Framkvæmd aldursmerkinga á kvikmyndum, sem segja til um hversu gamall áhorfandi þarf að vera til að mega horfa á þeim, hefur ekki verið í samræmi við lög hérlendis frá árinu 2006. Þetta er mat fjölmiðlanefndar sem hefur eftirlir með því að lögunum sé framfylgt. Þetta kemur fram í bréfum sem fjölmiðlanefnd sendi mennta- og menningarmálaráðuneytinu á undanförnum árum.
Kjarninn óskaði eftir, á grundvelli upplýsingalaga, eftir öllum samskiptum, bréfum og gögnum fjölmiðlanefndar sem varða eftirlit með aldursmati. Í kjölfarið fékk hann afhent bréf sem fjölmiðlanefnd hefur sent mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Hægt er að lesa bréfin hér, hér, hér, hér og hér.
Að horfa á myndband er góð skemmtun
Fram til ársins 2006 sá Kvikmyndaskoðun ríkisins um að aldursmeta þær kvikmyndir sem sýndar voru á Íslandi. Flestir kvikmyndaáhugamenn muna eftir Gylfa Pálssyni tilkynna sér um að það að horfa á myndband sé góð skemmtun áður en myndin sjálf hófst.
http://youtu.be/O0TAQWY6BRc
Með lagabreytingu árið 2006 var aldursmatið fært til aðildarfélaga SMÁÍS, samtaka myndrétthafa á Íslandi. Samkvæmt nýja fyrirkomulaginu átti SMÁÍS að gera samkomulag við alþjóðlega viðurkenndan matsaðila við að meta aldurshæfi kvikmyndaefnis. Látið var í það skína að gerður hefði verið fullgildur samningur við hollenska fyrirtækið NICAM í ágúst 2007 um að sjá þeim fyrir slíkri þjónustu.
Þannig hélt fjölmiðlanefnd að staðan væri þegar Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri hennar, flutti erindi á norrænni ráðstefnu í Helsinki í maí 2012. Á meðal þess sem kom fram í erindi hennar var hvernig aldursmatsmálum væri fyrirkomið hérlendis. Eftir erindið tilkynnti framkvæmdastjóri NICAM, sem var í salnum og hafði hlustað á það, að fyrirkomulagið væri alls ekki með þeim hætti sem Elfa hafði lýst. Síðar hafði Viðskiptablaðið eftir framkvæmdastjóranum, Wim Bekkers, að SMÁÍS hefði aldrei greitt neitt vegna samningsins og frá undirritun hans hefði ekki verið neitt sambandi milli samningsaðilanna. „Ég hugsaði með mér að það væri vegna vandamála sem eyjan átti við að etja á þeim tíma,“ sagði Bekkers við Viðskiptablaðið.
Átti að vera bönnuð innan 16 en var alls ekki bönnuð
Á þessum tímapunkti var ljóst að eftirlit með því að börn væru ekki að horfa á efni sem samkvæmt lögum gæti „haft skaðleg áhrif á andlegan og siðferðislegan þroska þeirra“, var ekki í samræmi við lög. Þegar fjölmiðlanefnd fór að skoða málið komu ýmsar brotalamir fram. Í einu bréfinu sem Kjarninn fékk afhent á grundvelli upplýsingalaga, og var sent til ráðuneytisins síðla árs 2012, segir m.a.:
Fjölmiðlanefnd hefur upplýsingar um fjölda dæma þar sem um tvær ólíkar aldursmerkingar er að ræða fyrir sömu kvikmynd, nokkur dæmi eru um þrjár ólíkar aldursmerkingar fyrir sömu kvikmynd hér á landi[...]Fjölmiðlanefnd hefur fundið dæmi um það að kvikmyndir sem hafa fengið aldursmerkinguna 15-16 ára erlendis eru leyfðar öllum börnum gér á landi, t.d. kvikmyndin Black Swan frá árinu 2010.“
http://youtu.be/5jaI1XOB-bs
Þá segir einnig að verulega skorti upp á að kynningarefni sé aldursmerkt, gagnagrunnurinn kvikmyndaskodun.is hafi verið langt í frá tæmandi og mikið vanti upp á að allar kvikmyndir sem gefnar eru út hér á landi séu aldursmerktar líkt og lög gera ráð fyrir. Þá segir: „Fjölmiðlanefnd er kunnugt um að ábyrgðaraðilar geri ýmsar undantekningar frá mati um aldursmerkingu sem á sér enga stoð í lögum, m.a. eru kvikmyndir á kvikmyndahátíðum ekki aldursmerktar“.
Ekki rétt að kerfið hafi verið við lýði í áratug
SMÁÍS gerði loks samning við NICAM haustið 2013, sjö árum eftir að lögin sem færðu ábyrgðina á aldursmatinu til samtakana voru sett. Talsmenn SMÁÍS höfðu þá haldið því fram að kerfið hafi verið við lýði á Íslandi allt frá árinu 2006. Og skömmu síðar varð SMÁÍS gjaldþrota.
Í bréfi sem fjölmiðlanefnd sendi til mennta- og menningarmálaráðuneytisins í byrjun desember 2014 vegna nálsins segir: „Fjölmiðlanefnd vill árétta að SMÁÍS gerði ekki samning við NICAM um notkun Kijkwijzer kerfisins fyrr en haustið 2013, þ.e. sjö árum eftir að lögin voru sett. Það var jafnframt í fyrsta sinn sem matsmenn á vegum ábyrgðaraðila fóru á námskeið hjá sérfræðingum NICAM um hvernig eigi að nota skoðunarkerfið. Það er því ekki allskostar rétt staðhæfing að kerfið hafi verið við lýði hér á landi í hátt í áratug“.
Skrifað undir í næstu viku
En nú virðist loks vera að draga til tíðinda. Félag rétthafa í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði (FRÍSK) var stofnað á síðasta ári í kjölfar gjaldþrots SMÁÍS. Að félaginu standa 365 miðlar ehf., Skjárinn, Sena, Myndform, RÚV og Sam-félagið., eða sömu aðilar og stóðu að SMÁÍS. Samhliða var upplýst að nýja félagið myndi sinna því hlutverki að halda utan um formlegan samning um erlent viðurkennt skoðunarkerfi og samræma innleiðingu til félagsmanna og annarra ábyrgðaraðila.
Hallgrímur Kristinsson, starfandi stjórnarformaður FRÍSK, segir að nýr samningur við NICAM sé tilbúinn og að undir hann verði líklega skrifað í næstu viku. „FRÍSK er búið að semja við NICAM um notkun fyrir okkar félagsmenn að nota þeirra kerfi. Við munum ekki skoða myndir, heldur samræmum ferlin í kringum það. Félögin sem gefa út eða sýna efni eru sjálf ábyrgðaraðilar.“
Hann segir að FRÍSK túlki lögin ekki nákvæmlega eins og fjölmiðlanefnd í ákveðnum tilvikum. „Við höfum hins vegar reynt að vinna þetta mjög náið með fjölmiðlanefnd og tel að við séum komin ansi nálægt hvoru öðru í þessum málum. Ég er alveg sammála því að því að það hefði mátt gera margt betra. Það var svigrúm til að gera betur og við erum að leggja það á okkur þessa daganna að komast þangað. Ég er þeirrar skoðunar að við séum að færast nær hvoru öðru, við og fjölmiðlanefnd.“