Bournemouth er ekki knattspyrnufélag sem margir íslenskir knattspyrnuaðdáendur vita mikið um. Það mun þó ugglaust breytast á næstu mánuðum því félagið mun leika í ensku úrvaldsdeildinni á næstu leiktíð eftir að hafa unnið Championship-deildina í ár. Það hafa nokkur „lítil“ lið náð þeim árangri síðan að enska úrvaldsdeildin var sett á laggirnar árið 1992 og peningar og erlendir leikmenn hófu að streyma í þessa vinsælustu knattspyrnudeild veraldar. Þau vekja alltaf athygli enda verður alltaf erfiðara og erfiðara fyrir lið frá litlum borgum og bæjum, með lítil fjárráð og fámennan stuðningsmannahóp að keppa við lið sem eru að borga árlegan launakostnað þeirra fyrir staka leikmenn sem síðan vart komast á bekkinn. Á meðal liða sem falla í þennan flokk eru til dæmis Swindon (1993), Burnley (2009 og 2014),Wigan (2005 til 2013), Barnsley (1997), Blackpool (2010), Bradford City (1999) og Reading (2006).
En Bournemouth er líklega minnsta liðið sem náð hefur þessum árangri. Það er allavega á hreinu að leikvangur liðsins, Goldsands Stadium, verður sá minnsti sem leikið hefur verið á í úrvaldsdeildinni. Hann tekur einungis 11.700 áhorfendur. Á síðasta tímabili var leikvangurinn meira að segja ekki alltaf fullur. Meðaltal áhorfenda var um 10.500 á leik.
Goldsands Stadium verður sá minnsti sem leikið hefur verið á í ensku úrvaldsdeildinni.
„Stórkostlegasta ævintýrið síðan að Hans Christian Andersen skrifaði sitt síðasta“
Næsta tímabil verður það fyrsta sem Bournemouth leikur í efstu deild í Englandi í 126 ára sögu félagsins. Það sem gerir árangur félagsins enn ótrúlegri er að það hóf tímabilið 2008-2009 með 17 stig í mínus í næstu deild ensku deildarkeppninnar eftir að hafa lent í greiðslustöðvum vegna fjárhagserfiðleika. Ef liðið hefði fallið úr neðstu deild á því tímabili voru uppi áform um að leggja það einfaldlega niður. Það var ekki talið mögulegt að reka það í utandeildinni.
Jeff Mostyn, stjórnarformaður Bournemouth, sagði í viðtali við The Telegraph í apríl að félagið hafi þrívegis verið sólarhring frá því að verða gjaldþrota á undanförnum árum. Það að Bournemouth sé nú á leið í úrvaldsdeildina sé „stórkostlegasta ævintýrið síðan að Hans Christian Andersen skrifaði sitt síðasta“.
En hvað gerðist? Hvernig getur lið í fjárhagslegum glundroða, með 17 stig í mínus í neðstu deild, frá litlum bæ á suðurströnd Bretlands, með engar stórstjörnur innanborðs, náð þessum mikla árangri einungis sex árum síðar? Svarið liggur fyrst og síðast í tveimur mönnum: Maxim Demin og Eddie Howe.
Rússneskur huldumaður sem féll fyrir Bournemouth
Rússneski fjárfestirinn Maxim Denim er ekki þekkt nafn. Og hann virðist kunna vel við það. Demin hefur aldrei talað við bresku pressuna og fátt er vitað um hvað hann hefur verið að sýsla í lífinu annað en að hann býr í Sviss.
Sagan segir að fyrrum eigandi Bournemouth, Eddie Mitchell, hafi byggt hús fyrir Demin. Eftir að þeirri vinnu lauk hafi Mitchell boðið Rússanum á leik hjá Bournemouth og Demin hafi í kjölfarið fallið kylliflatur fyrir félaginu. Hann kom inn sem meðeigandi árið 2011 og eignaðist það að fullu árið 2013. Síðan þá hefur hann lánað Bournemouth 15,5 milljónir punda.
Maxim Demin.
Þeim peningum hefur þó ekki verið varið í neina vitleysu. Félagið er með einn lægsta launakostnaðinn í Championship deildinni og hefur einungis keypt tvo leikmenn í sögu sinni sem hafa kostað meira en eina milljón pund. Tap félagsins á leiktíðinni 2013-2014 var um átta milljónir punda. Til að setja þá tölu í samhengi má rifja upp að QPR, sem komst upp á því tímabili, tapaði um 70 milljónum punda fyrir utan eigendalán sem voru afskrifuð. Bournemouth hefur því alltaf haldið sig innan ramma fjárhagsreglna FIFA sem eiga að jafna stöðu liða í alþjóðaknattspyrnunni sem er troðfull af allskyns „sykurpöbbum“ sem dæla óheyrilegum fjárhæðum í félög til að reyna að ná árangri á skömmum tíma. Demin er semsagt ekki einn þeirra.
Hinn ótrúlegi Eddie Howe
En stóra ástæðan fyrir því að Bournemouth er nú að fara að upplifa stóra drauminn er þjálfarinn Eddie Howe. Hann gekk fyrst til liðs við félagið þegar hann var tíu ára og var gríðarlega vinsæll leikmaður hjá liðinu um árabil, þegar það barðist í neðstu deildum deildarkeppninnar. Hann spilaði alls 271 leik með liðinu á þrettán ára ferli. Eina beygjan sem hann tók á þeim tíma var þegar Howe var keyptur til Portsmouth af fyrrum Bournemouth-þjálfaranum Harry Redknapp árið 2002 fyrir 400 þúsund pund. Tvenn alvarleg hnémeiðsli gerðu það að verkum að Howe lék einungis tvo leiki með Portsmouth á tveimur árum. Árið 2004 var hann lánaður aftur til Bournemouth og sló aftur í gegn. Félagið átti hins vegar engan pening til að kaupa hann, sem leiddi til þess að stuðningsmenn settu á fót söfnun, kölluð „Eddieshare“ til að skrapa saman nægjanlegum pening til að fjármagna kaupin. Á nokkrum dögum söfnuðust 21 þúsund pund og Howe var keyptur „heim“.
Þegar Howe var 29 ára var hann gerður að þjálfara varaliðsins en var síðar rekinn ásamt Kevin Bond, þáverandi aðalþjálfara liðsins, í september 2008. Hann snéri aftur nokkrum vikum síðar sem þjálfari unglingaliðs félagsins og tók við sem aðalþjálfari í janúar 2009. Þetta var, eins og áður hefur verið greint frá, tímabilið sem Bournemouth byrjaði með 17 stig í mínus.
Eddie Howe kom til Bournemouth þegar hann var tíu ára. Í dag er hann lifandi goðsögn hjá félaginu.
Howe bjargaði félaginu frá falli og kom þeim upp um deild árið 2010. Í janúar 2011 réð hann sig sem þjálfara Burnley og var þar í rúm tvö og hálft ár. Í október 2012 sagði hann upp störfum og sagði að „persónulegar ástæður“ væru fyrir brotthvarfinu. Hann réð sig strax aftur sem aðalþjálfari Bournemouth. Og kom þeim beint upp í Championship deildina á fyrsta tímabilinu eftir endurkomuna. Liðið lenti svo í tíunda sæti á síðasta tímabili og sigraði loks deildina á því sem nú er að ljúka.
Sóknarbolti, skipulag, tölfræði og hugarfar
Howe, sem er einungis 37 ára gamall, er í guðatölu hjá stuðningsmönnum Bournemouth. Hann er sjálfur gallharður stuðningsmaður félagsins og hefur verið í áratugi. Líkt og Bretarnir segja oft þá étur hann, sefur og andar fyrir félagið.
Howe þykir líka sérstakur þjálfari. Hann leggur mikið upp úr tölfræði og allar æfingar eru notaðar til að undirbúa næsta leik, með tilliti til hverjum liðið er að mæta. Hann tekur allar æfingar upp á myndband og fylgist náið með þróun leikmanna sinna með því að skrá upplýsingar um þá daglega. Á æfingunum, sem þykja oft á tíðum mjög óhefðbundnar, setur hann upp allskyns aðstæður sem gætu komið upp í næsta leik. Út frá öllum mögulegum sjónarhornum. Og þessi aðferðarfræði virðist vera að virka afar vel.
Liðið spilar líka ákafan sóknarbolta, sem fellur alltaf vel í kramið hjá stuðningsmönnum. Á liðnu tímabili skoraði það meira en tvö mörk að meðaltali í leik, var það lið sem var mest allra í deildinni með boltann (58,37 prósent að meðaltali í hverjum leik) og átti flest skot á markið (253). Bournemouth sat í efstu tveimur sætum deildarinnar lengur en nokkurt annað lið í deildinni og töpuðu einungis átta leikjum allt tímabilið.
Annað sem sérfræðingar hafa nefnt sem lykilatriði hjá liðinu er hugarfarið. Þegar Bournemouth lék fimm leiki í röð án sigurs í febrúar á þessu ári fóru margir að afskrifa möguleika þeirra á að fara upp. Liðið brást við með því að vinna átta og gera þrjú jafntefli í næstu ellefu leikjum. Það brotnar því ekki undir pressu.
Að mestu óþekktir og ódýrir leikmenn
Það eru ekki margir þekktir leikmenn í Bournemouth liðinu. Þeir þekktustu eru líklega Kenwyne Jones, sem lék áður með Southampton og Cardiff, og pólski markvörðurinn Artur Boruc, sem lék lengi með Celtic, Fiorentina og Southampton. Jones er þó ekki einu sinni aðalframherji liðsins. Í framherjastöðunum eru oftast Callum Wilson, Frakkinn Yann Kermorgant og Brett Pittman, sem kemur oftast inn af bekknum. Á meðal annarra lykilmanna eru Simon Francis, Matt Ritchie, Charlie Daniels, Marc Pugh, Tommy Elphick, Steve Cook, Andrew Surman, Dan Gosling og Harry Arter. Ekki stærstu nöfnin í enska boltanum.
Kenwyne Jones er líklega þekktasti leimaður liðsins í dag.
Ljóst er að Bournemouth mun þurfa að fjárfesta töluvert fyrir átök næsta árs, og þeir tugir milljóna punda sem félagið fær fyrir að leika í efstu deild munu nýtast vel í þeirri baráttu. Í bresku pressunni í dag er félagið meðal annars orðað við Búlgarann óviðjafnanlega Dimitar Berbatov, sem er orðinn 34 ára gamall.
Hvernig sem fer og hverjir sem keyptir verða þá er ljóst að hugmyndafræði Howe verður áfram ráðandi hjá liðinu. Og hið mikla ævintýri, sem einungis hugarflug H.C. Andersen á að jafnast við, heldur áfram.