Lestur allra dagblaða landsins nema DV dróst saman í júlímánuði. Mestur var samdrátturinn hjá Fréttatímanum, en lestur hans minnkaði um 1,26 prósentustig í mánuðinum. Morgunblaðið tapaði 0,6 prósentustigum, Fréttablaðið 0,35 prósentustigum og Viðskiptablaðið 0,42 prósentustigum. Þetta kemur fram í nýjum tölum um þróun á lestri prentmiðla frá Gallup sem birtar voru á föstudag.
DV spyrnir sér af botninum
Lestur DV heldur áfram að braggast lítillega eftir að hafa hrunið í kjölfar eigendaskipta í fyrrahaust. Nú lesa 9,22 prósent landsmanna á aldrinum 18-80 ára blaðið. Í maí og júní var það hlutfall 8,6 prósent. DV er samt sem áður töluvert frá því sem hann var á meðan að Reynir Traustason, fyrrum aðaleigandi DV og ritstjóri blaðsins, og samstarfsmenn hans stýrðu blaðinu. Í mars 2014 lásu 12,34 prósent landsmanna blaðið.
Í dag er stærsti eigandi og útgefandi DV Björn Ingi Hrafnsson. Útgáfufélag hans heldur líka úti vefmiðlunum DV.is, Eyjan.is, Pressan.is og Bleikt.is. Blaðið hefur aðeins verið að rétta út kútnum í síðustu lestrarkönnunum eftir að hafa náð sögulegum botni í lestri í apríl síðastlinum þegar lestur þess mældist einungis 7,44 prósent.
Fréttablaðið misst rúmlega fimmtung á fimm árum
Fréttatíminn kom fyrst út í október 2014 og er dreift frítt í 83 þúsund eintökum á heimili fólks. Þegar Fréttatíminn kom fyrst inn í mælingar Gallup í mars 2011 mældist meðallestur blaðsins 41,75 prósent. Þorra þess tíma sem liðið hefur frá fyrstu mælingunni hefur blaðið mælst með yfir 40 prósent lestur. Í mars 2014 varð breyting þar á þegar lesturinn fór niður í 39,78 prósent.
Í kjölfarið féll hann skarpt og í september það ár var hann 36,95 prósent. Eftir að hafa tekið stökk upp á við í lestrarkönnunum í vor hefur lestur Fréttatímans dalað á ný í síðustu könnunum. Nú lesa 37,42 prósent landsmanna á aldrinum 18 til 80 blaðið og lesturinn nálgast þá lægð sem hann var komin í fyrir ári síðan.
Hitt fríblaðið, Fréttablaðið, heldur áfram að dala hægt og rólega í lestri. Nú lesa 51,01 prósent landsmanna það. Lestur blaðsins fallið skarpt þegar litið er yfir lengra tímabil og alls um rúmlega 20 prósent á síðustu fimm árum. Fréttablaðinu er dreift frítt inn á heimili landsins í 90 þúsund eintökum sex daga vikunnar.
Helmingi færri lesa Morgunblaðið
Morgunblaðið er elsta starfandi dagblað landsins. Það kom fyrst út í nóvember 1913 og hefur verið risi á íslenskum dagblaði nánast alla tíð síðan. Þ.e. fyrir utan allra síðustu ár þegar fjarað hefur hratt undan sterkri stöðu blaðsins.
Í maí 2006 var meðallestur á Morgunblaðið 54,3 prósent, samkvæmt mælingum Gallup sem þá mældu lestur Íslendinga á aldrinum 12 til 80 ára. Í dag mælir Gallup lestur Íslendinga á aldrinum 18 til 80 ára.
Í janúar 2009, tæpum þremur árum síðar, var lesturinn kominn niður í 42,72 prósent og í september 2014 28,9 prósent. Í nýliðnum júlí var hann 28,74 prósent. Lesendur Morgunblaðsins voru því tæplega helmingi fleiri árið 2006 en þeir eru í dag.
Langmesta brottfallið hefur verið í hópi lesenda undir fimmtugu. Nú lesa einungis rúmlega 19 prósent Íslendinga á aldrinum 18 til 49 ára Morgunblaðið.
Viðskiptablaðið, áskriftarblað sem kemur út einu sinni í viku og einblínir á umfjöllun um viðskipti og efnahagsmál, heldur áfram að sýna stöðugleika og mælist nú með 11,84 prósent lestur. Lestur þess hefur tekið kipp það sem af er ári og í maí mældist hann 12,4 prósent, sem er mesti lestur sem blaðið hefur mælst með síðan að það kom aftur inn í mælingar Gallup í júní 2011.