Kaup Mohamed bin Khalifa Al Thani á rúmlega fimm prósent hlut í Kaupþingi í september 2008 hafa heldur betur dregið dilk á eftir sér. Í síðustu viku voru fjórir menn dæmdir í fjögurra til fimm og hálfs árs fangelsisvistar fyrir sína aðkomu að viðskiptunum. Mennirnir fjórir voru dæmdir Í Hæstarétti fyrir markaðsmisnotkun, umboðssvik eða hlutdeild í þeim brotum.
Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, fékk fimm og hálfs árs dóm, Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, og Ólafur Ólafsson, sem átti tæplega tíu prósent hlut í Kaupþingi fyrir fall hans, fengu fjögur og hálf ár hvor og Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, fékk fjögurra ára dóm.
Hvað með Al Thani?
Í stuttu máli þá snýst málið um að út á við var látið í það skina að Al Thani hefði ákveðið að kaupa hlutinn í Kaupþingi vegna þess að hann hefði svo rosalega mikla trú á bankanum. Síðar kom hins vegar í ljós að kaupin voru teiknuð upp af stjórnendum Kaupþings og bankinn sjálfur fjármagnaði þau og borið alla markaðsáhættu að kaupunum. Þeir létu því ranglega líta út að þekktur fjárfestir hefði keypt 5.01 prósent í bankanum.
Frá því að tilkynnt var um kaupin 22. september 2008 og þangað til að viðskiptum með bréf Kaupþings var hætt 8. október sama ár urðu alls um 2.700 viðskipti með bréf í Kaupþingi. Velta þeirra var tæplega 34 milljarðar króna.
Samkvæmt dómnum beindust brot mannanna fjögurra að öllum almenningi og fjármálamarkaðnum hér á landi í held. Tjónið sem brotin leiddu af sér, bæði beint og óbeint, verður samkvæmt Hæstarétti ekki metið til fjár. Hann segir um að ræða alvarlegustu efnahagsbrot sem „nokkur dæmi verða fundin um í íslenskri dómaframkvæmd varðandi efnahagsbrot[...]Ákærðu, sem ekki hafa sætt refsingu fyrr, eiga sér engar málsbætur“.
Margir hafa hins vegar velt því fyrir sér hvað valdi því að maðurinn sem málið er óopinberlega nefnt eftir, Al Thani sjálfur, sé ekki á meðal þeirra sem ákærðir voru? Tók hann ekki þátt í blekkingunni?
Sigurður Einarsson og Ólafur Ólafsson hlutu báðir þunga dóma í Al Thani málinu.
Tveir menn, ekki einn
Í fyrsta lagi er vert að taka fram að Al Thani er ekki einn maður heldur tveir. Annars vegar er um að ræða Sjeik Mohamed bin Khalifa Al Thani, bróður emírsins af Qatar sem var um tíma aðstoðarforsætisráðherra þess ríkis en hefur stundað viðskipti síðastliðinn rúman áratug. Það er sá Al Thani sem „keypti“ hlutinn í Kaupþingi.
Hinn heitir Sjeik Sultan bin Jassim Al Thani og er frændi hins fyrrnefnda. Hann vann fyrir frænda sinn og kom að allri skipulagningu viðskiptanna.
Skýrslur teknar og lagðar fram
Embætti sérstaks saksóknara tók skýrslur af báðum mönnunum á meðan að á rannsókn málsins stóð. Embættið ræddi við Sultan Al Thani strax í upphafi rannsóknar og við Sjeik Mohamed bin Khalifa Al Thani á árinu 2011. Báðir fundirnir áttu sér stað í London og var komið á í gegnum lögmann þeirra, Simon Southall. Þeir mættu sjálfviljugir til fundanna og báðir fundirnir voru teknir upp. Upptökur af þeim voru svo lögð fram sem málsgögn í máli sérstaks saksóknara gegn mönnunum fjórum.
Al Thani frændurnir neituðu hins vegar að koma til Íslands og svara hliðstæðum spurningum fyrir héraðsdómi. Ákveðið var að sækja það ekki frekar.
Snýst ekki um friðhelgi
En af hverju voru mennirnir tveir ekki ákærðir fyrir sína aðkomu að málinu? Margir virðast halda að það snúist um að þeir njóti einhverskonar friðhelgi vegna stöðu sinnar innan konungsfjölskyldunnar í Qatar
Í fyrsta lagi var Sjeik Al Thani að hluta til í sjálfskuldarábyrð fyrir láninu sem honum var veitt. Hann, og aðilar tengdum honum, gerðu samkomulag við slitastjórn Kaupþings, um uppgjör þeirra skulda í febrúar 2013 sem fól meðal annars í sér að Kaupþing hætti öllum málarekstri gegn honum fyrir íslenskum dómstólum.
Hin ástæðan er sú að embætti sérstaks saksóknara hefur einskorðað ákærur sínar í umboðssvika- og markaðsmisnotkunarmálum við þá sem hafa stöðu til að skuldbinda banka til fjármálagjörninga sem embættið telur ólögmæta.
Því hafa þeir sem eru á úthliðinni af þeim gjörningum ekki verið ákærðir í stórum markaðsmisnotkunar- og umboðssvikamálum sem embætti sérstaks saksóknara hefur ákært í. Í Imon-málinu var Magnús Ármann, eigandi Imon ehf., ekki ákærður. Í stóra markaðsmisnotkunarmálinu á hendur níu fyrrum starfsmönnum Kaupþings, eru eigendur þeirra félaga sem keyptu bréf í bankanum með fé frá honum ekki ákærðir.
Aurum og BK-44 undantekningar
Undantekningarnar eru helst tvær. Annars vegar er um að ræða Aurum-málið svokallaða, þar sem Jón Ásgeir Jóhannesson var ákærður fyrir hlutdeild í umboðssvikum fyrir að hafa beitt stjórnendur Glitnis „fortölum og þrýstingi og hvatt til þess“ að bankinn myndi veita félagi í eigu Pálma Haraldssonar sex milljarða króna lán „honum sjálfum og Fons hf. til hagsbóta“.Jón Ásgeir réð á þessum tíma, samkvæmt ákæru, yfir um 40 prósent af hlutafé Glitnis í gegnum félög sem hann, fjölskylda hans eða viðskiptafélagar áttu meirihluta í eða stjórnuðu. Héraðsdómur sýknaði alla sakborninga í málinu í fyrra en það verður tekið fyrir í Hæstarétti í apríl.
Hin undantekningin er BK-44 málið. Þar ákærði sérstakur saksóknari fjóra fyrrum starfsmenn Glitnis fyrir umboðssvik, markaðsmisnotkun og brot á lögum um ársreikninga í tengslum við 3,8 milljarða króna lánveitingu bankans til félags sem hét BK-44 í nóvember 2007. Lánið var notað til að kaupa bréf í Glitni af Glitni. Í því máli voru þrír mannanna dæmdir í fimm ára fangelsi og einn í fjögurra ára fangelsi í héraðsdómi. Málið bíður áfrýjunar.
Í BK-44 málinu var eigandi félagsins sem keypti bréfin, Birkir Kristinsson, líka ákærður en hann var auk þess starfsmaður Glitnis. Hann var ákærður fyrir hlutdeild í umboðssvikum.