Undarnfarna daga hefur rekstur ríkisins á Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (ÁTVR) verið í sviðsljósinu, eftir að greiningarfyrirtækið CleverData birti skýrslu fyrir Vinbudin.com um reksturinn. Tilgangur skýrslunar var að gefa skýrari mynd af rekstri ÁTVR út frá kostnaðargreiningu og yfirliti opinberra upplýsinga. Niðurstöðurnar sýndu að ekki var eiginlegur hagnaður af starfsemi ÁTVR.
ÁTVR hefur hafnað þessari niðurstöðu og segir að hún eigi sér ekki stoð í raunveruleikanum.
Kjarninn fjallaði ítarlega um þessa stöðu sumarið 2014 og byggði röð fréttaskýringa á opinberum gögnum um fjármál ÁTVR. Í ljósi þeirrar umræðu sem sprottið hefur upp undanfarna daga verða þær skýringar endurbirtar með uppfærslum.
Löng saga
Íslenska ríkið hefur rekið einkasölu áfengis hérlendis frá árinu 1922. Ef núverandi fyrirkomulagi verður haldið áfram mun það því eiga 100 ára afmæli eftir átta ár. Svo gæti hins vegar farið að fyrirkomulaginu verði breytt. Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lagði síðastliðið haust fram frumvarp um að leyfa sölu áfengis í verslunum.
Verði frumvarpið að lögum mun það breyta starfsemi ÁTVR gríðarlega. Árið 2013 voru tekjur fyrirtækisins vegna áfengissölu 22,8 milljarðar króna.
Umræðan um þessi mál hefur að mestu snúist um það að með sölu léttra áfengra drykkja í verslanir muni aðgengi aukast með neikvæðum áhrifum á drykkju, sérstaklega ungmenna, hagnaður muni færast frá ríkissjóði til einkafyrirtækja og að vöruúrval muni minnka.
En minna virðist hafa farið fyrir umræðu um hvort það sé eðlilegt að ríki reki risavaxið smásöluveldi sem er með einokun á einni lögregri vöru.
Risafyrirtæki á íslenskum smásölumarkaði
ÁTVR er nefnilega ekkert smáfyrirtæki. Það rekur 48 verslanir út um allt land. Árið 1986, þremur árum áður en bjórinn var leyfður aftur með lögum, voru þær 13 talsins. Fjöldi þeirra hefur því nær þrefaldast síðan þá. Til samanburðar eru þjónustustöðvar og eldsneytisafgreiðslur N1, sem er með stærsta net slíkra á meðal íslenskra eldsneytissala, 95 talsins. Semsagt ein vínbúð á hverjar tvær eldsneytisafgreiðslur N1. Bónus, stærsti matvöruseljandi landsins, rekur 29 verslanir um land allt. Það eru 19 færri en vínbúðir ÁTVR.
Vínbúðunum hefur ekki bara fjölgað. Þær hafa aukið þjónustu sína verulega, meðal annars með því að vera opnar miklu oftar og lengur en áður var. Margar þeirra eru nú opnar til 20:00 á virkum dögum og til klukkan 18:00 á laugardögum. Aðgengi hefur því aukist gríðarlega á undanförnum árum og áratugum.
ÁTVR er smásölurisi. Alls eru verslanir fyrirtækisins 48 talsins á landinu öllu.
Þetta hefur gerst þrátt fyrir að sérstaklega sé tekið fram í lögum um verslun með áfengi og tóbak frá árinu 2011 að eitt þriggja markmiða laganna sé að „takmarka og stýra aðgengi að áfengi og tóbaki og draga þannig úr skaðlegum áhrifum áfengis- og tóbaksneyslu“.
Þessi auknu umsvif hafa skilað því að ÁTVR er smásölurisi á íslenska markaðnum í öllum samanburði. Rekstartekjur stofnunarinnar voru 27,4 milljarðar króna á árinu 2013. Til að setja þetta í samhengi þá voru tekjur tryggingafélaganna Sjóvá og Tryggingamiðstöðvarinnar samanlagt um 28 milljarðar króna á árinu 2013, eða lítið eitt meiri en tekjur ÁTVR.
Tekjur ÁTVR hafa vaxið mjög samhliða aukinni áfengisneyslu þjóðarinnar (seldum áfengislítrum hjá ÁTVR hefur fjölgað úr 12,4 milljónum árið 1999 í 18,7 milljónir árið 2013). Rekstrartekjur ÁTVR voru í heild 11,8 milljarðar króna árið 1999 og þar af komu um sjö milljarðar króna af áfengissölu. Árið 2013 skilaði áfengissalan 18,2 milljörðum króna. Hinir rúmu níu milljarðarnir sem skiluðu sér í kassann voru vegna sölu tóbaks.
Peningarnir fara hvort sem er í ríkissjóð
En hvað verður um allar þessar tekjur? Þorri þeirra rennur í ríkissjóð í formi áfengisgjalds, magngjalds tóbaks og virðisaukaskatts, enda álögur á áfengi á Íslandi þær hæstu í Evrópu að Noregi undanskildu.
Af þeim 21,5 milljörðum króna sem runnu í ríkissjóð af brúttósölu ÁTVR á árinu 2013 var allt nema einn milljarður króna vegna þessarra gjalda og myndi því skila sér í ríkissjóð óháð því hver söluaðili áfengis og tóbaks væri. Til viðbótar greiðir ÁTVR ríkissjóði arð upp á rúman milljarð króna vegna frammistöðu rekstrarsins á árinu.
Þrátt fyrir þessu miklu umsvif stofnunarinnar, og ÁTVR er skilgreind sem stofnun í lögum, þá er engin stjórn yfir fyrirtækinu. Slík hefur ekki verið til staðar í nokkur ár heldur heyrir stofnunin beint undir fjármálaráðherra. Yfirstjórn fyrirtækisins, sem samanstendur af Ívari J. Arndal forstjóra og framkvæmdastjórum, tekur þess í stað ákvarðanir tengdar rekstri ÁTVR. Fyrirtækið sker sig þannig frá öðrum stórum fyrirtækjum í opinberri eigu, eins og til dæmis orkufyrirtækjum, þar sem eigandinn kemur ekki að beinni stjórn þess. Það er nokkurskonar ríki í ríkinu.
Neytendur ánægðir með ÁTVR
Þótt mismunandi meiningar séu um það á meðal þjóðarinnar að afnema einokun ÁTVR á áfengissölu þá er ljóst að það ríkir mikil ánægja með starfsemi fyrirtækisins og þá þjónustu sem það býður upp á. ÁTVR hlaut til dæmis hæstu einkunn allra þeirra 21 fyrirtækis sem tóku þátt í Ánægjuvoginni, mælingu á ánægju viðskiptavina þeirra. Eitt af því sem skiptir þar miklu máli er breytt vöruúrval.
ÁTVR hefur enda verið að auka vöruframboð sitt jafnt og þétt. Í lok árs 2013 voru 2.037 vörutegundir fáanlegar hjá ÁTVR, annað hvort í verslunum fyrirtækisins eða hægt að panta þær sérstaklega. Þetta er gríðarleg aukning frá því sem áður var. Þegar fyrsta sjálfsafgreiðsluverslun ÁTVR var opnuð í Kringlunni árið 1986, áður hafði áfengi einungis verið afgreitt „yfir borðið“, bauð fyrirtækið upp á 550 tegundir. Þetta var áður en bjórinn var leyfður en breytir því ekki að fjórföldun í vöruframboði á þeim tíma sem liðinn er síðan þá er töluverður.
Heimsendaspár um lyftingu bjórbanns rættust ekki
Fram til ársins 1989 var bannað að kaupa bjór á Íslandi. Þegar frumvarp um að afnema það bann var lagt fram á Alþingi komu fram mörg sömu rök og sett eru fram í umræðunum í dag, þegar rætt er um að færa verslun með bjór og léttvín inn í matvöruverslanir. Í BA-ritgerð Guðjóns Ólafssonar í félags- og fjölmiðlafræði frá árinu 2012, sem ber nafnið „Baráttan um bjórinn“, er fjallað ítarlega um afnám bjórbannsins og afleiðingar þess.
Steingrímur J. Sigfússon var ekkert sérstaklega hlynntur afléttingu bjórbannsins.
Þar er meðal annars vitnað í ræður þingmanna þess tíma. Einn þeirra sem var mjög á móti afléttingu bjórbannsins var Steingrímur J. Sigfússon, þá þingmaður Alþýðubandalagsins en situr í dag sem þingmaður Vinstri grænna. Hann flutti ræðu í neðri deild þingsins árið 1988. Í henni sagði: „Ég óttast að áfengt öl, sérstaklega léttara ölið, getið orðið fyrsta sporið inn á braut vímuefnanna, t.d. fyrir unglingana, geti leitt til þess að aldur áfengisneyslunnar færist niður og þetta verði svo lágur þröskuldur að stíga yfir að mati gæslumanna, foreldranna og annarra slíkra aðila, að á því verði ekki tekið jafnalvarlega og ef um aðrar tegundir vímugjafa, sterkara áfengi, væri að ræða“.
Geir Gunnarsson, samflokksmaður Steingríms, sagði í sömu umræðum að hann teldi „einnig að þau gögn, sem fyrir liggja, bendi jafnframt til þess að sú viðbótarneysla gæti komið fram í aukinni hversdagsdrykkju, jafnvel vinnustaðadrykkju í einhverjum mæli“.
Bjór í staðinn fyrir kaffi
Aðalheiður Bjarnfreðadóttir, þáverandi þingkona Borgaraflokksins, óttaðist um að bjór kæmi í stað kaffidrykkju. Í ræðu hennar sagði: „Ég er viss um að bjórinn verður ákaflega mikill peningaþjófur því að þegar hann verður leyfður eða ef hann verður leyfður verður keppst við að hafa hann í ísskápnum. Þá verður boðinn bjór í staðinn fyrir kaffi. Við erum orðin allt of fínt fólk til að vera að bjóða þennan gamla þjóðardrykk okkar. Það verður boðinn bjór í staðinn fyrir kaffi. Og hann verður miklu, miklu meiri freisting fyrir unglingana, mér liggur við að segja börnin, en sterka vínið þó að það geti verið nógu slæmt á heimilum“.
Guðrún Helgadóttir, þingmaður Alþýðubandalagsins, var mikil talskona þess að bjórinn yrði leyfður. Í ræðu hennar sagði meðal annars: „„Heildarneysla áfengis segir nákvæmlega ekki neitt um drykkjusiði þjóðarinnar. Þeir verða ekki í lagi fyrr en þjóðinni hefur lærst að fara með áfenga drykki eins og siðað fólk. Von okkar sem teljum æskilegra að fólk neyti léttra áfengra drykkja en sterkra er sú að einn góðan veðurdag renni upp sú stund að það verði heldur litið niður á fólk sem sést á almannafæri áberandi drukkið. Það eru nefnilega engir mannasiðir.“
Síðar í umræðunni sagði Guðrún: „Sú er óbifanlega skoðun mín að gott og heilbrigt þjóðfélag eigi að byggjast á því að sérhver heilbrigður einstaklingur beri ábyrgð á eigin lífi, að hann verði að axla þá ábyrgð að velja og hafna. Þann bikar hvorki vil ég né tel rétt að taka frá öðru fólki“.
Dró verulega úr ölvunarakstri
Segja má að efasemdarfólkið sem vildi ekki sjá bjórinn leyfðan hafi að einhverju leyti haft rétt fyrir sér, en að mörgu leyti mjög rangt. Neysla áfengis hefur vissulega aukist tölurvert eftir að bjórinn var leyfður en neysla á sterku áfengi hefur að sama skapi dregist saman. Fólk virðist því drekka meira en minna einvörðungu til þess að verða mjög ölvað.
Í ritgerð Guðjóns er vitnað í rannsókn rannsókn Þórodds Bjarnasonar frá árinu 2007 um neyslu 15 og 16 ára ungmenna sem sýndi að marktækt hefði dregið úr unglingadrykkju á milli áranna 1995 og 2007. Íslenskir unglingar drekka auk þess sjaldnar áfengi en jafnaldrar þeirra í Evrópu.
Guðjón fjallar einnig um áhrif afléttingu bjórbannsins á ölvunarakstur í ritgerð sinni. Niðurstaða þeirrar skoðunar er sú að ölvunarakstur hafi farið minnkandi eftir afléttingu þess og fari í raun minnkandi með hverju árinu sem líður. Á tímabilinu 1970 til 1980 voru að meðaltai 1.411 einstaklingar á hverja 100 þúsund íbúa teknir ölvaðir undir stýri. Á þeim áratug hélst ölvunarakstur í hendur við aukna áfengisneyslu.
Á árunum 2000-2010 voru þeir mun færri, eða 638 að meðaltali á ári. Og þeim fór fækkandi eftir því sem á leið. Árið 2010 voru þeir einungis 407. Á þessu tímabili hefur áfengisneysla því aukist en dregið hefur úr ölvunarakstri.
Fréttaskýringin er uppfærð útgáfa af annarri slíkri sem birtist í app-útgáfu Kjarnans í ágúst 2014.