Tveimur dögum eftir að innrás Rússa í Úkraínu hófst krafðist meirihluti fimmtán aðildarríkja öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna að Rússar drægju herafla sinn til baka. Eitt stóð í vegi fyrir því: Neitunarvald Rússa.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra og stjórnandi hjá Sameinuðu þjóðunum og Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, segir beitingu Rússa á neitunarvaldi eftir að innrásin í Úkraínu hófst vera skólabókardæmi um mikilvægi þess að breyta öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og fyrirkomulagi beitingar neitunarvaldsins. „Það var auðvitað aldrei hugsunin að neitunarvaldinu yrði beitt með þessum hætti, að ríki sem sjálf eru beinlínis hluti af átökum gætu beitt því til að koma í veg fyrir að öryggisráðið tæki á þeirra málum,“ segir Ingibjörg Sólrún í samtali við Kjarnann.
Í lok apríl samþykkti allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna breytingartillögu um beitingu neitunarvaldsins sem er ætlað að beita fastaríkin fimm pólitískum þrýsingi, ekki síst Rússlandi eins og staðan í alþjóðamálum er vegna stríðsins í Úkraínu. 80 aðildarríki voru meðflutningsaðilar með tillögunni, þar á meðal Bandaríkin og Bretland.
Breytingin felst í því að ætli eitt ríkjanna að beita neitunarvaldi sínu þarf það að réttlæta beitingu þess fyrir allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna sem kemur saman tíu dögum eftir beitingu neitunarvalds og fjallar um ákvörðunina. Vonir standa til að með þessari breytingu beiti fastaríkin neitunarvaldinu í minna mæli, eða taki að minnsta kosti ígrundaðri ákvarðanir um beitingu þess. Breytingin er ekki ýkja stór en breytingar á neitunarvaldinu eru á sama tíma ekki algengar og því telst það til tíðinda þegar slík er samþykkt.
Pólitískur þrýstingur, kostnaður og óþægindi
Ingibjörg Sólrún segir að þetta aukna sviðsljós sem fastaríkin eru sett í með breytingartillögunni muni hins vegar ekki breyta miklu en sé fyrst og fremst tilraun til að beita pólitískum þrýstingi. „Það er einnig verið að skapa pólitískan kostnað við að beita neitunarvaldinu og að það hafi í för með sér pólitísk óþægindi,“ segir hún.
Samkvæmt breytingartillögunnar þurfa ríki sem beita neitunarvaldi að skila ályktun til allsherjarþingsins þar sem beiting valdsins er rökstutt. „En vandinn er sá að það er ekki hægt að skikka ríki til að skila ályktun, þetta eru tilmæli. Ég er ekki að trúa því að Rússar muni skila skýrslu til allsherjarþingsins. Ég er ekkert voðalega bjartsýn á að þetta breyti neinu,“ segir Ingibjörg Sólrún.
Breytingin hefur þó haft örlítil áhrif. Á föstudag gaf öryggisráðið út yfirlýsingu um innrás Rússa í Úkraínu og er þetta í fyrsta sinn sem Rússar beita ekki neitunarvaldi gegn yfirlýsingum sem snúa að stríðinu. Yfirlýsingin þykir þó heldur veik þar sem ekki er talað beint um stríð, innrás eða átök, heldur aðeins milliríkjadeilu. Stuðningur við Antonio Guterres, aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, er ítrekaður í yfirlýsingunni en hann hefur talað fyrir friðsamlegri úrlausn á stríðinu í Úkraínu. Í færslu á Twitter segir Guterres að þetta sé í fyrsta sinn sem öryggisráðið sé einróma þegar kemur að stríðinu í Úkraínu og að það sé mikilvægt.
Today, for the first time, the Security Council spoke with one voice for peace in Ukraine.
— António Guterres (@antonioguterres) May 6, 2022
As I have often said, the world must come together to silence the guns and uphold the values of the @UN Charter.
Neitunarvaldinu beitt yfir 200 sinnum frá stofnun öryggisráðsins
Meginhlutverk öryggisráðsins er að viðhalda friði og öryggi í heiminum. Fimmtán ríki eiga fulltrúa í ráðinu hverju sinni en fimm ríki eiga fast sæti í öryggisráðinu: Bandaríkin, Rússland, Kína, Frakkland og Bretland, ríki sem eiga það sameiginlegt að hafa staðið uppi sem sigurvegara í lok seinni heimstyrjaraldarinnar.
Á þeim tæplega 80 árum sem öryggisráðið hefur verið starfandi hefur neitunarvaldinu verið beitt yfir 200 sinnum og oftar í seinni tíð. Kóreustríðið, loftslagsmál og málefni Ísraels og Palestínu eru dæmi um heimsmál þar sem neitunarvaldinu hefur verið beitt og nú síðast, stríðið í Úkraínu.
Fastaríkin fimm hafa verið með neitunarvald í ráðinu frá upphafi og hefur það reglulega verið gagnrýnt. Þrátt fyrir gagnrýnina hafa fáar breytingar verið gerðar á fyrirkomulagi þess. Reglulega kemur upp sú umræða hvort fjölga eigi fastaríkjum, án þess þó að fjölga ríkjum með neitunarvald. Ríki eins og Japan Þýskaland og Brasilía hafa verið nefnd í þessu samhengi. Þá hefur það komið til tals að fjölga heildarfjölda ríkja í ráðinu, sérstaklega Afríkuríkjum. Engar af þessum breytingum hafa þó verið teknar til umfjöllunar af alvöru og segir Ingibjörg Sólrún að það sem þvælist fyrir í allri þessari umræðu sé einmitt neitunarvaldið.
„Þetta setur Sameinuðu þjóðina í mjög erfiða stöðu og minnkar tiltrú fólks á Sameinuðu þjóðunum og því pólitíska afli sem Sameinuðu þjóðirnar ættu að hafa,“ segir hún.
Öryggisráðið hafi brugðist
Svo virðist sem Guterres hafi einnig misst tilrúna á eigin stofnun þegar hann sagði öryggisráðinu hafa mistekist að koma í veg fyrir eða enda stríðið í Úkraínu. „Þetta veldur vonbrigðum, vonleysi og reiði. En menn og konur innan Sameinuðu þjóðanna vinna á hverjum degi fyrir fólkið í Úkraínu með aðstoð frá mörgum úkraínskum samtökum sem sýna mikið hugrekki,“ sagði Guterres á blaðamannafundi í Kænugarði eftir heimsókn sína til borgarinnar í lok apríl þar sem hann kynnti sér aðstæður og fundaði með Volodomír Zelenskí, forseta Úkraínu.
Ingibjörg Sólrún segir að taka þurfi orðum Guterres alvarlega en á sama tíma vonar hún að hann muni beita sér meira á næstu árum.
„Það sem er kosturinn núna er að Guterres er kominn á sitt seinna kjörtímabil og það er alltaf auðveldara fyrir aðalritarann að beita sér á seinna kjörtímabili, það getur vel verið að hann geti beitt sér af miklum þunga. Partur af vandanum er að embætti aðalritarans er of veikt, og það hefur ekkert með einstaklingana að gera, það er ekki nógu mikið vald sem honum er fengið af aðildarríkjunum.“
Ingibjörg Sólrún vonar að Guterres verði skýr í sinni afstöðu og beiti sér í auknum mæli. „En hann þarf líka að halda talsambandi, það er mikilvægt. Á endanum þarftu að semja við óvini þína í svona átökum.“
Óttast að stríðið í Úkraínu dragist á langinn
Rúmir tveir mánuðir eru síðan innrás Rússa í Úkraínu hófst og segir Ingibjörg Sólrún óttast að stríðið dragist á langinn, flest bendi til þess. „Fyrst að það var ekki samið fljótlega og eftir að heimurinn er búinn að horfa upp á þessa hryllilegu stríðsglæpi Rússa, þá er Zelenskí ekki í stöðu til að geta samið og Rússarnir virðast alls ekki vera tilbúnir til þess heldur.“
„Ég held að alþjóðasamfélagið verði að beita Rússa auknum þvingunum, það verður að þvinga þá til að láta af þessum árásum og stríðsglæpum í Úkraínu, og þær munu koma við almenning í Evrópu, þar á meðal okkur,“ segir Ingibjörg Sólrún.