Þegar ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks kynnti áform sín um skuldaleiðréttingu á völdum verðtryggðum húsnæðislánum fyrir um 80 milljarða króna í nóvember 2013 kom í ljós að ríkissjóður myndi fjármagna þær. Til að auka tekjur sínar svo hægt yrði að standa undir þessum aukna kostnaði átti að hækka gjald á bankastarfsemi, oftast kallaður hinn sérstaki bankaskattur, sem leggst á skuldir, enn meira. Á endanum var hann hækkaður úr 0,041 prósent skulda fjármálafyrirtækja í 0,376 prósent. Þessi hækkun, sem var afgreidd á Alþingi í desember 2013, átti að skila því að skatturinn yrði 38,5 milljarðar króna á árinu 2014.
Áður hafði skatturinn verið hækkaður til að stoppa upp í fjárlagagatið 2014 þannig að hann myndi skila 13,2 milljörðum krónum meira í ríkiskassann í fyrra en hann gerði árið áður. Þá hafði skatturinn skilað 1,1 milljarði króna. Þessi skarpa hækkun átti að nást fram með því að láta skattinn ná til þrotabúa föllnu bankanna líka og hækka prósentutöluna sem greiða ætti samhliða.
Skattlagningin lítur mjög vel út á pappír. Í henni felst að láta fjármálakerfi sem valdið hefur gríðarlegum skaða hérlendis greiða fyrir þessi fokdýru forgangsmál ríkisstjórnarinnar. Þegar kafað er dýpra í hana kemur þó fljótlega í ljós að bankakerfi sem starfar á fákeppnismarkaði innan gjaldeyrishafta með ríkisábyrgð er í mjög góðri aðstöðu til að velta hluta þess kostnaðar sem á það fellur yfir á viðskiptavini sína. Og viðskiptavinir bankanna, það erum við öll.
Þrotabúin borga langstærstan hluta
Stór hluti bankaskattsins er greiddur af þrotabúum föllnu bankanna. Samkvæmt upplýsingum frá þeim greiddi Glitnir 8,3 milljarða króna, Kaupþing 9,9 milljarða króna og Landsbankinn 7,7 milljarða króna í skattinn á síðasta ári. Það gera samtals 25,9 milljarðar króna sem ríkissjóði tókst að ná úr þrotabúunum þremur á síðasta ári.
Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis. Þrotabúið hefur kært bankaskattinn.
Þau ætla reyndar ekki að una skattlagningunni. Slitastjórnir Glitnis og Kaupþings hafa báðar kært bankaskattinn til embættis Ríkisskattstjóra. Forsvarsmenn þrotabúanna hafa líka sagt að þeir séu tilbúnir að láta reyna á lögmæti skattsins fyrir dómstólum.
En þrotabúin hafa greitt skattinn. Það gerðu þau í nóvember og desember í fyrra. Peningarnir hafa því skilað sér í ríkissjóð, þótt enn eigi eftir að takast á um lögmætið.
Viðskiptabankarnir borguðu átta milljarða
Sérstaki bankaskatturinn skilaði 34,5 milljörðum króna í ríkiskassann í fyrra, samkvæmt greiðsluafkomu ríkissjóðs sem var birt í gær. Það þýðir að önnur fjármálafyrirtæki utan þrotabúanna þriggja borguðu 8,6 milljarða króna.
Viðskiptabankarnir þrír: Landsbankinn (3,0 milljarðar króna), Arion banki (2,6 milljarðar króna) og Íslandsbanki (2,4 milljarðar króna) borga þorra þeirrar upphæðar, eða samtals átta milljarða króna.
Við fyrstu sýn virðast þeir hafa vel efni á að greiða þessa skatta. Kjarninn greindi frá því í síðustu viku að sameiginlegur hagnaður bankanna þriggja frá hruni væri 370 milljarðar króna.
Gefið í skyn að neytendur myndu borga
Eftir að tilkynnt hafði verið um verulega hækkun bankaskattsins fjallaði Kjarninn ítarlega um málið og beindi fyrirspurnum til allra viðskiptabankanna þriggja um hvort þeir myndu auka vaxtamun í kjölfar álagningar hans.
Þann 6. febrúar 2014 birtist fréttaskýring í Kjarnanum þar sem svör bankanna voru rakin. Kristján Kristjánsson, upplýsingafulltrúi Landsbankans, sagði að bankinn hefði ekki tekið neina ákvörðun um að auka vaxtamun til að mæta aukningu á bankaskattinum. Til að ná viðunandi arðsemi þyrfti hins vegar annað hvort að auka tekjur eða lækka kostnað. „Ef kostnaðarlækkunin fer öll í skatt, þá er ekki ósennilegt að við myndum þurfa að auka vaxtamun síðar.“
þessi stórkostlega skattlagning sem felst í hinum sérstaka bankaskatti felur í sér mikla kostnaðaraukningu fyrir bankann og mun á endanum hafa áhrif á þau kjör sem við getum boðið okkar viðskiptavinum. Hjá því verður einfaldlega ekki komist.
Haraldur Guðni Eiðsson, upplýsingarfulltrúi Arion banka, sagði ljóst að „þessi stórkostlega skattlagning sem felst í hinum sérstaka bankaskatti felur í sér mikla kostnaðaraukningu fyrir bankann og mun á endanum hafa áhrif á þau kjör sem við getum boðið okkar viðskiptavinum. Hjá því verður einfaldlega ekki komist.“
Þegar umfjöllunin var birt hafði Íslandsbanki þegar tilkynnt að hann ætlaði að lækka innlánsvexti á nokkrum reikningum viðskiptavina sinna, með þeim afleiðingum að viðskiptavinir bankans myndu ávaxta fé sitt verr en áður. Dögg Hjaltalín, þáverandi upplýsingafulltrúi Íslandsbanka, sagði við Kjarnann að bankinn hefði þó ekki verið að bregðast við sérstaka bankaskattinum. Að öðru leyti tjáði Íslandsbanki sig ekki um málið.
Vaxtamunur jókst á árinu 2014
En hvað hefur gerst síðan? Íslenskt efnahagslíf hefur upplifað eitt mesta stöðugleikaskeið í manna minnum, reyndar í skjóli hafta sem aftengja landið að mörgu leyti við alþjóðlegan veruleika. Verðbólga hefur nánast ekki verið til staðar. Kaupmáttur hefur aukist. Seðlabankinn hefur lækkað stýrivexti. Vanskil hafa dregist saman. En vaxtamunur viðskiptabankanna hefur samt aukist.
Í frétt sem birtist á vef stéttarfélagsins VR 11. desember síðastliðinn kom fram að stóru viðskiptabankarnir þrír hefðu allir aukið vaxtamun sinn á árinu 2014. Þannig hafi vaxtamunur Arion banka aukist um 0,2 prósent á árinu 2014 og um 0,15 prósent hjá Íslandsbanka og Landsbankanum.
stóru viðskiptabankarnir þrír hefðu allir aukið vaxtamun sinn á árinu 2014. Þannig hafi vaxtamunur Arion banka aukist um 0,2 prósent á árinu 2014 og um 0,15 prósent hjá Íslandsbanka og Landsbankanum.
Þegar stýrivextir lækkuðu í byrjun nóvember 2013 hafi bankarnir meira að segja nýtt tækifærið og aukið enn á mun á útláns- og innlánsvöxtum.
Bankarnir hafa lítið tjáð sig um ástæður þessarrar aukningar. Arion banki gaf reyndar út fréttatilkynningu 7. janúar 2015 vegna vaxtahækkanna á íbúðarlánum bankans þar sem sagði meðal annars að það væri ekki „hægt að líta framhjá því a ðbankaskattur sem hjá Arion banka er áætlaður tæpir þrír milljarðar króna fyrir árið 2014 hefur áhrif til hækkunar vaxta þar sem hann leggst á allar skuldir, m.ö.o. fjármögnun bankans, umfram 50 milljarða króna“.
Sumir þurfa ekki að borga
Það þurfa ekki öll fjármálafyrirtæki að borga hinn sérstaka bankaskatt. Íbúðalánasjóður, sem er rekinn í samkeppni við hina bankanna á fasteignalánamarkaði, er til að mynda undaskilin. Auk þess var því bætt inn í lögin nokkrum dögum fyrir lok þings í desember 2013 að sérstakt frískuldamark upp á 50 milljarða króna ætti að gilda. Engin grunnvinna, útreikningar eða beiðnu um slíkt frískuldamark lág fyrir. Raunar hefur það aldrei verið útskýrt hvernig sú ákvörðun var tekin, enda báðu þau álit sem send voru inn til efnahags- og viðskiptanefndar við meðferð málsins einungis um þriggja og sjö milljarða króna frískuldamark.
MP banki borgaði ekkert í sérstakan bankaskatt á árinu 2014.
En frískuldamarkið gerir það að verkum að MP banki, fjórði stærsti viðskiptabanki landsins, þurfti einungis að borga nokkra tugi milljóna króna í bankaskatt vegna ársins 2013 og önnur fjármálafyrirtæki, meðal annars fjárfestingabankar, kreditkortafyrirtæki og sparisjóðir, eru undanþegnir honum með öllu. Á árinu 2014 borgaði MP banki ekkert í sérstaka bankaskattinn. Viðskiptavinir hans þurftu því ekki að fá á sig aukin vaxtamun til að borga fyrir hann.
Þegar breytingi var gerð voru skuldir MP banka 55 milljarðar króna. Margir í fjármálageiranum voru, og eru, sannfærðir um að frískuldamarkið hefði verið sérsniðið að stöðu MP banka. Því hefur ávallt verið neitað af stjórnmálamönnunum sem tóku ákvörðunina og stjórnendum MP banka.
Að hluta til velt yfir á almenning
Sérstaki bankaskatturinn, sem notaður hefur verið til að stoppa upp í fjárlagagatið og á að fjármagna tugmilljarða króna skaðabætur til hluta þjóðarinnar sem var með verðtryggð lán á árunum 2008 og 2009, kemur að langstærstu leyti úr þrotabúum föllnu bankanna. Ríkisstjórnin er því byrjuð að taka til sín hluta eigna „hrægammanna“, eða erlendra kröfuhafa. Standist sú skattlagning lög mun þessi leið nýtast stjórnvöldum vel í baráttu sinni gagnvart sliti búanna og einhverri losun fjármagnshafta, þótt líkast til verði tekist á um réttmæti þess hvernig peningunum var ráðstafað næstu áratugina.
Það er hins vegar líka ljóst að átta milljarðar króna koma út íslensku viðskiptabönkunum. Og það er ljóst að kostnaðinum vegna þessarrar skattlagningar hefur verið, að minnsta kosti að hluta, velt yfir á almenning sem hefur þurft að borga hærri vaxtagreiðslur af lánum sínum og fá minni ávöxtun af innlánum sínum.