Bensínlítrinn lækkaði í fyrsta sinn á þessu ári en hlutdeild olíufélaganna í hverjum seldum lítra eykst
Framan af ári voru olíufélögin ekki að velta miklum hækkunum á bensíni út í verðið sem neytendum var boðið upp á. Nú þegar heimsmarkaðsverð hefur lækkað umtalsvert eru félögin að sama skapi að velta lækkunum hægar út í verðlagið en tilefni er til.
Viðmiðunarverð á bensíni lækkaði í fyrsta sinn í langan tíma milli mánaða, samkvæmt nýjustu Bensínvakt Kjarnans. Það stendur nú í 328,4 krónum og lækkaði alls um 17,1 krónur milli mánaða, eða fimm prósent. Þetta er í fyrsta sinn á þessu ári sem viðmiðunarverðið lækkar milli mánaða.
Verðið í síðasta mánuði var það hæsta sem það hefur nokkru sinni verið í krónum talið, eða 341,9 krónur á lítra. Það hafði þá hækkað um 71 prósent á tveimur árum og um 28 prósent frá því í janúar. Uppreiknað miðað við þróun vísitölu neysluverðs á bensínlítrinn þó nokkuð í land með að ná sínu hæsta verði, en það náðist í apríl 2012.
Þetta má lesa út úr nýjustu bensínvakt Kjarnans.
Verðlækkunin er þó ekki í neinum takti við þá þróun sem hefur orðið á heimsmarkaði með olíu, en heimsmarkaðsverðið á tunnu af hráolíu hefur lækkað um rúmlega næstum 30 prósent á rúmum tveimur mánuðum. Á sama tíma hefur verðið lækkað um tæp fimm prósent hérlendis.
Á sama tíma hefur gengi krónu gagnvart Bandaríkjadal veikst um tæp sex prósent, en það gengi hefur umtalsverð áhrif á þróun eldsneytisverðs hérlendis þar sem að innkaup á eldsneyti fara fram í dölum. Því dýrari sem dalurinn er, því meira borgum við fyrir bensín.
Mikilvægt er að hafa í huga að viðmiðunarverðið miðar við næstlægstu verðtölu í yfirliti síðunnar Bensínverð.is, sem hugbúnaðarfyrirtækið Seiður heldur úti, til að forðast að einhverju leyti áhrif tímabundinnar verðsamkeppni á allra lægsta verð. Viðmiðunarverðið er þó ætið með lægstu verðum.
Lækkun olíuverðs temprar verðbólgu
Félag íslenskra bifreiðareigenda (FÍB) gagnrýndi á heimasíðu sinni í síðustu viku að bensín- og díselverð væri enn óeðlilega hátt hérlendis þrátt fyrir miklar lækkanir á heimsmarkaðsverði síðustu tvo mánuði. Í umfjöllun þess er bent á bensín í Danmörku lækkað um 18,4 prósent og dísilolía um 16,8 prósent á meðan að lækkunin hérlendis er örfá prósent. „Bensínverð á Íslandi og í Danmörku var svipað í báðum löndum snemma í júní. Núna er verðmunurinn á milli landanna yfir 55 krónur á hvern lítra af bensíni. Eldsneyti ber háa skatta á Íslandi og ekki minni skatta í Danmörku. Hlutfallsleg lækkun nær ekki til krónutöluskatta bæði hér heima og í Danmörku. Þennan mikla mun á verðlækkun milli landa er engan vegin hægt að réttlæta.“
Verðbólga mælist mælist 9,9 prósent og stefnir í tveggja stafa tölu. Til að reyna að hemja verðbólguna hefur Seðlabanki Íslands hækkað stýrivexti sína skarpt á skömmum tíma, upp í 4,75 prósent, og væntingar eru um að það hækkunarferli haldi áfram í næsta mánuði. Þetta hefur haft mikil áhrif á ráðstöfunartekjur heimila, enda flest nauðsynjavara dýrari með aukinni verðbólgu auk þess sem afborganir lána aukast mikið.
Í umfjöllun FÍB er bent á að eldsneytisverð vegi þungt í vísitölu neysluverðs og þar með í verðbólgu. „Olíufélögin hafa mikil áhrif á afkomu heimila og fyrirtækja langt umfram lítraverðið. Lækkun olíuverðs temprar verðbólgu en hátt verð kyndir verðbólgubálið.“
Þá gagnrýnir félagið það harðlega að forstjóri Skeljungs hafi sagt við RÚV í byrjun síðustu viku að olíufélögin hafi haldið aftur af verðhækkunum. „Rökin voru þau að framlegðin af hverjum seldum lítra væri lægri um þessar mundir en hún var fyrir Covid-19. Það er athyglisvert að forstjóri Skeljungs talar fyrir hönd allra olíufélaganna sem eiga að heita að vera í samkeppni. Síðan er það framlegðin sem getur ekki verið hlutfallstala í eðlilegri samkeppni þegar um er að ræða vöru sem tekur miklum verðsveiflum og er mjög hátt skattlögð.“
Hlutur olíufélaga að aukast að nýju
Bensínvakt Kjarnans skoðar einmitt þetta, hvernig krónurnar sem neytandinn greiðir fyrir bensínlítrann skiptist milli ríkis, olíufélaga og annarra. Líklegt innkaupaverð á lítra af bensíni er nú 115,1 krónur á lítra, og hefur lækkað um 22,5 prósent á tveimur mánuðum.
Þegar þær tölur eru skoðaðar sést að hlutur olíufélaga í hverjum seldum lítra fylgdi ekki þeim miklu hækkunum á innkaupaverði sem urðu framan af ári. Það þýðir að félögin voru ekki að velta hækkunum á heimsmarkaðsverði að fullu út í verðlagið. Það er nú að breytast.
Hann er nú 57,4 krónur eða um 17,7 prósent af hverjum seldum lítra. Í júlí var hann 48 krónur eða 14 prósent af hverjum seldum lítra. Hlutur olíufélaganna í hverjum seldum lítra jókst því um 19 prósent milli júlí og ágústmánaða og um 55 prósent á síðustu tveimur mánuðum.
Samanlagt fer því 172,54 krónur af hverjum seldum lítra til annarra en ríkisins, þ.e. þeirra sem selja smásölum á eldsneyti vöruna og til smásalanna sjálfra.
Hlutur ríkisins í hverjum seldum bensínlítra, sem samanstendur af virðisaukaskatti, almennu og sérstöku bensíngjaldi og kolefnisgjaldi er nú 152,56 krónur á hvern lítra af seldu bensíni og fer lækkandi í krónum talið en hlutfallslega hækkandi. Það þýðir að 46,9 prósent af hverjum lítra fer í ríkissjóð.
Gögn og aðferðafræði
Hér að ofan er birt niðurstaða útreikninga og áætlunar á því hvernig verð á lítra af bensíni skiptist milli aðila í framsetningu GRID.
- Viðmiðunarverð er fengið frá hugbúnaðarfyrirtækinu Seið ehf. sem meðal annars heldur úti síðunni Bensínverð.is og fylgst hefur með bensínverði á flestum bensínstöðum landsins daglega síðan 2007. Miðað er við næstlægstu verðtölu í yfirlitinu til að forðast að einhverju leyti áhrif tímabundinnar verðsamkeppni á allra lægsta verð. Viðmiðunarverðið er þó með lægstu verðum og sýnir þar með lægri hlut olíufélagsins en reikna má með að raunin sé meðaltalið af öllu seldu bensíni á landinu.
- Hlutur ríkisins liggur ljós fyrir út frá sköttum sem eru ýmist fastir og hlutfallslegir. Upplýsingar um breytingar á skattalögum eru fengnar frá Viðskiptaráði sem fylgst hefur með slíkum breytingum um árabil.
- Líklegt innkaupaverð er reiknað útfrá verði á bensíni til afhendingar í New York-höfn í upphafi mánaðar frá bandarísku orkustofnuninni EIA og miðgengi dollars gagnvart íslenskri krónu í yfirstandandi mánuði frá Seðlabanka Íslands. Í þessum útreikningum kann að skeika nokkru á hverjum tímapunkti vegna lagerstöðu, skammtímasveiflna á markaði o.s.frv. Nákvæmara væri að miða við verð á bensíni til afhendingar í Rotterdam, en verðupplýsingar þaðan liggja ekki fyrir á opnum gagnaveitum. Mismunur á verði í New York og Rotterdam er þó yfirleitt mjög lítill.
- Hlutur olíufélags er loks reiknaður sem afgangsstærð enda haldgóðar upplýsingar um einstaka kostnaðarliði olíufélaganna ekki opinberar. Hafa ber í huga að þar sem viðmiðunarverð er með lægstu verðum á hverjum tíma er þessi liður ef til vill einhverju hærri sé litið til heildarviðskipta með bensín á Íslandi.
Verðupplýsingar miðast við verðlag hvers tíma. Gögnin eru uppfærð mánaðarlega í kringum 15. hvers mánaðar. Fyrirvari er gerður um skekkjumörk sem þó ættu í mesta lagi að nema fáeinum krónum á útreiknaða liði. Ábendingar um villur, lagfæringar og betrumbætur skal senda á gogn@kjarninn.is og er tekið fagnandi.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði