Aurum-málið svokallaða fer aftur fyrir héraðsdóm. Hæstiréttur Íslands kvað upp þá niðurstöðu sína í dag og féllst þar með á ómerkingarkröfu saksóknara í málinu. Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari hafði krafist ómerkingar á meðferð málsins fyrir héraðsdómi, þar sem allir sakborningar voru sýknaðir, á grundvelli þess að einn meðdómari málsins hefði verið vanhæfur til að fjalla um það. Umræddur meðdómari er Sverrir Ólafsson, fjármálaverkfræðingur, en hann er bróðir Ólafs Ólafssonar, kenndur við Samskip, sem hlaut þungan fangelsisdóm vegna aðildar sinnar að Al-Thani fléttunni svokölluðu.
Sakborningar í Aurum-málinu, þeir Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis, Magnús Arnar Arngrímsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs bankans, Jón Ásgeir Jóhannesson, fyrrum aðaleigandi Glitnis, og Bjarni Jóhannesson, fyrrverandi viðskiptastjóri bankans, voru allir sýknaðir af ákæru sérstaks saksóknara um umboðssvik í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 5. júní síðastliðinn. Einn dómari málsins, Arngrímur Ísberg, skilaði sératkvæði og taldi að sakfella ætti Lárus, Magnús Arnar og Jón Ásgeir.
Hæstiréttur segir rétt að draga óhlutdrægni í efa
Eftir að niðurstaða héraðsdóms í Aurum-málinu lá fyrir komust fjölmiðlar á snoðir um að Sverrir og Ólafur væru bræður. Þeir spurðu Ólaf Þór Hauksson, sérstakan saksóknara, hvort hann hefði vitað af þeim tengslum, sem hann neitaði. Í kjölfarið, nánar tiltekið 9. júní 2014, ræddi fréttastofa RÚV við Sverri. Í frétt hennar sagði hann: „Ég fór til dómarans, Guðjóns St. Marteinssonar, sagði honum frá tengslum mínum. Hann taldi að það væru ekki vandkvæði á því að ég tæki þetta að mér … Ég trúi því ekki í eina sekúndu að sérstakur saksóknari hafi ekki vitað af mínum tengslum strax í upphafi. Ef hann vissi ekki af mínum tengslum, þá ber það vott um afskaplega léleg og yfirborðskennd vinnubrögð. Mér finnst viðbrögð hans, sko, hæpin og mér finnst þetta bera vott um örvæntingarfullar og jafnvel óheiðarlegar aðgerðir. Og hann grípur til þeirra á erfiðum tímum þegar að trúverðugleiki hans stofnunar er eiginlega í molum.“
Í sjónvarpsfréttum saman kvöld bættust eftirfarandi ummæli Sverris við fréttina: "„Ég trúi því fastlega að sérstakur saksóknari hafi vitað allan tímann hver ég var, hann telji það hins vegar kost að fullyrða núna að hann hafi ekki vitað það. Það laumast að mér sá grunur að saksóknari sé í rauninni að gera þetta til þess að veikja dóminn.“
Í niðurstöðu Hæstaréttar segir að hann telji "óhjákvæmilegt að virtum atvikum málsins að líta svo á að ummæli meðdómsmannsins gæfu tilefni til að draga með réttu í efa að hann hefði verið óhlutdrægur í garð ákæruvaldsins fyrir uppkvaðningu héraðsdómsins."
Ómerking lá í loftinu
Kjarninn greindi frá því fyrr í dag að yfirgnæfandi líkur væru á því að Hæstiréttur Íslands myndi vísa Aurum-málinu í heild sinni aftur til meðferðar í Héraðsdómi Reykjavíkur. Boðuð dómsuppsaga í málinu í Hæstarétti í dag, þótti benda sterklega til þess.
Aðalmeðferð fyrir Hæstarétti laut einvörðungu að ómerkingarkröfu ríkissaksóknara. Áður en málflutningur hófst var verjendum og saksóknara tilkynnt um að það yrði aðeins boðað til dómsuppkvaðningar ef fallist yrði á kröfu ákæruvaldsins um ómerkingu og heimvísun. Ella myndi málið halda áfram fyrir Hæstarétti og boðað yrði til málflutnings um málið í heild sinni.
Snýst um sex milljarða króna lán til eignarlaus félags
Málið snýst um sex milljarða króna lánveitingu til félagsins FS38 í júlí 2008. Lánið var veitt til að fjármagna kaup FS38, eignarlaust félag í eigu Pálma Haraldssonar, á 25,7 prósent hlut Fons hf., líka í eigu Pálma, í Aurum Holding Limited. Hluti lánsins, einn milljarður króna, var ráðstafað inn á persónulegan bankareikning Jóns Ásgeirs. Hann nýtti þann milljarð síðan í að borga meðal annars 705 milljóna króna yfirdráttarheimild sína hjá Glitni. Sérstakur saksóknari vill meina að Jón Ásgeir hafi þannig fengið hlut í ávinningi af brotinu og notið hagnaðarins.
Sérstakur saksóknari fór fram á sex ára fangelsi yfir Lárusi Welding þegar málið var flutt í héraði og fjögurra ára fangelsi yfir þeim Jóni Ásgeiri, Magnúsi Arnari og Bjarna.