41 lögreglumaður flaug með fimmtán manneskjur úr landi
Það er Ríkislögreglustjóri sem ákveður hvenær og hvernig brottvísun hælisleitenda frá landinu er framkvæmd, segir Íris Kristinsdóttir, sviðsstjóri hjá Útlendingastofnun. Verkbeiðnin kom frá Útlendingastofnun, segir lögreglan. Áleitnar spurningar hafa vaknað um hvers vegna hópi umsækjenda um alþjóðlega vernd var vísað frá landinu með miklum tilkostnaði á sama tíma og kærunefnd útlendingamála er með beiðnir um endurupptökur verndarmála margra þeirra til skoðunar. Fólks frá Afganistan. Írak. Palestínu. Löndum þar sem sannarlega eru átök og umrót. Öryggi þeirra ógnað.
Lögreglumenn að leita að fólki á heimilum og á samkomustöðum. Handtökur. Gæsluvarðhald. Fólk handjárnað. Símar þess teknir. Rútur með dregið fyrir glugga og skær ljós til að blinda fjölmiðlamenn. Já, og farþegaþota tekin á leigu til að fljúga með fimmtán manneskjur til Aþenu í fylgd 41 lögreglumanns. Þar voru þær skildar eftir á flugvellinum, að minnsta kosti í einhverjum tilfellum án þess að hafa fengið að taka með sér föt til skiptanna eða nokkuð annað.
Með miklum, skipulögðum og kostnaðarsömum aðgerðum stjórnvalda var fólk sem hingað hefur komið í leit að alþjóðlegri vernd flutt með valdi úr landi aðfaranótt fimmtudags. Fólkið á, eftir því sem Kjarninn kemst næst, það sameiginlegt að hafa dvalið hér í langan tíma, jafnvel tvö ár, en fengið þá niðurstöðu í kerfinu að hér fái það ekki að vera á þeirri forsendu að það hafi áður hlotið hæli í Grikklandi. Í landi sem er legu sinnar vegna fyrsti viðkomustaður fólks á flótta undan átökum, ofsóknum, áhrifum loftslagshamfara af mannavöldum og í leit að betra lífi. Sæmilegri lífskjörum. Vinnu. Friði.
Ekkert af þessu er tryggt í Grikklandi, þar á flóttafólk undir högg að sækja, enda þrá flestir á flótta að fara þaðan og til annarra Evrópulanda. Sumt endar flóttann á Íslandi. Eða vonast að minnsta kosti til þess að hann endi hér. En þar sem þau hafa neyðst til að þiggja hæli í Grikklandi, sem stjórnvöld hér skilgreina sem öruggt land þrátt fyrir ábendingar fjölmargra mannúðarsamtaka um allt annað, eru þau oftast send til baka.
Þannig eru lögin, þannig eru reglurnar, sem íslensk stjórnvöld hafa sett og segjast verða að fara eftir. Hins vegar hafa í gegnum tíðina verið veittar undanþágur frá þessum reglum í ákveðnum málum, t.d. ef aðstæður fólks, bakgrunnur eða staða, eru með sérstökum hætti. Ef afgreiðsla mála þeirra hefur til að mynda tafist af einhverjum ástæðum.
Fordæmið
Fólkið sem vísað var frá Íslandi á fimmtudagsnóttina er í sérstakri stöðu. Það hefur vissulega fengið neikvæða niðurstöðu í sínar umsóknir um vernd, en er margt hvert í sambærilegri stöðu og ungur Palestínumaður sem fór með mál sitt fyrir dómstóla og hafði sigur í því gegn íslenska ríkinu.
Hann hafði fengið neikvæða niðurstöðu í sitt verndarmál en ekki var hægt að vísa honum frá landinu er hún lá fyrir vegna takmarkana sem settar voru á í kórónuveirufaraldrinum. Grísk stjórnvöld tóku ekki við „endursendingum“, líkt og það er oft orðað, við þær hættulegu aðstæður sem voru uppi.
Yfirvöld á Íslandi sögðu hann og aðra hælisleitendur sem svo var ástatt fyrir hins vegar hafa tafið mál sín viljandi, m.a. með því að neita að undirgangast COVID-próf, sem var um tíma forsenda þess að mega fara á milli landa.
Þessum ásökunum vísaði Palestínumaðurinn ungi á bug, kærði ríkið, og tók dómari undir með honum: Stjórnvöldum var óheimilt að synja honum um endurupptöku málsins vegna ásakana um tafir.
Hælisleitendur sem dvalið hafa hér á landi í tólf mánuði eða lengur, af hvaða ástæðum sem það svo sem er, eiga almennt rétt á slíkri endurupptöku. Það þýðir ekki að þeir fái hér sjálfkrafa skjól, en það eykur líkur á því.
Eftir svo langa dvöl hefur fólk tengst samfélaginu. Hafið skólagöngu. Fengið fasta vinnu. Slíkt átti við um fólkið í hópnum sem fluttur var með valdi úr landinu í vikunni.
Og það er þessi nýlega fallni dómur sem flóttafólkið sem hér hefur verið lengi taldi fordæmisgefandi. Þess vegna bað margt þeirra, að minnsta kosti rúmlega þrjátíu manns, um að mál þess yrðu endurupptekin á sömu forsendum og mál unga Palestínumannsins.
Báðu um frest
Beiðnir þeirra voru sendar til kærunefndar útlendingamála strax í kjölfar dómsins. Að sama skapi voru sendar beiðnir til Útlendingastofnunar og stoðdeildar ríkislögreglustjóra að framkvæmd frávísana yrði frestað þar til nefndin hefði fjallað um beiðnirnar. Lögmenn fólksins fengu engin svör við þeim beiðnum. Fyrr en á fimmtudag. Nokkrum klukkustundum áður en fólkið var sett upp í flugvél, margt hvert í fjötrum, og sent úr landi.
Útlendingastofnun ákvað að framkvæmd frávísunar yrði aðeins frestað í tilviki tveggja einstaklinga. Ekki var vilji til að slíkt hið sama myndi gilda um alla hina sem telja sig í svipaðri stöðu og unga Palestínumanninn. Jafnvel þótt líklega sé það aðeins dagaspursmál hvenær kærunefndin skilar niðurstöðu í endurupptökubeiðnum þeirra. „Það tapar enginn á því að bíða,“ sagði Magnús Norðdahl, lögmaður margra úr hópnum, við Kjarnann á miðvikudag er þrír skjólstæðingar hans, sem flytja átti úr landi, höfðu verið handteknir og settir í gæsluvarðhald í fangelsinu á Hólmsheiði.
En stjórnvöld vildu ekki bíða.
Fjölmargar spurningar
Allt frá því að greint var frá því í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum að verið væri að flytja fólk með valdi út af heimilum sínum og til Keflavíkurflugvallar hefur Kjarninn unnið að því að fá svör frá stjórnvöldum við þeim fjölmörgu spurningum sem hafa vaknað. Um lögregluaðgerðirnar og tímasetningu þeirra. Hvers vegna málið þoldi enga bið, hvers vegna fólki sem hér hefur dvalið lengur en í tólf mánuði var vísað á brott áður en kærunefndin fjallaði um beiðnir þess um endurupptöku.
Hvers vegna núna?
Og hver er kostnaðurinn sem fellur á ríkið af þessari umfangsmiklu aðgerð? Hver ákvað að ljós yrðu notuð á Keflavíkurflugvelli til að blinda fjölmiðlamenn sem voru að vinna vinnuna sína? Var það lögreglan, eins og ISAVIA heldur fram, eða er það málum blandið, líkt og ríkislögreglustjóri virðist vera að meina með óskýru orðalagi í tilkynningu um málið?
Skemmst er frá því að segja að Kjarnanum hefur ekki tekist að fá svör við öllum sínum spurningum. Kærunefnd útlendingamála, Útlendingastofnun og Ríkislögreglustjóri hafa þó sent skrifleg svör, þau er mörg hver stofnanaleg og eru engan veginn tæmandi. Vekja oft enn fleiri spurningar.
Voru símar teknir af fólkinu?
„Já, símar voru teknir af fólki til að tryggja öryggi,“ segir í svari embættis ríkislögreglustjóra.
Var fólk í hópnum handjárnað?
„Það voru aðilar sem fylgt var til Grikklands sem voru í handjárnum um tíma, mislangan. Handjárnum er beitt til þess að tryggja öryggi fólks, sem og annarra en ekki lengur en þörf krefur. Valdbeiting getur verið nauðsynleg þegar flytja á fólk gegn vilja þess en markmið lögreglu er koma fólki með sem öruggustum hætti á áfangastað.“
Var fólkinu boðið að hafa samband við lögmann eða annan stuðningsaðila?
„Það er í verklagi stoðdeildar að einstaklingar fá að láta vita af sér og einnig tala við lögmann. Einstaklingurinn sem þarf að styðjast við hjólastól fékk að tala við réttindagæslumann fatlaðs fólks, sinn talsmann símleiðis, sem og lögmann. Lögmenn fá ekki að fylgja sínum skjólstæðingum í fylgd úr landi en skýrt var af hálfu stoðdeildar að aðilar áttu rétt á að fá að tala við sína lögmenn.“
Áður en lengra er haldið skal tekið fram að fólkið sem var flutt af landi brott á fimmtudagsnóttina sætir frávísun en ekki brottvísun en á þessu tvennu er skilgreiningarmunur. Sá sem sætir frávísun fer ekki samhliða í endurkomubann. Sé umsókn manneskju um alþjóðlega vernd bersýnilega tilhæfulaus að mati stjórnvalda getur viðkomandi hins vegar verið brottvísað og þarf þá að sæta endurkomubanni. Það er að segja: Hann getur ekki komið aftur til landsins innan tveggja ára eða lengur eftir atvikum. Sú ákvörðun Útlendingastofnunar er kæranleg.
Beiðnirnar enn í vinnslu
Endurkomubannið breytir því hins vegar ekki því að fái viðkomandi mál sitt endurupptekið og í kjölfarið þá niðurstöðu að það skuli tekið til efnismeðferðar, honum veitt alþjóðleg vernd eða dvalarleyfi hér á landi, getur hann snúið aftur. „Ef niðurstaða endurupptökubeiðni er jákvæð þá eru fyrri ákvarðanir í málinu felldar úr gildi þannig að endurkomubann sem slíkt hefur ekki áhrif á niðurstöðuna,“ segir í skriflegu svari Þorsteins Gunnarssonar, formanns kærunefndar útlendingamála, við fyrirspurn Kjarnans.
Það er því ekki þannig að með flutningi fólksins úr landi nú, fólki sem var frávísað en ekki brottvísað, falli beiðni þeirra um endurupptöku niður hjá kærunefnd útlendingamála. Þeim verður svarað með úrskurði frá nefndinni, samkvæmt upplýsingum Þorsteins. Tekið skal fram að hann getur ekki tjáð sig um einstök mál heldur aðeins almennt.
„Hafi kærandi lagt fram beiðni um endurupptöku eftir að hafa fengið synjun á umsókn sinni og þar af leiðandi frávísun eða eftir atvikum brottvísun og endurkomubann þá er afstaða tekin til endurupptökubeiðninnar þrátt fyrir að viðkomandi hafi verið fluttur til viðtökuríkis eða heimaríkis,” segir hann.
Það er ekkert sem bannar einstaklingum í þeirri stöðu að koma aftur til landsins.
Hagnýt atriði varðandi það að snúa til baka geta að sögn Þorsteins verið leyst með samstarfi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Þau sem hlotið hafa alþjóðlega vernd í öðru aðildarríki Schengen-samstarfsins þá hafa þeir ferðaheimild innan Schengen-ríkjanna, þar með talið til Íslands.
Íris Kristinsdóttir, sviðsstjóri verndarsviðs Útlendingastofnunar segir við Kjarnann að þar sem endurkomubann fylgi ekki frávísun sé „ekkert sem bannar einstaklingum í þeirri stöðu að koma aftur til landsins að því gefnu að reglur um ferðafrelsi innan Schengen ríkjanna sé virt.“
Útrunnin leyfi og skilríki
En málið er ekki svo einfalt ef þú ert flóttamaður. Í fyrsta lagi liggur í augum uppi að fæstir hafa efni á að fljúga hingað aftur. Dæmi eru um að fólk sé árum saman að safna sér fyrir flugmiða. Þannig að með endursendingu til Grikklands, þar sem fólkið er komið með hæli eða vernd, og fær því ekki fjárstuðning líkt og þeir sem slíks leita, fær mjög ólíklega atvinnu miðað við reynsluna almennt hingað til, hafa stjórnvöld búið svo um hnúta að ólíklegt er að fólk geti snúið aftur.
Í öðru lagi þá fá flóttamenn í Grikklandi útgefin ferðaskilríki með takmörkunum. Þau eru ekki eins og fagurbláu vegabréfin okkar sem opna heiminn að mestu upp á gátt. Þau gilda í stuttan tíma í einu og eru í tilfellum fólksins sem vísað var frá landinu í vikunni að öllum líkindum útrunnin enda fólkið dvalið hér á landi vegna kórónuveirufaraldursins í jafnvel tvö ár eða lengur. Og að sækja um ný ferðaskilríki er tímafrekt ferli.
Þá er enn fremur líklegt að dvalarleyfi þeirra í Grikklandi sé útrunnið. Og að sækja um það að nýju er einnig tímafrekt.
Þannig að samantekið: Jú, þar sem fólkinu er frávísað en ekki sett í endurkomubann er því frjálst að koma hingað aftur. En getur það oft ekki.
Um þrjár vikur eru liðnar síðan að í það minnsta stærstur hluti hópsins lagði inn beiðni um endurupptöku til kærunefndarinnar.
21 dagur.
Að sögn Þorsteins, formanns kærunefndar, var meðalmálsmeðferðartími í málum sem varða endurupptöku fyrir nefndinni fyrstu níu mánuði þessa árs 44 dagar. Það má því ætla að niðurstöður í málum fólksins muni liggja fyrir eftir um það bil þrjár vikur.
Í tilfelli íraskrar fjölskyldu sem vísað var frá landinu í lögreglufylgd í gær, er aðalmeðferð í máli fatlaðs manns sem henni tilheyrir gegn íslenska ríkinu á dagskrá héraðsdóms eftir þrettán daga. Hann getur því ekki verið viðstaddur hana og skýrt mál sitt.
Af hverju var ekki hægt að bíða með framkvæmd frávísananna?
Því getur kærunefndin ekki svarað og Kjarninn hefur ekki fengið, enn sem komið er, skýr svör við því frá öðrum stofnunum. Því það er í þessu máli eins og svo mörgum að ýmist vilja stofnanir ekki tjá sig nema mjög almennt með vísun í lög og reglugerðir eða vísa hver á aðra.
Það væri nú það minnsta sem við gátum gert, að leyfa honum að hafa helvítis stólinn með sér.
Embætti ríkislögreglustjóra sendi frá sér tilkynningu í gærmorgun um aðgerðir sínar. Í þeirri tilkynningu var aðeins að finna svör við fáum þeirra spurninga sem brenna á almenningi. Fyrirsögn hennar var: Vegna fylgdar til Grikklands.
Í henni kom fram að aðgerðirnar hefðu verið í undirbúningi í rúmlega mánuð. Til hafi staðið að „fylgja“ 28 manns til Grikklands en þrettán einstaklingar „fundust ekki þegar þeirra var leitað“. Einnig sagði að engin börn hefðu verið í fluginu og að hjólastóll hefði fylgt fatlaða Írakanum til áfangastaðar.
Þar sem ekki kom fram var hvaða hjólastóll fylgdi honum. Og að hleðslutæki til að hlaða rafhlöðu stólsins, hefði ekki verið tekið með.
Helvítis stólinn
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra sem hefur talað fyrir hertari útlendingalöggjöf, m.a. viðrað hugmyndir um lokaðar flóttamannabúðir, var spurður út í þennan þátt aðgerða lögreglu í útvarpsþættinum Reykjavík síðdegis í fyrradag. „Það fylgdi honum svo rafmagnshjólastóll til Grikklands sem svo varð eftir þar,“ sagði ráðherrann.
Takið eftir: Rafmagnshjólastóll. Ekki „stóllinn“, með ákveðnum greini. Því ungi, fatlaði Írakinn, Hussein Hassain, hafði fengið að láni hér á landi hjólastól sem hentaði hans þörfum sérstaklega. Sá stóll fór hvergi og er enn á íslenskri grundu. „Ég tala nú ekki um ef þú átt að fara að búa á götunni í Grikklandi, þá þarftu að minnsta kosti að eiga góðan hjólastól,“ sagði Anna Lára Steindal, verkefnastjóri Þroskahjálpar, við RÚV í morgun „Það væri nú það minnsta sem við gátum gert, að leyfa honum að hafa helvítis stólinn með sér.“
Yasameen Hussien, systir Hussein, sagði í samtali við Kjarnann í fyrradag að hleðslutæki hefði ekki fylgt rafmagnshjólastólnum sem fór með til Grikklands. „Þegar hleðslan klárast þá vitum við ekki hvað við eigum að gera,“ sagði hún. „Hussein er mjög þreyttur og hefur ekkert borðað frá því að honum var vísað frá Íslandi,“ bætti hún við.
Lögreglan og dómsmálaráðherra hafa ítrekað sagt að fólkinu hafi verið gefinn kostur á að yfirgefa landið sjálfviljugt og án lögreglufylgdar. „Ef umsækjandi er metinn ósamvinnuþýður eða hættulegur hefur lögregla valdheimildir til að tryggja að lögreglufylgd nái fram að ganga og til að tryggja öryggi viðkomandi og almennings í framkvæmdinni,“ sagði í tilkynningu ríkislögreglustjóra í fyrradag. „Valdheimildum er ekki beitt nema nauðsyn þyki til.“
Miðað við myndir og myndbönd sem birt hafa verið af fólki sem sá til aðferða lögreglu var valdi beitt. Fólk var handtekið, það hafa lögmenn staðfest, og það fjötrað, að því er Yasameen lýsti m.a. í samtali við Kjarnann er hún var komin til Grikklands. Það hefur embætti ríkislögreglustjóra líkt og fyrr greinir staðfest.
En hver ákvað hvað og hvenær? Hver ákvað hverjum skyldi vísað úr landi og af hverju núna?
Það er á valdi lögreglunnar að ákveða hvenær og hvernig frávísunum fólks er háttað, líkt og Íris, sviðsstjóri hjá Útlendingastofnun, bendir á í sínum svörum við spurningum Kjarnans. „Hvað spurningar þínar varðar er lúta að framkvæmd flutningsins vísar stofnunin á Ríkislögreglustjóra. Stoðdeild ríkislögreglustjóra annast framkvæmd frávísana og brottvísana úr landi og skipuleggur allar slíkar aðgerðir. Það er á forræði stoðdeildar að ákvarða ferðaleiðir og tímasetningu slíkra flutninga úr landi.“
Endurupptökubeiðnir vegna að minnsta kosti margra, ef ekki allra, í þessum hópi hafa verið sendar kærunefnd útlendingamála fyrir um þremur vikum. Hvers vegna var ákveðið að vísa því fólki úr landi áður en að nefndin hefur komist að niðurstöðu?
„Beiðni um endurupptöku frestar ekki réttaráhrifum frávísunar frá landi,“ segir einfaldlega í svari Írisar. „Í málum sem þessum þá liggur fyrir endanleg niðurstaða stjórnvalda um frávísun frá landi og því verður framkvæmdarbeiðni í slíkum málum ekki afturkölluð nema það liggi fyrir úrskurður frá kærunefnd útlendingamála sem mælir fyrir um breytta stöðu viðkomandi hér á landi.“
Kjarninn bað um frekari svör hvað þetta atriði varðar.
Hvers vegna var ákveðið að framkvæma brottvísun akkúrat núna? Þegar mál fólksins eru í vinnslu hjá kærunefndinni?
„Ég vísa í fyrri svör mín en bæti þó við að það er á forræði Ríkislögreglustjóra að ákveða hvenær og hvernig frávísun frá landinu er framkvæmd,“ svaraði Íris þá. „Það er ekki í höndum Útlendingastofnunar að ákvarða um tímasetningar slíkra flutninga.“
Var rætt að bíða með það þar til niðurstöður kærunefndar liggja fyrir?
„Í verklagi stoðdeildar er það ávallt kannað áður en til flutnings kemur hvort eitthvað standi því í vegi að flutningur úr landi geti farið fram,“ sagði Íris. „Slík upplýsingaöflun getur verið með ýmsum hætti, bæði öflun gagna og eins að óska eftir upplýsingum frá Útlendingastofnun.“
Ljóst er nú að ákveðið var að fresta framkvæmd frávísunar tveggja einstaklinga úr hópnum sem til stóð að flytja úr landi. Þannig gat stofnunin augljóslega haft áhrif á hverjir yrðu fluttir og hvenær.
Kjarninn spurði enn fremur hvort það væri ekki á forræði Útlendingastofnunar að svara spurningum um samsetningu hópsins; þjóðerni, aldur og fleira.
„Útlendingastofnun er ekki með rauntímaupplýsingar frá stoðdeild ríkislögreglustjóra þegar flutningar eru framkvæmdir,“ svaraði Íris. „Stofnunin fékk upplýsingar um að til stæði að flytja ákveðinn fjölda einstaklinga til Grikklands en er því miður ekki komin með nákvæmar upplýsingar hvaða einstaklingar stigu um borð í flugvélina.“ Gagna um þetta atriði sé beðið.
Hver fyrirskipaði að fólkinu skyldi vísað úr landi akkúrat núna?
„Þessi fylgd hefur verið í undirbúningi í nokkrar vikur og er ákvörðun um tímasetning tekin út frá vinnu stoðdeildar við undirbúning,“ sagði í svörum Gunnars Harðar Garðarssonar, samskiptastjóra Ríkislögreglustjóra við spurningum Kjarnans. „Þegar verkbeiðni um flutning berst frá Útlendingastofnun, á að hefja flutning sem fyrst, en slíkt er t.d. háð reglum um málsmeðferðartíma.
Fyrirskipun um tímasetningu á fylgd kom ekki frá ríkislögreglustjóra heldur var tekin af starfsmönnum stoðdeildar vegna fjölda þeirra aðila sem á að fylgja úr landi og hafa ekki yfirgefið landið sjálf.“
Hversu margir lögreglumenn tóku þátt í þeim aðgerðum sem staðið hafa yfir síðustu daga við að hafa uppi á og flytja fólkið úr landi?
„Þessar upplýsingar liggja ekki fyrir að svo stöddu,“ svaraði Gunnar. „Það voru 45 aðilar í vélinni í heild sem höfðu hlutverki að gegna í vélinni. Þar af 41 lögreglumaður, almennur starfsmaður ríkislögreglustjóra, læknir, túlkur. Einnig var með í för óháður eftirlitsaðili með aðgerðum lögreglunnar (monitor).“
Hver leigir flugvél til að flytja fólkið úr landi og af hverjum?
„Stoðdeild ríkislögreglustjóra leigir vélina. Vélin var leigð af tékkneska flugfélaginu Smartwings í gegnum evrópskt leigufélag sem annast flugvélaleigu.“
Í hópnum var m.a. fatlaður maður sem notast við hjólastól. Fékk lögreglan vitneskju um stöðu þessa manns fyrirfram?
„Vitað var að maðurinn notaðist við hjólastól,“ svaraði Gunnar. „Skyndilegar breytingar á vettvangi urðu til þess að flytja þurfti fólkið fyrr frá hótelinu sem það dvaldi á til að tryggja öryggi allra á vettvangi. Því miður tókst ekki, þrátt fyrir tilraunir, að útvega viðeigandi bifreið til þess að flytja manninn í hjólastólnum á þeim tíma og var maðurinn því fluttur í óbreyttri bifreið. Ríkislögreglustjóri mun fara yfir verklag stoðdeildar í tengslum við þetta.“
Var haft samband við ISAVIA og starfsmenn á þeirra vegum beðnir um að beina ljósum að fjölmiðlamönnum til að koma í veg fyrir að þeir gætu fylgst með aðgerðum á flugvellinum?
„Á Keflavíkurflugvelli í gærmorgun var notast við ljós til þess að byrgja sýn fjölmiðla og annara sem stóðu utan girðingar Keflavíkurflugvallar,“ svaraði Gunnar. „Lögregla leggur ríka áherslu á að fjölmiðlar hafi gott aðgengi að störfum lögreglu, ekki síður þeim verkefnum sem eru sérstaklega krefjandi. Lögregla mun funda með ISAVIA í þeim tilgangi að fara yfir atvik málsins til að varpa ljósi á hvar ákvarðanataka liggur. Ekki stóð til að hindra störf fjölmiðla en fjölmiðlar höfðu mun greiðara aðgengi að myndun aðgerða lögreglu á fyrri stigum sama máls.“
Hver er kostnaður við aðgerðirnar?
„Liggur ekki fyrir að svo stöddu en verður tekið saman.“
Gunnar bætir svo við að „vegna fréttaflutnings um aðgerðir lögreglu er vert að taka fram að þó það hafi komið til valdbeitingar, fólk fært í handjárn eftir þörfum til að mynda, þá sló eða lamdi lögregla engan. Hins vegar var ráðist að lögreglumönnum.“
Þarna er Gunnar að vísa í fréttaflutning Kjarnans.
Yasameen Hussien sagði í viðtali að lögreglan hefði lagt hendur á bróður hennar. Það er upplifun hennar af þeim nauðungarflutningi sem átti sér stað, sem samræmist ekki upplifun lögreglunnar sem er vön að fást við aðstæður sem þessar, þar sem fólk er tekið gegn vilja sínum úr aðstæðum sem það taldi sig öruggt í, til að flytja í aðstæður sem það telur sig ekki öruggt í. Jafnvel í fjötrum.
Mat „allra aðila“
„Það er nú helst að geta varðandi Grikkland að hér hafa bæði Útlendingastofnun, kærunefnd útlendingamála og reyndar dómstólar staðfest það að Grikkland sé ekkert undanskilið því að það eigi að senda þangað fólk. Það er mat allra aðila sem hafa fjallað um þessi mál og kynnt sér aðstæður.“
Þetta sagði Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra m.a. í viðtali við Reykjavík síðdegis á fimmtudag. Nokkrum klukkustundum eftir að flugvélin tók á loft frá Keflavíkurflugvelli með fimmtán manns á flótta og 41 lögreglumann innanborðs.
Jón er þarna væntanlega að vísa í aðila á vegum stjórnvalda sem kynnt hafa sér aðstæður flóttafólks í Grikklandi. Ekki „allra aðila“ sem það hafa gert. Því það er engan veginn rétt.
Óboðlegar aðstæður
Líkt og Rauði krossinn hefur ítrekað bent á ber fjölda heimilda saman um að aðstæður flóttafólks í Grikklandi séu heilt yfir mjög slæmar.
Umsækjendur, sem hlotið hafa alþjóðlega vernd í Grikklandi og seinna leitað hingað til lands og óskað eftir alþjóðlegri vernd, hafa jafnframt undantekningarlaust greint frá óviðunandi aðstæðum í Grikklandi. Hefur yfirgnæfandi meirihluti þeirra búið í yfirfullum flóttamannabúðum þar sem öryggi, hreinlæti og aðbúnaði er verulega ábótavant, benti Rauði krossinn á Íslandi á í yfirlýsingu vegna flutnings fólksins frá landinu fyrr í vikunni.
Þegar umsækjendur hafi hlotið vernd „neyðast þeir til að yfirgefa búðirnar, auk þess sem þeir missa þá lágu framfærslu sem þeim er tryggð á meðan þeir bíða eftir svari við umsókn sinni um vernd,“ benti Rauði krossinn ennfremur á. „Vegna kerfisbundinna hindrana og afar mikils atvinnuleysis meðal flóttafólks í landinu ná umsækjendur ekki að framfleyta sér og fjölskyldum sínum en fjárhagslegur og félagslegur stuðningur frá yfirvöldum er enginn.“
Þá sé aðgengi flóttafólks að húsnæði í Grikklandi alvarlegt vandamál og þurfa margir hverjir af þeim sökum að hafast við í óviðunandi og/eða ólöglegu húsnæði eða á götunni. Þar að auki sé aðgengi flóttafólks að grísku heilbrigðiskerfi verulega skert.
„Rauði krossinn ítrekar fyrri tilmæli sín til hérlendra stjórnvalda og hvetur ríkisstjórn Íslands eindregið til að endurskoða þá stefnu að senda umsækjendur um alþjóðlega vernd, sem fengið hafa stöðu sína viðurkennda í Grikklandi, aftur þangað. Ástandið í Grikklandi hefur um nokkurt skeið verið óboðlegt fyrir flóttafólk en fólk á flótta á að njóta mannréttinda á sama hátt og annað fólk.“
Versti dagur lífs míns
Yasameen, tveir bræður hennar, systir og móðir, eru nú komin aftur inn í þessar óboðlegu aðstæður sem Rauði krossinn lýsir. Fjölskyldan flúði heimaland sitt Írak, fékk hæli í Grikklandi en hélt flóttanum áfram til Íslands. Hingað komu þau fyrir tveimur árum. Á þeim tíma fékk Hussein, sem er alvarlega veikur og notast við hjólastól, nauðsynlega læknisaðstoð. Hann vildi ekki snúa aftur til Grikklands enda bíður hann þess að fá niðurstöðu í kæru sína gagnvart íslenska ríkinu. Kæru sem snýst um það sem hann telur brot á ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem og brot gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaga.
Hann var tekinn með valdi, borinn af lögreglumönnum inn í bíl og færður upp í flugvél, aðeins örfáum dögum áður en dómstólar munu fjalla um málið.
Yasameen systir hans átti afmæli í gær, „við verstu aðstæður sem hugsast getur,“ sagði hún við Kjarnann. „Þetta er versti dagur lífs míns.“
Á undan var gengin versta nótt lífs hennar. Þegar hún og aðrir í fjölskyldunni voru teknir gegn vilja sínum og fluttir til Grikklands.
Leikurinn og reglurnar
„Við skulum bara rifja það upp að Grikkland er eitt af Evrópusambandslöndunum,“ sagði dómsmálaráðherra í viðtalinu við Reykjavík síðdegis. „Það eru ekki neinar ómannúðlegar aðstæður sem er hægt að halda fram [að séu] í Grikklandi. En hvort að lífsskilyrðin séu jafngóð og á Íslandi, ég er ekkert viss um það enda eru þau hvað best hér á landi af öllum þjóðum sem við berum okkur saman við.“
Jón sagðist ekki hafa „kynnt sér það sérstaklega“ hvort að lögreglan hefði farið offari í aðgerðum sínum. „Ég er alveg sannfærður um að svo er ekki. Ég treysti lögreglunni í þessum málum sem öðrum. Svona mál litast oft af miklum tilfinningum og maður getur haft mikla samúð með öllu þessu fólki sem er í þessum erfiðu aðstæðum. En einhvers staðar verða að vera skýrar leikreglur í þessu.“