Root

Á leið aftur til Úkraínu: „Fjölskyldur eiga að vera saman“

Blaðamaður Kjarnans ræddi á dögunum við fólk á lestarstöðinni í Przemysl í Póllandi sem var að bíða eftir lest aftur til Úkraínu, hvaðan þau höfðu nær öll flúið á síðustu vikum. Af hverju snýr fólk aftur heim? Fyrir því eru ýmsar ástæður. „Fjölskyldur eiga að vera saman,“ sögðu mæðgur frá Dnipro. Vestrænir hermenn, tilbúnir í átök, voru einnig á meðal farþega.

Á lest­ar­stöð­inni í Przemysl, nærri landa­mærum Úkra­ínu, var nokkuð rólegt um að lit­ast er blaða­mann Kjarn­ans bar að garði síð­asta fimmtu­dag. Að minnsta kosti í sam­an­burði við hvernig það var vik­una áður og vik­una þar áður, svo ekki sé talað um vik­una þar áður, sagði pólskur sjálf­boða­liði á stöð­inni.

Um lest­ar­stöð­ina er þó stöð­ugur straumur flótta­fólks frá Úkra­ínu sem er á leið­inni lengra inn í Pól­land, frá landamæra­bænum Medyka. Stræt­is­vagnar flytja fólk stöðugt frá landamæra­stöð­inni að lest­ar­stöð­inni í Przemysl, um tíu kíló­metra leið.

Lest­ar­stöðin er eilítið ein­stæð, en hún er sú eina í Pól­landi sem getur tekið á móti lestum sem koma frá Úkra­ínu. Í Úkra­ínu eru lestar­tein­arnir nefni­lega breið­ari en þeir eru í Pól­landi og eitt lest­ar­sporið í Przemysl er af úkra­ínsku gerð­inni.

Á fimmtu­dag var einmitt lest að fara til Úkra­ínu, alla leið til Kænu­garðs með við­komu í Lviv. Nokkrir tugir manna höfðu safn­ast saman í grennd við braut­ar­pall­inn er blaða­maður Kjarn­ans kom á stað­inn ásamt rúss­nesku- og úkra­ínsku­mæl­andi túlki.

Nær allt þetta fólk hafði flúið Úkra­ínu fyrir minna en mán­uði síðan og spurn­ingin sem var blaða­manni efst í huga var sú af hverju þau væru á leið­inni til baka. Fyrir því reynd­ust ýmsar ástæð­ur.

Komin með nóg af evr­ópskri gest­risni

Breskur maður á miðjum aldri með fjöl­skyldu­tengsl til Úkra­ínu, sem vildi ekki láta nafns síns getið af því að öldruð móðir hans sem býr á Norð­ur­löndum mátti ekki kom­ast að því að hann væri á leið til Úkra­ínu - „..hún myndi deyja úr hræðslu“ - ræddi stutt­lega við blaða­mann á lest­ar­stöð­inni.

Hann var að fylgja fjöl­skyldu­með­lim­um, eig­in­konu bróður hans og tveimur börnum þeirra, aftur heim til Kænu­garðs, en hann hafði tekið á móti þeim í Pól­landi í upp­hafi mars­mán­að­ar. Bróðir hans er úkra­ínskur rík­is­borg­ari og mátti því ekki yfir­gefa landið með fjöl­skyldu sinni, frekar en aðrir karl­menn á aldr­inum 18-65 ára.

Fjöl­skyldan hef­ur, eins og raunar margir aðrir flótta­menn frá Úkra­ínu hafa lýst í umfjöll­unum fjöl­miðla und­an­farnar vik­ur, lent í miklum vand­ræðum með að fá vega­bréfs­á­ritun til Bret­lands. Það strandar ein­fald­lega á því að börnin hafa aldrei fengin útgefin vega­bréf.

„Við reyndum að kom­ast til Edin­borg­ar, þau sögðu að þetta ætti að vera voða ein­falt, vega­bréfs­á­ritun feng­ist við kom­una en þegar ég var búinn að kaupa mið­ana frá Pól­landi til Edin­borgar höfn­uðu þau okkur og vís­uðu okkur á dyr. Síðan fórum við til Brus­sel og reyndum að fljúga þaðan til Bret­lands en það var sama sagan, okkur var sagt að við þyrftum vega­bréfs­á­ritun fyrir flug­ið,“ sagði mað­ur­inn.

„Það segja allir að það sé 5-10 daga bið eftir vega­bréfs­á­rit­un. En þau urðu þreytt á að bíða, þessi litlu börn. Þau eru orðin þreytt á gest­risni Evr­ópu. Mesta gest­risnin er raunar hér í Pól­landi. Þegar við fórum til Þýska­lands var tekið á móti okkur á lest­ar­stöð­inni í Berlín og okkur sagt að Berlín tæki ekki á móti fleiri flótta­mönn­um. Og það var farið með okkur í flótta­manna­búðir í Hannover. Þau voru ekki hrifin af aðstæðum þar,“ segir hann og bendir á börn­in, þriggja ára strák og um tíu ára gamla stúlku.

Spurður hvort hann væri kvíð­inn eða ótta­sleg­inn yfir lestar­ferð­inni til Kænu­garðs sagði hann svo vera.

„Bara eins og venju­legt er. Ef þú ert ekki smá hræddur ertu klikk­að­ur.“

Vill bara fara aftur heim

Blaða­maður ræddi með aðstoð túlks við Önnu, unga konu með heil­mikið af far­angri, sem var á leið­inni aftur til borg­ar­innar Odessa eftir rúm­lega tveggja vikna dvöl í Pól­landi. „Ég er búin að búa þar lengi og langar að fara þangað aft­ur,“ sagði Anna, en í Odessa, sem er í suð­vest­ur­hluta Úkra­ínu, bíða hennar fjöl­skylda og vin­ir.

Anna var á leið aftur til Odessa eftir að hafa búið inni á fjölskyldu í Poznan í Póllandi undanfarnar vikur.
Arnar Þór Ingólfsson

„Ég kom til Pól­lands þegar stríðið braust út en mér líkar þetta ekki, ég vil fara aftur til míns heima­lands. Mig langar bara að vera með fjöl­skyldu minni, heima hjá mér,“ sagði Anna.

Hún var ein á ferð og hafði búið inni á fjöl­skyldu í borg­inni Poznan und­an­farnar vik­ur. Spurð hvað henni hafi ekki líkað í Pól­landi svarar hún því til að það væri svo sem ekk­ert sér­stakt, landið væri ein­fald­lega ekki heim­ili henn­ar. Einnig hefur reyndar reynst ómögu­legt fyrir hana til þessa að fá útgefna kenni­tölu í pólska kerf­inu.

Anna seg­ist einnig trúa því að stríð­inu ljúki fyrr en seinna – allt verði komið í samt lag áður en langt um líði.

Fram­halds­skóla­nemi ætlar að sækja föður sinn

Roma er ungur úkra­ínskur náms­mað­ur, 17 ára gam­all. Hann er frá Dnipropetr­ovska­ya-hér­aði í aust­ur­hluta lands­ins en hefur verið við nám í Poznan í Pól­landi. Hann var einn á ferð og sagð­ist hafa fyr­ir­ætl­anir um að sækja föður sinn, færa honum nauð­syn­leg lyf og taka hann svo með sér aftur til Pól­lands.

Roma er 17 ára gamall úkraínskur framhaldsskólanemi sem stundar nám í Poznan í Póllandi.
Arnar Þór Ingólfsson

Spurð­ur, með hjálp rúss­nesku­mæl­andi túlks, hvort hann væri viss um að geta tekið föður sinn með sér til baka yfir landa­mærin sagð­ist Roma ein­fald­lega vona það besta.

Hvað ef það gengur ekki?

„Þá veit ég ekki…“ svar­aði Roma þá og bætti við að það þyrfti bara að koma í ljós. Sjálfur verður hann 18 ára í sept­em­ber og seg­ist vel vita af því að ef stríðið verði enn í gangi og hann íleng­ist í Úkra­ínu verði honum mögu­lega meinuð för til baka, eins og öðrum körlum á aldr­inum 18-65 ára.

Fjöl­skyldur eiga að vera saman

Ung móðir með lít­inn dreng í fang­inu og móðir hennar stóðu saman við lest­ar­stöð­ina. Blaða­maður Kjarn­ans gaf sig á tal við þær með hjálp túlks. Þær eru að snúa aftur til borg­ar­innar Dnipro, sem er aust­ar­lega í land­inu og ekki svo fjarri þeim svæðum þar sem Rússar hafa sótt fram á und­an­förnum vik­um.

Spurðar hvort þær ótt­uð­ust ekk­ert að snúa aftur til baka sagði dóttirin að þær væru jú vissu­lega hrædd­ar, en Dnipro væri heim­ili þeirra. Hún sagð­ist þakk­lát fyrir þá hjálp sem þau hefðu fengið í Pól­landi und­an­farnar vik­ur.

„Við erum fjöl­skylda, við viljum öll fara heim. Fjöl­skyldur eiga að vera sam­an,“ sagði eldri kon­an. Hún sagði að stríðið hefði komið þeim algjör­lega í opna skjöldu og að hún fyndi, sama hvað hún reyndi, engar skýr­ingar á þeim hörm­ungum sem Pútín lætur nú ganga yfir Úkra­ínu­menn.

„Þeir sprengja borgirnar okkar, börn sitja í kjöllurunum. Ég skil ekki hvað er í gangi í höfðinu á þeim og af hverju [rússneskur almenningur] er eins og uppvakningar. Af hverju styðja þau þetta? Ég bara græt, ég næ ekki að átta mig á því,“ sagði eldri konan í samtali við Kjarnann.
Arnar Þór

„Við erum rúss­nesku­mæl­andi. Allt lék í lyndi og nú ganga yfir hörm­ung­ar. Við vorum ekki að búast við neinu í lík­ingu við þetta. Afhverju? Hvað gerð­is­t?“ spyr hún.

„Þeir [Rúss­arn­ir] segj­ast vera að bjarga okk­ur, en af hverju? Bjarga okkur frá hverj­um? Ég skil þetta ekki. Við erum öll úkra­ínsk, við erum öll rúss­nesku­mæl­andi, við vorum að styðja hvort annað og við erum ekki með flokka­drætti á milli úkra­ínsku­mæl­andi og rúss­nesku­mæl­andi. Það eru svo líka Tat­ar­ar, Búlgarar og Tyrkir í Úkra­ín­u,“ sagði eldri kon­an, sem var reið, ekki bara út í Pútín heldur líka almenn­ing í Rúss­landi.

„Þeir sprengja borg­irnar okk­ar, börn sitja í kjöll­ur­un­um. Ég skil ekki hvað er í gangi í höfð­inu á þeim og af hverju [rúss­neskur almenn­ing­ur] er eins og upp­vakn­ing­ar. Af hverju styðja þau þetta? Ég bara græt, ég næ ekki að átta mig á því. Ég tala rúss­nesku eins og flestir í aust­ur­hlut­an­um. Í Kyiv og vest­ur­hlut­anum eru flestir með úkra­ínsku að móð­ur­máli. Við ríf­umst aldrei yfir þessu. Þegar maður fer vestur spyrja þau ein­fald­lega, finnst þér betra að tala rúss­nesku eða úkra­ínsku? Og ég segi að við tölum bara það sem okkur hent­ar, því við skiljum öll bæði mál­in, úkra­ínsku og rúss­nesku.“

Að skjót­ast eftir nauð­syn­legum papp­írum

„Ég er á leið til Úkra­ínu til þess að sækja papp­íra svo ég geti haldið áfram að vinna hér í Pól­land­i,“ segir Anna, sem er frá Kyiv. Um skottúr verður að ræða og ein­ungis til borg­ar­innar Lviv, sem er um sjö­tíu kíló­metrum austan við landa­mær­in, en þar ætl­aði hún að hitta konu sem ætl­aði að leggja upp í ferð til Kænu­garðs að sækja umrædda papp­íra fyrir hana.

Anna frá Kyiv var á leið til Lviv, en þar mun hún fá afhent nauðsynleg gögn til þess að geta haldið áfram störfum í Póllandi.
Arnar Þór Ingólfsson

Sjálf telur hún ekki öruggt að fara alla leið til Kænu­garðs sjálf að sækja papp­írana sem hún þarf að hafa í hönd­un­um. „Mann­eskjan sem hjálp­aði mér er 31 árs kona og tekur smá fé fyrir þessa þjón­ustu. Reyndar frekar mikið fé, en hún tekur þessa áhættu fyrir pen­ing­inn.“

Anna komst frá Úkra­ínu ásamt eig­in­manni sínum og syni 5. mars og hafa þau komið sér fyrir í borg­inni Szczecin í vest­ur­hluta Pól­lands. Þar seg­ist hún vera með smá tengsla­net, en hún bjó um hríð og starf­aði í Pól­landi en sneri aftur til Úkra­ínu fyrir sex árum síð­an.

Um leið og stríð­inu linnir ætlar hún sér aftur heim, og á það raunar sam­eig­in­legt með öllum þeim flótta­mönnum frá Úkra­ínu sem Kjarn­inn hefur rætt við í Pól­landi und­an­farna daga.

„Ég ætla mér að fara aftur til Kyiv. Þetta er móð­ur­landið mitt og Kyiv er mik­il­vægur staður fyrir mig. Ég hef prófað að búa erlendis en mér finnst það ekki eins. Ég vil vera frjáls og búa í mínu heima­landi og tala mitt eigið tungu­mál. Það skiptir allar mann­eskjur máli.“

Vest­rænir her­menn slást í hóp­inn

Í Przemysl hefur dag­legt líf farið all­nokkuð úr skorðum und­an­farnar vikur vegna stríðs straums flótta­fólks frá Úkra­ínu, þó að örtröðin sé minni nú en hún hefur ver­ið. Síð­asta fimmtu­dag var nákvæm­lega mán­uður lið­inn frá því að inn­rás Rússa hófst og af því til­efni var skari pólsks fjöl­miðla­fólks sam­an­kom­inn við lest­ar­stöð­ina til þess að hlýða á ávarp stjórn­mála­konu frá hér­aðs­stjórn­inni, eins konar upp­lýs­inga­fund um stöðu mála.

Í bænum sá blaða­maður nokkrum vest­rænum mönnum bregða fyr­ir, í her­manna­klæð­um. Þeir voru einnig á leið til Úkra­ínu, reiðu­búnir að berj­ast við hlið heima­manna gegn ágangi Rússa.

Konur og börn á leið heim til Úkraínu síðasta fimmtudag, auk nokkurra vestrænna hermanna.
Arnar Þór Ingólfsson

Blaða­maður reyndi að gefa sig á tal við menn­ina á lest­ar­stöð­inni, en þeir voru banda­rískir, breskir og kanadískir, sam­kvæmt þeim merkjum sem þeir báru á sér.

„Helst ekki,“ svar­aði krafta­lega vax­inn Banda­ríkja­maður í felu­lit­un­um, spurður hvort hann væri til í að spjalla við blaða­mann.

Vest­rænir sjálf­boða­liðar sem gefa kost á sér til þess að berj­ast við hlið heima­manna eru nú þegar ansi margir í Úkra­ínu, en sam­kvæmt nýlegum fréttum er þó allur gangur á því hversu mikla reynslu þeir hafa af hern­aði.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar