Formaður sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) gagnvart Íslandi, Peter Dohlman, segir að Ísland geti orðið fyrsta þjóðin í Evrópu til þess að komast í betri efnahagslega stöðu en var fyrir hendi þegar bankarnir hrundu, á þessu ári. Margt bendi til þess að Ísland sé að ná efnahagslegum vopnum sínum á nýjan leik, en gæta þurfi að því að viðhalda stöðugleika á meðan rýmkun fjármagnshafta er undirbúin og síðan hrint í framkvæmd.
Skýrsla AGS um Ísland, var til umræðu á fundi framkvæmdastjórnar sjóðsins 9. mars síðastliðinn, en hún er sú fimmta sem kemur frá honum um Ísland eftir að efnahagsáætlun sjóðsins og Íslands lauk formlega. Í stórum dráttum teiknar AGS upp nokkuð góða mynd af stöðu efnahagsmála hér á landi, þó viðvarandi óvissa sé fyrir hendi vegna fjármagnshafta.
Hér má sjá Má Guðmundsson, seðlabankastjóra, á vaxtaákvörðunarfundi í desember, þar sem hann klæddist jólapeysu. AGS segir mikilvægt að sjálfstæði seðlabankans verði verndað áfram.
Þarf að styrkja innviði
Sendinefndin leggur til að umbætur verði gerðar til að auka framleiðni og samkeppnishæfni íslenska hagkerfisins, ekki síst starfsfólksins. Seðlabankinn er jafnframt hvattur til að beita sér gegn þrýstingi á of miklar launahækkanir, sem hagkerfið standi ekki undir, og halda áfram að stækka gjaldeyrisvaraforðann. Þá leggur AGS áherslu á að sjálfstæði seðlabankans standi óhaggað og að spennandi verði að sjá niðurstöðuna af endurskoðun laga um Seðlabanka Íslands.
Fjármál ríkisins á góðu róli
Fjármál ríkisins eru á góðu róli, segir AGS. Hér sjást Bjarni Benediktsson , efnahags- og fjármálaráðherra, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, tala fyrir umdeildri aðgerð, hinni svonefndu leiðréttingu.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hrósar stjórnvöldum fyrir það, að ríkisfjármálin séu nú komin í góðan farveg, en svigrúm sé þó fyrir hendi til þess að auka hagkvæmni skattkerfisins. Nauðsynlegt sé að taka á vanda Íbúðalánasjóðs, með hagsmuni ríkisins að leiðarljósi.
Peter Dohlman segir í tilkynningu, að mikil fjölgun ferðamanna hafa hjálpað mikið til við að rétta hagkerfið af og að hlutirnir séu almennt á réttri leið. Skuldir í erlendri mynt séu þó enn miklar, og mikilvægt sé að huga að því að endurskipuleggja eignarhald á fjármálakerfinu.
Samkvæmt nýjustu tölum Hagstofu Íslands mældist 1,9 prósent hagvöxtur í fyrra, en það er töluvert minna en reiknað var með í byrjun ársins. Spár, þar á meðal AGS, gerðu ráð fyrir um þrjú prósent hagvexti. Atvinnuleysi á Íslandi mælist með því allra lægsta í Evrópu, eða 4,3 prósent. Meðaltal Evrópuríkja er ríflega 10 prósent, samkvæmt tölum Eurostat, Hagstofu Evrópu.