Mynd: Bára Huld Beck

Kosningum lokið: Sigurður Ingi í lykilstöðu til að mynda ríkisstjórn og á nokkra möguleika

Ríkisstjórnin ríghélt í kosningunum í gær og fjölgaði þingmönnum sínum, þrátt fyrir að samanlagt heildarfylgi hennar hafi ekki vaxið mikið. Framsókn og Flokkur fólksins unnu stórsigra en frjálslynda miðjan beið skipbrot. Flokkarnir á þingi verða áfram átta og fjölmörg ríkisstjórnarmynstur eru í kortunum.

Rík­is­stjórnin hélt velli í kosn­ing­unum sem fram fóru í gær og bætti við sig tveimur þing­mönnum frá kosn­ing­unum 2017. Flokk­arnir þrír sem hana mynda, Vinstri græn, Sjálf­stæð­is­flokkur og Fram­sókn­ar­flokk­ur, eru þó með fjórum þing­mönnum fleiri en þeir höfðu þegar kosið var síð­ast 2017 þar sem tveir þing­menn Vinstri grænna yfir­gáfu flokk­inn á liðnu kjör­tíma­bili vegna óánægju með stjórn­ar­sam­starf­ið.

Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn er óum­deildur sig­ur­veg­ari kosn­ing­anna. Hann bætir við sig 6,6 pró­sent fylgi og fimm þing­mönn­um, en alls 13 verða á hans vegum á Alþingi á kom­andi kjör­tíma­bili. Það er besta nið­ur­staða hans í kosn­ingum frá árinu 2013, en vert er þó að taka fram að árin 2016 og 2017 fékk Fram­sókn sína verstu útreið í sögu flokks­ins sem spannar nú meira en eitt hund­rað ár. 

Lokaniðurstöður þingkosninga 25. september 2021

Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn tapar næstum pró­sentu­stigi af fylgi sínu frá árinu 2016 og er með rúm­lega 24 pró­sent fylgi. Hann heldur sínum 16 þing­mönnum en fær sína næst verstu nið­ur­stöðu í kosn­ingum í sögu flokks­ins, rétt yfir þeirri sem hann fékk árið 2009. Eftir kosn­ing­arnar 2017 var Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn með fyrsta þing­mann allra kjör­dæma en tapar honum yfir til Fram­sókn­ar­flokks í bæði Norð­vest­ur- og Norð­aust­ur­kjör­dæmi nú.

Auglýsing

Vinstri græn tapa rúm­lega fjórum pró­sentu­stigum af fylgi frá síð­ustu kosn­ing­um. Hann er sá flokkur sem refsað er mest fyrir rík­is­stjórn­ar­samt­arf­ið. Fylgi flokks­ins er sem stendur tæp­lega 13 pró­sent og þing­menn­irnir verða þremur færri en í kosn­ing­unum 2017 eða átta tals­ins. 

Sam­an­lagt fylgi rík­is­stjórn­ar­flokk­anna er 54,3 pró­sent. Verði þetta nið­ur­staðan munu rík­is­stjórn­ar­flokk­arnir þrír bæta við sig sam­tals um 1,4 pró­sentu­stigi en samt ná 37 þing­mönnum og vera því afar sterkan meiri­hluta verði sam­starfið end­ur­nýj­að, líkt og for­menn stjórn­ar­flokk­anna hafa sagt að verði skoðað í fyrstu kast­i. 

Inga Sæland gerði það aftur

Hinn sig­ur­veg­ari kosn­ing­anna, ásamt Fram­sókn­ar­flokkn­um, er Flokkur fólks­ins. Flokkur Ingu Sæland bætti við sig tveimur pró­sentu­stigum milli kosn­inga – endar með næstum níu pró­sent – og fær sex þing­menn kjörna. Það þýðir að Flokkur fólks­ins er fimmti stærsti flokk­ur­inn á þingi, stærri en Píratar (sem fengu 442 færri atkvæði en Flokkur fólks­ins á lands­vís­u), Við­reisn og Mið­flokk­ur, en flokk­ur­inn var áður sá minnsti sem þar sat. Fylgi Flokks fólks­ins reynd­ist umtals­vert meira en kann­anir höfðu gefið til kynna þótt þær hefðu mælt upp­takt flokks­ins á loka­metr­un­um.

Inga Sæland má brosa eftir niðurstöðu næturinnar.
Mynd: Bára Huld Beck

Við­reisn bætir líka lít­il­lega við sig fylgi og fær 8,3 pró­sent, sem skilar flokknum auka­þing­manni og þing­flokkur hans mun því telja fimm á kom­andi kjör­tíma­bili. Ljóst má þó vera að nið­ur­staðan er von­brigði fyrir Við­reisn sem hafði mælst með meira fylgi og ætl­aði sér miklu meira í kosn­ing­unum en þær skil­uð­u. 

Frjáls­lynda miðjan náði engum árangri

Ásamt Við­reisn þá eru tap­arar kosn­ing­anna meðal ann­ars restin af hinni svoköll­uðu frjáls­lyndu miðju: Sam­fylk­ing og Pírat­ar.

Auglýsing

Fyrri flokk­ur­inn nær inn sex þing­mönn­um, sem er einum færri en hann hafði eftir kosn­ing­arnar 2017, en fylgið dregst saman um 2,2 pró­sentu­stig milli kosn­inga­ára. Í ljósi þess að Sam­fylk­ingin keyrði það hart í kosn­inga­bar­átt­unni að ætla sér að verða alvöru val­kostur í rík­is­stjórn án Sjálf­stæð­is­flokks, og stefndi að því að verða helsta mót­væg­is­aflið við þann flokk í íslenskum stjórn­mál­um, þá má líta á nið­ur­stöð­una sem mikil von­brigði fyrir for­víg­is­menn Sam­fylk­ing­ar­innar sem endar með undir tíu pró­sent fylgi. For­maður flokks­ins, Logi Ein­ars­son, tal­aði enda um það í sjón­varps­sal í nótt að félags­hyggju­öflin í land­inu þyrftu að fara að end­ur­skoða hvernig þau nálg­uð­ust kosn­ing­ar, án þess að leggja til sér­tækar leiðir í þeim efn­um. 

Píratar standa nán­ast í stað frá kosn­ing­unum 2017 og fá sama þing­manna­fjölda, eða sex tals­ins.

Sam­an­lagt fylgi hinnar frjáls­lyndu miðju­flokka var 28 pró­sent árið 2017. Það dregst saman um 1,2 pró­sentu­stig milli kosn­inga.

Dauð atkvæði ýkja þing­manna­tölur

Ástæða þess að þing­manna­fjöldi stjórn­ar­flokk­anna þriggja vex svona miklu meira en sam­an­lagt fylgi þeirra er sú að einn þeirra flokka sem mæld­ist inni á þingi í nær öllum könn­unum í aðdrag­anda kosn­inga, Sós­í­alista­flokkur Íslands, náði á end­anum ekki inn manni og fékk rétt um fjög­urra pró­senta fylgi. Alls féllu nálægt fimm pró­sent atkvæða niður dauð og skil­uðu fram­boðum ekki inn á þing. Flokk­arnir verða áfram átta líkt og þeir voru á liðnu kjör­tíma­bil­i. 

Flokkur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar beið afhroð og tapaði rúmlega helmingnum af fylgi sínu.
Mynd: Bára Huld Beck

Sá flokkur sem tapar mestu milli kosn­inga er Mið­flokkur Sig­mundar Daviðs Gunn­laugs­sonar sem fékk 5,5 pró­sent atkvæða og þrjá þing­menn. Það er rúm­lega helm­ingi minna en flokk­ur­inn fékk 2017 en framan af kosn­inga­kvöld­inu í gær mæld­ist flokk­ur­inn alls ekki inni á þingi. Þing­menn Mið­flokks­ins verða þrír en sjö voru kjörnir fyrir flokk­inn 2017 og tveir til við­bótar bætt­ust við þing­flokk hans frá Flokki fólks­ins. 

Þessir þing­menn eru að skila sér aftur heim til Fram­sókn­ar­flokks­ins að mestu, en Mið­flokk­ur­inn er klofn­ings­flokkur úr honum sem stofn­aður var fyrir síð­ustu kosn­ingar eftir að fyrr­ver­andi for­maður Fram­sókn­ar, áður­nefndur Sig­mundur Dav­íð, gekk úr flokkn­um. 

Hvað þýða kosn­ing­arn­ar?

Stjórn­ar­flokk­arnir bæta við sig þing­mönnum og styrkja því meiri­hluta sinn umtals­vert. Fram­sókn og Vinstri græn hafa sæta­skipti, sá fyrr­nefndi er nú næst sterkasti flokk­ur­inn í mynstr­inu en Vinstri græn sá veikasti. Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn er nokkurn veg­inn á sama stað og hann var.

Náist mál­efna­grund­völlur er leikur einn fyrir þá að mynda nýja þriggja flokka rík­is­stjórn. Hvort það tak­ist veltur á ýmsu. Sú staða er til að mynda uppi að kann­anir í aðdrag­anda kosn­inga sýna að yfir 40 pró­sent kjós­enda vildu Katrínu Jak­obs­dóttur áfram sem for­sæt­is­ráð­herra og að for­menn hinna stjórn­ar­flokk­anna tveggja, Bjarni Bene­dikts­son og Sig­urður Ingi Jóhanns­son, stæðu henni langt að baki þegar þar að kæmi. Í ljósi þess að Vinstri græn eru nú minnsti stjórn­ar­flokk­ur­inn, og leggur ein­ungis til átta af 37 þing­mönnum þeirra, þá verður að koma í ljós hvort for­sæt­is­ráð­herra­stóll­inn standi Katrínu enn til boða og hvort Vinstri græn séu til­búin að taka þátt í sam­starf­inu áfram ef hann gerir það ekki. 

Auglýsing

Engin tveggja flokka stjórn er mögu­leg en Sjálf­stæð­is­flokkur og Fram­sókn­ar­flokkur gætu tekið Flokk fólks­ins með sér í stjórn í stað Vinstri grænna og verið með 35 þing­manna meiri­hluta. Sömu sögu er að segja um Við­reisn en þá yrði stjórn­ar­meiri­hlut­inn 34 þing­menn á móti 29 þing­mönnum and­stöð­unn­ar. Loks gætu Bjarni og Sig­urður Ingi náð sáttum við Sig­mund Dav­íð, sem leiddi rík­is­stjórn sem þeir báðir sátu í á árunum 2013 til 2016, og myndað næf­ur­þunnan meiri­hluta með Mið­flokki, 32 þing­menn á móti 31. 

Bæði Sam­fylk­ing og Píratar höfðu úti­lokað sam­starf við Sjálf­stæð­is­flokk­inn og koma því ekki til greina sem þriðja hjólið undir rík­is­stjórn Sjálf­stæð­is­flokks og Fram­sókn­ar­flokks. 

Er hægt að mynda rík­is­stjórn án Sjálf­stæð­is­flokks?

Þeir fjórir flokkar sem ræddu fyrst saman eftir kosn­ing­arnar 2017: Fram­sókn, Vinstri græn, Sam­fylk­ing og Pírat­ar, gætu myndað rík­is­stjórn sem hefði 33 þing­menn á bak­við við sig á móti 30 þing­manna stjórn­ar­and­stöðu. Það er einum fleiri þing­maður en slíkt mynstur hafði á bak­við sig 2017 en þá sleit Sig­urður Ingi við­ræð­unum eftir að Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn taldi meiri­hlut­ann of tæp­an. 

Mögu­legt væri að taka Flokk fólks­ins inn í slíkt sam­starf í stað Pírata og ná saman meiri­hluta í þing­manna­fjölda, 33 alls. Yrði horft til fimm flokka rík­is­stjórnar með bæði Pírötum og Flokki fólks­ins myndi slík hafa 39 þing­menn á bak­við sig og skilja Sjálf­stæð­is­flokk­inn, Við­reisn og Mið­flokk eftir í stjórn­ar­and­stöðu með 24 þing­menn. 

Staða Katrínar Jakobsdóttur til að gera tilkall til forsætisráðherrastólsins hefur veikst eftir kosningarnar í gær, þrátt fyrir að hún njóti yfirburðarstuðnings landsmanna samkvæmt könnunum til að sitja áfram í honum.
Mynd: Bára Huld Beck

Við­reisn gæti líka komið inn í miðju-vinstri­st­jórn með Fram­sókn, Vinstri grænum og Sam­fylk­ingu sem hefði 32 þing­menn á bak­við sig. Við þá stjórn væri hægt að bæta Flokki fólks­ins eða Píröt­um, sem setti þing­manna­fjöld­ann upp í 38.

Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn í algjörri lyk­il­stöðu

Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn heldur því á öllum spil­unum eins og stend­ur. Hann getur ráðið því í hvaða átt hann vill vinna. Flokkur Sig­urðar Inga á skýran mögu­leika á þremur þriggja flokka rík­is­stjórnum með Sjálf­stæð­is­flokki og fjöl­mörgum fjög­urra og fimm flokka rík­is­stjórnum til vinstri með öðrum flokkum en hon­um. Ómögu­legt er að mynda þriggja flokka stjórn án hans og Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn virð­ist ekki eiga neina sýni­lega leið mögu­lega að stjórn­ar­heim­il­inu án þess að Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn leiði hann þang­að, þrátt fyrir að vera áfram stærsti flokkur lands­ins og eiga fyrsta þing­menn fjög­urra af sex kjör­dæmum lands­ins. 

Sig­urður Ingi getur gert kröfu um að verða næsti for­sæt­is­ráð­herra við stjórn­ar­myndun og er í sterkri stöðu um að koma stefnu­málum flokks síns inn í næsta stjórn­ar­sátt­mála þar sem hann getur snúið sér í hina átt­ina og myndað ann­ars konar rík­is­stjórn sé hann ekki sáttur við það sem býðst. 

Þá eru mynstrin sem í boði eru: áfram­hald­andi stjórn, miðju-hægri stjórn þriggja flokka eða miðju-vinstri stjórn fjög­urra eða fimm flokka, öll ger­legri og sterk­ari nú en þau voru fyrir fjórum árum þegar mik­ill styrkur Mið­flokks­ins, sem eng­inn annar flokkur vildi vinna með, flækti stöð­una veru­lega. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar