„Ég er Giorgia, ég er kona, ég er móðir, ég er ítölsk, ég er kristin,“ sagði Giorgia Meloni, leiðtogi Bræðralags Ítalíu, á kosningafundi í Róm árið 2019.
Meloni er í lykilstöðu eftir þingkosningar á Ítalíu um síðustu helgi. Meloni verður fyrsta konan sem gegnir embætti forsætisráðherra Ítalíu. Þetta er augnablik sem Meloni hefur beðið frá því að hún var pólitískur aðgerðasinni á táningsaldri í verkamannahverfi í Róm.
En hver er Giorgia Meloni, fyrir utan að vera ítölsk, kristin, móðir?
Meloni er mælsk og beinskeytt í tali, með sterkan Rómarhreim og kaldhæðinn húmor. Hún fæddist 15. janúar 1977 í Róm. Faðir hennar, Francesco, var frá Sardiníu og móðir hennar, Anna, frá Sikiley. Meloni á eldri systur, Ariönnu, og voru þær ungar að árum þegar faðir þeirra fór frá fjölskyldunni og flutti til Kanaríeyja með ástkonu sinni. Systurnar ólust því að mestu leyti upp hjá einstæðri móður og fluttust þær til úthverfisins Garbatella í Róm þar sem móðurafi hennar og amma voru búsett.
15 ára gömul gekk Meloni til liðs við ungliðahreyfingu Ítölsku samfélagshreyfingunnar (Movimento Sociale Italiano - MSI), ný-fasísks stjórnmálaflokks, sem stofnaður var úr rústum fasistaflokks Benito Mussolini af gömlum stuðningsmönnum hans árið 1946, eftir að Fasistaflokkurinn hafði verið bannaður.
19 ára gömul varð hún formaður stúdentahreyfingar Þjóðarbandalagsins, sem átti rætur sínar að rekja til MSI. Þar kynntist hún Marco Marsilio, sem í dag er forseti Abruzzo-héraðs, og varð hann fljótt hennar bandamaður í stjórnmálum.
„Hún var eftirtektarverð. Á hverjum einasta fundi stöðvaði hún hvern þann sem dirfðist að taka af henni hljóðnemann,“ segir Marsilio.
17 ára Meloni sagði Mussolini „góðan stjórnmálamann“
Það var á þessum árum, eða þegar Meloni var 17 ára, sem hún lét þau orð falla að Mussolini hefði verið „góður stjórnmálamaður“. „Allt sem hann gerði, gerði hann fyrir Ítalíu,“ sagði Meloni í sjónvarpsviðtali. Í dag segir hún að að um glópsku frá hennar yngri árum sé að ræða.
Meloni vann fyrir sér sem þjónn, barþjónn á næturklúbbi og barnfóstra á námsárunum. Menntun hennar hefur reyndar verið til umræðu fyrir þær sakir að ekki liggur ljóst fyrir hvers konar menntun hún hefur í raun og veru lokið. Sjálf segist hún hafa útskrifast með hæstu einkunn af málabraut Amerigo Vespucci-menntaskólans í Róm en við eftirgrennslan fjölmiðla kom í ljós að við þann skóla er engin málabraut, heldur er um tækniskóla að ræða, með sérhæfingu í ferðamannaiðnaði.
Árið 1998 var hún kjörin í borgarráð Rómar. Þar með var stjórnmálaferillinn formlega hafinn og átta árum síðar tók hún sæti í neðri deild ítalska þingsins (Camera dei deputati) fyrir Þjóðabandalagið, þá 29 ára gömul. Sama ár hóf hún störf sem blaðamaður.
Yngsti ráðherra Ítalíu í ríkisstjórn Berlusconi
Tveimur árum síðar varð hún ráðherra málefna ungmenna í fjórðu ríkisstjórn Silvio Berlusconi og þar með yngsti ráðherrann í sögu Ítalíu, 31 árs gömul. Óhætt er að segja að hún hafi skorið sig úr meðal gráhærðra karla. Ljóshærð, græneyg og hvítklædd, en Meloni klæddist iðulega hvítri dragt hvar sem hún kom fram, nokkuð sem framakonur víðs vegar í heiminum hafa tamið sér í valdeflingarskyni.
Meloni var ráðherra í þrjú ár, þar til Berlusconi sagði loks af sér vegna ítrekaðra spillingarmála.
Ítalía og Ítalir framar öllu
Meloni tók þátt í stofnun Bræðralags Ítalíu árið 2012 og hefur verið leiðtogi flokksins frá 2014. Þá hefur hún verið forseti flokkahóps sjálfstæðis- og endurbótasinna (European Conservatives and Reformists - ECR) á Evrópuþinginu frá 2020.
Nafn flokksins, Bræðralagið, er vísun í ítalska þjóðsönginn, sem hefst á þessum orðum, Fratelli d’Italia, og slagorð flokksins, Ítalía og Ítalir framar öllu, hefur Meloni túlkað sem svo að fari eigi eftir ítölskum gildum, til að mynda að kjarnafjölskyldan skiptir máli. Kjarnafjölskylda sem samanstendur af móður, föður og börnum sem búa á saman á einu heimili.
Tilkynnti óléttu á meðan hún mótmælti ættleiðingum samkynja para
Meloni er á móti hjónaböndum samkynhneigðra og að samkynja pör fái að ættleiða börn. Í janúar 2016 tók hún þátt í mótmælum, „Fjölskyldudeginum“, þar sem ættleiðingum samkynja para var mótmælt.
Hún nýtti einnig tækifærið á mótmælunum til að tilkynna að hún ætti von á sínu fyrsta barni, með sambýlismanni sínum Andrea Giambruni, fjölmiðlamanni hjá Mediaset, sem er í eigu Berlusconi. Þau eignuðust dótturina Ginervu 16. september 2016. Meloni og Giambruni eru ekki gift og hafa spurningar vaknað þess efnis hvort það gangi ekki gegn gildum Meloni, það er kristnu gildunum og kjarnafjölskyldunni?
Kannski enginn Mussolini, en hvað með Trump?
Meloni hefur tileinkað sér fleiri slagorð en slagorð Bræðralagsins. Í kosningabaráttunni mátti sjá auglýsingaskilti frá Bræðralaginu með slagorðinu “Pronti a risollevare l’Italia” eða: Reiðubúin að gera Ítalíu stórfenglega á ný. Hljómar kannski kunnuglega?
Því hefur einmitt verið velt upp hversu hægrisinnuð, eða jafnvel öfgakennd, Meloni raunverulega er. „Hún er kannski enginn Mussolini - en hún gæti verið Trump,“ segir í fréttaskýringu The Guardian. Þar er farið yfir þá stöðu sem stjórnmálaskýrendur er nú í, að greina hvort Meloni sé fasisti, nýfasisti (e. neofascist) eða síðfasisti (e. post-fascist)?
Sjálf segir Meloni að ítalskur fasismi heyri sögunni til. Hún skilgreinir Bræðralag Ítalíu sem íhaldsflokk en flokknum hefur ítrekað verið lýst sem fasistaflokki þar sem auðvelt er að rekja rætur hans til MSI og bandamanna Mussolini.
Fasískir angar innan Bræðralagsins
Pólitískar rætur Bræðralagsins liggja í MSI, sem reis upp úr ösku fasisma Mussolini. Fljótlega eftir að niðurstöður kosninganna lágu fyrir var farið að tala um að nú tæki við hægrisinnaðasta ríkisstjórn Ítalíu frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar.
Einkennismerki flokksins er logi í ítölsku fánalitunum, logi sem hefur verið túlkaður sem eldurinn sem reis af gröf Mussolini.
„Giorgia Meloni vill ekki segja skilið við merkið þar sem hún getur ekki sagt skilið við það sem það táknar; æsku hennar,“ segir Gianluca Passarelli, prófessor í stjórnmálafræði við Sapienza-háskólann í Róm.
„Flokkurinn hennar er ekki fasistaflokkur,“ segir Passarrelli. „Fasismi merkir að komast til valda og eyðileggja stjórnkerfið. Hún mun ekki gera það og gæti það raunar ekki. En það eru angar innan flokksins sem teygja sig í áttina að ný-fasista hreyfingunni. Hún hefur alltaf staðsett sig þar á milli.“
Meloni hefur áhuga á öðru en stjórnmálum. 11 ára gömul las hún Hringadróttinssögu og dróst fljótt inn í ævintýraheim Tolkien og annarra fantasíubóka, nokkuð sem hún á sameiginlegt með fólki með svipaðar stjórnmálaskoðanir, nefnilega fasisma. Þá er hún einskær áhugamanneskja um dreka.
Úr tveimur prósentum í 26 á áratug
Bræðralagið byrjaði sem smár stjórnmálaflokkur fyrir áratug en er skyndilega orðinn stærsti flokkurinn á ítalska þinginu.
Í fyrstu þingkosningunum sem Bræðralagið bauð fram, árið 2013, fékk flokkurinn aðeins tvö prósent atkvæða. Í kosningunum árið 2018 var stuðningurinn fjögur prósent en í dag er Bræðralagið stærsti flokkurinn á ítalska þinginu, með 26 prósent atkvæða kjósenda á bakvið sig. Því má ef til vill þakka að flokkurinn er eini stóri flokkurinn á þinginu sem var ekki hluti af þjóðstjórn Mario Draghi, sem féll síðasta sumar.
Þegar úrslit kosninganna voru ljós sagði Meloni ítalska kjósendur vera að senda skýr skilaboð um hægri stjórn undir stjórn Bræðralagsins auk Lega sem leiddur er af Matteo Salvini og Forza Italia, flokki Silvio Berlusconi, fyrrverandi forsætisráðherra. Á meðan Bræðralagið bætti hressilega við fylgi sitt dróst fylgi flokka Salvini og Berlusconi saman. Saman ná flokkarnir þó 43 prósent fylgi sem nægir þeim til að tryggja meirihluta í báðum deildum þingsins.
Ætlar að verða leiðtogi allra
Ör stjórnarskipti hafa einkennt ítölsku stjórnmál frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar þegar lýðræði var komið á og verður ríkisstjórn Meloni sú sjötugasta í röðinni frá 1945, og eins og áður hefur komið fram, sú hægrisinnaðasta.
Meloni var hófsöm í sigurræðu sinni, nokkuð sem hún tamdi sér engan veginn í kosningabaráttunni sjálfri. Hún segist ætla að verða leiðtogi allra og hún ætlar ekki að svíkja traust kjósenda.
Meðal stefnumála sem Meloni lagði áherslu á í kosningabaráttunni voru skattalækanir, lokun landamæra fyrir straumi innflytjenda, auk þess sem hún vill sporna gegn því sem hún hefur kallað „lobbíisma hinsegin fólks“. Þá hefur hún sagst vera á móti fjölmenningu og hefur verið sökuð um andúð gegn útlendingum.
Það verður því að teljast ólíklegt að henni takist það sem hún ætlar sér: Að vera leiðtogi allra. En það völdu hana ekki allir Ítalir, að minnsta kosti ekki hinsegin fólk, sem óttast að Meloni og Bræðralagið fari fyrir nýrri ríkisstjórn.
Meðal spurninga sem stjórnmálaskýrendur spyrja þessa dagana er hvort Meloni muni nýta þá leiðandi stöðu sem hún er komin í til að tryggja sér, og Bræðralaginu, langvarandi forystu í landsmálum. Tíminn einn mun leiða það í ljós.