Verð á 95 oktana bensíni á Íslandi hefur lækkað um 21,9 prósent frá því í júlí í fyrra. Þá kostaði lítri af bensíni 251,5 krónur en í dag er lægsta lítraverðið 196,5 krónur. Hann hefur því lækkað um 55 krónur á 15 mánuðum.
Allt árið í fyrra voru fluttir inn 178 milljónir lítrar af 95 oktana bensíni. Miðað við lítraverðið í júlí í fyrra hefði það magn kostað íslenska neytendur um 45 milljarða króna. Ef miðað er við verð dagsins í dag myndu þeir greiða 35 milljarða króna fyrir sama magn af bensíni. Munurinn er um tíu milljarðar króna á ársgrundvelli. Auk þess sparar þessi lækkun þjóðarbúinu milljarða króna í gjaldeyri. Þessi mikla lækkun á bensínverði, og öllu öðru eldsneyti, er ráðandi þáttur í því að innflutt verðbólga hefur dregist saman. Það hefur leitt til þess að verðbólga hefur haldist lág í ár þrátt fyrir að innlend verðbólga sé fjögur til fimm prósent.
Hugi Hreiðarsson, markaðsstjóri Atlantsolíu, segir að áætlaður gjaldeyrissparnaður vegna lægra eldsneytisverðs í september einum saman sé um hálfur milljarður króna. Það þýðir að um sex milljarðar króna af gjaldeyri sparist á ársgrundvelli. Hann segir að Hollendingar greiði nú næsta bensínverð í Evrópu, eða 224 krónur á lítra, og fast á hæla þeirra komi Norðmenn, sem greiði 222 krónur á lítra. Hollendingar borga því 27 krónum meira en Íslendingar fyrir hvern lítra af bensíni.
Heimsmarkaðsverð lækkað um rúm 60 prósent
Ástæðan fyrir þessari miklu lækkun er einföld: heimsmarkaðsverð á olíu hefur hríðfallið frá miðju síðasta ári. Í júní 2014 kostaði tunna af Brent-olíu 115,9 dali. Hún kostar nú 45,46 dali og hefur því lækkað um 61 prósent á sextán mánuðum. Verðið hefur ekki verið svona lágt síðan á árinu 2009.
Kjarninn greindi frá því í fréttaskýringu 4. ágúst síðastliðinn að samhliða þessum lækkunum á heimsmarkaði hefði útsöluverð olíufélaganna á Íslandi á 95 oktana bensíni lækkað um 12,1 prósent. Ein ástæða þess að bensínverðið hafði ekki lækkað meira var sú að álagning íslensku olíufélagana hafði aukist á tímabilinu. Félag íslenskra bifreiðareigenda áætlaði þá að sú hækkun á álagningu sem átt hafði sér stað hefði aukið útgjöld neytenda um hálfan milljarð króna á einu ári.
Bensínverð hefur hins vegar lækkað hratt hérlendis undanfarna mánuði. Í júlí 2015 var verð á lítra af 95 oktana bensíni 225,6 krónur. Á þremur mánuðum hefur verðið því lækkað um tæp þrettán prósent og er komið nokkuð undir 200 krónur á lítra.
Ríkið tekur um helming til sín
Það er eðlilegt að útsöluverð á eldsneyti lækki ekki til jafns við lækkun á heimsmarkaðsverði á olíu, þótt vissulega séu deildar meiningar um hversu mörgum krónum lækkun á heimsmarkaðsverði ætti að skila í vasa neytenda hverju sinni. Íslenskir eldsneytissalar þurfa til dæmis að gera ráð fyrir innkaupaverði, sköttum álagningu og flutningskostnaði í útsöluverði sínu. Og gengi íslensku krónunnar skiptir líka máli, enda greitt fyrir eldsneyti með gjaldeyri. Íslenska krónan hefur lækkað töluvert gagnvart Bandaríkjadal frá því í júní á síðasta ári, eða um níu prósent,og það hefur neikvæð áhrif á lækkun á eldsneytisverði til neytenda.
Önnur ástæða sem oft er nefnd er sú að olíufélögin eigi svo miklar uppsafnaðar birgðir af eldsneyti sem keyptar hafi verið á hærra verði. Því taki tíma fyrir lækkanir á heimsmarkaðsverði að skila sér út í verðlagið sem íslenskir neytendur verða að sætta sig við. Þegar langt lækkunarskeið á sér stað eiga þau rök þó augljóslega ekki við og ljóst að á einhverjum tímapunkti verði lækkun á heimsmarkaðsverði alltaf að skila í útsöluverði.
Það er rétt að stór ástæða þess að verð á bensín og dísel er jafnt hátt og raun ber vitni hérlendis er sú að ríkið tekur til sín um helming eldsneytisverðis til sín í formi ýmissa gjalda og skatta sem það leggur á. Þar er átt við sérstakt bensíngjald, almennt bensíngjald, kolefnisgjald og auðvitað virðisaukaskatt sem leggst á bensín eins og aðra vöru. Því fara um 100 krónur af hverjum lítra af bensíni sem við kaupum til ríkisins og augljóst að ríkið gæti stuðlað að lægra verði með því að draga úr álögum sínum.