Slitastjórnir Glitnis, Kaupþings og Landsbankans hafa verið boðaðar á fund ráðgjafarnefndar um losun fjármagnshafta næstkomandi þriðjudag klukkan 14, samkvæmt heimildum Kjarnans. Fundurinn mun fara fram á Grand hótel í Reykjavík og á honum eiga slitastjórnirnar að kynna afstöðu sinna til þeirra skilyrða sem stjórnvöld setja fyrir veitingu undanþága frá fjármagnshöftum, sem er forsenda þess að hægt verði að klára nauðasamninga búanna og slíta þeim. Allir fulltrúar slitastjórnanna eiga að funda með ráðgjafahópnum í einu.
Slitastjórnunum var tilkynnt um þetta bréfleiðis síðasta þriðjudag. Í bréfinu var ekki tilgreint hver skilyrði stjórnvalda fyrir undanþágum verði, en líkt og Kjarninn greindi frá fyrr í kvöld þá á að kynna þau fyrir efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis á mánudagsmorgun. Búist er við að áætlun stjórnvalda um afnám fjármagnshafta verði gerð opinber í kjölfarið og að slitastjórnirnar fái þá að vita hvaða skilyrðum þær eigi að mæta. Afstöðu sína til þeirra eiga þær síðan að kynna daginn eftir. Þau skilyrði sem slitastjórnirnar þurfa að uppfylla til að hljóta undanþágu, og geta þar með slitið búinu, eru efnahagsleg, þjóðhagsleg og eiga að stuðla að jafnræði allra sem eru fastir milli hafta, samkvæmt heimildum Kjarnans.
Landsbankinn var fyrsta skrefið
Fyrr í dag var tilkynnt um að Seðlabanki Íslands hefði veitt slitabúi gamla Landsbankans undanþágu frá fjármagnshöftum til að greiða forgangskröfum sínum í kjölfar samkomulags sem slitabúið gerði við nýja Landsbankann um breytta skilmála skuldabréfa þeirra á milli. Slitabúið fær því að greiða um 400 milljarða króna af forgangskröfum til kröfuhafa gegn því að lengja í skuldabréfum sem nýi Landsbankinn skuldar því. Umfang þeirra er um 228 milljarðar króna. Lokagreiðsla verður nú árið 2026 í stað ársins 2018.
Skrifað var undir nýtt samkomulag milli nýja og gamla Landsbankans í maí 2014. Seðlabankinn samþykkti fyrr í dag að veita slitabúi Landsbankans undanþágu frá fjármagnshöftum.
Tilkynningin var fyrsta skrefið í aðgerðaráætlun stjórnvalda um losun fjármagnshafta sem nú hafa verið við lýði í sex ár á Íslandi.
Flatur útgönguskattur mögulegur
Ekki liggur fullkomlega ljóst fyrir hverjar áherslur stjórnvalda verða en í fjölmiðlum hefur verið fjallað um að líklega verði um að ræða svokallaðan flatan útgönguskatt á eignir.
Ef kröfuhafar vilji út þurfi þeir að greiða flatan skatt af öllu fjármagni sem þeir fái að fara með út úr íslensku efnahagskerfi. Morgunblaðið greindi meðal annars frá því að skatturinn gæti verið allt að 35 prósent.
Samhliða verði kynntar hugmyndir um hvernig leyst verði úr eignarhaldi Íslandsbanka og Arion banka, sem í dag eru báðir í eigu erlendra kröfuhafa.
Gangi kröfuhafarnir ekki að þessu muni stjórnvöld vera tilbúin að halda þeim áfram í höftum á meðan að öllum öðrum: t.d. íslenskum lífeyrissjóðum, heimilum, fyrirtækjum, verði hleypt út.
Samkvæmt heimildum Kjarnans eru kröfuhafar þrotabúanna búnir að undirbúa sig fyrir ýmis konar útkomur, en ólíklegt þykir að þeir verði tilbúnir með við skilyrðum stjórnvalda einungis sólarhring eftir að þeir fái að vita hver þau eru.
Eftir miklu að slægjast
Ljóst er að eftir miklu er að slægjast. Eignir þrotabús Glitnis eru 944 milljarðar króna. Eignir þrotabús Kaupþings eru 789 milljarðar króna. Þrotabú Landsbankans á um 218 milljarða króna í eignum umfram forgangskröfur. ALMC, áður þrotabú Straums Burðaráss fjárfestingabanka, á eignir upp á 97 milljarða króna. Eignir SPB hf., sem áður hét Sparisjóðabankinn/Icebank, eru 106 milljarðar króna. Svo fátt eitt sé nefnt.
Hundruð milljarðar króna gætu því setið eftir í ríkissjóði gangi áætlun stjórnvalda eftir.