Á leið aftur til Úkraínu: „Fjölskyldur eiga að vera saman“
Blaðamaður Kjarnans ræddi á dögunum við fólk á lestarstöðinni í Przemysl í Póllandi sem var að bíða eftir lest aftur til Úkraínu, hvaðan þau höfðu nær öll flúið á síðustu vikum. Af hverju snýr fólk aftur heim? Fyrir því eru ýmsar ástæður. „Fjölskyldur eiga að vera saman,“ sögðu mæðgur frá Dnipro. Vestrænir hermenn, tilbúnir í átök, voru einnig á meðal farþega.
Á lestarstöðinni í Przemysl, nærri landamærum Úkraínu, var nokkuð rólegt um að litast er blaðamann Kjarnans bar að garði síðasta fimmtudag. Að minnsta kosti í samanburði við hvernig það var vikuna áður og vikuna þar áður, svo ekki sé talað um vikuna þar áður, sagði pólskur sjálfboðaliði á stöðinni.
Um lestarstöðina er þó stöðugur straumur flóttafólks frá Úkraínu sem er á leiðinni lengra inn í Pólland, frá landamærabænum Medyka. Strætisvagnar flytja fólk stöðugt frá landamærastöðinni að lestarstöðinni í Przemysl, um tíu kílómetra leið.
Lestarstöðin er eilítið einstæð, en hún er sú eina í Póllandi sem getur tekið á móti lestum sem koma frá Úkraínu. Í Úkraínu eru lestarteinarnir nefnilega breiðari en þeir eru í Póllandi og eitt lestarsporið í Przemysl er af úkraínsku gerðinni.
Á fimmtudag var einmitt lest að fara til Úkraínu, alla leið til Kænugarðs með viðkomu í Lviv. Nokkrir tugir manna höfðu safnast saman í grennd við brautarpallinn er blaðamaður Kjarnans kom á staðinn ásamt rússnesku- og úkraínskumælandi túlki.
Nær allt þetta fólk hafði flúið Úkraínu fyrir minna en mánuði síðan og spurningin sem var blaðamanni efst í huga var sú af hverju þau væru á leiðinni til baka. Fyrir því reyndust ýmsar ástæður.
Komin með nóg af evrópskri gestrisni
Breskur maður á miðjum aldri með fjölskyldutengsl til Úkraínu, sem vildi ekki láta nafns síns getið af því að öldruð móðir hans sem býr á Norðurlöndum mátti ekki komast að því að hann væri á leið til Úkraínu - „..hún myndi deyja úr hræðslu“ - ræddi stuttlega við blaðamann á lestarstöðinni.
Hann var að fylgja fjölskyldumeðlimum, eiginkonu bróður hans og tveimur börnum þeirra, aftur heim til Kænugarðs, en hann hafði tekið á móti þeim í Póllandi í upphafi marsmánaðar. Bróðir hans er úkraínskur ríkisborgari og mátti því ekki yfirgefa landið með fjölskyldu sinni, frekar en aðrir karlmenn á aldrinum 18-65 ára.
Fjölskyldan hefur, eins og raunar margir aðrir flóttamenn frá Úkraínu hafa lýst í umfjöllunum fjölmiðla undanfarnar vikur, lent í miklum vandræðum með að fá vegabréfsáritun til Bretlands. Það strandar einfaldlega á því að börnin hafa aldrei fengin útgefin vegabréf.
„Við reyndum að komast til Edinborgar, þau sögðu að þetta ætti að vera voða einfalt, vegabréfsáritun fengist við komuna en þegar ég var búinn að kaupa miðana frá Póllandi til Edinborgar höfnuðu þau okkur og vísuðu okkur á dyr. Síðan fórum við til Brussel og reyndum að fljúga þaðan til Bretlands en það var sama sagan, okkur var sagt að við þyrftum vegabréfsáritun fyrir flugið,“ sagði maðurinn.
„Það segja allir að það sé 5-10 daga bið eftir vegabréfsáritun. En þau urðu þreytt á að bíða, þessi litlu börn. Þau eru orðin þreytt á gestrisni Evrópu. Mesta gestrisnin er raunar hér í Póllandi. Þegar við fórum til Þýskalands var tekið á móti okkur á lestarstöðinni í Berlín og okkur sagt að Berlín tæki ekki á móti fleiri flóttamönnum. Og það var farið með okkur í flóttamannabúðir í Hannover. Þau voru ekki hrifin af aðstæðum þar,“ segir hann og bendir á börnin, þriggja ára strák og um tíu ára gamla stúlku.
Spurður hvort hann væri kvíðinn eða óttasleginn yfir lestarferðinni til Kænugarðs sagði hann svo vera.
„Bara eins og venjulegt er. Ef þú ert ekki smá hræddur ertu klikkaður.“
Vill bara fara aftur heim
Blaðamaður ræddi með aðstoð túlks við Önnu, unga konu með heilmikið af farangri, sem var á leiðinni aftur til borgarinnar Odessa eftir rúmlega tveggja vikna dvöl í Póllandi. „Ég er búin að búa þar lengi og langar að fara þangað aftur,“ sagði Anna, en í Odessa, sem er í suðvesturhluta Úkraínu, bíða hennar fjölskylda og vinir.
„Ég kom til Póllands þegar stríðið braust út en mér líkar þetta ekki, ég vil fara aftur til míns heimalands. Mig langar bara að vera með fjölskyldu minni, heima hjá mér,“ sagði Anna.
Hún var ein á ferð og hafði búið inni á fjölskyldu í borginni Poznan undanfarnar vikur. Spurð hvað henni hafi ekki líkað í Póllandi svarar hún því til að það væri svo sem ekkert sérstakt, landið væri einfaldlega ekki heimili hennar. Einnig hefur reyndar reynst ómögulegt fyrir hana til þessa að fá útgefna kennitölu í pólska kerfinu.
Anna segist einnig trúa því að stríðinu ljúki fyrr en seinna – allt verði komið í samt lag áður en langt um líði.
Framhaldsskólanemi ætlar að sækja föður sinn
Roma er ungur úkraínskur námsmaður, 17 ára gamall. Hann er frá Dnipropetrovskaya-héraði í austurhluta landsins en hefur verið við nám í Poznan í Póllandi. Hann var einn á ferð og sagðist hafa fyrirætlanir um að sækja föður sinn, færa honum nauðsynleg lyf og taka hann svo með sér aftur til Póllands.
Spurður, með hjálp rússneskumælandi túlks, hvort hann væri viss um að geta tekið föður sinn með sér til baka yfir landamærin sagðist Roma einfaldlega vona það besta.
Hvað ef það gengur ekki?
„Þá veit ég ekki…“ svaraði Roma þá og bætti við að það þyrfti bara að koma í ljós. Sjálfur verður hann 18 ára í september og segist vel vita af því að ef stríðið verði enn í gangi og hann ílengist í Úkraínu verði honum mögulega meinuð för til baka, eins og öðrum körlum á aldrinum 18-65 ára.
Fjölskyldur eiga að vera saman
Ung móðir með lítinn dreng í fanginu og móðir hennar stóðu saman við lestarstöðina. Blaðamaður Kjarnans gaf sig á tal við þær með hjálp túlks. Þær eru að snúa aftur til borgarinnar Dnipro, sem er austarlega í landinu og ekki svo fjarri þeim svæðum þar sem Rússar hafa sótt fram á undanförnum vikum.
Spurðar hvort þær óttuðust ekkert að snúa aftur til baka sagði dóttirin að þær væru jú vissulega hræddar, en Dnipro væri heimili þeirra. Hún sagðist þakklát fyrir þá hjálp sem þau hefðu fengið í Póllandi undanfarnar vikur.
„Við erum fjölskylda, við viljum öll fara heim. Fjölskyldur eiga að vera saman,“ sagði eldri konan. Hún sagði að stríðið hefði komið þeim algjörlega í opna skjöldu og að hún fyndi, sama hvað hún reyndi, engar skýringar á þeim hörmungum sem Pútín lætur nú ganga yfir Úkraínumenn.
„Við erum rússneskumælandi. Allt lék í lyndi og nú ganga yfir hörmungar. Við vorum ekki að búast við neinu í líkingu við þetta. Afhverju? Hvað gerðist?“ spyr hún.
„Þeir [Rússarnir] segjast vera að bjarga okkur, en af hverju? Bjarga okkur frá hverjum? Ég skil þetta ekki. Við erum öll úkraínsk, við erum öll rússneskumælandi, við vorum að styðja hvort annað og við erum ekki með flokkadrætti á milli úkraínskumælandi og rússneskumælandi. Það eru svo líka Tatarar, Búlgarar og Tyrkir í Úkraínu,“ sagði eldri konan, sem var reið, ekki bara út í Pútín heldur líka almenning í Rússlandi.
„Þeir sprengja borgirnar okkar, börn sitja í kjöllurunum. Ég skil ekki hvað er í gangi í höfðinu á þeim og af hverju [rússneskur almenningur] er eins og uppvakningar. Af hverju styðja þau þetta? Ég bara græt, ég næ ekki að átta mig á því. Ég tala rússnesku eins og flestir í austurhlutanum. Í Kyiv og vesturhlutanum eru flestir með úkraínsku að móðurmáli. Við rífumst aldrei yfir þessu. Þegar maður fer vestur spyrja þau einfaldlega, finnst þér betra að tala rússnesku eða úkraínsku? Og ég segi að við tölum bara það sem okkur hentar, því við skiljum öll bæði málin, úkraínsku og rússnesku.“
Að skjótast eftir nauðsynlegum pappírum
„Ég er á leið til Úkraínu til þess að sækja pappíra svo ég geti haldið áfram að vinna hér í Póllandi,“ segir Anna, sem er frá Kyiv. Um skottúr verður að ræða og einungis til borgarinnar Lviv, sem er um sjötíu kílómetrum austan við landamærin, en þar ætlaði hún að hitta konu sem ætlaði að leggja upp í ferð til Kænugarðs að sækja umrædda pappíra fyrir hana.
Sjálf telur hún ekki öruggt að fara alla leið til Kænugarðs sjálf að sækja pappírana sem hún þarf að hafa í höndunum. „Manneskjan sem hjálpaði mér er 31 árs kona og tekur smá fé fyrir þessa þjónustu. Reyndar frekar mikið fé, en hún tekur þessa áhættu fyrir peninginn.“
Anna komst frá Úkraínu ásamt eiginmanni sínum og syni 5. mars og hafa þau komið sér fyrir í borginni Szczecin í vesturhluta Póllands. Þar segist hún vera með smá tengslanet, en hún bjó um hríð og starfaði í Póllandi en sneri aftur til Úkraínu fyrir sex árum síðan.
Um leið og stríðinu linnir ætlar hún sér aftur heim, og á það raunar sameiginlegt með öllum þeim flóttamönnum frá Úkraínu sem Kjarninn hefur rætt við í Póllandi undanfarna daga.
„Ég ætla mér að fara aftur til Kyiv. Þetta er móðurlandið mitt og Kyiv er mikilvægur staður fyrir mig. Ég hef prófað að búa erlendis en mér finnst það ekki eins. Ég vil vera frjáls og búa í mínu heimalandi og tala mitt eigið tungumál. Það skiptir allar manneskjur máli.“
Vestrænir hermenn slást í hópinn
Í Przemysl hefur daglegt líf farið allnokkuð úr skorðum undanfarnar vikur vegna stríðs straums flóttafólks frá Úkraínu, þó að örtröðin sé minni nú en hún hefur verið. Síðasta fimmtudag var nákvæmlega mánuður liðinn frá því að innrás Rússa hófst og af því tilefni var skari pólsks fjölmiðlafólks samankominn við lestarstöðina til þess að hlýða á ávarp stjórnmálakonu frá héraðsstjórninni, eins konar upplýsingafund um stöðu mála.
Í bænum sá blaðamaður nokkrum vestrænum mönnum bregða fyrir, í hermannaklæðum. Þeir voru einnig á leið til Úkraínu, reiðubúnir að berjast við hlið heimamanna gegn ágangi Rússa.
Blaðamaður reyndi að gefa sig á tal við mennina á lestarstöðinni, en þeir voru bandarískir, breskir og kanadískir, samkvæmt þeim merkjum sem þeir báru á sér.
„Helst ekki,“ svaraði kraftalega vaxinn Bandaríkjamaður í felulitunum, spurður hvort hann væri til í að spjalla við blaðamann.
Vestrænir sjálfboðaliðar sem gefa kost á sér til þess að berjast við hlið heimamanna eru nú þegar ansi margir í Úkraínu, en samkvæmt nýlegum fréttum er þó allur gangur á því hversu mikla reynslu þeir hafa af hernaði.
Lesa meira
-
2. janúar 2023Hungurleikar Pútíns grimma
-
2. janúar 2023Úkraínustríðið 2023: Skugginn yfir Evrópu
-
6. desember 2022Sjálfheldan í Úkraínu. Hatrið sigrar?
-
6. nóvember 2022Niðursoðin fiskilifur á meðal þess helsta sem selt hefur verið til Rússlands frá innrás
-
30. október 2022Flúði Hvíta-Rússland með röntgenmyndir særðra rússneskra hermanna