EPA

Mun kleinuhringurinn bjarga okkur?

Flest þau umhverfisvandamál sem heimurinn stendur frammi fyrir má rekja til þess efnahagskerfis sem við búum við í dag. Það er hins vegar umdeilt hvort núverandi hagkerfi geti einnig komið okkur úr vandanum eða hvort þörf sé á að breyta kerfinu. Breski hagfræðingurinn Kate Raworth, höfundur kleinuhringjahagkerfisins, er talskona þess síðarnefnda. Kenning hennar um kleinuhringinn hefur átt fylgi að fagna á undanförnum árum og hafa borgir víðsvegar um heim nú ákveðið að taka upp kleinuhringjamódelið í sinni stefnumótun.

Hag­vöxtur er gjarnan not­aður sem mæli­kvarði á hversu mikil vel­sæld ríkir í til­teknu sam­fé­lagi.

Það er hins vegar ljóst að neyslan – sem er að mestu leyti uppi­staða hag­vaxtar – hefur leitt til ofnýt­ingar á nátt­úru­auð­lindum sem óhjá­kvæmi­lega leiðir til umhverf­is- og lofts­lags­vanda­mála.

Í dag gengur mann­kynið á auð­lindir jarðar meira en nokkru sinni fyrr. Árið 1970 var hrá­efna­vinnsla (e. mater­ial extract­ion) rúm­lega 27 millj­arðar tonna. Hrá­efna­vinnsla hefur auk­ist að með­al­tali um 2,6 pró­sent á ári síðan þá og vinnur mann­kynið nú um 90 millj­arða tonna af hrá­efnum á ári. Ef núver­andi neyslu­hegðun heldur áfram gera spár ráð fyrir því að árið 2050 mun mann­kynið grafa eftir og vinna allt að 180 millj­arða tonna af hrá­efn­um. Það er tvö­falt meira en í dag og nán­ast fjórum sinnum meira en talið er sjálf­bært.

Löngum hefur verið varað við stöð­ugum vexti hag­kerf­is­ins og notk­unar á vergri lands­fram­leiðslu sem mæli­ein­ingu á vel­sæld sam­fé­lags­ins. Það eru 50 ár síðan Róm­ar­klúbb­ur­inn gaf út tíma­móta­skýrsl­una Endi­mörk Vaxtar (e. Limits to Growt­h), þar sem meðal ann­ars er bent á að stærð hag­kerfa sé háð nátt­úru­legum tak­mörk­un­um. Hag­kerfið geti ein­fald­lega ekki vaxið stans­laust á jörðu með tæm­andi auð­lind­ir.

Ýmsar hug­myndir og kenn­ingar eru uppi um það hvernig hægt er að byggja upp sjálf­bært hag­kerfi, sem tekur til­lit til nátt­úru­legra tak­marka. Sú hug­mynd sem hefur átt hvað mestu fylgi að fagna er kleinu­hringja­hag­fræði (e. doug­hnut economics) breska hag­fræð­ings­ins Kate Raworth.

Leið­ar­vísir fyrir 21. öld­ina

Árið 2017 gaf Kate Raworth út met­sölu­bók­ina Doug­hnut Economics: Seven Ways to Think Like a 21st-Cent­ury Economist sem hefur nú verið þýdd á yfir 20 tungu­mál. Raworth hóf nám í hag­fræði við Oxford háskóla árið 1990 en varð þess fljótt áskynja að fræðin voru ekki í takt við tím­ann þar sem þau úti­lok­uðu að mestu leyti umhverf­is­mál og sam­fé­lags­lega ábyrgð. Að mati Raworth voru það einmitt umhverf­is- og sam­fé­lags­málin sem yrðu helstu áskor­anir fram­tíð­ar­inn­ar. Raworth vann meðal ann­ars fyrir mann­úð­ar­sam­tökin Oxfam og árið 2011 bjó hún til kenn­ing­una um kleinu­hring­inn, sem ætlað er að vera leið­ar­vísir að sjálf­bærri fram­tíð.

Kate Raworth á TED-fyrirlestri,
TED.com

Raworth vill meina að hag­fræði tutt­ug­ustu ald­ar­innar hafi verið byggð á hug­myndum um mann­lega hegðun sem er í grund­vall­ar­at­riðum röng. Hún nefnir sem dæmi að hug­myndin um skyn­sama og hag­sýna mann­inn (e. the rational economic man), sem hugsar ávallt um eigin hag og reiknar út kosti og galla allra ákvarð­ana, segir meira um hag­fræð­ing­ana sem búa til kenn­ing­arnar en um það hvernig raun­veru­legar mann­eskjur hugsa og hegða sér.

Raworth bendir á að þrátt fyrir miklar sam­fé­lags­legar breyt­ingar á síð­ustu ára­tugum hefur áhersla stjórn­valda á hag­vöxt lítið breyst. Ekki er spurt hvort að nauð­syn sé á frek­ari vexti, hvort hann sé æski­legur eða jafn­vel mögu­leg­ur.

Mark­mið hag­vaxtar er meðal ann­ars að auka lífs­gæði og vel­ferð ein­stak­linga og er það vissu­lega fram­förum á þessu sviði að þakka að margir lifa við þau lífs­kjör sem raun ber vitni. Hins vegar hefur áherslan á hag­vöxt einnig leitt til gríð­ar­legrar auð­linda­notk­unar og til­heyr­andi umhverf­is­vanda­mála.

Áskor­anir 21. ald­ar­innar

Ef ekki tekst að ná tökum á auð­linda­notkun mun mann­kynið raska vist­kerfum með óaft­ur­kræfum afleið­ing­um. Á hverjum degi er 150 dýra­teg­undum útrýmt, á hverri mín­útu eru skógar höggnir niður á við tutt­ugu og sjö fót­bolta­velli, jörðin hefur hlýnað um 1,2°C miðað við fyrir iðn­bylt­ingu og áætlað er að árið 2050 verði meira af plasti en fiski í sjón­um. Á sama tíma er ójöfn­uð­ur, fátækt, atvinnu­leysi og hungur við­var­andi vanda­mál. Á hverri mín­útu deyja ell­efu manns úr hungri, á sama tíma og mann­kynið hendir þriðj­ungi af öllum mat sem er fram­leidd­ur. Ójöfn­uður vex en rík­asta eitt pró­sent mann­kyns á í dag tvisvar sinnum meiri auð en fátæk­ustu 7 millj­arðar jarð­ar­búa til sam­ans.

Vaxt­ar­for­sendan sem stefnu­mótend­ur, stjórn­mála­menn og hag­fræð­ingar gefa sér ýtir enn frekar undir þessar áskor­an­ir. Jarð­ar­búar eru 8 millj­arðar í dag og spár gera ráð fyrir því að mann­kyn­inu muni fjölga í 10 millj­arða fyrir árið 2050. „Business as usu­al” hag­spár gera ráð fyrir því að hag­kerfið vaxi um 3% á ári. Sem dæmi þýðir það að ef miðað er við árið 2014 mun hag­kerfið tvö­fald­ast að stærð árið 2037, og þre­fald­ast árið 2050, með til­heyr­andi neyslu og ágangi á auð­lindir jarð­ar.

Raworth bendir á að til að takast á við þessar stóru áskor­an­ir, þ.e. upp­fylla grunn­þarfir allra án þess að raska vist­kerfum jarð­ar, þurfi hag­kerfið að breyt­ast. Nauð­syn­legt sé að hörfa frá hug­myndum um línu­legt vaxt­ar­hag­kerfi. Þess í stað þurfi að byggja upp hag­kerfi sem gerir sér grein fyrir nátt­úru­legum þol­mörkum jarðar en sér á sama tíma til þess að að allir borg­arar hafi í sig og á. Með kenn­ingu sinni um kleinu­hring­inn útskýrir Raworth hvernig slíkt hag­kerfi lítur út.

Kleinu­hring­ur­inn í hnot­skurn

Kleinu­hringur er mynd­rænn en Raworth bendir á í bók sinni að áhrifa­rík­ustu hug­myndir eru yfir­leitt þær sem hægt er að sjá fyrir sér. Kleinu­hring­ur­inn er í grunn­inn mynd­lík­ing fyrir hag­kerfi sem hefur vist­fræði­leg og félags­leg mörk.

Innri mörk kleinu­hrings­ins end­ur­spegla grunn­þarfir fólks til að lifa mann­sæm­andi og sóma­sam­legu lífi. Félags­legu grunn­þarf­irnar byggja á heims­mark­miðum Sam­ein­uðu þjóð­anna og er m.a. um að ræða mennt­un, húsa­skjól, hreint vatn, aðgang að raf­magni og auk­inn jöfn­uð. Í miðju kleinu­hrings­ins, þ.e. hol­unni, er þessum grunn­þörfum ekki mætt.

Þegar farið er út fyrir jaðar kleinu­hrings­ins er hins vegar byrjað að þrýsta á þol­mörk jarð­ar­innar og gengið á mik­il­væg „hnatt­ræn mörk“ (e. planet­ary bound­aries). Árið 2009 skil­greindi hópur vís­inda­manna níu hnatt­ræn mörk sem nauð­syn­legt er að virða til að koma í veg fyrir óaft­ur­kræfar breyt­ingar á vist­kerfum jarð­ar. Ytri mörk kleinu­hrings­ins byggja á þessum níu hnatt­rænu mörkum þ.e. lofts­lags­breyt­ing­ar, súrnun sjáv­ar, eyð­ing óson­lags­ins, röskun á nátt­úru­legri hringrás nit­urs og fos­fórs, ferskvatns­notk­un, land­notk­un, tap líf­fræði­legrar fjöl­breytni, loft­mengun og efna­meng­un. Mann­kynið hefur nú þegar farið yfir þol­mörkin í fjórum flokk­um; tap líf­fræði­legrar fjöl­breytni, lofts­lags­breyt­ing­ar, land­notkun og röskun á nátt­úru­legri hringrás nit­urs og fos­fórs.

Á milli félags­legu og vist­fræði­legu þol­markanna er svæði þar sem sjálf­bært efna­hags­kerfi getur þrifist, sem upp­fyllir lífs­þarfir allra án þess að þrýsta á þol­mörk jarð­ar­inn­ar. Þessi stað­ur, þ.e. kleinu­hring­ur­inn sjálf­ur, er það sem Raworth kallar „ör­uggt og rétt­látt svæði fyrir mann­kyn­ið” (e. safe and just space for human­ity).

Að kom­ast inn í kleinu­hring­inn

Til þess að kom­ast í örugga svæði kleinu­hrings­ins þarf sam­kvæmt Raworth að end­ur­hugsa og end­ur­skil­greina hvað efna­hags­legur árangur sé. Hingað til hefur mark­mið stjórn­valda og hag­fræð­inga fyrst og fremst verið hag­vöxt­ur, óháð afleið­ingum á umhverf­ið. Raworth - líkt og reyndar fjöl­margir hag­fræð­ingar - bendir á að hag­vöxtur segi í raun ekk­ert um marga þætti sem hafa áhrif á vel­sæld. Verg lands­fram­leiðsla segir til dæmis ekk­ert um skipt­ingu þess auðs sem fram­leiðslan skap­ar, hún tekur ekki til­lit til virði heim­il­is- eða umönn­un­ar­starfa, sjálf­boða­starfa, umhverf­is­á­hrifa eða félags­legra þátta eins og öryggis eða heilsu. Robert F. Kenn­edy sagði einu sinni að verg lands­fram­leiðsla mælir í stuttu máli allt, nema það sem gefur líf­inu gildi.

EPA

Mark­mið efna­hags­kerf­is­ins ætti að snú­ast um að mæta grunn­þörfum allra án ósjálf­bærs ágangs á plánet­una. Þannig ætti mark­miðið um að „kom­ast inn í kleinu­hring­inn“ að taka við af mark­miði stjórn­valda um hag­vöxt. Raworth segir að heil­brigt hag­kerfi eigi ekki að vaxa heldur þríf­ast.

Það er mik­il­vægt að nefna að Raworth er ekki and­víg hag­vexti eða telji að hann sé óþarf­ur. Það eru ýmsir geirar og greinar sem nauð­syn­lega þurfa að vaxa. Jafn­framt þurfa fátæk­ari lönd á hag­vexti að halda til að kom­ast upp í félags­legu mörk kleinu­hrings­ins. Hag­vexti þarf hins vegar að vera beitt til að ná félags­legu mark­mið­unum án ósjálf­bærs ágangs á jörð­ina en ekki sem mark­mið í sjálfu sér.

Hvernig er staðan í dag?

Í dag er ekk­ert land í heim­inum sem nær að upp­fylla félags­legar grunn­þarfir borg­ara sinna án þess að ganga á vist­fræði­leg þol­mörk. Í grófum dráttum eru rík­ari lönd fyrir ofan vist­fræði­legu þol­mörkin en fátæk­ari lönd ná hins vegar ekki að upp­fylla félags­legu grunn­þarf­irn­ar. Víetnam er það land sem kemst næst því að upp­fylla félags­legar grunn­þarfir borg­ara sinna án ósjálf­bærs ágangs á auð­lindir lands­ins, sam­kvæmt útreikn­ingum Raworth og félaga.

Myndin sýnir hvernig Víetnam tekst best af öllum ríkjum að uppfylla grunnþarfir borgara sinna án þess að fara yfir vistfræðileg þolmörk. Fyrirmyndarríkið myndi vera staðsett efst í vinstra horninu.

Raworth, ásamt hópi fræði­manna, hafa útbúið vef­síðu þar sem hægt er að bera saman árangur landa þegar kemur að því upp­fylla mark­mið kleinu­hrings­ins. Ef Sví­þjóð er borin saman við Víetnam má sjá hvernig Sví­þjóð tekst að upp­fylla nán­ast allar félags­legar grunn­þarfir en fer hins vegar yfir nán­ast öll vist­fræði­leg þol­mörk. Víetnam fer ein­ungis yfir vist­fræði­leg þol­mörk þegar kemur að losun gróð­ur­húsa­loft­teg­unda en tekst ekki að upp­fylla ákveðna félags­lega þætti eins og jafn­rétti kynja og póli­tísk áhrif almenn­ings. Rann­sókn­arteymið hefur því miður ekki reiknað út kleinu­hring­inn fyrir Ísland.

Kleinu­hring­ur­inn í praktík

Hug­myndin um kleinu­hringja­hag­kerfið hefur fengið lof úr ýmsum áttum og hafa borgir víðs­vegar um heim nú tekið upp kleinu­hringja­mód­elið í sinni stefnu­mót­un. Í apríl árið 2020, í fyrstu bylgju Covid-19 far­ald­urs­ins, ákvað Amster­dam að til­einka sér kleinu­hring­inn í stefnu­mótun sinni og byggja þannig upp sjálf­bært efna­hags­kerfi eftir heims­far­ald­ur­inn. Kaup­manna­höfn hefur ákveðið að fylgja for­dæmi Amster­dam og hafa Bar­selóna, Brus­sel, og Nanaimo í Kanada gert slíkt hið sama.

Frans páfi hefur meðal ann­ars hælt hug­mynd­inni og for­seti Írlands, Micheal D. Higg­ins, hefur sagt að meg­in­mark­mið mann­kyns­ins ætti að vera að lifa inn í kleinu­hringn­um.

Sjón­varps­mað­ur­inn og nátt­úru­fræð­ing­ur­inn David Atten­borough til­eink­aði kleinu­hringnum kafla í bók sinni A Life on Our Planet og sagði kleinu­hring­inn vera „leið­ar­vísi að sjálf­bærri fram­tíð“.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnRakel Guðmundsdóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar