Þegar höfundur ólst upp var ímyndin af Afríku sunnan Sahara (til einföldunar verður talað um „Afríku“ héðan í frá) eitthvað á þessa leið: Fátækt, hungursneyð, styrjaldir, frumbyggjar og Konungur Ljónanna. Þó þessi atriði eigi ennþá við að mismiklu leyti er ímyndin í dag meira á þessa leið: Náttúruauðlindir, framfarir, tæknivæðing, ólýsanleg náttúrufegurð og fjölbreytt mannlíf.
Ástæðurnar fyrir þessari breyttu mynd eru aðallega tvennskonar. Í fyrsta lagi birtist Íslendingum og öðrum Vesturlandabúaum afar skökk, neikvæð og einhæf mynd af Afríku í fjölmiðlum. Þó svo að þessi ímynd sé nær því að enduspegla raunveruleikan í dag en áður fyrr eru fordómar Vesturlandabúa gagnvart Afríku enn við lýði. Harkaleg viðbrögð Vesturlandabúa á Twitter við beinni útsendingu frá Naírobí (höfuðborg Kenýa) á Snapchat í síðasta mánuði er til vitnis um það. Í öðru lagi hafa síðustu tveir áratugir verið tími mikilla framfara í álfunni. Afríka á enn langt í land, en möguleikarnir til að halda áfram á sömu braut og með meiri hraða hafa sjaldan verið meiri.
Framfarir á flestum vígstöðum
Alþjóðabankinn heldur utan um aragrúa af hagtölum og gögnum um mannfjölda, heilsu og fjölmarga aðra þætti sem sýna hvernig löndum vegnar á ýmsa vegu. Á árunum 2003-2013 jókst landsframleiðsla á mann (miðað við kaupmáttarjöfnuð og leiðrétt fyrir verðlagsþróun) í löndum Afríku úr 318 þ. kr. á mann í 434 þ. kr. á mann. Á sama tíma fjölgaði Afríkubúum um 30% svo að landsframleiðslan jókst samanlagt um 80%. Aukin efnahagsleg velmegun á sér aðrar birtingarmyndir: Utanríkisviðskipti hafa aukist hraðar en landsframleiðsla frá byrjun 10. áratugarins og þá hefur bein erlend fjárfesting tífaldast í Afríku á 20 árum.
Árangurinn birtist ekki eingöngu í hefðbundnum hagtölum. Ungbarnadauði hefur nærri því helmingast frá árinu 1990, tíðni mærðadauða hefur lækkað töluvert, aðgangur að menntun hefur aukist, stjórnmálaþátttaka kvenna fer vaxandi og meðalævilengd hækkaði úr 50 í 56 ár á árunum 2000-2012. Lengri ævilengd ber m.a. að þakka árangri í baráttunni við HIV, en tíðni smitaðra kvenna 15-24 ára, sem eru í miklum áhættuhóp, hefur fallið um helming á öldinni hingað til og litlu minna meðal karla á sama aldri.
Þá voru innan við 50% mannfjöldans með aðgang að hreinu vatni árið 1994, en það hlutfall var komið upp í 64% árið 2012 skv. Alþjóðabankanum, þrátt fyrir mikla fólksfjölgun. Einnig hefur hlutfall fólks undir fátækramörkum bankans ($1,25 á dag) fallið nær allsstaðar, t.d. úr 84% í 44% í Tansaníu á þessari öld auk þess sem millistéttin í heimshlutanum hefur vaxið gríðarlega hratt á síðustu árum og mun að öllu líkindum halda áfram að vaxa. Síðan virðist oft gleymast að þrátt fyrir allt þá er Afríka sífellt að verða friðsælli. Allt ber þetta að sama brunni: Lífsskilyrði fara sífellt batnandi í Afríku.
Margar borgir í Afríku vaxa hratt, m.a. Dar es Salaam.
Farsímabyltingin hefur óvíða meiri áhrif
Það fellur ekki sérstaklega vel að klassísku ímyndinni um Afríku, að fyrsta hugsun höfundar þegar hann steig fyrst fæti í Afríku hafi verið: „Það eru allir með síma hérna og annar hver maður að selja inneign.” Afríka hefur alls ekki verið undanskilin farsímabyltingu síðustu áratuga. Til vitnis um það eru meira en helmingur heimila í álfunni með farsíma. Í mörgum bláfátækum löndum eiga langflestir fullorðnir einstaklingar farsíma - 89% fullorðna í Gana, 82% í Kenýa og 73% í Tansaníu. Áhrifin sem þetta hefur á viðskipti og líf fólks almennt eru gríðarleg. Í Afríku er lítið brot heimila með aðgang að landlínu, svo áður fyrr þurfti að treysta á óskilvirka póstþjónustu eða að koma skilaboðum til skila á tveimur jafnfljótum. Með tilkomu farsímans hefur þetta vitanlega gjörbreyst. Það kemur því ekki á óvart að rannsóknir sýni að 10% aukning farsímaeignar auki hagvöxt um 0,8% í þróunarlöndum. Farsímabyltingin hefur líka aðrar góðar og minna fyrirsjáanlegar afleiðingar sem birtast í svokölluðu „mobile money“.
Þetta fyrirbæri er einfaldlega greiðslumiðlun með farsímainneign og hefur náð ótrúlegri útbreiðslu á þessum áratug. Þurfi maður að greiða leigubílstjóra í Tansaníu getur maður einfaldlega sent umsamda fjárhæð með smáskilaboðum til hans með litlum kostnaði. Síðan getur leigubílstjórinn farið á næsta sölustað síns símafyrirtækis og tekið út peninginn þegar honum hentar, rétt eins og um hefðbundna bankaþjónustu væri að ræða. Ekki er þörf á nýjasta snjallsímanum, Nokia 5210 er meira en nóg. Í gömlum farsímum, sem safna ryki ofan í skúffum Íslendinga, gæti því leynst gullið tækifæri til að styðja við framfarir og þróun á fátækustu svæðum Afríku. Hefðbundin fjármálaþjónusta er í mýflugumynd víða í Afríku sem gerir það að verkum að hundruðir milljóna manna eiga ekki banakreikning. Tilkoma „mobile money“ þýðir að viðskiptamöguleikar hafa gjörbreyst. Í stað þess að þurfa að geyma peninga undir koddanum eða að ferðast langar vegalengdir til að borga t.d. fyrir læknisþjónustu veiks ættingja er hægt að greiða með „mobile money“ á nokkum sekúndum. Áhrifin á viðskiptalífið þarfnast í raun engra útskýringa - þau eru gríðarleg.
Aðrar tækniframfarir og nýsköpun vekja athygli
Framfarirnar birtast einnig í annarri tækni sem hefur rutt sér til rúms í Afríku á undanförnum árum. Til dæmis hefur hraðbönkum á hverja 100.000 íbúa fjölgað úr 0,7 í 4,5 á innan við 10 árum. Þá eru sumir þeirrar skoðunar að flygildi (e. drones) muni leika stórt hlutverk í minni vöruflutningum í Afríku í framtíðinni. Vegakerfi víða í álfunni eru annað hvort í molum eða hreinlega ekki til staðar, þannig að gárungarnir nefna oft „afrískt nudd“ í sömu andrá og langan akstur. Þá hefur borið á aukinni áherslu á frumkvöðlastarfsemi og nýsköpun undanfarin ár. Þróunarsamvinnustofnun Íslands hafa lagt sitt á vogarskálarnar í þeim málum í Úganda og með góðum árangri. Einnig hefur fræðasamfélagið víða í álfunni verið í sókn undanfarið, þar sem að birtingum vísindagreina hefur fjölgað um helming á aðeins 10 árum. Í Afríku er skortur á raforku eitt af því sem stendur þróun og vexti atvinnulífsins mest fyrir þrifum. Raforkuframleiðsla hefur aukist talsvert á síðastliðnum áratugum, en þó ekki nægilega til að halda í við mannfjöldaþróun. Þetta kann að þó að breytast. á næstu árum og áratugum. Kjarninn fjallaði um áhrif Kínverja í Afríku fyrir skömmu, en Kínverjar hafa lagt mikið í uppbyggingu innviða og t.d. munu nýjar virkjanir, fjármagnaðar af þeim, tvöfalda raforkuframleiðslu Eþíópíu á nokkrum árum. Einnig eru stór verkefni í pípunum eins og Grand Inga virkjunin í Kongó, sem er eitt allra fátækasta ríki heims. Sú virkjun myndi verða sú lang stærsta í heiminum og framleiða 60-falt meira rafmagn en Kárahnjúkavirkjun. Þá eru einnig bundnar vonir við aðra endurnýjanlega orkugjafa eins og sólarorku.
Skiptar skoðanir og ennþá fátækasti heimshlutinn
Ekki eru allir sammála um það að hlutirnir séu að þróast í rétta átt. Margir hafa bent á að ójöfnuður sé of mikill og vaxandi. Vissulega er ójöfnuður mjög mikill og ein stærsta áskorun næstu áratuga verður að tryggja að allir njóti aukinnar velmegunar í Afríku. Staðreyndin er samt sú að ójöfnuður hefur víðast hvar staðið í stað eða minnkað á undanförnum árum samkvæmt Gini stuðlinum. Einnig hafa sumir bent á að framfarirnar byggi nær alfarið á nýtingu náttúruauðlinda, sem hafa orðið verðmætari undanfarna áratugi. Það er vissulega rétt að nokkru leyti, en það lítur út fyrir að lækkandi olíu- og hrávöruverð undanfarið muni hafa minni áhrif á efnahagslífið í heimshlutanum en það hefur áður bert. Ástæðurnar eru fyrst og fremst tvær: Aukið framlag annarra atvinnuvega og betri hagstjórn. Þetta birtist m.a. í því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáir meiri hagvexti í Afríku heldur en víðast hvar í heiminum á næstu árum.
Styðjum betur við framfarirnar
Afríka er ennþá fátækasti heimshlutinn og verður það sennilega áfram í fyrirsjáanlegri framtíð. Flestir Afríkubúar geta einungis látið sig dreyma um lífsskilyrði Íslendinga og mannréttindi eru víða langt frá því að vera í hávegum höfð. Einnig felst mikil áskorun í því að ekki verði gengið of mikið á umhverfið með auknum fólksfjölda og efnahagslegum framförum. En það er ástæða til bjartsýni, óásættanlegar aðstæður geta haldið áfram að batna og líklega batnað hraðar en áður á næstu áratugum.
Spár gera ráð fyrir því ríflega þriðji hver jarðarbúi verði frá löndum Afríku við lok aldarinnar. Vegna þessa og alls þess sem tíundað er hér að ofan ættum við að veita Afríku meiri athygli. Það þýðir þó alls ekki að við eigum sitja á hliðarlínunni og fylgjast með. Afríka þarfnast stuðnings, sem Íslendingar hafa svo sannarlega efni á þó við séum eftirbátar flestra þjóða í Vestur-Evrópu þegar kemur að þróunarsamvinnu. Það er sennilega ennþá mikilvægara að eiga viðskipti við Afríku. Að fara til Austur-Afríku í ferðalag er til dæmis góð leið til þess og nokkuð sem höfundur mælir tvímælalaust með.
Höfundur er hagfræðingur.