Þeir þingmenn sem búa annars staðar en á höfuðborgarsvæðinu eiga rétt á því að kostnaður þeirra við ferðir milli heimilis og starfsstöðva í Reykjavík sé endurgreiddur. Þær ferðir geta verið farnar með bílum eða flugi. Kjarninn greindi frá því í gær að kostnað vegna endurgreidds aksturskostnaðar þingmanna, sem nær meðal annars yfir ferðir milli heimilis og starfsstöðva, hefði verið 25,7 milljónir króna í fyrra og að hann hefði aukist um tæp ellefu prósent milli ára.
Samanlagður kostnaður Alþingis vegna flugferða þingmanna innanlands, sem að uppistöðu er vegna ferðalaga landsbyggðarþingmanna til þingstarfa frá þeim stað þar sem þeir halda aðalheimili, var 9,8 milljónir króna á árinu 2021.
Þetta er hægt að lesa út úr tölum um kostnaðargreiðslur til þingmanna á árinu 2021 sem birtar voru á vef Alþingis í lok síðustu viku.
Mestur kostnaður vegna flugferða Njáls Trausta
Sá þingmaður sem fékk hæstar kostnaðargreiðslur vegna flugs á síðasta ári var Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks í Norðausturkjördæmi. Alls fékk hann greiðslur upp á 1.443 þúsund krónur vegna flugferða innanlands á árinu 2021.
Sömu sögu er að segja um næsta mann á listanum, Loga Einarsson, formann Samfylkingarinnar, sem fékk 1.010 þúsund krónur greiddar, og Framsóknarmanninn Þórarinn Inga Pétursson sem fékk 942 þúsund krónur.
Sá kostnaður sem Alþingi greiddi vegna flugferða innanlands var að uppistöðu vegna þessara sex þingmanna sama kjördæmis, en þeir fengu rúmlega 73 prósent heildarupphæðarinnar sem greidd var út vegna þessa á árinu 2021.
Ferðalög Bjarkeyjar dýrust
Þegar flugferðir eru lagðar saman við kostnað vegna aksturs kemur í ljós að Bjarkey trónir á toppnum yfir þá þingmenn sem kosta Alþingi mest í innlendan ferðakostnað. Alls er samanlagður ferðakostnaður hennar innanlands rétt undir þremur milljónum króna.
Rétt á eftir henni kemur Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokks í Suðurkjördæmi, með kostnað upp á 2,7 milljónir króna. Sá munur er á að Ásmundur keyrir nær allar sínar ferðir.
Líneik Anna er í þriðja sæti á listanum með 2,5 milljónir króna í innlendan ferðakostnað sem Alþingi greiðir og Njáll Trausti (um 2,3 milljónir króna) er svo fjórði og síðasti þingmaðurinn sem náði kostnaði sem var yfir tvær milljónir króna.
Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks í Norðvesturkjördæmi, er svo í fimmta sæti yfir þá þingmenn sem kostuðu mestu til vegna ferðalaga innanlands með tæplega 1,9 milljónir króna. Allur sá kostnaður er hins vegar vegna aksturs.