Mynd: 123rf

Bankarnir högnuðust meira á níu mánuðum en þeir hafa gert innan árs frá 2015

Sameiginlegur hagnaður stóru bankanna þriggja á fyrstu níu mánuðum ársins var rúmlega 60 milljarðar króna. Þeir hafa hagnast meira innan árs áður en þá hefur það verið vegna þess að þeir hafa selt eignir eða áður verðlausar eða -litlar eignir hafa verið uppfærðar. Nú hagnast þeir aðallega á því að lána íslenskum heimilum til kaupa á íbúðalánum og með því að þiggja þóknanatekjur fyrir milligöngu í verðbréfaviðskiptum.

Kerf­is­lega mik­il­vægu bank­arnir þrír á Íslandi: Lands­bank­inn, Íslands­banki og Arion banki voru stofn­settir á grunni fall­inna fyr­ir­renn­ara sinna haustið 2008. Þeir tóku við miklu magni eigna sem ekk­ert lá fyrir um hversu mik­ils virði væru, enda glund­roði á fjár­mála­mörk­uðum í heim­inum á þeim tíma og íslenska fjár­mála­kerfið hafði hrunið nán­ast í heild sinn­i. 

Bank­arnir sátu auk þess uppi með fjölda fyr­ir­tækja, eða hluti í fyr­ir­tækj­um, sem þeim var falið að end­ur­skipu­leggja og selja svo. Sum fyr­ir­tækin voru seld í beinni sölu en önnur í gegnum útboð í aðdrag­anda skrán­ingar á hluta­bréfa­mark­að.

End­ur­heimtur á lánum fyr­ir­tækja reynd­ust vera tölu­vert betri en reiknað var með sem mynd­aði við­bót­ar, en ein­skipt­is, hagnað hjá öllum bönk­unum þrem­ur. Sömu­leiðis seldu þeir ýmsar eignir sem þeir sátu uppi með eftir banka­hrunið á mun hærra verði en þær voru upp­haf­lega bók­færðar á. Fyrir vikið mynd­að­ist mik­ill hagn­aður af rekstri bank­anna á þessum árum. 

Eigið fé bank­anna þriggja hefur líka vaxið mikið á þessu tíma­bili. Það var sam­an­lagt tæp­lega 300 millj­arðar króna árið 2008 en var komið upp í rúm­lega 667 millj­arða króna sam­an­lagt í lok sept­em­ber síð­ast­lið­ins. Á manna­máli þýðir það að bank­arnir eru rúm­lega tvisvar sinnum stærri nú en þeir voru við stofn­un. 

Vegna ofan­greinds er erfitt að horfa ein­ungis á krónur þegar rýnt er í hagn­að­ar­tölur kerf­is­lega mik­il­vægu bank­anna hér­lend­is. Taka verður til­lit til þess að þeir hagn­ast aðal­lega á und­ir­liggj­andi starf­semi, vaxta- og þókn­ana­tekj­um, í dag en högn­uð­ust að stóru leyti áður á eigna­sölu og betri end­ur­heimtum á lán­um. 

Einn mæli­kvarði til að meta hagnað er arð­semi eigin fjár. Þangað til í ár var hún hæst á árunum 2010 og 2016 (tæp­lega 16 pró­sent að með­al­tali hjá öllum þremur bönk­um). Í ár stefnir hún í að vera sú hæsta í mörg ár. Á fyrstu níu mán­uðum árs­ins var arð­semi eigin fjár hjá Lands­bank­anum 10,9 pró­sent, hjá Íslands­banka 11,7 pró­sent og hjá Arion banka heil 15,2 pró­sent. Allt er þetta yfir mark­miðum bank­anna. Þegar horft er á síð­ast árs­fjórð­ung, sem hófst í byrjun júlí og lauk í lok sept­em­ber, er arð­semin enn hærri. Hjá Arion banka var arð­semin 17 pró­sent, hjá Íslands­banka 15,7 pró­sent og hjá Lands­bank­anum ell­efu pró­sent. Það er ekki langt frá bestu árum bank­anna eftir hrun. 

Mesti hagn­aður síðan 2015

Arion banki (22,1 millj­arður króna), Lands­bank­inn (21,6 millj­arðar króna) og Íslands­banki (16,6 millj­arðar króna) högn­uð­ust um sam­tals 60,3 millj­arða króna á fyrstu níu mán­uðum árs­ins 2021. Mestur hagn­aður féll til á þriðja árs­fjórð­ungi, eða alls 23 millj­arðar króna. 

Sam­eig­in­legur hagn­aður bank­anna á þessu níu mán­aða tíma­bili er meiri en hann hefur verið innan heils árs frá árinu 2015. 

Það ár var sam­eig­in­legur hagn­aður bank­anna þriggja 106,8 millj­arðar króna. Það er mesti hagn­aður þeirra á einu ári frá stofnun þeirra og fram til dags­ins í dag. Næstum helm­ingur hagn­að­ar­ins var hjá Arion banka, eða 49,7 millj­arðar króna. 

Af­koma Arion banka á árinu 2015 bar þess merki að til lykta voru leidd nokkur umfangs­­mikil úrlausn­­ar­­mál sem vörð­uðu mikla hags­muni fyrir bank­ann. Fyrst og fremst er um að ræða sölu bank­ans á hlutum í fimm félög­um: Reitum fast­eigna­fé­lagi hf., Eik fast­eigna­fé­lagi hf., Sím­­anum hf., alþjóð­­lega drykkj­­ar­fram­­leið­and­­anum Refresco Ger­ber og Bakka­vor Group Ltd. Öll voru félögin skráð í kaup­höll hér á landi eða erlend­is, nema eign­­ar­hlut­­ur­inn í Bakka­vor Group sem var seldur í kjöl­far sölu­­ferlis í umsjón Barclays bank­ans. Þetta skil­aði næstum 30 millj­örðum króna í kass­ann. 

Afkoma Lands­bank­ans, sem var jákvæð um 36,5 millj­arða króna, orsak­að­ist meðal ann­ars af því að hreinar virð­is­breyt­ingar útlána skil­uðu tekju­færslu upp á 18 millj­arða króna.

Hækk­andi eign­ar­verð eykur hagnað banka

Tekjur bank­anna á þessu ári eru allt ann­ars eðl­is. Þær falla ann­ars vegar til vegna auk­inna vaxta- og þókn­ana­tekna og hins vegar til vegna þess að var­úð­ar­nið­ur­færslur á lánum fyr­ir­tækja sem lentu í vanda eftir að kór­ónu­veiru­far­ald­ur­inn skall á hafa verið dregnar að hluta til bak­a. Þar hafa aðgerðir stjórn­valda og seðla­banka til að örva efna­hags­kerfið í kjöl­far kór­ónu­veiru­krepp­unnar skipt miklu máli. Þær hafa leitt til mik­illa verð­hækk­ana á hús­næð­is­mark­aði vegna stór­auk­innar eft­ir­spurn­ar, aðal­lega vegna þess að vextir voru lækk­aðir skarpt. Þá hefur hluta­bréfa­verð rúm­lega tvö­fald­ast frá því í mars í fyrra.

Í til­felli Lands­bank­ans juk­ust hreinar þjón­ustu­tekjur bank­ans til að mynda um 22 pró­sent milli ára sam­kvæmt upp­gjöri fyrir þriðja árs­fjórð­ung, einkum vegna vax­andi umsvifa í eigna­stýr­ingu og mark­aðsvið­skipt­um. Auknar vaxta­tekjur skýr­ast ekki síst af auknum útlánum til íbúða­lána, en mark­aðs­hlut­deild rík­is­bank­ans á ein­stak­lings­mark­aði er nú um 39 pró­sent og hefur aldrei verið meiri. Mark­aðs­hlut­deild í íbúða­lánum hefur auk­ist um 2,7 pró­sentu­stig frá ára­mót­um. Hún mælist nú 28,7 pró­sent og hefur sömu­leiðis aldrei verið meiri.

Lækkun stýrivaxta niður í 0,75 prósent setti af stað mikla eftirspurnaraukningu eftir því að taka lán til íbúðakaupa. Ásgeir Jónsson er seðlabankastjóri.
Mynd: Bára Huld Beck

Hjá Arion banka juk­ust útlán til við­skipta­vina um níu pró­sent milli ára. Þar er aðal­lega um að ræða íbúð­ar­lán þar sem heild­ar­um­fang lána bank­ans til fyr­ir­tækja hefur dreg­ist sam­an. Tekjur Arion banka af kjarna­starf­semi, vaxta- og þókn­ana­tekj­ur, hafa auk­ist um 19,3 pró­sent ef miðað er við fyrstu níu mán­uði síð­asta árs. Bank­inn á enn eftir að bók­færa um 3,5 millj­arða króna sölu­hagnað á Valitor til ísra­elska fyr­ir­tæk­is­ins Rapyd, en sú sala er ekki að fullu frá­gengin vegna þess að ekki liggur enn fyrir sam­þykki eft­ir­lits­að­ila. Arion banki ætlar að greiða hlut­höfum sínum um 30 millj­arða króna út í arð eða með end­ur­kaupum á hluta­bréfum á næstu árum til við­bótar við þá 21,3 millj­arða króna sem þegar hefur verið ákveðið að skila til þeirra með slíkum aðferð­u­m. 

Hreinar þókn­ana­tekjur Íslands­banka juk­ust um 20 pró­sent milli ára þegar miðað er við þriðja árs­fjórð­ung í ár ann­ars vegar og sama tíma­bil í fyrra. Bank­inn leggur aðal­á­herslu á kjarna­starf­semi þar sem vaxta­tekjur og þókn­ana­tekjur voru sam­an­lagt 92 pró­sent af rekstr­ar­tekjum á síð­asta árs­fjórð­ungi, en þessir tveir tekju­liðir juk­ust sam­an­lagt um á milli ára. 

Virð­is­rýrnun útlána var jákvæð á  um 1,8 millj­arða króna á síð­asta árs­fjórð­ungi og skýrist helst af batn­andi útliti í ferða­þjón­ustu og lækk­aðri virð­is­rýrnun á lánum til ein­stak­linga. Útlán til við­skipta­vina hafa auk­ist um 7,4 pró­sent frá árs­lokum 2020, aðal­lega vegna umsvifa í hús­næð­is­lánum auk þess sem vöxtur var í lánum til fyr­ir­tækja.

Kostn­að­ar­hlut­fall allra bank­anna er vel undir 50 pró­sent. Hjá Íslands­banka var það nú 46,6 pró­sent, hjá Lands­bank­anum var það 41,7 pró­sent og hjá Arion banka var það 37,5 pró­sent á þriðja árs­fjórð­ungi, en 41,9 pró­sent á fyrstu níu mán­uðum árs­ins.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar