Fordæmalausar aðgerðir íslenskra stjórnvalda til að losa um fjármagnshöft voru kynntar í dag. Þjóð sem hefur verið föst í á sjöunda ár í mjög hörðum höftum getur bráðum átt í eðlilegum gjaldeyrisviðskiptum milli landa. Hún getur átt erlendan gjaldeyri, keypt sér bíla eða fasteignir erlendis, lánað peninga til útlendinga og fjárfest í hluta- eða skuldabréfum í erlendri mynt. Sömu sögu er að segja af íslenskum fyrirtækjum. Meira að segja lífeyrissjóðir landsins munu fá að fjárfesta erlendis, þótt sú fjárfesting verði takmörkunum háð. Þeir mega sameiginlega kaupa eignir utan landssteinanna fyrir tíu milljarða króna á ári frá byrjun árs 2016 og til loka árs 2020.
Samhliða munu skuldir ríkissjóðs minnka um allt að þriðjung og vaxtakostnaður hans, sem í ár er áætlaður 77 milljarðar króna, dragast töluvert saman. Ríkissjóður mun þar af leiðandi borga minna af peningum í skuldir og getur eytt meira af peningum í annað, t.d. innviðauppbyggingu. Þetta ætti samhliða að bæta lánshæfi íslenska ríkisins sem mun bæta lánshæfismat íslenskra fyrirtækja og tryggja þeim betri lánakjör á alþjóðamörkuðum.
Niðurstaðan er afrakstur samningaviðræðna milli stærstu kröfuhafa föllnu bankanna og framkvæmdahóps um losun hafta, sem staðið hafa yfir frá því í desember 2014. Þeim viðræðum lauk með því að kröfuhafarnir lögðu fram tillögu sem búið var að samþykkja áður en kynningin í Hörpu fór fram. Það er því búið að semja við kröfuhafa föllnu bankanna um að þeir megi slíta búum sínum og borga sér út erlendar eignir þeirra ef þeir gefa eftir innlendu eignirnar. Þeir eiga síðan eftir að leggja samninginn fyrir kröfuhafafund. Líkurnar á því að grípa þurfi til stöðugleikaskatts eru hverfandi.
Tvö stór vandamál
Til að hægt væri að losa um höft þurfti að leysa tvö mjög stór vandamál. Annað er krónueignir slitabúa föllnu bankanna Glitnis, Kaupþings og Landsbanka, sem áætlaðar eru um 900 milljarðar króna. Hitt eru aflandskrónur upp á 300 milljarða króna í eigu útlendinga. Til að útskýra hvernig þessi vandi varð til þarf að fara aftur fyrir hrunið.
Íslensku bankarnir sem hrundu haustið 2008 voru rúmlega tíu sinnum stærri en þjóðarframleiðsla Íslands. Saman voru þeir eitt stærsta gjaldþrot sögunnar. Íslenskt hagkerfi var troðfullt af íslenskum krónum í eigu útlendinga eftir fall þeirra, vegna þess að peningamagn hafði fjórfaldast á nokkrum árum, og nauðsynlegt var að setja fjármagnshöft til að halda þessum krónum inni. Ísland átti einfaldlega ekki gjaldeyri til að skipta þessum krónum í.
Staðan í dag er sú að umfang vandans er um 1.200 milljarðar króna. Fallnar fjármálastofnanir eiga um 500 milljarða króna í krónueignum og um 400 milljarða króna í öðrum innlendum eignum. Þess til viðbótar eiga útlendingar um 300 milljarða króna í svokölluðum aflandskrónum.
Búið að baka vöflurnar
Kynningarfundurinn sem haldinn var í dag fjallaði um lausnina á þessum vanda. Þar var farið yfir svokölluð stöðugleikaskilyrði sem slitabú Glitnis, Kaupþings og Landsbankans þyrftu að uppfylla til að fá að klára nauðasamninga sína og greiða kröfuhöfum erlendar eignir búanna. Í stuttu máli ganga þau skilyrði út á að slitabúin gefi eftir um 900 milljarða króna af innlendum eignum sínum.
Í 88 blaðsíðna kynningu á áætlun ríkisstjórnarinnar var einnig eytt miklu púðri í að kynna 39 prósent stöðugleikaskatt sem á að leggjast á allar eignir slitabúanna ef þau myndu ekki gangast við skilyrðunum sem sett yrðu fyrir undanþágum vegna gerð nauðasamnings. Raunar er ekkert eitt orð sem er nefnt oftar í kynningunni en stöðugleikaskattur. Hann á að skila 850 milljörðum króna ef skatturinn yrði lagður á.
Á glæru 57 var það hins vegar nefnt, í framhjáhlaupi, að stærstu kröfuhafar allra slitabúanna hafi allir lýst því yfir að þeir vilji ganga að stöðugleikaskilyrðunum. Síðar kom í ljós að framkvæmdahópur um losun hafta hefði staðfest að tillögur slitabú Glitnis, Kaupþings og Landsbankans um að mæta stöðugleikaskilyrðum stjórnvalda falli innan þess ramma sem stýrihópur um losun hafta hafði samþykkt. Framkvæmdahópurinn mæli því með því að slitabúin fái undanþáguheimild frá höftum til að ljúka nauðasamningum á grundvelli tillagna sinna. Tillögurnar voru lagðar fram í gær og í dag, áður en kynningarfundurinn í Hörpu var haldinn.
Þetta lá allt fyrir áður en kynningin í Hörpu fór fram. Það var búið að semja um lausn, sem felur í sér eftirgjöf innlendra eigna til að fá erlendar eignir greiddar út, og allar líkur eru á því að það þurfi aldrei að leggja stöðugleikaskatt á nokkurt bú.
Vert er að taka fram að þeir fulltrúar slitabúanna sem lögðu fram tillögurnar eru einungis fulltrúar hluta kröfuhafa, en þeirra stærstu í hverju búi fyrir sig. Enn á eftir að leggja tillögurnar fyrir á kröfuhafafundi og sækja samþykki aukins meirihluta kröfuhafa um að fara þá leið sem nú hefur verið lögð fram.
Það má líkja stöðunni við það þegar búið er að undirrita kjarasamninga, og baka vöflurnar, en félagsmenn eiga enn eftir að greiða atkvæði um þá.
Skilyrði um hvernig peningunum verði eytt
Stöðugleikaframlagið, sem slitabúunum ber að greiða til að uppfylla skilyrði stjórnvalda, er samsett úr sex þáttum. Þeir þættir snúast að mestu um hvernig ríkissjóður hyggst ráðstafa því fé sem til fellur vegna framlagsins. Það skiptir slitabúin eða kröfuhafa þeirra varla miklu máli hvernig því fé sem þeir greiða fyrir undanþágur sínar frá höftum er eytt. Þeir einblína væntanlega einungis á hversu mikið af fé þeir þurfa að gefa eftir til að láta þær undanþágur verða að veruleika.
Ljóst er að framlaginu verður að stórum hluta ráðstafað til að greiða niður skuldir ríkissjóðs. Meðal þeirra skulda sem verða greiddar niður eru gjaldeyrislán ríkissjóðs og Seðlabanka Íslands sem veitt voru nýju bönkunum. Auk þess verður beint framlag greitt í reiðufé til ríkissjóðs.
Losna við aflandskrónustabbann
Til viðbótar við lausn á vandanum vegna slitabúanna kynntu stjórnvöld hvernig ætti að takast endanlega á við þann vanda sem aflandskrónur í eigu útlendinga innan hafta hefur valdið. Eignir þeirra eru nú um 300 milljarðar króna. Vandinn verður leystur með gjaldeyrisútboði sem verður þannig að eigendur þeirra geta valið á milli þriggja kosta: að skipta þeim í evrur með afslætti í útboði í haust sem munu ekki hafa nein áhrif á gengi krónu, fjárfesta í ríkisskuldabréfum til 20 ára eða geyma peninganna sína áfram á vaxtalausum og læstum reikningum. Með þessu leysir ríkið ekki bara aflandskrónuvandann heldur getur líka náð í lánsfjármagn á góðum kjörum til langs tíma. Hvatinn fyrir eigendur aflandskrónanna verður auðvitað sá að ef þeir ganga ekki að þessum fjárfestingakostum munu þeir sitja eftir með peninganna sína á vaxtalausum reikningum.
Athygli vakti að í kynningunni kom fram að tíu fagfjárfestar eiga meginþorra þessarra 300 milljarða króna.
Góð niðurstaða sem margir komu að
Báðar aðgerðirnar, samkomulagið við slitabúin og lausn á aflandskrónuvandanum, skila því að staða Íslands í upphafi árs 2016 verður allt önnur en hún hefur verið lengi. Áhrifin við losun hafta, og þeirrar skuldaupphreinsunar sem ráðist verður í samhliða, verða gríðarlega jákvæð. Stórt skref verður stígið úr þeirri gerviveröld skilyrtra og ójafnra tækifæri sem höftin skópu í átt að eðlilegri og jafnari veruleika.
Það skiptir líka miklu máli að það takist að semja um niðurstöðu við kröfuhafanna, líkt og nú hefur verið gert. Það tryggir að niðurstaða liggi fyrir fljótt og örugglega í stað þess að framundan gæti verið langvinn deila fyrir dómstólum vegna álagningar sérstæks skatts á borð við stöðugleikaskattinn sem var kynntur í dag.
Þegar er byrjað einhvers konar kapphlaup milli pólitíkusa um að eigna sér niðurstöðuna. Við blasir hins vegar að aðgerðir síðustu þriggja ríkisstjórna skiptu allar miklu máli við að ná þeirri niðurstöðu sem nú liggur fyrir. Neyðarlögin bjuggu til grunninn að viðspyrnu íslensks samfélags, síðasta ríkisstjórn færði allar eignir slitabúanna undir höftin og fjarlægði sólarlagsákvæði haftanna og sitjandi ríkisstjórn er að klára málið með þeim aðgerðum sem nú hafa verið opinberaðar. Seðlabanki Íslands hefur líka unnið sleitulaust að þessari niðurstöðu frá árinu 2011 og á hrós skilið fyrir þá vinnu. Sömu sögu er að segja um þá sérfræðinga sem unnið hafa í, og með, framkvæmdahópi um losun hafta.