Árétting: Eftir endurtalningu í Norðvesturkjördæmi á sunnudag urðu breytingar í þingmannahópnum. Enn er mögulegt að endurtalið verði í fleiri kjördæmum. Fréttin hér að neðan miðar enn við tölurnar eins og þær voru á sunnudagsmorgun.
26 þingmenn, fimmtán konur og ellefu karlar, voru kjörnir í fyrsta sinn í alþingiskosningnum sem fram fóru í gær. Þetta varð ljóst á tíunda tímanum í morgun þegar lokatölur voru birtar úr öllum kjördæmum.
Í hópnum eru nokkrir sem eru þó ekki algjörir nýgræðingar þegar kemur að þingmennsku þar sem tíu hinna nýju þingmanna hafa annað hvort setið áður á þingi, líkt og Þórunn Sveinbjarnardóttir sem er að koma aftur inn á þing eftir tíu ára hlé, eða gegnt varaþingmennsku. Þá tóku tveir hinna nýju þingmanna sæti á síðasta þingi, þ.e. Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir fyrir Viðreisn og Þórarinn Ingi Pétursson fyrir Framsóknarflokkinn. Auk þess telst Guðmundur Ingi Guðbrandsson, varaformaður Vinstri grænna, nýr þingmaður þar sem hann tók við embætti umhverfis- og auðlindaráðherra eftir síðustu kosningar sem utanþingsráðherra.
Ungar konur eru áberandi á meðal nýrra þingmanna. Lenya Rún Tha Karim, frambjóðandi Pírata, er yngsti þingmaður sögunnar sem nær kjöri. Hún verður 22 ára í desember og er 22 dögum yngri en Jóhanna María Sigmundsdóttir var þegar hún tók sæti á Alþingi fyrir Framsóknarflokkinn árið 2013. Lenya Rún tryggði sætið snemma í morgun og datt Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, út af þingi á kostnað hennar. Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir er næst yngsti nýi þingmaðurinn, en hún er 25 ára og tekur sæti á þingi fyrir Framsóknarflokkinn.
41,3 prósent þingmanna er kjörinn í fyrsta sinn. Nýliðunin er í takt við þróunina síðustu fimm alþingiskosningar, það er 2007, 2009, 2013, 2016 og 2017, þar sem hún hefur verið á bilinu 30,2 til 50,8 prósent. Hæśt var hlutfallið árið 2016 þegar 32 nýir þingmenn tóku sæti á Alþingi.
Hér má sjá nýja þingmenn eftir kjördæmum:
Norðvesturkjördæmi
Stefán Vagn Stefánsson (B) - Yfirlögregluþjónn.
Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir (B) - Formaður Sambands ungra Framsóknarmanna.
Þórarinn Ingi Pétursson (B) - Sauðfjárbóndi.
Guðmundur Gunnarsson (C) - Fyrrverandi bæjarstjóri á Ísafirði.
Eyjólfur Ármannsson (F) - Lögfræðingur og formaður hópsins Orkunnar okkar.
Bjarni Jónsson (V) - Sveitarstjórnarmaður í Skagafirði og varaþingmaður Vinstri grænna. Bjarni skákaði Lilju Rafneyju í forvali flokksins í vor og hún dettur nú út af þingi.
Norðausturkjördæmi:
Ingibjörg Ólöf Isaksen (B) - Bæjarfulltrúi og framkvæmdastjóri á Akureyri. Ingibjörg skipaði efsta sæti á lista Framsóknarflokksins og hafði hún betur gegn Líneik Önnu Sævarsdóttur þingmanni flokksins, en hún nær einnig kjöri.
Jakob Frímann Magnússon (F) - Tónlistarmaður. Jakob Frímann kemur aftur inn á þing, nú fyrir Flokk fólksins en hann var varaþingmaður fyrir Samfylkinguna árið 2004.
Berglind Ósk Guðmundsdóttir (D) - Lögfræðingur og varabæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri.
Jódís Skúladóttir (V) - Lögfræðingur, sveitarstjórnarfulltrúi VG í Múlaþingi og formaður félagsins Hinsegin Austurlands.
Reykjavíkurkjördæmi norður
Diljá Mist Einarsdóttir (D) - Lögfræðingur og aðstoðarmaður utanríkisráðherra frá árinu 2018.
Tómas A. Tómasson (F) - Veitingamaður og stofnandi Hamborgarabúllu Tómasar.
Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir (C) - Lögfræðingur. Þorbjörg tók fyrst sæti á Alþingi í apríl í fyrra þegar hún tók við af Þorsteini Víglundssyni sem sagði af sér þingmennsku á kjörtímabilinu.
Lenya Rún Taha Karim (P) - 21 árs lögfræðinemi.
Reykjavíkurkjördæmi suður
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) - Sjálfstætt starfandi lögmaður.
Kristrún Frostadóttir (S) - Hagfræðingur
Hildur Sverrisdóttir (D) - Lögfræðingur
Suðurkjördæmi
Jóhann Friðrik Friðriksson (F) - Lýðheilsufræðingur
Hafdís Hrönn Þorsteinsdóttir (B) - Lögfræðingur og stjórnarformaður Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.
Guðrún Hafsteinsdóttir (D) - Markaðsstjóri Kjörís og fyrrverandi formaður Samtaka iðnaðarins.
Hólmfríður Árnadóttir (V) - Menntunarfræðingur og skólastjóri í Sandgerði.
Ásthildur Lóa Þórsdóttir (F) - Kennari og formaður Hagsmunasamtaka heimilanna.
Suðvesturkjördæmi
Sigmar Guðmundsson (C) - Fjölmiðlamaður.
Ágúst Bjarni Garðarsson (B) - Bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins í Hafnarfirði og formaður bæjarráðs.
Þórunn Sveinbjarnardóttir (S) - Stjórnmálafræðingur. Tekur aftur sæti á Alþingi eftir tíu ára hlé.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson (V) - Umhverfis- og auðlindaráðherra.
25 þingmenn kveðja Alþingi - Sjö sem sóttust eftir kjöri ná ekki inn
Fyrir kjördag var ljóst að 18 þingmenn hið minnsta myndu segja skilið við þingið þar sem þau voru ekki á listum flokkanna eða í efstu sætum þeirra í kosningunum nú.
Það eru Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Ari Trausti Guðmundsson, Ágúst Ólafur Ágústsson, Guðjón S. Brjánsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Helgi Hrafn Gunnarsson, Jón Þór Ólafsson, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Kristján Þór Júlíusson, Ólafur Ísleifsson, Páll Magnússon, Sigríður Á. Andersen, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Smári McCarthy, Steingrímur J. Sigfússon, Þorsteinn Víglundsson sem hætti á kjörtímabilinu, Þorsteinn Sæmundsson og Þórunn Egilsdóttir sem lést í júlí.
Eftir að lokatölur voru birtar í morgun er ljóst að alls munu 25 þingmenn segja skilið við þingið. Í hóp þeirra sem hætta á þingi bætast sjö, sem náðu ekki kjöri að þessu sinni.
Það eru Brynjar Níelsson þingmaður Sjálfstæðisflokks, Lilja Rafney Magnúsdóttir og Ólafur Þór Gunnarsson þingmenn Vinstri grænna, Bergþór Ólason og Sigurður Páll Jónsson þingmenn Miðflokksins, Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingar og Jón Steindór Valdimarsson þingmaður Viðreisnar.