Væntingar eru til þess að áætlun um afnám fjármagnshafta verði kynnt á allra næstu vikum. Forystumenn ríkisstjórnarinnar hafa gefið það sterkt í skyn að undanförnu og á meðal kröfuhafa fallina íslenskra banka er búist við því að skilyrði fyrir samþykkt á nauðasamningum þeirra verði kynnt mjög fljótlega, mögulega í síðustu viku nóvembermánaðar.
Fyrst þarf hins vegar að lengja í skuldum Landsbankans við þrotabú fyrirrennara hans. Skilyrði stjórnvalda fyrir að það verði mögulegt þurfa að liggja fyrir til að hægt sé að ganga frá þeirri lengingu. Vonir standa til að skilyrði fyrir lausn verði kynnt í næstu viku.
Byrjaðir að tala um aukið svigrúm
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði í Kastljósi á mánudag að svigrúmið sem muni myndast við uppgjör þrotabúa sé miklu meira en þeir 80 milljarðar króna sem fóru í skuldaniðurfellingar hjá þeim sem voru með verðtryggð húsnæðislán á árunum 2008 og 2009. Í þættinum sagði hann: „Nú er staða ríkissjóðs, vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar, orðin slík að menn sjá fyrir sér að það sé hægt að ráðast í uppbyggingu. Meðal annars í heilbrigðiskerfinu, meðal annars í menntakerfinu[...]Þeir peningar, ekki lántaka, heldur raunveruleg verðmætasköpun sem fellur ríkinu í skaut, þeir eru að verða til núna og gera okkur kleift að koma til móts við aðra hópa.“
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, fór svo í viðtal við Bloomberg-fréttaveituna í vikunni og sagði að það væri sitt persónulega markmið að áætlun um losun fjármagnshafta yrði kynnt opinberlega fyrir jól.
Fyrst þarf að leysa vandamál Landsbankans
Bjarni hefur raunar hægt og rólega verið að feta sig að þessari tímasetningu. Í samtali við Kjarnann í sumar sagði hann til að mynda að vilji væri fyrir því að selja allt að 30 prósent hlut í Landsbankanum á næstu tveimur árum og að salan ætti helst að hefjast á því næsta.
Skrifað var undir nýtt samkomulag milli nýja og gamla Landsbankans í maí 2014. Það fellur úr gildi ef ekki semst um undanþágur vegna samkomulagsins í þessari viku.
Til þess að selja Landsbankann þarf hins vegar að lengja í skuld nýja Landsbankans við þrotabú þess gamla, sem er um 228 milljarðar króna í erlendum gjaldeyri. Eins og staðan er í dag þarf að greiða þá skuld upp fyrir lok október 2018 og það gerir nýja Landsbankann í raun ósöluhæfan. Til að lengja í skuldinni þarf að veita undanþágu frá gjaldeyrishöftum og slík undanþága er stórt skref á farveginum í átt að afnámi fjármagnshafta.
Talið að óeining hindri framlagningu
Landsbankinn og þrotabú gamla Landsbankans náðu samkomulagi um breytingar á skilmálum skuldabréfanna 8. maí síðastliðinn. Það fól í sér að lengt yrði í greiðslum til ársins 2025 gegn því að vaxtakjör myndu hækka eftir árið 2018. Samkomulagið var hins vegar bundið því að Seðlabanki Íslands myndi veita undanþágur frá lögum um gjaldeyrismál, enda höft á fjármagsflutninga milli landa í gildi í landinu.
Þrotabú Landsbankans hefur þó nokkra einhliða fresti sem það vill fá svar fyrir um hvort undanþágur fáist. Stjórnvöld hafa ekki mætt þessum frestum og því hafa þeir verið framlengdir. Nýjasti frestdagurinn er 17. nóvember, á mánudaginn kemur.
Heimildir Kjarnans herma að mikil vinna hafi verið lögð í að útfæra skilyrði sem þrotabúið verði að mæta til að undanþága fáist og að hægt verði að leggja þau fyrir þrotabú Landsbankans innan skamms.
Heimildir Kjarnans herma að mikil vinna hafi verið lögð í að útfæra skilyrði sem þrotabúið verði að mæta til að undanþága fáist og að hægt verði að leggja þau fyrir þrotabú Landsbankans innan skamms.
Á meðal kröfuhafa föllnu bankanna, og raunar einnig innan úr stjórnarflokkunum tveimur, hefur verið fullyrt að ástæða þess að skilyrðin hafi ekki verið lögð fram sé sú að óeining sé á milli forsvarsmanna Sjálfstæðisflokks og Seðlabankans annars vegar, og forystu Framsóknarflokksins og ráðgjafa hennar hins vegar, um hvernig eigi að ljúka málinu. Bæði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra hafa neitað þeim fregnum opinberlega.
Dregur til tíðinda?
En nú virðist vera að draga til tíðinda. Væntingar standa til þess að tillaga að lausn verði kynnt þrotabúi Landsbankans í næstu viku. Í kjölfarið verði hægt að kynna aðgerðaráætlun stjórnvalda gagnvart þrotabúum Glitnis og Kaupþings. Búist er við því að sú áætlun verði kynnt síðustu vikuna í nóvember.
Nú er talið að um einhliða aðgerð af hálfu stjórnvalda verði að ræða. Það er, ekki verði samið um málalok sem gætu leitt til afnáms hafta heldur muni stjórnvöld leggja fyrir forsvarsmenn þrotabúanna þá leið sem þeim þau verði að mæta til að hægt verði að leysa þennan risastóra, og þjóðhagslega mikilvæga, hnút.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hefur lengi talað um að mikið svigrúm muni myndast við uppgjör þrotabúa föllnu bankanna. Samkvæmt áætlun um afnám hafta ætti það að ganga eftir og mikið fé að renna í ríkissjóð.
Heimildir Kjarnans herma að búist sé við að um verði að ræða svokallaðan flatan útgönguskatt á eignir þrotabúanna. Ef kröfuhafar vilji út þurfi þeir að greiða flatan skatt af öllu fjármagni sem þeir fái að fara með út úr íslensku efnahagskerfi. Samhliða verði kynntar hugmyndir um hvernig leyst verði úr eignarhaldi Íslandsbanka og Arion banka, sem í dag eru báðir í eigu erlendra kröfuhafa.
Gangi kröfuhafarnir ekki að þessu muni stjórnvöld vera tilbúin að halda þeim áfram í höftum á meðan að öllum öðrum: t.d. íslenskum lífeyrissjóðum, heimilum, fyrirtækjum, verði hleypt út.
Einn viðmælandi orðaði það þannig að þeim yrði þá síðust út og í millitíðinni yrðu þrotabúin „mjólkuð“ með sérstakri skattlagningu á þau.
Einn viðmælandi orðaði það þannig að þeim yrði þá síðust út og í millitíðinni yrðu þrotabúin „mjólkuð“ með sérstakri skattlagningu á þau. Þarna virðast kylfurnar og gulræturnar, sem Sigmundur Davíð sagði í aðdraganda kosninga að ætti að nota gegn kröfuhöfunum, vera að raungerast.
Hundruð milljarða í ríkissjóð
Ljóst er að eftir miklu er að slægjast. Eignir þrotabús Glitnis eru 944 milljarðar króna. Eignir þrotabús Kaupþings eru 789 milljarðar króna. Þrotabú Landsbankans á um 218 milljarða króna í eignum umfram forgangskröfur. ALMC, áður þrotabú Straums Burðaráss fjárfestingabanka, á eignir upp á 97 milljarða króna. Eignir SPB hf., sem áður hét Sparisjóðabankinn/Icebank, eru 106 milljarðar króna. Svo fátt eitt sé nefnt.
Ef útgönguskatturinn yrði til dæmis tíu prósent er ljóst að mörg hundruð milljarðar króna myndu skila sér í ríkissjóð.
Þá er hin snjóhengjan, skammtímakrónueignir erlendra aðila. Þær eru nú um 307 milljarðar króna. Þessi hópur hefur þegar haft útgönguleið í gegnum gjaldeyrisútboð Seðlabankans og hina svokölluðu fjárfestingaleið hans. Þá selja þeir krónur sínar fyrir gjaldeyri þeirra sem vilja koma inn í íslenskt efnahagslif með afslætti.
Ef útgönguskatturinn yrði til dæmis tíu prósent er ljóst að mörg hundruð milljarðar króna myndu skila sér í ríkissjóð.