Tvær umsagnir sem félagið Íslensk Vatnsorka (ÍV) hefur sent atvinnuveganefnd Alþingis, til að knýja á um að virkjunarkostur við Hagavatn sunnan Langjökuls verði færður úr biðflokki yfir í nýtingaflokk við endurskoðun Rammaáætlunar, stangast á við skýrslu sem verkfræðistofan Mannvit vann fyrir félagið um tilhögun virkjunarinnar.
Meirihluti atvinnuveganefndar vill að Hagavatnsvirkjun, sem áætlað er að verði um 20 megavött að stærð, verði færð úr biðflokki yfir í nýtingarflokk og hefur unnið tillögu til þingsályktunar þess efnis, þrátt fyrir að verkefnisstjórn um rammaáætlun hafi ekki fjallað um virkjunina. Fjölmargar umsagnir hafa borist nefndinni, sem mun taka afstöðu til umsagnanna áður en hún ákveður hvort leggja skuli þingsályktunartillöguna fram á þingi til samþykktar.
Sandfok mikið vandamál á svæðinu
Í umsögnum ÍV til atvinnuveganefndar er fullyrt að Hagavatnsvirkjun verði svokölluð rennslisvirkjun með stöðugu vatnsborði sem muni sporna gegn sandfoki, sem er ríkjandi vandamál á svæðinu. Hagavatn er um fimm ferkílómetrar að flatarmáli í dag, en gert er ráð fyrir að það muni stækka upp í 23 ferkílómetra ef af virkjun verður, sem er álíka stærð og Hagavatn eitt sinn var. Þurrum botni Hagavatns er ekki hvað síst um að kenna áðurnefnt sandfok á svæðinu.
Samkvæmt Ólafi Arnalds, prófessors í jarðvegsfræði, er Hagavatnssvæðið á meðal virkustu uppfokssvæða landsins. Í samtali við fréttastofu RÚV árið 2012 sagði Ólafur að mjög mikilvægt væri að yfirborð Hagavatns héldist stöðugt. Með lækkun vatnsyfirborðsins myndi jökulburður, sem gjarnan innihaldi mikið af fokefnum, fjúka mjög mikið á svæðinu og skapa „mjög alvarlegar aðstæður.“ Ein ástæða þess að verkefnisstjórn um rammaáætlun hefur ekki lokið umfjöllun sinni um Hagavatnsvirkjun eru upplýsingar sem komu seint fram um sandfok sem verkefnisstjórnin vill skoða betur.
Ósamræmi í málatilbúnaði Íslenskrar vatnsorku
Íslensk Vatnsorka, sem sækir fast að fá að byggja 20 megavatta virkjun við Hagavatn, sendi inn umsögn til atvinnuveganefndar Alþingis þann 4. nóvember síðastliðinn. Þar segir: „Virkjunin hefur nú verið útfærð á mun umhverfisvænni hátt, m.a. með stöðugu vatnsborði án dægursveiflna.“ Þá er vísað til umsagnar Landgræðslu ríkisins í umsögn ÍV þar sem segir: „...en ef fyrirhugað lón fyrir rennslisvirkjun yrði myndað, myndi það tvímælalaust draga úr sandfoki á austurhluta svæðisins sunnan Langjökuls.“
Í annarri umsögn ÍV sem félagið sendi atvinnuveganefnd Alþingis þann 12. febrúar síðastliðinn segir ennfremur: „Rannsóknir á virkjunarvalkostinum hafa leitt í Ijós að auka má verulega hin jákvæðu áhrif virkjunarinnar á sandfok með því að útfæra virkjunina sem rennslisvirkjun með stöðugu vatnsborði, en áður var hún útfærð sem toppaflsvirkjun.“
Fullyrðingar ÍV í umsögnum félagsins til atvinnuveganefndar Alþingis, að um svokallaða rennslisvirkjun sé að ræða, stangast á við skýrslu sem verkfræðistofan Mannvit vann fyrir ÍV og send var verkefnastjórn 3. áfanga rammaáætlunar í janúar, eða á milli umsagnanna.
Þar er gert ráð fyrir árlegri vatnsborðssveiflu upp á fimm metra í Hagavatni, það er að fimm metrum muni muna á vatnsyfirborði vatnsins í hæstu og lægstu stöðu. Þá segir í skýrslunni að flatarmál vatnsins verði 23 ferkílómetrar í hæstu stöðu, en það muni fara niður í tæpa 17 ferkílómetra í lægstu stöðu. Það þýðir að um sex ferkílómetrar koma á þurrt þegar vatnsstaða lónsins er lág, sem munu væntanlega auka á uppfok á svæðinu.
Miklar efasemdir uppi um að virkjunin geti orðið rennslisvirkjun
Í samtali við Kjarnann segir Guðmundur Stefánsson, sviðsstjóri Landverndarsviðs hjá Landgræðslu ríkisins, að mjög brýnt sé að lón Hagavatnsvirkjunar verði með stöðugu yfirborði. Ef svo verði ekki raunin muni Landgræðslan fara yfir málið að nýju.
Heimildamenn Kjarnans sem til þekkja segja að uppi séu miklar efasemdir um að hægt verði að byggja Hagavatnsvirkjun sem rennslisvirkjun, til þess sé ekki nægilegt rennsli á vatnasvæði virkjunarinnar. Það skýri ef til vill ósamræmi í annars vegar umsögnum Íslenskrar Vatnsorku til atvinnuveganefndar Alþingis og skýrslu verkfræðistofunnar Mannvits sem unnin var fyrir fyrirtækið og send var verkefnisstjórn um Rammaáætlun.
Hvorki náðist í Eyþór Arnalds, stjórnarformann Íslenskrar vatnsorku, né Eirík Bragason, framkvæmdastjóra félagsins, við vinnslu þessarar fréttar.