Eins og Kjarninn greindi fyrstur frá í lok nóvember seldi Landsbanki Íslands, sem er í eigu íslenska ríkisins, tæplega þriðjungshlut í greiðslumiðlunarfyrirtækinu Borgun til Eignarhaldsfélags Borgunar slf. fyrir 2,2 milljarða króna á bakvið luktar dyr. Salan á hlutnum hefur verið ítarlega til umfjöllunar í fjölmiðlum, enda fór ekkert formlegt söluferli fram áður en hann var seldur þeim sem sýndu hlutnum áhuga. Bankaráð Landsbankans var meðvitað um sölu hlutsins og að hann hafi ekki farið í gegnum formlegt söluferli.
Auk þessa eru margir innan viðskiptalífsins þeirrar skoðunar að kaupverðið, sem Eignarhaldsfélagið Borgun slf. greiddi fyrir hlutinn í Borgun hafi verið lágt, bæði í innlendum og erlendum samanburði. Þá var salan á Borgun valin verstu viðskipti ársins 2014 hjá Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um efnahagsmál og viðskipti.
Umdeild sala sem var harðlega gagnrýnd
Sala ríkisbankans á hlutnum í Borgun var harðlega gagnrýnd. Landsbankinn var gagnrýndur fyrir ógagnsætt söluferlið og fyrir að tryggja ekki að hæsta mögulega verð fengist fyrir hlutinn. Í skriflegu svari Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn Svandísar Svavarsdóttur þingmanns Vinstri grænna, segir að engin athugun hafi farið fram hjá ráðuneyti hans um hvort það verð sem greitt var fyrir hlut Landsbankans í Borgun hafi verið hæsta verðið sem hægt hafi verið að fá fyrir hlutinn. Þá sé það á forræði Bankasýslu ríkisins, sem fer með eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum, að svara fyrir söluna og hvort söluferlið á hlutnum hafi verið í samræmi við eigendastefnu ríkisins.
Kjarninn sagði svo frá því 13. janúar að Bankasýsla ríkisins hafi rætt við Landsbankann vegna sölunnar á hlutnum í Borgun, en hafi annars ekkert aðhafst í málinu og stofnunin hafi engin áform um að grípa til neinna frekari aðgerða vegna sölunnar. Í samtali við Kjarnann sagði Jón Gunnar Jónsson forstjóri Bankasýslunnar að betra hefði verið ef hluturinn í Borgun hefði farið í opið söluferli í steð þess að vera seldur til valdra aðila bakið luktar dyr, án þess að öðrum áhugasömum hafi gefist tækifæri til að bjóða í hlutinn.
Eigendastefna ríkisins kveður á um mikilvægi gagnsæis
Samkvæmt heimasíðu Bankasýslunnar er hlutverk hennar meðal annars að „leggja áherslu á endurreisn og uppbyggingu öflugs innlends fjármálamarkaðar og stuðla að virkri og eðlilegri samkeppni á þeim markaði, tryggja gagnsæi í allri ákvarðanatöku varðandi þátttöku ríkisins í fjármálastarfsemi og tryggja virka upplýsingamiðlun til almennings.“
Eins og áður segir fer Bankasýsla ríkisins með eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum, og þá í samræmi við lög, góða stjórnsýslu- og viðskiptahætti og eigendastefnu ríkisins á hverjum tíma.
Í eigendastefnu ríkisins, þar sem fjallað er um kröfur og viðmið fjármálastofnana, nánar tiltekið stefnumörkun og vinnulag, segir: „Fjármálafyrirtæki skulu koma sér upp innri verkferlum um lykilþætti í starfsemi sinni, svo sem endurskipulagningu skuldsettra fyrirtækja, úrlausn skuldavanda einstaklinga, sölu eigna o.fl. Mikilvægt er að slíkir ferlar séu skilvirkir og gagnsæir og birtir á heimasíðum fyrirtækjanna. Við þetta ættu fjármálafyrirtæki að hafa til hliðsjónar álit Samkeppniseftirlitsins nr. 3/2008, ákvarðanir banka og stjórnvalda um framtíð fyrirtækja á samkeppnismörkuðum.“
Í fyrrgreindu áliti Samkeppniseftirlitsins, sem vísað er til í eigendastefnu ríkisins, beinir eftirlitið því til viðskiptabanka í eigu ríkisins að við ákvarðanir sem áhrif geta haft á framtíð fyrirtækja og samkeppni á Íslandi verði höfð hliðsjón af tíu megin reglum.
Í 1. grein reglnanna segir: „Ef tvær eða fleiri ráðstafanir, sem t.d. tengjast endurskipulagningu fyrirtækja, koma til greina sé sú leið valin sem eflir samkeppni eða raskar henni sem minnst.“
Þá segir í 6. grein áðurnefndra reglna: „Ef fyrirtæki eða eignir þeirra eru boðnar til sölu sé tryggt að allir líklegir kaupendur hafi jafnan möguleika á því að gera tilboð og hlutlægni í vali milli kaupenda tryggð. Eftir því sem kostur er skal leitast við að hafa ferlið opið og gagnsætt.“
Í 7. grein reglnanna segir svo ennfremur: „Að skapa möguleika fyrir nýja aðila, eftir atvikum erlenda fjárfesta, að koma inn á samkeppnismarkað, t.d. með kaupum á fyrirtækjum eða eignum.“
Salan með blessun Samkeppniseftirlitsins
Þrátt fyrir ofangreint tekur Samkeppniseftirlitið ekki afstöðu til þess hvort Landsbankinn hafi, vegna eignarhalds ríkisins á honum, átt að selja hlutinn í Borgun í opnu söluferli. Samkeppniseftirlitið hefur lagt á það áherslu við bankana að gerðar yrðu breytingar á eignarhaldi stóru greiðslukortafyrirtækjanna, þannig að bankarnir eigi þau ekki saman, og í því ljósi telur eftirlitið jákvætt að Landsbankinn hafi selt sig út úr Borgun. Breytingin sé til þess fallin að auka samkeppni á greiðslukortamarkaði.
Afstöðuleysi Samkeppniseftirlitsins til sölu Landsbankans á hlutnum í Borgun er ekki alveg í takt við tilmæli stofnunarinnar, sem birtust meðal annars í skýrslunni „Samkeppni eftir hrun“ frá árinu 2011, þar sem segir að mikilvægt sé að bankarnir selji fyrirtæki í gagnsæju ferli eftir því sem kostur er. Þá sé vandi atvinnulífsins meðal annars fólgin í skorti á trausti og gagnsæi.
Í svari við fyrirspurn Kjarnans hefur Fjármálaeftirlitið (FME) ekki sett sér reglur um það hvernig bankar skuli standa að sölu eigna, en FME mat Eignarhaldsfélagið Borgun slf. hæft til að fara með virkan eignarhlut í Borgun í lok desember.
Sala Landsbankans, sem er í 98 prósenta eigu íslenska ríkisins, á hlutnum í Borgun er umdeilanleg í besta falli. Þó ríkisbankinn hafi viðurkennt að hafa selt áhugasömum hlutinn á bakvið luktar dyr, og mögulega í trássi við eigendastefnu ríkisins, ætlar Bankasýsla ríkisins ekkert að aðhafast í málinu. Samkeppniseftirlitið ætlar sömuleiðis að láta söluna óátalda þrátt fyrir að hafa talað fyrir mikilvægi gagnsæis og fjármála- og efnahagsráðuneytinu vísar á bankasýsluna.