Arðgreiðslur til eigenda íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja námu samanlagt um 18,5 milljörðum króna á árinu, en sjávarútvegsfyrirtæki greiddu 22,3 milljarða króna í bein opinber gjöld árið 2021. Þar af greiddu fyrirtækin í greininni 7,9 milljarða í veiðigjöld, 9,2 milljarða í tekjuskatt og 5,2 milljarða í áætlað tryggingagjald.
Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki högnuðust samanlagt um 65 milljarða króna á síðasta ári. Heildartekjur félaganna sem starfa í greininni voru 309 milljarðar króna og jukust um 25 milljarða frá fyrra ári, eða sem nemur 8,8 prósentum.
Bókfært eigið fé félaga í greininni jókst um 28 milljarða króna á milli ára og nam 353 milljörðum króna við árslok. Þá er um að ræða hreinar eignir fyrirtækjanna þegar búið er að greiða út arð og gera upp öll opinbergjöld. Bókfært fé sjávarútvegsfyrirtækja hefur aukist um alls 132 milljarða króna frá árinu 2014.
Þetta er á meðal þess sem kom fram í kynningu Jónasar Gests Jónassonar endurskoðanda hjá Deloitte, en hann kynnti hinn árlega Sjávarútvegsgagnagrunn Deloitte á Sjávarútvegsdeginum 2022, sem fram fór í morgun á Hilton Nordica.
Gagnagrunnur Deloitte nær á þessu ári utan um rekstur 94 prósent sjávarútvegsfyrirtækja á Íslandi en fjárhæðirnar hafa verið uppreiknaðar upp í 100 prósent til að endurspegla öll fyrirtækin í greininni.
Miklar gengissveiflur
Framlegð í sjávarútvegi er mikil um þessar mundir í sögulegu samhengi, sagði Jónas Gestur í kynningu sinni, en EBITDA framlegðin var 25 prósent á síðasta ári.
Mikil sveifla varð á milli ára í gengisafkomu sjávarútvegsfélaga, en eftir að hafa tapað 19 milljörðum vegna gengismismunar árið 2020 högnuðust íslensk sjávarútvegsfyrirtæki um 7 milljarða króna vegna gengisbreytinga á síðasta ári.
Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja hélt tölu í kjölfar þess að Jónas Gestur fór yfir tölurnar út gagnagrunni Deloitte og velti því þar upp að greina mætti þessar gengissveiflur greinarinnar betur, enda munurinn á afkomu 26 milljarðar króna á milli ára.
Heildarskuldir sjávarútvegsfyrirtækja voru 457 milljarðar króna við lok síðasta árs og bættu sjávarútvegsfyrirtæki við sig 21 milljarði króna af nýjum langtímaskuldum árið 2021, umfram afborganir. Heildarskuldir geirans lækka þó á milli ára, í fyrsta sinn frá árinu 2017. Fjárfestingar í varanlegum fastafjármunum námu 25 milljörðum króna á síðasta ári.
Veiðigjöld frá 2016 undir helmingi af arðgreiðslum
Árið 2020 greiddu sjávarútvegsfyrirtæki 21,5 milljarða króna í arð, sem var hæsta upphæð sem greidd hafði verið út í arð úr greininni á einu ári. Inni í þeirri tölu voru rúmlega 10 milljarðar króna sem dótturfélög Samherji greiddu til móðurfélags samstæðunnar.
Arðgreiðslurnar á síðasta ári voru sem áður segir 18,5 milljarðar króna á síðasta ára og lækka þannig um þrjá milljarða króna á milli ára, en arðgreiðslur Síldarvinnslunar í kjölfar þess að félagið var skráð á hlutabréfamarkað og seldi hlut sinn í Sjóvá spila þar stærstan þátt.
Heildararðgreiðslur út úr sjávarútvegi frá byrjun árs 2016 og út síðasta árs nema um 89 milljörðum króna. Á sama tíma hafa fyrirtækin í geiranum greitt 43,8 milljarða króna í veiðigjöld, eða sem nemur rétt innan við helmingi þess fjár sem sjávarútvegsfyrirtæki hafa greitt í arðgreiðslur.