Enn uppfylla aldursmerkingar á kvikmyndum, sem segja til um hversu gamall áhorfandi þarf að vera til að mega horfa á þær, ekki kröfur Fjölmiðlanefndar þrátt fyrir að endurbættur vefur félags rétthafa í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði, kvikmyndaskodun.is, hafi verið opnaður á ný í byrjun viku. Kjarninn greindi frá því í febrúar að framkvæmd aldursmerkinga á kvikmyndum hafi ekki verið í samræmi við lög frá árinu 2006, samkvæmt mati Fjölmiðlanefndar. Þetta kom fram í bréfum sem nefndin hafði sent mennta- og menningarmálaráðuneytinu á undanförnum árum og Kjarninn fékk afhent á grundvelli upplýsingalaga.
Fjölmiðlanefnd segir að vefsíðan hafi verið sett í loftið án þess að allt hafi verið komið inn á hana og að ýmsar breytingar verða gerða á henni á næstu vikum. Málið sé því enn í vinnslu.
Tilkynntu um endurbætta síðu á mánudag
FRÍSK, félag réttahafa í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði, sendi frá sér tilkynningu á mánudag þar sem fram kom að nýr og endurbættur vefur hefði verið opnaður á slóðinni kvikmyndaskodun.is. Þar mætti nálgast „ítarlegar upplýsingar um aldurstakmörk á kvikmyndum og tölvuleikjum á Íslandi. Vefurinn er sérstaklega hannaður með foreldra og forráðamenn í huga og þar er m.a. hægt að leita í gagnagrunni af kvikmyndum, sjónvarpsþáttum og tölvuleikjum og sjá aldurstakmörk viðkomandi efnis ásamt upplýsingum um hvaða efnisþættir ráða aldursmerkingunni.“
Kjarninn sendi í kjölfarið fyrirspurn til Fjölmiðlanefndar með spurningum um hvort vefurinn uppfyllti þau skilyrði sem nefndin setur. Í svari nefndarinnar segir að hún hafi fundað á þriðjudag með FRÍSK til að fara yfir endurbætta vefsíðu félagsins. Á þeim fundi var upplýst að ákveðið hefði verið að setja vefsíðuna í loftið án þess að allt væri komið inn á hana.
Í skriflegu svari við fyrirspurn Kjarnans um málið segir Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri Fjölmiðlanefndar, að FRÍSK muni á næstu vikum, í samráði við nefndina, gera ýmsar breytingar á síðunni. „Meðal annars að uppfæra og breyta verklagsreglum félagsins, skoða með hvaða hætti kynningastiklur verði aldursmetnar og aldursmat birt, setja inn upplýsinga um mótttöku og afgreiðslu erinda frá almenninga og fleira.“
Málið sé því enn í vinnslu en gott sé að vita til þess að loks sé búið að ganga frá samningi við NICAM í Hollandi.
Að horfa á myndband er góð skemmtun
Fram til ársins 2006 sá Kvikmyndaskoðun ríkisins um að aldursmeta þær kvikmyndir sem sýndar voru á Íslandi. Flestir kvikmyndaáhugamenn muna eftir Gylfa Pálssyni tilkynna sér um að það að horfa á myndband sé góð skemmtun áður en myndin sjálf hófst.
Með lagabreytingu árið 2006 var aldursmatið fært til aðildarfélaga SMÁÍS, samtaka myndrétthafa á Íslandi. Samkvæmt nýja fyrirkomulaginu átti SMÁÍS að gera samkomulag við alþjóðlega viðurkenndan matsaðila við að meta aldurshæfi kvikmyndaefnis. Látið var í það skína að gerður hefði verið fullgildur samningur við hollenska fyrirtækið NICAM í ágúst 2007 um að sjá þeim fyrir slíkri þjónustu.
https://www.youtube.com/watch?v=O0TAQWY6BRc
Þannig hélt fjölmiðlanefnd að staðan væri þegar Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri hennar, flutti erindi á norrænni ráðstefnu í Helsinki í maí 2012. Á meðal þess sem kom fram í erindi hennar var hvernig aldursmatsmálum væri fyrirkomið hérlendis. Eftir erindið tilkynnti framkvæmdastjóri NICAM, sem var í salnum og hafði hlustað á það, að fyrirkomulagið væri alls ekki með þeim hætti sem Elfa hafði lýst. Síðar hafði Viðskiptablaðið eftir framkvæmdastjóranum, Wim Bekkers, að SMÁÍS hefði aldrei greitt neitt vegna samningsins og frá undirritun hans hefði ekki verið neitt sambandi milli samningsaðilanna. „Ég hugsaði með mér að það væri vegna vandamála sem eyjan átti við að etja á þeim tíma,“ sagði Bekkers við Viðskiptablaðið.
Með lagabreytingu árið 2006 var aldursmatið fært til aðildarfélaga SMÁÍS, samtaka myndrétthafa á Íslandi. Samkvæmt nýja fyrirkomulaginu átti SMÁÍS að gera samkomulag við alþjóðlega viðurkenndan matsaðila við að meta aldurshæfi kvikmyndaefnis. Látið var í það skína að gerður hefði verið fullgildur samningur við hollenska fyrirtækið NICAM í ágúst 2007 um að sjá þeim fyrir slíkri þjónustu.
Þannig hélt fjölmiðlanefnd að staðan væri þegar Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri hennar, flutti erindi á norrænni ráðstefnu í Helsinki í maí 2012. Á meðal þess sem kom fram í erindi hennar var hvernig aldursmatsmálum væri fyrirkomið hérlendis. Eftir erindið tilkynnti framkvæmdastjóri NICAM, sem var í salnum og hafði hlustað á það, að fyrirkomulagið væri alls ekki með þeim hætti sem Elfa hafði lýst. Síðar hafði Viðskiptablaðið eftir framkvæmdastjóranum, Wim Bekkers, að SMÁÍS hefði aldrei greitt neitt vegna samningsins og frá undirritun hans hefði ekki verið neitt sambandi milli samningsaðilanna. „Ég hugsaði með mér að það væri vegna vandamála sem eyjan átti við að etja á þeim tíma,“ sagði Bekkers við Viðskiptablaðið.
Þá segir einnig að verulega skorti upp á að kynningarefni sé aldursmerkt, gagnagrunnurinn kvikmyndaskodun.is hafi verið langt í frá tæmandi og mikið vanti upp á að allar kvikmyndir sem gefnar eru út hér á landi séu aldursmerktar líkt og lög gera ráð fyrir. Þá segir: „Fjölmiðlanefnd er kunnugt um að ábyrgðaraðilar geri ýmsar undantekningar frá mati um aldursmerkingu sem á sér enga stoð í lögum, m.a. eru kvikmyndir á kvikmyndahátíðum ekki aldursmerktar“.
Ekki rétt að kerfið hafi verið við lýði í áratug
SMÁÍS gerði loks samning við NICAM haustið 2013, sjö árum eftir að lögin sem færðu ábyrgðina á aldursmatinu til samtakana voru sett. Talsmenn SMÁÍS höfðu þá haldið því fram að kerfið hafi verið við lýði á Íslandi allt frá árinu 2006. Og skömmu síðar varð SMÁÍS gjaldþrota.
Í bréfi sem fjölmiðlanefnd sendi til mennta- og menningarmálaráðuneytisins í byrjun desember 2014 vegna málsins segir: „Fjölmiðlanefnd vill árétta að SMÁÍS gerði ekki samning við NICAM um notkun Kijkwijzer kerfisins fyrr en haustið 2013, þ.e. sjö árum eftir að lögin voru sett. Það var jafnframt í fyrsta sinn sem matsmenn á vegum ábyrgðaraðila fóru á námskeið hjá sérfræðingum NICAM um hvernig eigi að nota skoðunarkerfið. Það er því ekki allskostar rétt staðhæfing að kerfið hafi verið við lýði hér á landi í hátt í áratug“.
Stofnað eftir gjaldþrot SMÁÍS
Félag rétthafa í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði (FRÍSK) var stofnað á síðasta ári í kjölfar gjaldþrots SMÁÍS. Að félaginu standa 365 miðlar ehf., Skjárinn, Sena, Myndform, RÚV og Sam-félagið., eða sömu aðilar og stóðu að SMÁÍS. Samhliða var upplýst að nýja félagið myndi sinna því hlutverki að halda utan um formlegan samning um erlent viðurkennt skoðunarkerfi og samræma innleiðingu til félagsmanna og annarra ábyrgðaraðila.
Hallgrímur Kristinsson, starfandi stjórnarformaður FRÍSK, sagði í samtali við Kjarnann í febrúar að nýr samningur við NICAM væri tilbúinn og að líklega yrði skrifað undir hann í þeim mánuði. Það gekk ekki alveg eftir en í dag er slíkur samningur í höfn.
Samkvæmt honum er aldurshæfi ákveðið af matskrefi frá NICAM. Ábyrgðaraðilar, til dæmis kvikmyndahús og sjónvarpsstöðvar, flokka sitt efni sjálfir með því að nota spurningalista sem NICAM setur saman. Í tilkynningu sem FRÍSK sendi frá sér vegna enduropnunar vefsins kvikmyndaskodun.is sagði að sérþjálfaðir starfsmenn „svokallaðir matsmenn, horfa gaumgæfilega á myndefni og svara sextíu spurningum á matsvefnum netinu um það sem þeir sáu.Tölvuforrit sem NICAM bjó til reiknar svo út hvaða flokkun tilgreint myndefni fær. Allir félagsmenn FRÍSK hafa sérþjálfaða matsmenn á sínum snærum. Spurningalistinn var settur saman af hópi þekktra sérfræðinga á sviði fjölmiðlunar og ungmenna. Þar nýttu þeir sér áratuga rannsóknir á skaðlegum áhrifum hljóð- og myndefnis á börn og ungmenni. Einnig var tekið ríkt tillit til óska foreldra og fræðsluaðila. Á heildina litið hefur spurningalistinn reynst áreiðanlegur mælikvarði og þykir hollenska kerfið eitt það besta í veröldinni. Þess má geta að aldursmerkingar á tölvuleikjum í Evrópu (svokallað PEGI-kerfi) er einnig byggt á hollenska kerfinu.“