Mynd: Bára Huld Beck Verkamenn við vinnu
Mynd: Bára Huld Beck

Erlendum ríkisborgurum á Íslandi hefur fjölgað um rúmlega einn Hafnarfjörð á áratug

Alls hefur erlendum ríkisborgurum á Íslandi fjölgað um rúmlega 33 þúsund frá lokum árs 2011. Flestir þeirra setjast að á höfuðborgarsvæðinu og af þeim velur þorrinn Reykjavík sem nýja heimilið sitt. Kórónuveirukreppan dró ekki úr fjölgun erlendra íbúa en atvinnuleysi er mun meiri á meðal þeirra en annarra Íslendinga.

Alls bjuggu 54.140 erlendir rík­is­borg­arar á Íslandi í lok sept­em­ber síð­ast­lið­ins. Þeir eru nú 14,4 pró­sent allra sem búa á Íslandi. Alls búa 44 pró­sent þeirra í Reykja­vík­ur­borg en allir íbúar hennar eru 36 pró­sent lands­manna. Erlendir rík­is­borg­arar eru því rúm­lega 17 pró­sent allra íbúa höf­uð­borg­ar­inn­ar. 

Staðan er tölu­vert öðru­vísi í nokkrum nágranna­sveita­fé­lögum Reykja­vík­ur­borg­ar. Í Hafn­ar­firði eru erlendu íbú­arnir 11,9 pró­sent af heild­inni og í Kópa­vogi 10,8 pró­sent. Á Sel­tjarn­ar­nesi búa 450 erlendir rík­is­borg­arar og eru þeir 9,5 pró­sent allra íbúa. Í Mos­fellsbæ eru þeir 1.110 og 8,6 pró­sent íbúa. Í Garðabæ er hlut­fallið þó skakkast, en þar eru erlendu rík­is­borg­ar­arnir 930 tals­ins, eða fimm pró­sent þeirra 18.280 íbúa sem bjuggu í sveit­ar­fé­lag­inu í lok sept­em­ber síð­ast­lið­ins. 

Frá byrjun árs í fyrra hefur erlendum rík­is­borg­urum sem búa í Reykja­vík fjölgað um 1.940 tals­ins. Á sama tíma hefur þeim erlendu rík­is­borg­urum sem búa á Sel­tjarn­ar­nesi og í Garðabæ fjölgað um 120. Á fyrstu níu mán­uðum árs­ins 2021 hefur erlendum rík­is­borg­urum sem búa í Reykja­vík fjölgað um næstum sama fjölda og býr sam­an­lagt í áður­nefndum tveimur nágranna­sveit­ar­fé­lögum höf­uð­borg­ar­inn­ar. 

Alls hefur erlendu rík­is­borg­urum sem búa á öllu höf­uð­borg­ar­svæð­inu fjölgað um 2.310 frá byrjun síð­asta árs. Næstum öll sú fjölgun hefur orðið í Reykja­vík, þar sem 84 pró­sent þeirra hafa sest að.

Mesta hlut­falls­lega aukn­ingin á land­inu síð­ast­lið­inn ára­tug hefur þó verið á Suð­ur­nesj­un­um. Í Reykja­nesbæ voru erlendir íbúar 8,6 pró­sent af heild­inni í lok árs 2011. Í sept­em­ber síð­ast­liðnum voru þeir fjórð­ungur íbúa í sveit­ar­fé­lag­inu. Svipuð þróun hefur átt sér stað í Suð­ur­nesja­bæ, sem sam­anstendur af Sand­gerði og Garði. Þar er hlut­fall erlendra rík­is­borg­ara nú 20 pró­sent af heild­inn­i. 

Þetta má lesa út úr nýbirtum tölum Hag­stofu Íslands.

Sex af hverjum tíu nýjum Íslend­ingum eru útlend­ingar

Erlendir rík­is­borg­arar sem búa á Íslandi voru 20.930 í lok árs 2011. Síðan þá hefur þeim fjölgað um 33.210, eða 159 pró­sent, í áður­nefnda 54.140. Það er rúm­lega íbúa­fjöldi Hafn­ar­fjarð­ar, en 29.710 bjuggu í því þriðja stærsta sveit­ar­fé­lagi lands­ins í lok sept­em­ber síð­ast­lið­ins. Mik­ill fjöldi þeirra starfar í annað hvort ferða­þjón­ustu­tengdum greinum eða við mann­virkja­gerð.

Lands­­­mönnum fjölg­aði um 55.270 sama tíma­bili og eru nú 374.830. Það þýðir að 60 pró­sent fjölg­unar lands­manna á síð­ast­liðnum ára­tug hefur verið vegna aðflutn­ings fólks hingað til lands sem er af erlendu bergi brot­ið. 

Mest var fjölg­unin á árunum 2017 og 2018, þegar ferða­þjón­ustu­geir­inn var í mestum vexti, en á þeim tveimur árum fjölg­aði erlendum rík­is­borg­urum sem búa hér um 13.930 alls. Á sama tíma fjölg­aði lands­mönnum öllum um 18.600. Því voru inn­flytj­endur ábyrgir fyrir 75 pró­sent af mann­fjölda­aukn­ingu á þessum tveimur árum. 

Gissur Pétursson, ráðuneytisstjóri í félags- og barnamálaráðuneytinu.
Mynd: RÚV/Skjáskot

Það sem af er árinu 2021 er aukn­ingin þó í takt við meðal síð­asta ára­tug­ar, en erlendir rík­is­borg­arar eru um 60 pró­sent af þeirri aukn­ingu sem orðið hefur á íbúa­fjölda á fyrstu níu mán­uðum árs­ins. 

Erlendu verka­menn­irnir fóru ekki

Á Þjóð­­ar­­spegli Háskóla Íslands, sem fór fram haustið 2019, voru mál­efni erlends starfs­­fólks á Íslandi til umræðu. Á meðal þeirra sem sátu þar í pall­­borði var Gissur Pét­­ur­s­­son, ráðu­­neyt­is­­stjóri í félags- og barna­­mála­ráðu­­neyt­inu og fyrr­ver­andi for­­stjóri Vinn­u­­mála­­stofn­un­­ar. Hann sagði þar að það væri mik­ill kostur að á Íslandi væri svo ein­falt að „losa sig“ við erlent vinn­u­afl um leið og sam­­dráttur byrj­­aði í efna­hags­líf­inu. Það hefði eng­inn beð­ið er­­lenda verka­­­menn um að koma til lands­ins til að vinna og því væri það ekki á ábyrgð Íslenska rík­­­is­ins að hjálpa fólk­inu við að koma undir sig fót­unum með nokkrum hætti.

Ljóst má vera af þróun á fjölda þeirra erlendu rík­is­borg­ara sem búa á Íslandi að þessi útlegg­ing ráðu­neyt­is­stjór­ans hefur ekki gengið eft­ir. Gríð­ar­legur sam­dráttur hefur verið í hag­kerf­inu frá því að kór­ónu­veiru­far­ald­ur­inn skall á sem skil­aði því að áætlað er að rík­is­sjóður verði rek­inn í um 500 millj­arða króna halla sam­an­lagt árin 2020 og 2021. Frá byrjun árs 2020 og út árið 2016 gera fyr­ir­liggj­andi áætl­anir stjórn­valda ráð fyrir því að rík­is­sjóður verði rek­inn í 1.105 millj­arða króna halla. Þrátt fyrir þessa stöðu hefur fjöldi aðfluttra haldið áfram að aukast. 

Frá byrjun síð­asta árs hefur þeim fjölgað um 4.640, eða um 9,4 pró­sent. Eina skiptið á því tíma­bili sem erlendum rík­is­borg­urum hér hefur fækkað var á milli fyrsta og ann­ars árs­fjórð­ungs í fyrra, þegar þeim fækk­aði um 270 alls, eða um 0,5 pró­sent. 

Atvinnu­leysi mun meira hjá erlendu fólki

Í lok síð­­asta mán­aðar var atvinn­u­­leysi hér­­­lendis komið niður í fimm pró­­sent, og var þá hlut­­falls­­lega jafn mikið og það var í febr­­úar 2020, áður en kór­ón­u­veiru­far­ald­­ur­inn skall á. Í apríl 2020, þegar fjöldi fyr­ir­tækja setti starfs­­fólk sitt á hluta­bæt­ur, mæld­ist atvinn­u­­leysið 17,8 pró­­sent en 10,3 pró­­sent­u­­stig féllu til vegna þeirra sem voru tíma­bundið sett á hluta­bæt­ur.

Almennt atvinn­u­­leysi mæld­ist mest í jan­úar síð­­ast­liðn­­um, 11,6 pró­­sent, og heild­­ar­at­vinn­u­­leysi að með­­­töldum þeim sem enn voru á hluta­bótum í þeim mán­uði var 12,8 pró­­sent. 

Þetta atvinnu­leysi bitn­aði mest á erlendum rík­is­borg­ur­um. Í jan­úar síð­ast­liðnum var atvinnu­leysi á meðal þeirra 24 pró­sent og í lok ágúst mæld­ist það enn 11,8 pró­sent, eða langt umfram almennt atvinnu­leysi. 

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar