Það hefur átt sér stað eðlisbreyting á fylgi stjórnmálaflokka á undanförnum mánuðum. Og hún virðist vera að festa sig í sessi. Í henni felst að Píatar, flokkur sem stendur fyrst og fremst fyrir beint lýðræði og gagnsæi, er langstærsti flokkur landsins. Hefðbundnu valdaflokkarnir, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, mælast með lægra fylgi en í verstu kosninganiðurstöðum sínum í sögunni. Miðju- og vinstriflokkar í stjórnarandstöðu græða hins vegar ekkert á þeim óvinsældum. Samfylkingin glímir við svo stórkostlega tilvistarkreppu að hún gæti gert út af við flokkinn, Vinstri grænir eru með vinsælan formann en lítið fylgi og Björt framtíð er í frjálsu falli eftir að taugin við Besta flokkinn rofnaði.
Píratar eru eini flokkur landsins sem er ánægður með stöðu sína. Það eru sannarlega áhugaverðir tímar í íslenskri pólitík þessi dægrin.
Stóru málin í höfn en fylgið lækkar
Það hlýtur að vera áhyggjuefni fyrir ríkisstjórn sem hefur, að minnsta kosti að eigin mati, unnið mikla pólitiskra sigra með því að standa við kosningaloforð um lækkun verðtryggðra húsnæðislána og sem virðist vera að sigla í höfn lausn á því gríðarlega stóra vandamáli sem slitabú föllnu bankanna eru fyrir íslenskt efnahagslíf eru, séu ekki að skila henni neinu viðbótarfylgi. Þegar við bætist að á Íslandi er hagvöxtur, lág verðbólga, afgangur af ríkisrekstrinum og lítið atvinnuleysi þá virðist erfitt að sjá hvað það er, út frá hefðbundum efnahagslegum mælikvörðum, sem valdi því að ríkisstjórn njóti jafn lítilla vinsælda og raun bera vitni.
Nú hafa birst tvær skoðanakannanir frá því að áætlun um losun hafta var kynnt. Framsóknarflokkurinn hefur lagt mikla áherslu á að niðurstaðan í því máli sé afleiðing af harðri stefnu flokksins gagnvart „erlendum hrægammasjóðum“. Fyrsta könnunin, sem Fréttablaðið birti í síðustu viku, sýndi hins vegar 8,5 prósent fylgi við Framsóknarflokkinn sem myndi skila honum fimm þingmönnum. Hann hefur 19 slíka í dag.
Önnur könnunin birtist síðan í dag, en hún var gerð af MMR. Þar mældist fylgi Framsóknarflokksins aðeins hærra, eða með tíu prósent fylgi. Það dróst hins vegar saman frá könnun MMR sem birt var 2. júní síðastliðinn, þegar Framsókn mældist með 11,3 prósent fylgi.
Þegar miðað er við niðurstöðu síðustu kosninga er fall Framsóknarflokksins mest allra flokka sem eiga fulltrúa á Alþingi, en flokkurinn fékk 24,4 prósent atkvæða í alþingiskosningunum vorið 2013. Í dag er fylgi flokksins einungis 40 prósent af því sem það var þá.
Til að setja lágt fylgi flokksins í sögulegt samhengi þá er hægt að benda á að lægsta fylgi sem Framsóknarflokkurinn hefur nokkru sinni fengið í alþingiskosningum var árið 2007 þegar hann fékk 11,7 prósent atkvæða.
Með minna fylgi en árið 2009
Sjálfstæðisflokkurinn hefur nánast án undantekninga verið stærsti flokkur landsins. Um áratugaskeið var fylgi flokksins oftast yfir 35 prósent. Árið 1999, þegar Davíð Oddsson leiddi Sjálfstæðisflokkinn og ríkisstjórn landsins, fékk flokkurinn 40,7 prósent fylgi og í síðustu kosningunum fyrir hrun, árið 2007, fékk Sjálfstæðisflokkurinn, undir forystu Geirs H. Haarde, 36,6 prósent atkvæða.
Eftir hrun hefur flokkurinn hins vegar þurft að takast á við gjörbreyttan veruleika. Hann fékk sína verstu kosningu í sögu sinni árið 2009 þegar Bjarni Benediktsson leiddi hann í fyrsta sinn í gegnum slíkar. Þá fékk Sjálfstæðisflokkurinn 23,7 prósent atkvæða og ellefu þúsund atkvæðum færri en Samfylkingin.
Niðurstaðan vorið 2013 varð aðeins skárri, 26,7 prósent atkvæða og flokkurinn varð aftur stærstur í landinu. Þetta var samt sem áður næst versta útkoma Sjálfstæðisflokksins í alþingiskosningum í rúmlega 30 ár. Sjálfstæðisflokkurinn fékk minna fylgi í þessum tveimur kosningum, 2009 og 2013, en hann fékk árið 1987 þegar klofningsframboðið Borgaraflokkurinn fékk tæplega ellefu prósent fylgi.
Fylgi flokksins hefur oftast nær mælst töluvert undir kjörfylgi það sem af er því kjörtímabili sem nú stendur yfir. Lægst mældist það hjá MMR 21,2 prósent í könnun sem var birt 2. júní síðastliðinn. Það er raunar lægsta fylgi sem flokkurinn hefur nokkru sinni mælst með í könnunum fyrirtækisins. Í könnuninni sem var birt í dag eykst fylgið litillega en er enn langt frá því sem Sjálfstæðismenn telja ásættanlegt. Nú mælist fylgið 23,3 prósent.
Í niðurbroti á fylgi við flokka eftir aldri og tekjum, sem MMR birti í lok maí síðastliðins kom í ljós ákveðið mynstur í kjósendahópi ríkisstjórnarflokkanna tveggja. Þeir njóta mun meiri stuðnings hjá eldra og tekjuhærra fólki en því sem er yngra og tekjulægra.
Stöðugir Píratar standast árásir
Píratar, sem eru með þrjá þingmenn, halda áfram að vera sá flokkur sem langflestir Íslendingar gætu hugsað sér að kjósa. Auknar vinsældir flokksins á undanförnum mánuðum eru raunar alveg ótrúlegar. Píratar fengu 5,1 prósent atkvæða í síðustu alþingiskosningum og rétt skriðu yfir fimm prósent þröskuldinn sem þarf til að fá menn inn á þing. Framan af kjörtímabilinu óx fylgi við flokkinn nokkuð jafnt og þétt og í janúar 2015 mældist það 12,8 prósent og hafði aldrei mælst hærra. Það átti þó eftir að breytast.
Eftir að hafa tekið risastökk í könnun í mars (fylgið mældist þá 23,9 prósent) hefur flokkurinn nú mælst með yfir 30 prósent fylgi í fjórum könnunum MMR í röð. Kannanir Fréttablaðsins og Gallup sýna einnig svipaðar niðurstöður. Í nýjustu könnun MMR mælast Píratar með 32,4 prósent fylgi sem þýðir að þeir yrðu langstærsti stjórnmálaflokkur landsins ef kosið yrði nú.
Samhliða auknum vinsældum hefur gagnrýni pólitískra andstæðinga á Pírata þyngst mikið. Þeim hefur meðal annars verið legið á hálsi að mæta illa á nefndarfundi og fyrir að hafa enga stefnu í lykilmálum. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði síðast í viðtali við DV í morgun að það væri mikið áhyggjuefni fyrir samfélagið allt ef byltingarflokkur eins og Píratar „með mjög óljósar hugmyndir um lýðræði og flokkar sem vilja umbylta grunnstoðum samfélagsins nái áhrifum“. Þessi gagnrýni virðist þó ekkert bitna á fylgi Pírata. Að minnsta kosti enn sem komið er.
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, þykir hafa staðið sig vel að undanförnu og margir þakka ekki síst honum fylgisaukningu Pírata hér á landi.
Björt framtíð hrapaði eftir að Jón Gnarr afneitaði flokknum
Það eiga fleiri stjórnmálaflokkar við tilvistarkreppu að etja en stjórnarflokkarnir. Nýjabrumið og ferskleikinn sem Björt framtíð hafði hefur horfið mjög snögglega á undanförnum mánuðum. Flokkurinn mældist með tæplega 22 prósent fylgi í fyrrahaust en það sem af er árinu 2015 hefur fylgi hans verið í frjálsu falli. Nú mælist það 6,8 prósent, sem er undir kjörfylgi flokksins í síðustu kosningum (Björt framtíð fékk þá 8,2 prósent atkvæða).
Hvað valdi þessum fylgisflótta hjá flokki sem er í stjórnarandstöðu er erfitt að fullyrða um. Það er hins vegar staðreynd að fylgið hefur dregist mjög skarpt saman eftir að Heiða Kristín Helgadóttir, fyrrum stjórnarformaður Bjartrar framtíðar og náinn samstarfsmaður Jóns Gnarr í gegnum árin, hætti í desember og eftir að Jón Gnarr opinberaði að hann væri ekki í Bjartri framtíð í mars, en Jón var í fimmta sæti á lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður fyrir síðustu alþingiskosningar. Jón, sem leiddi Besta flokkinn til sigurs í borgarstjórnarkosningunum í Reykjavík árið 2010, sagði þá í stöðuuppfærslu á Facebook: „Björt framtíð er ekki Besti flokkurinn þótt margir haldi því fram í einhverjum pólitískum tilgangi að ég held. Ég er ekki meðlimur í neinum stjórnmálaflokki núna, svo ég viti. Ég er ekki meðlimur í Bjartri framtíð. Ég fylgi engum sérstökum flokki að málum frekar en öðrum. Ég er heldur ekki á móti neinum flokki.“
Með brotthvarfi Heiðu Kristínar og afneitun Jóns rofnaði mjög hin sterka tenging Bjartrar framtíðar við Besta flokkinn, sem naut fádæma vinsælda á meðan hann var til. Persónufylgi Guðmundar Steingrímssonar, formanns flokksins, virðist líka vera lítið. Í nýlegri könnun MMR sögðust einungis fjögur prósent aðspurðra telja hann vera fæddan leiðtoga.
Jón Gnarr var gríðarlega vinsæll borgarstjóri í Reykjavík og Besti flokkur hans fékk 34,7 prósent atkvæða í sveitastjórnarkosningunum 2010. Margir tengdir því framboði tóku síðar þátt í að stofna stjórnmálaflokkinn Bjarta framtíð sem naut framan af töluverðs fylgis í könnunum. Svo virðist sem fylgið hafi dalað eftir því sem Besta flokks tengingin hefur dofnað.
Afar slæm staða Samfylkingar
Sá flokkur sem virðist í mestum vandræðum allra er Samfylkingin, flokkur sem átti að sameina vinstrimenn landsins og mynda annan turn í íslenskum stjórnmálum til mótvægis við Sjálfstæðisflokkinn. Flokkurinn fékk 26,8 prósent atkvæða þegar hann bauð fyrst fram árið 1999, 31 prósent í kosningunum 2003, 26,8 prósent árið 2007 og 29,8 prósent í alþingiskosningunum árið 2009. Eftir þær kosningar var Samfylkingin stærsti flokkur landsins og leiddi fyrstu hreinu vinstristjórnina.
Flokkurinn beið hins vegar afhroð í kosningunum í apríl 2013 og fékk einungis 12,9 prósent atkvæða. Aldrei nokkru sinni í sögu íslenskra stjórnmála hefur einn flokkur tapað jafn miklu fylgi á milli kosninga og Samfylkingin gerði á milli áranna 2009 og 2013.
Þrátt fyrir miklar óvinsældir sitjandi ríkisstjórnar, skarpar víglínur innan stjórnmálanna á kjörtímabílinu og hörðustu vinnumarkaðsdeilur sem átt hafa sér stað á Íslandi í áratugi hefur jafnaðarmannaflokkur landsins ekki náð að höfða til kjósenda. Þvert á móti. Fylgið mælist nú 11,6 prósent, eða minna en í síðustu kosningum.
Árni Páll Árnason, formaður flokksins, mælist með mjög lítið persónufylgi í könnunum og virðist ekki trekkja kjósendur að flokknum. Í könnun MMR sem birt var í lok apríl sögðu til dæmis þrjú prósent aðspurðra að hann væri fæddur leiðtogi. Engin stjórnmálaforingi mældist lægri í þeim flokki. Sex prósent svarenda taldi að Árni Páll skilaði árangri.
Innan flokks virðast líka ýmsir hafa áhyggjur af því að Árni Páll sé ekki rétti maðurinn til að rífa upp fylgi Samfylkingarinnar. Framboð Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, þingmanns flokksins, til formanns flokksins í mars síðastliðnum var til marks um það. Árni Páll sigraði kosningarnar með einu atkvæði og sat mun veikari eftir.
Vinstri græn á sínum sögulega slóðum
Vinstri græn er á svipuðum slóðum í fylgi og flokkurinn hefur að jafnaði verið frá því að hann bauð fyrst fram árið 1999. Þá fékk hann 9,1 prósent atkvæða. Fjórum árum síðar fékk flokkurinn 8,8 prósent og árið 2007 14,35 prósent.
Í kjölfar búsáhaldarbyltingarinnar 2009 unnu Vinstri grænir sinn stærsta kosningasigur þegar flokkurinn fékk 21,7 prósent atkvæða og fjórtán þingmenn kjörna. Sú mikla fylgissveifla staldraði þó stutt við og í kosningunum 2013 var fylgið komið aftur niður í kunnulega stærð, 10,9 prósent.
Í dag mælist fylgið 10,5 prósent og hefur oftast verið á þeim slóðum á þessu kjörtímabili samkvæmt mælingum.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, nýtur mikils persónufylgis. Það skilar sér hins vegar ekki til flokks hennar.
Persónufylgi leiðtoga flokksins, Katrínar Jakobsdóttur, er hins vegar mjög mikið og ljóst virðist að margir kjósendur gætu hugsað sér að kjósa hana en ekki flokk hennar. Rithöfundurinn Jón Kalman Stefánsson skrifaði grein sem birtist á Kjarnanum í byrjun maímánaðar þar sem hann kallaði eftir því að vinstri- og jafnaðarmenn fylki sér á bakvið Katrínu Jakobsdóttir sem leiðtoga nýs sameiginlegs framboðs í anda R-listans. „Ef hún hefur áhuga á að hrifsa samfélagið úr járnklóm hagsmuna, nýfrjálshyggju og lýðskrumara, þá verður hún að stíga fram og sameina vinstri– og miðjumenn að baki sér. Og aðrir forystumenn eiga að víkja. Þeir eiga að taka hagsmuni þjóðar fram yfir persónulegan metnað og verða riddarar í sveit Katrínar Jakobsdóttur. Hennar tími er einfaldlega runninn upp. Hvort sem henni líkar betur eða verr,“ sagði Jón Kalman í greininni.
Áhugavert verður að sjá hvort stöðugt slök staða Samfylkingar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna samkvæmt skoðanakönnunum muni leiða til einhverskonar samstarfs flokkanna um framboð fyrir næstu kosningar, sem fara fram eftir tæp tvö ár. Samanlagt fylgi flokkanna þriggja í dag er að minnsta kosti ekkert til að hrópa húrra yfir, eða 28,9 prósent. Það er umtalsvert lægra en fylgi Pírata og minna en Samfylkingin fékk ein og sér í kosningunum 2009. Það er líka minna en sameiginlegt fylgi stjórnarflokkanna tveggja, sem saman eru með 33,3 prósent fylgi.