Bláa lónið hagnaðist um 1.352 milljónir króna árið 2013, ef miðað er við meðalgengi ársins. Hagnaður fyrirtækisins jókst um fimmtíu prósent á milli ára, en vöxtur þess á undanförnum árum hefur verið ævintýri líkastur. Árið 2013 var metár í tuttugu ára sögu fyrirtækisins hvað varðar rekstrartekjur, rekstrarárangur og gestafjölda, en það ár heimsóttu um 647 þúsund gestir Bláa lónið. Árið 2013 störfuðu um 330 manns hjá félaginu.
Tekjur Bláa lónsins af sölu aðgangseyris ofan í lónið eru undanþegnar virðisaukaskatti, en samkvæmt lögum um virðisaukaskatt er íþróttastarfsemi, svo og leiga á aðstöðu til íþróttastarfsemi, aðgangseyrir að sundstöðum, skíðalyftum, íþróttamótum, íþróttasýningum og heilsuræktarstofum, undanþegin virðisaukaskatti. Þess ber þó að geta að Bláa lónið greiðir virðisaukaskatt af annarri starfsemi sinni, svo sem veitinga- og verslunarrekstri, gistiþjónustu og spa meðferðum. Samkvæmt heimildum Kjarnans þarf hins vegar að greiða aðgangseyrinn að lóninu til að komast í spa meðferðir Bláa lónsins.
Rekstrartekjur Bláa lónsins vegna aðgangseyris í lónið námu ríflega átján milljónum evra árið 2013, eða tæplega þremur milljörðum króna. Til samanburðar má nefna að rekstrartekjur lónsins vegna aðgangseyris árið 2012 námu ríflega 13,5 milljónum evra, eða tæplega 2,2 milljarðar króna. Ódýrasti aðgöngumiðinn að Bláa lóninu kostar 5.400 yfir vetrartímann og 6.900 krónur yfir háannatímann á sumrin, samkvæmt verðskrá sem finna má á heimasíðu félagsins.
Vilja að undanþágum verði fækkað - en ekkert gerist
Forsvarsmenn Bláa lónsins hafa ítrekað sagst vera fylgjandi því að undanþágum verði fækkað í virðisaukaskattskerfinu. Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins og formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, hefur sagt að einföldun muni gera kerfið skilvirkara og stemma stigu við svartri atvinnustarfsemi. Þrátt fyrir þetta, og umræðu um hvort ekki eigi að hækka álögur á ferðaþjónustuna, er undanþágan sem aðgangseyrir að Bláa lóninu fellur undir, enn við lýði. Á sama tíma hækka stjórnvöld matarskattinn, afleggja auðlegðarskatt og lækka veiðigjöldin.
Á aðalfundi félagsins, sem haldin var 4. apríl síðastliðinn var samþykkt að greiða hluthöfum félagsins 931,3 milljónir króna í arð vegna ársins 2013. Við árslok 2013 var eiginfjárhlutfall Bláa lónsins 30 prósent, handbært fé frá rekstri nam ríflega 1.800 milljónum króna og eignir félagsins hljóðuðu upp á tæpar 7.300 milljónir króna.
Lífeyrissjóðir áberandi á meðal hluthafa
Stærstu hluthafar Bláa lónsins eru Hvatning slhf. með 43 prósenta hlut, HS Orka hf. sem á 33 prósenta hlut, Hofgarðar ehf. á 6,7 prósent, M4 ehf. á 3,6 prósent, Saffron Holding ehf. er skráð með sama eignahlut og Bogmaðurinn ehf. á 3,2 prósent.
Hvatning slhf. er í ríflega 70 prósenta eigu einkahlutafélagsins Kólfs og tæplega 30 prósenta eigu Horns II slhf. Kólfur ehf. er í 68,5 prósenta eigu Gríms Sæmundsens og 31,5 prósenta eigu Eðvards Júlíussonar. Eðvard er fyrrverandi bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Grindavík og átti sæti í stjórn Hitaveitu Suðurnesju (fyrirrennara HS Orku) á árunum 1990 til 1992. Horn II slhf. er framtakssjóður sofnaður af Landsbréfum. Hluthafar sjóðsins eru þrjátíu talsins og samanstanda af lífeyrissjóðum, fjármálafyrirtækjum og fagfjárfestum.
HS Orka, sem er næst stærsti hluthafinn í Bláa lóninu, er í 66,6 prósenta eigu Magma Energy Sweden og 33,4 prósent orkufyrirtækisins eru í eigu Jarðvarma slhf., sem er samlagshlutafélag í eigu 14 lífeyrissjóða.
Þriðji stærsti hluthafinn í Bláa lóninu, Hofgarðar með 6,7 prósenta hlut, er í eigu Helga Magnússonar fjárfestis, sem er varaformaður stjórnar Lífeyrissjóðs verslunarmanna og stjórnarformaður Bláa lónsins.
Tæpar sjö milljónir króna á mánuði fyrir lónsvökvann, hita og rafmagn
Bláa lónið hefur einkaleyfi til ársloka 2044 frá HS Orku til notkunar á jarðhitavökva, hinn svokallaða Bláa lóns vökva, í Svartsengi til afþreyingar, heilsubaða, lækninga og einnig til framleiðslu hvers konar húð og heilsuvara þar sem notuð eru steinefni og lífræn efni jarðhitavökvans. Greiðslur félagsins til HS Orku vegna samningsins námu 224 þúsund evrum árið 2013, eða sem samsvarar ríflega 36 milljónum króna, eða um þremur milljónum á mánuði.
Þá keypti Bláa lónið heitt og kalt vatn og rafmagn af HS Veitum fyrir 270 þúsund evrur árið 2013, eða sem samsvarar um 43,7 milljónum króna. Það gera um 3,6 milljónir króna á mánuði. Kostnaður félagsins vegna jarðhitavökvans, hita og rafmagns nemur því tæpum sjö milljónum króna á mánuði.
Bláa lónið hyggur á mikla uppbyggingu á næstu árum. TIl stendur að reisa lúxushótel og stækka lónið sjálft, áætlað er að framkvæmdirnar taki tvö ár og kosti um sex milljarða króna. Mannvirki staðarins munu tvöfaldast í stærð á framkvæmdatímanum.
Uppfært 8. janúar klukkan 14:21.
Í samræmi við breytingar sem gerðar voru á lögum um virðisaukaskatt í desembermánuði síðastliðnum, mun Bláa lónið greiða virðisaukaskatt í lægra þrepi af baðgjöldum lónsins frá og með 1. janúar 2016.