Auglýsingaborðar sem birtust á dönskum strætisvögnum í lok apríl, og voru fjarlægðar nokkrum dögum síðar hafa valdið miklum deilum. Forsvarsmenn strætisvagnafyrirtækisins eru sakaðir um að virða lög um tjáningarfrelsi að vettugi og beygja sig fyrir kvörtunum Ísraela.
Félagsskapurinn Dansk-Palenstínska vináttufélagið, sem var stofnað 1988 til að vekja athygli á málefnum íbúa Palestínu, lét útbúa auglýsingaborðana sem límdir voru á hliðar 35 danskra strætisvagna í Kaupmannahöfn og nágrenni. Textinn er ekki flókinn en hljómar á þessa leið í íslenskri þýðingu: „við höfum hreina samvisku ! Við kaupum ekki vörur frá ísraelskum landtökusvæðum né fjárfestum í landtökuiðnaðinum.“ Á borðunum eru líka fjögur landakort sem sýna hvernig palenstínskt landsvæði hefur skroppið saman frá 1967 til dagsins í dag. Auglýsingaborðarnir voru allstórir og mjög áberandi á hliðum strætisvagnanna sem aka vítt og breitt um borgina og nágrannasveitarfélögin.
Löng auglýsingahefð en pólitík bönnuð
Löng hefð er fyrir auglýsingum á strætisvögnum í Danmörku. Auglýsingar um ferðalög, farsíma, brjóstastækkanir, lottó, bíla, ost og jógúrt, svo fátt eitt sé nefnt, blasa iðulega við augum vegfarenda þegar strætó brunar framhjá. Þar má líka iðulega sjá auglýsingar frá stjórnmálaflokkunum (einkum þegar kosningar nálgast) en þær hafa oft verið umdeildar því lögum samkvæmt má ekki vera með flokkspólitískan áróður í auglýsingum á almannafæri. Þessi lög hafa þó verið túlkuð fremur frjálslega nema hvað varðar auglýsingaspjöld frambjóðenda sem hengd eru á ljósastaura, girðingar og veggi um allt land. Spjöldin má ekki setja upp fyrr en á tilteknum degi og þá er mikill handagangur í auglýsingaöskjunni, á „upphengingardeginum“ eins og hann er kallaður hér.
Strætisvagnafyrirtækið samþykkti auglýsingarnar
Hjá strætisvagnafyrirtækinu, Movia, gilda ákveðnar reglur varðandi auglýsingar á vögnunum. Fyrst fara þær í hendur starfsmanns sem metur hvort þær uppfylli almenn skilyrði eins og það er orðað. Ef minnsti vafi leikur á um eitthvað í texta eða á myndum sem eiga að vera í auglýsingunum metur lögfræðingur Movia málið og telji hann ástæðu til fer viðkomandi auglýsing fyrir stjórn fyrirtækisins, sem er pólitískt skipuð. Starfsmaðurinn sem fyrstur fékk hina umdeildu auglýsingu í hendur sá ekkert athugavert við hana og bar efni hennar ekki undir lögfræðing fyrirtækisins áður en borðarnir voru límdir á strætisvagnana.
Gyðingar kvörtuðu
Ekki voru liðnir nema tveir klukkutímar frá því að fyrstu strætisvagnarnir brunuðu af stað snemma morguns mánudaginn 27. apríl þegar símarnir hjá Movia fóru að hringja og tölvupóstur að berast. Þeir sem voru svo fljótir til voru gyðingar og fólk af gyðingaættum sem töldu að þarna væri að sér vegið með grófum hætti. Strax þennan sama morgun var lögfræðingur Movia kallaður til og óskað álits hans á auglýsingunum. Álit hans var að auglýsingarnar brytu ekki í bága við lög og benti meðal annars á samþykkt Evrópusambandsins frá árinu 2012 (og reyndar aðra eldri) þar sem þess er krafist að Ísraelar merki sérstaklega þær vörur sem framleiddar eru á landtökusvæðunum en yfirtaka Ísraela á þeim svæðum er ólögleg samkvæmt þjóðréttarreglum. Ísraelar hafa ekki ekki virt kröfurnar um sérstakar merkingar á vörum frá landtökusvæðunum.
Sendiherrann fór til strætófyrirtækisins og kvartaði
Þann 28. apríl, daginn eftir að auglýsingarnar birtust gekk Ísraelski sendiherrann í Kaupmannahöfn á fund forstjóra Movia og kvartaði. Sagði auglýsingarnar áróður gegn Ísrael og gyðingum. Forstjórinn sagði að samkvæmt áliti lögfræðings fyrirtækisins brytu þær á engan hátt í bága við lög um tjáningarfrelsi hér í Danmörku.
Stjórn Movia hélt fund um auglýsingarnar
Næst gerðist svo það að stjórn strætisvagnafyrirtækisins hélt fund. Þar var fjallað um auglýsingarnar og lögfræðiálitið sem áður var nefnt. Stjórnin ákvað á þessum fundi að auglýsingarnar skyldu fjarlægðar. Þegar fjölmiðlar óskuðu rökstuðnings á þessari ákvörðun var því svarað til að Ísraelar og gyðingar í Danmörku teldu þær móðgun og að mikið hefði verið kvartað vegna þeirra. Þegar eftir var gengið kom fram að samtals hefðu þær verið um eitthundrað.
Sögðu auglýsingarnar minna á áróður nasista gegn gyðingum
Sumir þeirra sem kvörtuðu sögðu að auglýsingarnar bæru keim af áróðri nasista í síðari heimsstyrjöld. Þeim væri beint gegn minnihlutahópi hér í Danmörku, hópi sem væri í sárum eftir árásina og morðið við bænahúsið í Krystalgade, í miðborg Kaupmannahafnar, í febrúar.
Afstaða danskra stjórnmálamanna skiptist nokkuð í tvö horn, og ekki eftir flokkslínum. Sumir þeirra segja að Ísraelar séu vinaþjóð Dana og auglýsingarnar séu særandi. Aðrir segja að Ísraelar ættu kannski að líta í eigin barm, þeir hafi alltof lengi komist upp með að troða á rétti Palestínumanna. Þar tali staðreyndirnar sínu máli.