Löng hefð er fyrir því í Danmörku að flokkar á vinstri og hægri væng stjórnmálanna starfi ekki saman að stjórn landsins, heldur skiptist í rauðar og bláar „blokkir“ innan þingsins, sem sameinist um stjórnir í aðra hvora áttina, sem þó stundum njóta stuðnings flokka sem standa á miðjunni og eru opnir í báða enda.
Eina tilraunin sem gerð hefur verið í Danmörku til stjórnarsamstarfs yfir miðjuna á friðartímum var gerð árið 1978. Þá mynduðu hægriflokkurinn Venstre og Sósíaldemókratar saman stjórn undir forsæti Anker Jørgensen. Sú tilraun gekk afleitlega, en stjórnin hékk saman í litlu meira en ár.
Óvænt útspil Frederiksen
Nú segist Mette Frederiksen, forsætisráðherra og formaður Sósíaldemókrataflokksins, tilbúin að breyta út frá venjunum í dönskum stjórnmálum og vinna yfir miðjuna í ríkisstjórnarsamstarfi. Hún ritaði grein í Jótlandspóstinn á stjórnarskrárdag Danmerkur, 5. júní, sem ekki var hægt að túlka á annan máta en sem boð frá dönskum jafnaðarmönnum um mögulegt samstarf við flokka innan bláu blokkarinnar.
Í viðtali sem hún átti við blaðið sama dag sagði hún að flokkur hennar vildi opna umræðu um hvort hægt að mynda „breiða stjórn“. „Það er heiðarlegt og einnig rétt að opna þá umræðu, svo að Danir geti myndað sér skoðun á þessu, líka með góðum fyrirvara fyrir kosningar,“ sagði Frederiksen við blaðið, en hún þarf að boða til þingkosninga fyrir 5. júní á næsta ári.
Takk, en nei takk
Leiðtogar stærstu flokkanna til hægri á þingi voru snöggir að veita Frederiksen nokkuð afgerandi afsvör. Jakob Ellemann-Jensen formaður Venstre sagði að tillaga Frederiksen virkaði hreinlega ótrúverðug á meðan að Søren Pape Poulsen formaður Íhaldsflokksins var snöggur að segja einfaldlega, „takk, en nei takk“ við umleitunum forsætisráðherrans um stjórnarsamstarf yfir miðjuna.
Keppni við Lars Løkke um atkvæðin á miðjunni?
En hvað er þá unnið með þessum þreifingum Frederiksen? Í þeim efnum horfa danskir stjórnmálaskýrendur til nokkurra þátta.
Í fyrsta lagi hefur tillaga Frederiksen verið teiknuð upp sem andsvar við nýjum flokki Lars Løkke Rasmussen, Moderaterne, en sá flokkur var einmitt formlega kynntur til leiks þann 5. júní. Má segja að Mette hafi stolið sviðsljósinu af Lars Løkke þann daginn, enda vöktu brúarbyggingar hennar yfir miðjuna mikla athygli og umræður um þær lifa enn í dönskum fjölmiðlum.
Lars Løkke Rasmussen, sem sjálfur biðlaði til Mette Frederiksen um stjórnarsamstarf yfir miðjuna í aðdraganda kosninga árið 2019, er hann var formaður Venstre, hefur hins vegar nýtt sér afsvör leiðtoganna innan bláu blokkarinnar til þess að koma þeim skilaboðum á framfæri að eina mögulega leiðin til þess að mynda stjórn yfir miðjuna verði með atkvæðum til hans nýja flokks. Lars Løkke stillir flokknum upp í miðjunni og segist helst vilja taka þátt í samstarfi sem nái þvert yfir miðjuna.
Önnur möguleg skýring sem nefnd hefur verið fram varðandi tillögur Mette Frederiksen er sú að jafnaðarmenn horfi til þess að einangra mögulega þá flokka sem eru lengra til vinstri innan rauðu blokkarinnar, þá helst Einingarlistann, sem náði feiknagóðum árangri í borgarstjórnarkosningunum í Kaupmannahöfn í fyrra og skákaði Sósíaldemókrötum sem stærsti flokkurinn í höfuðborginni.
Enn ein skýring sem sett hefur verið fram er sú að Frederiksen sé einfaldlega að koma sér og flokki sínum upp varaáætlun, ef svo færi að rauða blokkin héldi ekki meirihluta í þinginu í komandi kosningum. Hún og aðrir framámenn í flokki danskra jafnaðarmanna hafa jú talað fyrir því að þeirra fyrsti kostur yrði að halda áfram núverandi minnihlutastjórn Sósíaldemókrataflokksins, með stuðningi rauðu blokkarinnar og samningum yfir miðjuna í ákveðnum málaflokkum.
Kjósendur virðast opnir fyrir samstarfi yfir miðjuna
Sjónvarpsstöðin TV2 lét framkvæma skoðanakönnun á meðal almennings í síðustu viku, þar sem spurt var hvort fólk vildi helst sjá stjórn yfir miðjuna, stjórn flokka í bláu blokkinni eða stjórn flokka í rauðu blokkinni.
Af þessum þremur kostum varð stjórn yfir miðjuna vinsælasti kosturinn, en 40 prósent svarenda í könnunni sögðu að það hugnaðist þeim best. Næst efst á blaði var ríkisstjórn hægriflokka, en 29 prósent töldu það vænlegast, en einungis 25 prósent sögðust helst vilja sjá stjórn flokka vinstra megin við miðju.
Stuðningsmenn Radikale Venstre, sem sögulega hefur verið opinn í báða enda en flokkast nú með rauðu blokkinni, eru líklegastir til að vera hlynntir stjórnarsamstarfi yfir miðjuna, en um 77 prósent þeirra segja að það væri þeirra fyrsti kostur. Um 56 prósent kjósenda Sósíaldemókrata segja það sinn fyrsta kost og 51 prósent kjósenda Venstre, samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar.
Á bilinu 39-46 prósent kjósenda flestra annarra flokka segja stjórn yfir miðjuna sinn fyrsta kost, þó að reyndar skeri stuðningsmenn Nye Borgerlige (sem liggur við ysta hægri) og vinstriflokksins Einingarlistans sig frá öðrum. Einungis 15 prósent kjósenda Einingarlistans telja að samstarf yfir miðjuna yrði heillaspor.
Eins og Borgþór Arngrímsson fjallaði um í nýlegri fréttaskýringu í Kjarnanum er ekki ljóst hvenær verður kosið til þings í Danmörku. Á næstu vikum er búist við því að skýrsla um „minkamálið“ í veirufaraldrinum komi fram en sérstök nefnd hefur unnið að skýrslunni mánuðum saman.
Ef niðurstaða nefndarinnar verður sú að eðlilega hafi verið staðið að ákvarðanatöku í þessu stóra og umdeilda máli gæti hugsast að Frederiksen myndi ákveða að boða til kosninga strax í haust. Verði niðurstaðan á hinn bóginn sú að rangar ákvarðanir stjórnvalda hafi ráðið för gæti það haft áhrif, og dregið úr fylgi jafnaðarmanna. Þá sæi forsætisráðherrann sér ekki í hag að flýta kosningum.