Björgólfur Thor Björgólfsson á áfram hlut í Allergan, móðurfélagi Actavis, og nýtur góðs af hækkun bréfa í félaginu í kjölfar sölu þess á samheitalyfjastarfsemi félagsins sem tilkynnt var um í dag. Þetta staðfestir Ragnhildur Sverrisdóttir, upplýsingafulltrúi Novators, við Kjarnann. Hún segir ennfremur að Björgólfi Thor lítist vel á söluna.
Gengi bréfa í Allergan hækkaði um 4,7 prósent í dag eftir að kaup ísraelska samheitalyfjafyrirtækisins Teva Pharmaceutical Industries á samheitalyfjastarfsemi Allergan fyrir 40,5 milljarða króna, rúmlega 5.400 milljarða íslenskra króna, voru tilkynnt og er nú 329,65 dalir á hlut. Þegar lyfjafyrirtækið Watson tók yfir Actavis í apríl 2012, og Björgólfur Thor eignaðist hlut í því félagi, var gengi bréfa þess tæplega 60 dalir á hlut. Þá átti Björgólfur Thor um tveggja prósenta hlut í félaginu en sá hlutur er í dag kominn niður fyrir eitt prósent.
Sápuópera í lyfjageiranum
Ísraelski samheitalyfjarisinn Teva Pharmaceutical Industries tilkynnti í morgun um kaup á samheitalyfjaarmi Allergan, sem er móðurfélag Actavis á Íslandi. Teva mun greiða 33,75 milljarða dala í peningum og 6,75 milljarða dali með hlutabréfum í Teva fyrir hlutinn. Samhliða þessum kaupum hefur Teva hætt við kaup á keppinautnum Mylan.
Kaupin eru þau síðustu í röð margra stórra samruna í heilbrigðisgeiranum, en mikil samþjöppun hefur orðið í greininni, einkum vegna breyttrar heilbrigðislöggjafar í Bandaríkjunum. Tilraun Teva til að kaupa Mylan hafði verið óvinveitt og mikið hafði gengið á í samskiptum stjórnenda fyrirtækjanna áður en að hætt var við kaupin. Ástæðan var sú að Allergan bauð Teva að kaupa sinn samheitalyfjaarm frekar en að taka yfir Mylan. Blaðamaður Bloomberg, Drew Armstrong, segir sviptingarnar líkastar sápuóperu.
Sameining eftir sameiningu eftir sameiningu
Þessi risakaup skipta máli á Íslandi. Samheitalyfjaarmurinn sem verið er að selja var áður hluti af Actavis, fyrirtækis sem var búið til hérlendis í gegnum ýmsa samruna og var með höfuðstöðvar sínar á Íslandi fram til ársins 2011. Auk þess á fjárfestirinn Björgólfur Thor Björgólfsson, í gegnum fjárfestingafélag sitt og viðskiptafélaga sína Novator, hlut í Allergan.
Forsaga þeirrar eignar er sú að þegar Björgólfur Thor samdi um uppgjör við kröfuhafa sína þá var hluti þess að hann héldi hlut í Actavis. Í apríl 2012 keypti lyfjafyrirtækið Watson, sem var skráð á markað í Bandaríkjunum, Actavis. Samtals voru greiddar um 700 milljarðar króna fyrir en til viðbótar áttu að koma greiðslur sem tóku mið af því hvernig rekstur Actavis var árið 2012 samkvæmt uppgjöri. Hagur Björgólfs Thors og Novator vænkaðist við þetta en í þeirra hlut komu fimm milljónir hluta í hinu nýja félagi á grundvelli samnings við Deutsche Bank, áður stærsta kröfuhafa Novators, sem gerður var samhliða kaupum Watson. Eftir að tilkynnt var um kaup Watson á Actavis, og þar með sameiningu þessara félaga, hefur markaðsvirði þess hækkað hratt. Gengi bréfa á hlut hækkaði úr tæplega 60 dölum frá því tilkynnt var um kaupin í 127,2 dali þann 22. maí 2013, ríflega ári síðar. Þetta þýddi að hlutur Björgólfs í Actavis í gegnum Novator var á milli 70 og 80 milljarða króna virði á þeim tíma.
Um miðjan maí 2013 var síðan tilkynnt um enn meiri stækkun á efnahagsreikningi Actavis þegar greint var frá kaupum félagsins á írska lyfjaframleiðslufyrirtækinu Warner Chilcott. Samkvæmt fyrstu fréttum AFP-fréttaveitunnar var kaupverðið áætlað um 8,5 milljarða dala, sem jafngilti um 1.100 milljörðum króna, miðað við gengi krónu gagnvart Bandaríkjadal daginn sem tilkynnt var um viðskiptin.
Í nóvember 2014 var svo tilkynnt um fyrirhugaða sameiningu Actavis og Allergan. Eftir að hún gekk í gegn tók sameinað fyrirtæki upp síðarnefnda nafnið í júní 2015, þótt starfsemin á Íslandi hafi haldið Actavis-nafninu.
Í dag er gengi bréfa 329,65 dalir á hlut, eða rúmlega fimm sinnum hærra en það var þegar Watson tók yfir Actavis og Björgólfur Thor eignaðist hlut í sameinuðu félagi.
Þessi viðskipti hafa gert Björgólf Thor ævintýralega ríkan á ný. Í mars var greint frá því að hann væri kominn aftur á lista Forbes yfir þá sem eiga meira en einn milljarð dali, yfir 134 milljarða króna, í eignum. Fimm ár eru síðan að Björgólfur Thor komst síðast á listann.Það þarf varla að taka það fram að Björgólfur Thor er eini Íslendingurinn á listanum, og reyndar eini Íslendingurinn sem hefur nokkru sinni komist á hann. Hann sat í 1.415 sæti á listanum.
Íslandsstarfsemin fer til Teva
Í tilkynningu sem Actavis á Íslandi sendi frá sér vegna kaupa Teva segir að Teva muni taka yfir alla alþjóðlega samheitalyfjastarfsemi fyrirtækisins sem áður var Actavis, þar á meðal sölueiningar fyrirtækisins á samheitalyfjasviði í Bandaríkjunum og alþjóðlega, alla þróunar- og framleiðslustarfsemi sem snýr að samheitalyfjum, sölustarfsemi fyrirtækisins á sviði lausasölulyfja, sem og Medis, dótturfélag Allergan sem selur lyf og lyfjahugvit til annarra lyfjafyrirtækja. Þar segir ennfremur: „Um er að ræða stefnubreytingu hjá móðurfélaginu en eftir nýlegan samruna Actavis og Allergan varð fyrirtækið leiðandi alhliða lyfjafyrirtæki sem sinnir jöfnum höndum þróun, framleiðslu og markaðssetningu frumlyfja og samheitalyfja. Allergan hyggst hins vegar nú einbeita sér að uppbyggingu fyrirtækisins á sviði frumlyfja.“
Ekkert kemur fram um hvort sú starfsemi Actavis sem verið hefur hérlendis verði það áfram, en fyrir skemmstu ákvað Allergan að loka lyfjaverksmiðju í Hafnarfirði árið 2017. Við það á starfsmönnum Actavis á Íslandi úr um 700 í um 400. Þá var því heitið að önnur starfsemi á Íslandi yrði óbreytt.
Sigurður Óli Ólafsson, fyrrverandi forstjóri Actavis á Íslandi, er nú forstjóri samheitalyfjasviðs Teva. Teva er stærsti framleiðandi samheitalyfja í heiminum og er fyrirtækið metið á um sextíu milljarða dala.