Viðmiðunarverð á bensíni hækkaði um 1,9 krónur milli mánaða og var 322,1 krónur á lítra um miðjan nóvember. Frá miðjum septembermánuði hefur það hækkað um næstum sjö krónur á lítra og er nú 320,20 krónur. Það sem af er þessu ári hefur verðið hækkað um tæp 21 prósent.
Verðið í júlí var það hæsta sem það hefur nokkru sinni verið í krónum talið, eða 341,9 krónur á lítra. Það hafði þá hækkað um 71 prósent á tveimur árum og um 28 prósent frá því í janúar. Uppreiknað miðað við þróun vísitölu neysluverðs á bensínlítrinn þó nokkuð í land með að ná sínu hæsta verði, en það náðist í apríl 2012.
Þetta má lesa út úr nýjustu bensínvakt Kjarnans.
Verðlækkunin sem varð síðsumars var þó ekki í neinum takti við þá þróun sem hefur orðið á heimsmarkaði með olíu, en heimsmarkaðsverðið á tunnu af hráolíu hafði lækkað um tæplega 30 prósent milli júní og miðs september á meðan að verðið lækkaði um 7,5 prósent hérlendis.
Líklegt innkaupaverð olíufélaganna á lítra af bensíni er nú 120,5 krónur samkvæmt útreikningum bensínvaktarinnar, sem ákvarðast einkum annars vegar af heimsmarkaðsverði á olíu og hins vegar gengi krónunnar gagnvart Bandaríkjadal. Líklegt innkaupaverð fór í fyrsta sinn síðan í febrúar, áður en stríðið í Úkraínu skall á, undir 100 krónum á lítra í septembermánuði. Frá því að það náði hámarki á þessu ári, í júní, hefur líklegt innkaupaverð lækkað um 19 prósent.
Hlutur olíufélaga farinn að minnka á ný
Hlutur olíufélaga er nú 49,79 krónur. Hann hefur lækkað um rúmlega 23 prósent á tveimur mánuðum. Alls taka olíufélögin nú til sín 15,5 prósent af söluandvirði hvers selds lítra. Hlutfallslega tóku þau mest af hverjum lítra, 30,3 prósent, í apríl 2020, þegar bensínverð var hærra en nokkru sinni í Íslandssögunni. Það er eina skiptið sem hlutur olíufélaga hefur farið yfir 30 prósent síðan í nóvember 2008.
Hlutur olíufélaganna í hverjum seldum lítra jókst frá maí og fram í september. Hann rúmlega tvöfaldaðist í krónum talið, en hefur síðan farið lækkandi á ný.
Að hluta til má skýra þessa breytingu með því að olíufélögin voru ekki að velta hækkunum á heimsmarkaðsverði að fullu út í verðlagið framan af ári. Með því héldu þau að einhverju leyti aftur af hækkunum og minnkuðu hagnað sinn af eldsneytissölu. Þetta breyttist í sumar. Samhliða því að innkaupaverðið lækkaði kroppuðu olíufélögin til baka þá álagningu sem þau gáfu eftir fyrr á árinu 2022.
Álögur ríkisins hækka á næsta ári
Hlutur ríkisins í hverjum seldum bensínlítra, sem samanstendur af virðisaukaskatti, almennu og sérstöku bensíngjaldi og kolefnisgjaldi er nú 151,74 krónur á hvern lítra af seldu bensíni. Það þýðir að 47 prósent af hverjum lítra fer í ríkissjóð.
Bifreiðareigendur geta búist við því að greiða meira í ríkissjóð á næsta ári en þeir gera í ár. Samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs er áætlað að tekjur ríkissjóðs vegna vörugjalda af ökutækjum aukist um 2,7 milljarða króna og verði 8,2 milljarðar króna á næsta ári.
Vörugjöld af bensíni aukast um 440 milljónir króna milli ára og verða 9,3 milljarðar króna, kolefnisgjöld aukast um 560 milljónir og verða 7,5 milljarðar króna og olíugjaldið eykst um tæpan milljarð króna og verður rúmlega 13,5 milljarðar króna.
Kílómetragjald mun skila rúmlega 1,6 milljarð króna í ríkissjóð og bifreiðagjöld 10,6 milljörðum króna.
Gögn og aðferðafræði
Hér að ofan er birt niðurstaða útreikninga og áætlunar á því hvernig verð á lítra af bensíni skiptist milli aðila í framsetningu GRID.
- Viðmiðunarverð er fengið frá hugbúnaðarfyrirtækinu Seið ehf. sem meðal annars heldur úti síðunni Bensínverð.is og fylgst hefur með bensínverði á flestum bensínstöðum landsins daglega síðan 2007. Miðað er við næstlægstu verðtölu í yfirlitinu til að forðast að einhverju leyti áhrif tímabundinnar verðsamkeppni á allra lægsta verð. Viðmiðunarverðið er þó með lægstu verðum og sýnir þar með lægri hlut olíufélagsins en reikna má með að raunin sé meðaltalið af öllu seldu bensíni á landinu.
- Hlutur ríkisins liggur ljós fyrir út frá sköttum sem eru ýmist fastir og hlutfallslegir. Upplýsingar um breytingar á skattalögum eru fengnar frá Viðskiptaráði sem fylgst hefur með slíkum breytingum um árabil.
- Líklegt innkaupaverð er reiknað útfrá verði á bensíni til afhendingar í New York-höfn í upphafi mánaðar frá bandarísku orkustofnuninni EIA og miðgengi dollars gagnvart íslenskri krónu í yfirstandandi mánuði frá Seðlabanka Íslands. Í þessum útreikningum kann að skeika nokkru á hverjum tímapunkti vegna lagerstöðu, skammtímasveiflna á markaði o.s.frv. Nákvæmara væri að miða við verð á bensíni til afhendingar í Rotterdam, en verðupplýsingar þaðan liggja ekki fyrir á opnum gagnaveitum. Mismunur á verði í New York og Rotterdam er þó yfirleitt mjög lítill.
- Hlutur olíufélags er loks reiknaður sem afgangsstærð enda haldgóðar upplýsingar um einstaka kostnaðarliði olíufélaganna ekki opinberar. Hafa ber í huga að þar sem viðmiðunarverð er með lægstu verðum á hverjum tíma er þessi liður ef til vill einhverju hærri sé litið til heildarviðskipta með bensín á Íslandi.
Verðupplýsingar miðast við verðlag hvers tíma. Gögnin eru uppfærð mánaðarlega í kringum 15. hvers mánaðar. Fyrirvari er gerður um skekkjumörk sem þó ættu í mesta lagi að nema fáeinum krónum á útreiknaða liði. Ábendingar um villur, lagfæringar og betrumbætur skal senda á gogn@kjarninn.is og er tekið fagnandi.