Vladimír Pútín forseti Rússlands getur ekki verið lengur við völd, sagði Joe Biden forseti Bandaríkjanna í ræðu frammi fyrir fjölda áheyrenda í garði konunglega kastalans í gamla bænum í Varsjá í Póllandi í kvöld. Annar eins fjöldi fylgdist svo með ávarpi forsetans á risaskjá á torgi fyrir utan kastalann.
Blaðamaður Kjarnans fékk óvænt miða inn á ávarp forsetans upp í hendurnar frá starfsmanni Hvíta hússins, sem var að deila afgangsmiðum til almennings á torginu eftir að fyrirmenni í stjórnmála-, menningar- og viðskiptalífi Póllands höfðu gengið inn á torgið í kastalagarðinum.
Í ræðunni, sem markaði endalok þriggja daga Evrópureisu forsetans, sagði Biden að Vesturlönd og raunar öll lýðræðisríki heims þyrftu að sýna stillingu, búa sig undir löng átök og halda samstöðu sinni til streitu. Stríðið í Úkraínu hverfist um stærri baráttu á milli lýðræðis og alræðis, sagði Biden í ræðu sinni.
Getur Pútín ekki verið lengur við völd, nei?
Biden fór ófögrum orðum um Vladimír Pútín í ræðunni, en gekk þó ekki svo langt að endurtaka fyrri orð sín um að Pútín væri stríðsglæpamaður, sem vöktu upp hörð viðbrögð í Kremlin fyrr í mánuðinum. Hann sagði þó sem áður segir, að Pútín „gæti ekki verið lengur við völd“.
Þessi orð rötuðu allvíða inn í fyrstu fyrirsagnir frétta af ræðu forsetans hér í Varsjá, en bandarískir blaðamenn hafa fengið frekari skýringar á því frá fjölmiðlateymi Hvíta hússins að orðalagið hafi ekki átt að gefa í skyn að Biden vildi hafa frumkvæði að því að steypa forsetanum af stóli, heldur hefði hann einungis átt við völd og áhrif forsetans yfir nágrannaríkjum Rússlands, eins og Ashley Parker stjórnmálaskýrandi hjá Washington Post sagði frá á Twitter.
Asked for clarification, the White House offers a walk-back, from an anonymous official: “The President’s point was that Putin cannot be allowed to exercise power over his neighbors or the region. He was not discussing Putin’s power in Russia, or regime change.” https://t.co/JecbP72SyF
— Ashley Parker (@AshleyRParker) March 26, 2022
Hróðugur yfir hruni rússnesku rúblunnar
Biden sagði orð Pútíns þess efnis að árás á Úkraínu væri nauðsynleg þar sem það þyrfti að „afnasistavæða“ Úkraínu algjörlega óboðlegar lygar og sagði rússneska forsetann einnig fara fram með ofboðslegu afli og upplýsingafölsunum til þess að svala fýsn sinni í aukin völd.
Biden lýsti sig ánægðan með mikla samstöðu vestrænna ríkja og sagði að hrakandi efnahagsleg staða Rússlands vegna viðskiptaþvingana væri Pútín einum að kenna. Virtist Biden kampakátur er hann talaði um hrun rússnesku rúblunnar og að það þyrfti núna um 200 rúblur til þess að kaupa einn Bandaríkjadal.
We’ve turned the ruble into rubble, sagði hann.
Hann sagði einnig að stríðið í Úkraínu myndi aldrei enda með sigri Rússlands, þar sem frjálst fólk neiti því að lifa í heimi vonleysis og myrkurs.
Einnig ávarpaði hann íbúa Rússlands, og sagði að ef þau gætu heyrt í honum vildi hann færa þeim þau skilaboð að einungis Pútín væri ábyrgur fyrir því að lífskjör þeirra myndu fara þverrandi á næstunni. Hann sagði líka að Rússland væri nú þegar byrjað að líða fyrir aðgerðirnar í Rússlandi, 200 þúsund manns hefðu þegar kosið að flytja í burtu og spekilekinn (e. brain drain) frá landinu væri nú þegar orðinn gríðarlegur.
Í ræðunni tók hann af öll tvímæli um að rússnesk árás á eina einustu tommu af landsvæði NATÓ-ríkja yrði svarað af fullum krafti sameinaðs Atlantshafsbandalags. Hann sagði þá fjölmörgu bandarísku hermenn sem eru í Póllandi og víðar í Evrópu hér til þess að verja NATÓ, en ekki til þess að sækja fram gegn Rússlandi.
Faðmaði flóttamenn fyrr í dag
Forsetinn ræddi um veru sína í Póllandi undanfarna tvo daga í ræðunni, en í gær fór hann að landamærum Úkraínu og heimsótti bandaríska og pólska hermenn og kynnti sér móttökustöðvar flóttafólks. Í dag fór hann svo á íþróttaleikvang hér í Varsjá sem breytt hefur verið í tímabundnar flóttamannabúðir fyrir þúsundir manna og ræddi við konur og börn sem eru á flótta frá Úkraínu.
„Þau eru að spyrja sig erfiðustu spurningu sem mannvera getur spurt sjálfa sig: Guð minn góður, hvað mun verða um mig, hvað mun verða um fjölskylduna mína,“ sagði Biden.
Forsetinn sagði að hann þyrfti ekki að tala sama tungumál og flóttafólkið til þess að sjá hvernig þeim liði, hryggðin í augum þeirra skini í gegn.
Hann endurtók síðan nýleg loforð sín um að Bandaríkin myndu taka á móti 100 þúsund flóttamönnum frá Úkraínu, en þess má geta að það er sennilega á bilinu einn þriðji til einn fimmti af þeim úkraínsku flóttamönnum sem eru í pólsku höfuðborginni um þessar mundir.
Olli úkraínskri flóttakonu vonbrigðum
Almennt hefur ræðu Bidens í Varsjá verið nokkuð vel tekið af vestrænum álitsgjöfum. Júlía, fertug flóttakona frá Kharkív í Úkraínu, sem Kjarninn ræddi við bæði fyrir og eftir að hann flutti ræðuna, sagðist þó hafa orðið fyrir vonbrigðum.
„Ég skildi ekki alveg allt sem hann sagði en ég heyrði hann ekki segja neitt um að loka himninum,“ segir Júlía, með tárin í augunum, en Úkraínumenn hafa kallað ákaft eftir því að Atlantshafsbandalagið verji úkraínskar borgir fyrir loftárásum Rússa með því að koma á flugbanni yfir landinu.
Það hafa vestrænir leiðtogar þó útilokað með öllu, enda felst í því skuldbinding um að skjóta niður rússneskar flugvélar yfir Úkraínu. Og enginn veit hvernig það gæti endað.