Kerfislega mikilvægu bankarnir þrír á Íslandi: Landsbankinn, Íslandsbanki og Arion banki voru stofnsettir á grunni fallinna fyrirrennara sinna haustið 2008. Þeir tóku við miklu magni eigna sem ekkert lá fyrir um hversu mikils virði væru, enda glundroði á fjármálamörkuðum í heiminum á þeim tíma og íslenska fjármálakerfið hafði hrunið nánast í heild sinni.
Bankarnir sátu auk þess uppi með fjölda fyrirtækja, eða hluti í fyrirtækjum, sem þeim var falið að endurskipuleggja og selja svo. Sum fyrirtækin voru seld í beinni sölu en önnur í gegnum útboð í aðdraganda skráningar á hlutabréfamarkað.
Endurheimtur á lánum fyrirtækja reyndust vera töluvert betri en reiknað var með sem myndaði viðbótar, en einskiptis, hagnað hjá öllum bönkunum þremur. Sömuleiðis seldu þeir ýmsar eignir sem þeir sátu uppi með eftir bankahrunið á mun hærra verði en þær voru upphaflega bókfærðar á. Fyrir vikið myndaðist mikill hagnaður af rekstri bankanna á þessum árum.
Eigið fé bankanna þriggja hefur líka vaxið mikið á þessu tímabili. Það var samanlagt tæplega 300 milljarðar króna árið 2008 en var komið upp í rúmlega 667 milljarða króna samanlagt í lok september síðastliðins. Á mannamáli þýðir það að bankarnir eru rúmlega tvisvar sinnum stærri nú en þeir voru við stofnun.
Vegna ofangreinds er erfitt að horfa einungis á krónur þegar rýnt er í hagnaðartölur kerfislega mikilvægu bankanna hérlendis. Taka verður tillit til þess að þeir hagnast aðallega á undirliggjandi starfsemi, vaxta- og þóknanatekjum, í dag en högnuðust að stóru leyti áður á eignasölu og betri endurheimtum á lánum.
Einn mælikvarði til að meta hagnað er arðsemi eigin fjár. Þangað til í ár var hún hæst á árunum 2010 og 2016 (tæplega 16 prósent að meðaltali hjá öllum þremur bönkum). Í ár stefnir hún í að vera sú hæsta í mörg ár. Á fyrstu níu mánuðum ársins var arðsemi eigin fjár hjá Landsbankanum 10,9 prósent, hjá Íslandsbanka 11,7 prósent og hjá Arion banka heil 15,2 prósent. Allt er þetta yfir markmiðum bankanna. Þegar horft er á síðast ársfjórðung, sem hófst í byrjun júlí og lauk í lok september, er arðsemin enn hærri. Hjá Arion banka var arðsemin 17 prósent, hjá Íslandsbanka 15,7 prósent og hjá Landsbankanum ellefu prósent. Það er ekki langt frá bestu árum bankanna eftir hrun.
Mesti hagnaður síðan 2015
Arion banki (22,1 milljarður króna), Landsbankinn (21,6 milljarðar króna) og Íslandsbanki (16,6 milljarðar króna) högnuðust um samtals 60,3 milljarða króna á fyrstu níu mánuðum ársins 2021. Mestur hagnaður féll til á þriðja ársfjórðungi, eða alls 23 milljarðar króna.
Sameiginlegur hagnaður bankanna á þessu níu mánaða tímabili er meiri en hann hefur verið innan heils árs frá árinu 2015.
Það ár var sameiginlegur hagnaður bankanna þriggja 106,8 milljarðar króna. Það er mesti hagnaður þeirra á einu ári frá stofnun þeirra og fram til dagsins í dag. Næstum helmingur hagnaðarins var hjá Arion banka, eða 49,7 milljarðar króna.
Afkoma Arion banka á árinu 2015 bar þess merki að til lykta voru leidd nokkur umfangsmikil úrlausnarmál sem vörðuðu mikla hagsmuni fyrir bankann. Fyrst og fremst er um að ræða sölu bankans á hlutum í fimm félögum: Reitum fasteignafélagi hf., Eik fasteignafélagi hf., Símanum hf., alþjóðlega drykkjarframleiðandanum Refresco Gerber og Bakkavor Group Ltd. Öll voru félögin skráð í kauphöll hér á landi eða erlendis, nema eignarhluturinn í Bakkavor Group sem var seldur í kjölfar söluferlis í umsjón Barclays bankans. Þetta skilaði næstum 30 milljörðum króna í kassann.
Afkoma Landsbankans, sem var jákvæð um 36,5 milljarða króna, orsakaðist meðal annars af því að hreinar virðisbreytingar útlána skiluðu tekjufærslu upp á 18 milljarða króna.
Hækkandi eignarverð eykur hagnað banka
Tekjur bankanna á þessu ári eru allt annars eðlis. Þær falla annars vegar til vegna aukinna vaxta- og þóknanatekna og hins vegar til vegna þess að varúðarniðurfærslur á lánum fyrirtækja sem lentu í vanda eftir að kórónuveirufaraldurinn skall á hafa verið dregnar að hluta til baka. Þar hafa aðgerðir stjórnvalda og seðlabanka til að örva efnahagskerfið í kjölfar kórónuveirukreppunnar skipt miklu máli. Þær hafa leitt til mikilla verðhækkana á húsnæðismarkaði vegna stóraukinnar eftirspurnar, aðallega vegna þess að vextir voru lækkaðir skarpt. Þá hefur hlutabréfaverð rúmlega tvöfaldast frá því í mars í fyrra.
Í tilfelli Landsbankans jukust hreinar þjónustutekjur bankans til að mynda um 22 prósent milli ára samkvæmt uppgjöri fyrir þriðja ársfjórðung, einkum vegna vaxandi umsvifa í eignastýringu og markaðsviðskiptum. Auknar vaxtatekjur skýrast ekki síst af auknum útlánum til íbúðalána, en markaðshlutdeild ríkisbankans á einstaklingsmarkaði er nú um 39 prósent og hefur aldrei verið meiri. Markaðshlutdeild í íbúðalánum hefur aukist um 2,7 prósentustig frá áramótum. Hún mælist nú 28,7 prósent og hefur sömuleiðis aldrei verið meiri.
Hjá Arion banka jukust útlán til viðskiptavina um níu prósent milli ára. Þar er aðallega um að ræða íbúðarlán þar sem heildarumfang lána bankans til fyrirtækja hefur dregist saman. Tekjur Arion banka af kjarnastarfsemi, vaxta- og þóknanatekjur, hafa aukist um 19,3 prósent ef miðað er við fyrstu níu mánuði síðasta árs. Bankinn á enn eftir að bókfæra um 3,5 milljarða króna söluhagnað á Valitor til ísraelska fyrirtækisins Rapyd, en sú sala er ekki að fullu frágengin vegna þess að ekki liggur enn fyrir samþykki eftirlitsaðila. Arion banki ætlar að greiða hluthöfum sínum um 30 milljarða króna út í arð eða með endurkaupum á hlutabréfum á næstu árum til viðbótar við þá 21,3 milljarða króna sem þegar hefur verið ákveðið að skila til þeirra með slíkum aðferðum.
Hreinar þóknanatekjur Íslandsbanka jukust um 20 prósent milli ára þegar miðað er við þriðja ársfjórðung í ár annars vegar og sama tímabil í fyrra. Bankinn leggur aðaláherslu á kjarnastarfsemi þar sem vaxtatekjur og þóknanatekjur voru samanlagt 92 prósent af rekstrartekjum á síðasta ársfjórðungi, en þessir tveir tekjuliðir jukust samanlagt um á milli ára.
Virðisrýrnun útlána var jákvæð á um 1,8 milljarða króna á síðasta ársfjórðungi og skýrist helst af batnandi útliti í ferðaþjónustu og lækkaðri virðisrýrnun á lánum til einstaklinga. Útlán til viðskiptavina hafa aukist um 7,4 prósent frá árslokum 2020, aðallega vegna umsvifa í húsnæðislánum auk þess sem vöxtur var í lánum til fyrirtækja.
Kostnaðarhlutfall allra bankanna er vel undir 50 prósent. Hjá Íslandsbanka var það nú 46,6 prósent, hjá Landsbankanum var það 41,7 prósent og hjá Arion banka var það 37,5 prósent á þriðja ársfjórðungi, en 41,9 prósent á fyrstu níu mánuðum ársins.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði