefur staðið þétt við bakið á mér. Þó að þetta hafi verið mikið áfall þá er þetta samt ekki eitt­hvað sem mun marka mig fyrir lífs­tíð. Ég er kom­inn á þann stað að hafa áttað mig á að það var ekk­ert sem ég hefði getað gert í þessu. Ekki frekar en nokkur annar sem fengið hefur covid.“

Líkt og fyrir ári, þegar fyrsta smitið greind­ist, stöndum við á tíma­mót­um. Ýmsum sam­komu­tak­mörk­unum inn­an­lands hefur verið aflétt á sama tíma og enn betur er reynt að koma í veg fyrir að smit ber­ist yfir landa­mær­in. Dagar líða án þess að nokkuð smit grein­ist. Bólu­setn­ingar eru hafn­ar. Það er vor í lofti – þó að alm­an­akið segi að það sé enn hávet­ur. 

Hvernig held­urðu að það muni ganga að vinda ofan af öllum þessum tak­mörk­unum og koma sam­fé­lag­inu í samt horf?

„Það hefur sýnt sig að það getur verið flókið að aflétta tak­mörk­un­um,“ svarar Víð­ir. „Við vorum farin að binda vonir við að með bólu­setn­ingum og hjarð­ó­næmi gætum við klárað þetta covid. En á meðan að yfir hund­rað lönd í heim­inum hafa ekki fengið einn ein­asta skammt af bólu­efni þá getum við ekki farið að telja niður í brjálað partí og hætt að hugsa um þetta. 

Því þetta er heims­far­ald­ur. Það er mögu­legt að við og önnur Evr­ópu­lönd verðum komin á góðan stað í júlí eða ágúst en við megum ekki gleyma því að staðan er allt önnur víð­ast ann­ars stað­ar. Það felur í sér ýmsa óvissu­þætti. Varð­andi nýju afbrigðin til dæm­is. En við verðum bara að leysa það þegar við komum þang­að. Ein­beita okkur að því sem að við vitum að við vit­um, eins og stundum er sagt í krísu­stjórn­un.“ 



Auglýsing

Heldur þú að far­ald­ur­inn og aðgerðir sem honum hafa fylgt muni breyta íslensku sam­fé­lagi?

„Ekki til ills. Ég held einmitt að við höfum lært ýmis­legt í far­aldr­inum sem eigi eftir að verða okkur til góðs. Mér finnst fólk til dæmis almennt meira farið að skoða hvernig hegðun þess getur haft áhrif á umhverf­ið. Við höfum séð hvernig heim­ur­inn getur litið út þegar meng­unin er minn­i. 

Svo var tækn­inni sparkað því­líkt langt framá­við. Dag­inn sem jarð­skjálft­arnir byrj­uðu héldum við 100 manna fjar­fund með sér­fræð­ingum og öðrum til að deila upp­lýs­ing­um. Fyrir covid hefðum við lagt í funda­ferða­lag um Reykja­nesið – dregið vís­inda­menn með okkur á átta fundi! En ég ætla auð­vitað að vona að þetta komi ekki alfarið í stað­inn fyrir að hitt­ast. Það má ekki ger­ast.“ 

Almannavarnir

Er eitt­hvað sér­stakt sem þú hlakkar til að gera þegar covid klárast?

„Þó að mínar upp­á­halds­stundir hafi alltaf verið með fjöl­skyld­unni hef ég lært að meta þær enn meira í þessu ástandi. Mínar bestu minn­ingar frá síð­asta ári eru þessir dagspartar sem maður gat tekið sér frí og gert eitt­hvað með sínum nán­ustu. Það gefur mér ótrú­lega orku og hefur komið mér í gegnum erf­ið­ustu skafl­ana í þessu öllu.“

Víðir seg­ist alls ekk­ert finna fyrir þrá að kom­ast til útlanda. „Mig langar að vera með fólk­inu mínu og vinum mínum en mér er eig­in­lega alveg sama hvar.

Konan mín er nátt­úr­lega alveg ein­stök. Við reynum að fara út að ganga á hverjum degi og spjöll­um. Stundum tala ég allan tím­ann um vinn­una! Hún er minn besti ráð­gjafi. Þetta eru gæða­stundir sem gefa mér mjög mik­ið. Þannig að ég hlakka mest til þess að eiga þær fleiri.“ 



Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiViðtal