EPA

Mun kleinuhringurinn bjarga okkur?

Flest þau umhverfisvandamál sem heimurinn stendur frammi fyrir má rekja til þess efnahagskerfis sem við búum við í dag. Það er hins vegar umdeilt hvort núverandi hagkerfi geti einnig komið okkur úr vandanum eða hvort þörf sé á að breyta kerfinu. Breski hagfræðingurinn Kate Raworth, höfundur kleinuhringjahagkerfisins, er talskona þess síðarnefnda. Kenning hennar um kleinuhringinn hefur átt fylgi að fagna á undanförnum árum og hafa borgir víðsvegar um heim nú ákveðið að taka upp kleinuhringjamódelið í sinni stefnumótun.

Hag­vöxtur er gjarnan not­aður sem mæli­kvarði á hversu mikil vel­sæld ríkir í til­teknu sam­fé­lagi.

Það er hins vegar ljóst að neyslan – sem er að mestu leyti uppi­staða hag­vaxtar – hefur leitt til ofnýt­ingar á nátt­úru­auð­lindum sem óhjá­kvæmi­lega leiðir til umhverf­is- og lofts­lags­vanda­mála.

Í dag gengur mann­kynið á auð­lindir jarðar meira en nokkru sinni fyrr. Árið 1970 var hrá­efna­vinnsla (e. mater­ial extract­ion) rúm­lega 27 millj­arðar tonna. Hrá­efna­vinnsla hefur auk­ist að með­al­tali um 2,6 pró­sent á ári síðan þá og vinnur mann­kynið nú um 90 millj­arða tonna af hrá­efnum á ári. Ef núver­andi neyslu­hegðun heldur áfram gera spár ráð fyrir því að árið 2050 mun mann­kynið grafa eftir og vinna allt að 180 millj­arða tonna af hrá­efn­um. Það er tvö­falt meira en í dag og nán­ast fjórum sinnum meira en talið er sjálf­bært.

Löngum hefur verið varað við stöð­ugum vexti hag­kerf­is­ins og notk­unar á vergri lands­fram­leiðslu sem mæli­ein­ingu á vel­sæld sam­fé­lags­ins. Það eru 50 ár síðan Róm­ar­klúbb­ur­inn gaf út tíma­móta­skýrsl­una Endi­mörk Vaxtar (e. Limits to Growt­h), þar sem meðal ann­ars er bent á að stærð hag­kerfa sé háð nátt­úru­legum tak­mörk­un­um. Hag­kerfið geti ein­fald­lega ekki vaxið stans­laust á jörðu með tæm­andi auð­lind­ir.

Ýmsar hug­myndir og kenn­ingar eru uppi um það hvernig hægt er að byggja upp sjálf­bært hag­kerfi, sem tekur til­lit til nátt­úru­legra tak­marka. Sú hug­mynd sem hefur átt hvað mestu fylgi að fagna er kleinu­hringja­hag­fræði (e. doug­hnut economics) breska hag­fræð­ings­ins Kate Raworth.

Leið­ar­vísir fyrir 21. öld­ina

Árið 2017 gaf Kate Raworth út met­sölu­bók­ina Doug­hnut Economics: Seven Ways to Think Like a 21st-Cent­ury Economist sem hefur nú verið þýdd á yfir 20 tungu­mál. Raworth hóf nám í hag­fræði við Oxford háskóla árið 1990 en varð þess fljótt áskynja að fræðin voru ekki í takt við tím­ann þar sem þau úti­lok­uðu að mestu leyti umhverf­is­mál og sam­fé­lags­lega ábyrgð. Að mati Raworth voru það einmitt umhverf­is- og sam­fé­lags­málin sem yrðu helstu áskor­anir fram­tíð­ar­inn­ar. Raworth vann meðal ann­ars fyrir mann­úð­ar­sam­tökin Oxfam og árið 2011 bjó hún til kenn­ing­una um kleinu­hring­inn, sem ætlað er að vera leið­ar­vísir að sjálf­bærri fram­tíð.

Kate Raworth á TED-fyrirlestri,
TED.com

Raworth vill meina að hag­fræði tutt­ug­ustu ald­ar­innar hafi verið byggð á hug­myndum um mann­lega hegðun sem er í grund­vall­ar­at­riðum röng. Hún nefnir sem dæmi að hug­myndin um skyn­sama og hag­sýna mann­inn (e. the rational economic man), sem hugsar ávallt um eigin hag og reiknar út kosti og galla allra ákvarð­ana, segir meira um hag­fræð­ing­ana sem búa til kenn­ing­arnar en um það hvernig raun­veru­legar mann­eskjur hugsa og hegða sér.

Raworth bendir á að þrátt fyrir miklar sam­fé­lags­legar breyt­ingar á síð­ustu ára­tugum hefur áhersla stjórn­valda á hag­vöxt lítið breyst. Ekki er spurt hvort að nauð­syn sé á frek­ari vexti, hvort hann sé æski­legur eða jafn­vel mögu­leg­ur.

Mark­mið hag­vaxtar er meðal ann­ars að auka lífs­gæði og vel­ferð ein­stak­linga og er það vissu­lega fram­förum á þessu sviði að þakka að margir lifa við þau lífs­kjör sem raun ber vitni. Hins vegar hefur áherslan á hag­vöxt einnig leitt til gríð­ar­legrar auð­linda­notk­unar og til­heyr­andi umhverf­is­vanda­mála.

Áskor­anir 21. ald­ar­innar

Ef ekki tekst að ná tökum á auð­linda­notkun mun mann­kynið raska vist­kerfum með óaft­ur­kræfum afleið­ing­um. Á hverjum degi er 150 dýra­teg­undum útrýmt, á hverri mín­útu eru skógar höggnir niður á við tutt­ugu og sjö fót­bolta­velli, jörðin hefur hlýnað um 1,2°C miðað við fyrir iðn­bylt­ingu og áætlað er að árið 2050 verði meira af plasti en fiski í sjón­um. Á sama tíma er ójöfn­uð­ur, fátækt, atvinnu­leysi og hungur við­var­andi vanda­mál. Á hverri mín­útu deyja ell­efu manns úr hungri, á sama tíma og mann­kynið hendir þriðj­ungi af öllum mat sem er fram­leidd­ur. Ójöfn­uður vex en rík­asta eitt pró­sent mann­kyns á í dag tvisvar sinnum meiri auð en fátæk­ustu 7 millj­arðar jarð­ar­búa til sam­ans.

Vaxt­ar­for­sendan sem stefnu­mótend­ur, stjórn­mála­menn og hag­fræð­ingar gefa sér ýtir enn frekar undir þessar áskor­an­ir. Jarð­ar­búar eru 8 millj­arðar í dag og spár gera ráð fyrir því að mann­kyn­inu muni fjölga í 10 millj­arða fyrir árið 2050. „Business as usu­al” hag­spár gera ráð fyrir því að hag­kerfið vaxi um 3% á ári. Sem dæmi þýðir það að ef miðað er við árið 2014 mun hag­kerfið tvö­fald­ast að stærð árið 2037, og þre­fald­ast árið 2050, með til­heyr­andi neyslu og ágangi á auð­lindir jarð­ar.

Raworth bendir á að til að takast á við þessar stóru áskor­an­ir, þ.e. upp­fylla grunn­þarfir allra án þess að raska vist­kerfum jarð­ar, þurfi hag­kerfið að breyt­ast. Nauð­syn­legt sé að hörfa frá hug­myndum um línu­legt vaxt­ar­hag­kerfi. Þess í stað þurfi að byggja upp hag­kerfi sem gerir sér grein fyrir nátt­úru­legum þol­mörkum jarðar en sér á sama tíma til þess að að allir borg­arar hafi í sig og á. Með kenn­ingu sinni um kleinu­hring­inn útskýrir Raworth hvernig slíkt hag­kerfi lítur út.

Kleinu­hring­ur­inn í hnot­skurn

Kleinu­hringur er mynd­rænn en Raworth bendir á í bók sinni að áhrifa­rík­ustu hug­myndir eru yfir­leitt þær sem hægt er að sjá fyrir sér. Kleinu­hring­ur­inn er í grunn­inn mynd­lík­ing fyrir hag­kerfi sem hefur vist­fræði­leg og félags­leg mörk.

Innri mörk kleinu­hrings­ins end­ur­spegla grunn­þarfir fólks til að lifa mann­sæm­andi og sóma­sam­legu lífi. Félags­legu grunn­þarf­irnar byggja á heims­mark­miðum Sam­ein­uðu þjóð­anna og er m.a. um að ræða mennt­un, húsa­skjól, hreint vatn, aðgang að raf­magni og auk­inn jöfn­uð. Í miðju kleinu­hrings­ins, þ.e. hol­unni, er þessum grunn­þörfum ekki mætt.

Þegar farið er út fyrir jaðar kleinu­hrings­ins er hins vegar byrjað að þrýsta á þol­mörk jarð­ar­innar og gengið á mik­il­væg „hnatt­ræn mörk“ (e. planet­ary bound­aries). Árið 2009 skil­greindi hópur vís­inda­manna níu hnatt­ræn mörk sem nauð­syn­legt er að virða til að koma í veg fyrir óaft­ur­kræfar breyt­ingar á vist­kerfum jarð­ar. Ytri mörk kleinu­hrings­ins byggja á þessum níu hnatt­rænu mörkum þ.e. lofts­lags­breyt­ing­ar, súrnun sjáv­ar, eyð­ing óson­lags­ins, röskun á nátt­úru­legri hringrás nit­urs og fos­fórs, ferskvatns­notk­un, land­notk­un, tap líf­fræði­legrar fjöl­breytni, loft­mengun og efna­meng­un. Mann­kynið hefur nú þegar farið yfir þol­mörkin í fjórum flokk­um; tap líf­fræði­legrar fjöl­breytni, lofts­lags­breyt­ing­ar, land­notkun og röskun á nátt­úru­legri hringrás nit­urs og fos­fórs.

Á milli félags­legu og vist­fræði­legu þol­markanna er svæði þar sem sjálf­bært efna­hags­kerfi getur þrifist, sem upp­fyllir lífs­þarfir allra án þess að þrýsta á þol­mörk jarð­ar­inn­ar. Þessi stað­ur, þ.e. kleinu­hring­ur­inn sjálf­ur, er það sem Raworth kallar „ör­uggt og rétt­látt svæði fyrir mann­kyn­ið” (e. safe and just space for human­ity).

Að kom­ast inn í kleinu­hring­inn

Til þess að kom­ast í örugga svæði kleinu­hrings­ins þarf sam­kvæmt Raworth að end­ur­hugsa og end­ur­skil­greina hvað efna­hags­legur árangur sé. Hingað til hefur mark­mið stjórn­valda og hag­fræð­inga fyrst og fremst verið hag­vöxt­ur, óháð afleið­ingum á umhverf­ið. Raworth - líkt og reyndar fjöl­margir hag­fræð­ingar - bendir á að hag­vöxtur segi í raun ekk­ert um marga þætti sem hafa áhrif á vel­sæld. Verg lands­fram­leiðsla segir til dæmis ekk­ert um skipt­ingu þess auðs sem fram­leiðslan skap­ar, hún tekur ekki til­lit til virði heim­il­is- eða umönn­un­ar­starfa, sjálf­boða­starfa, umhverf­is­á­hrifa eða félags­legra þátta eins og öryggis eða heilsu. Robert F. Kenn­edy sagði einu sinni að verg lands­fram­leiðsla mælir í stuttu máli allt, nema það sem gefur líf­inu gildi.

EPA

Mark­mið efna­hags­kerf­is­ins ætti að snú­ast um að mæta grunn­þörfum allra án ósjálf­bærs ágangs á plánet­una. Þannig ætti mark­miðið um að „kom­ast inn í kleinu­hring­inn“ að taka við af mark­miði stjórn­valda um hag­vöxt. Raworth segir að heil­brigt hag­kerfi eigi ekki að vaxa heldur þríf­ast.

Það er mik­il­vægt að nefna að Raworth er ekki and­víg hag­vexti eða telji að hann sé óþarf­ur. Það eru ýmsir geirar og greinar sem nauð­syn­lega þurfa að vaxa. Jafn­framt þurfa fátæk­ari lönd á hag­vexti að halda til að kom­ast upp í félags­legu mörk kleinu­hrings­ins. Hag­vexti þarf hins vegar að vera beitt til að ná félags­legu mark­mið­unum án ósjálf­bærs ágangs á jörð­ina en ekki sem mark­mið í sjálfu sér.

Hvernig er staðan í dag?

Í dag er ekk­ert land í heim­inum sem nær að upp­fylla félags­legar grunn­þarfir borg­ara sinna án þess að ganga á vist­fræði­leg þol­mörk. Í grófum dráttum eru rík­ari lönd fyrir ofan vist­fræði­legu þol­mörkin en fátæk­ari lönd ná hins vegar ekki að upp­fylla félags­legu grunn­þarf­irn­ar. Víetnam er það land sem kemst næst því að upp­fylla félags­legar grunn­þarfir borg­ara sinna án ósjálf­bærs ágangs á auð­lindir lands­ins, sam­kvæmt útreikn­ingum Raworth og félaga.

Myndin sýnir hvernig Víetnam tekst best af öllum ríkjum að uppfylla grunnþarfir borgara sinna án þess að fara yfir vistfræðileg þolmörk. Fyrirmyndarríkið myndi vera staðsett efst í vinstra horninu.

Raworth, ásamt hópi fræði­manna, hafa útbúið vef­síðu þar sem hægt er að bera saman árangur landa þegar kemur að því upp­fylla mark­mið kleinu­hrings­ins. Ef Sví­þjóð er borin saman við Víetnam má sjá hvernig Sví­þjóð tekst að upp­fylla nán­ast allar félags­legar grunn­þarfir en fer hins vegar yfir nán­ast öll vist­fræði­leg þol­mörk. Víetnam fer ein­ungis yfir vist­fræði­leg þol­mörk þegar kemur að losun gróð­ur­húsa­loft­teg­unda en tekst ekki að upp­fylla ákveðna félags­lega þætti eins og jafn­rétti kynja og póli­tísk áhrif almenn­ings. Rann­sókn­arteymið hefur því miður ekki reiknað út kleinu­hring­inn fyrir Ísland.

Kleinu­hring­ur­inn í praktík

Hug­myndin um kleinu­hringja­hag­kerfið hefur fengið lof úr ýmsum áttum og hafa borgir víðs­vegar um heim nú tekið upp kleinu­hringja­mód­elið í sinni stefnu­mót­un. Í apríl árið 2020, í fyrstu bylgju Covid-19 far­ald­urs­ins, ákvað Amster­dam að til­einka sér kleinu­hring­inn í stefnu­mótun sinni og byggja þannig upp sjálf­bært efna­hags­kerfi eftir heims­far­ald­ur­inn. Kaup­manna­höfn hefur ákveðið að fylgja for­dæmi Amster­dam og hafa Bar­selóna, Brus­sel, og Nanaimo í Kanada gert slíkt hið sama.

Frans páfi hefur meðal ann­ars hælt hug­mynd­inni og for­seti Írlands, Micheal D. Higg­ins, hefur sagt að meg­in­mark­mið mann­kyns­ins ætti að vera að lifa inn í kleinu­hringn­um.

Sjón­varps­mað­ur­inn og nátt­úru­fræð­ing­ur­inn David Atten­borough til­eink­aði kleinu­hringnum kafla í bók sinni A Life on Our Planet og sagði kleinu­hring­inn vera „leið­ar­vísi að sjálf­bærri fram­tíð“.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnRakel Guðmundsdóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar